Mál nr. 106/2025-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 106/2025
Fimmtudaginn 10. júlí 2025
A og
B
gegn
Múlaþingi
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 18. febrúar 2025, kærði C lögfræðingur, f.h. A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Múlaþings, dags. 29. janúar 2025, um að synja dóttur þeirra um þjónustu vegna fötlunar hennar á skólatíma.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með erindi, dags. 23. janúar 2025, óskuðu kærendur eftir þjónustu Múlaþings vegna dóttur þeirra samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir meðan á verkfalli Kennarasambands Íslands stæði. Með erindi Múlaþings, dags. 29. janúar 2025, var beiðni kærenda synjað með vísan til þess að þjónusta á skólatíma væri verkfallsbrot.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 18. febrúar 2025. Með bréfi, dags. 19. febrúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Múlaþings vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 5. mars 2025 og þann 10. mars 2025 var sveitarfélaginu veittur frestur til 21. mars 2025 til að skila greinargerð. Sá frestur var síðar framlengdur til 31. mars 2025. Greinargerð Múlaþings barst 1. apríl 2025 og var hún kynnt kærendum með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. apríl 2025. Athugasemdir bárust frá kærendum 8. apríl 2025 og voru þær kynntar Múlaþingi með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. apríl 2025. Efnislegar athugasemdir bárust ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. júní 2025, var óskað eftir frekari upplýsingum frá Múlaþingi vegna málsins. Svar barst frá sveitarfélaginu 16. júní 2025 og var það kynnt kærendum með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. júní 2025. Athugasemdir bárust frá kærendum samdægurs og voru þær kynntar Múlaþingi með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. júní 2025. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kærenda
Í kæru kemur fram að lögð sé fram kæra á grundvelli 35. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
Greint frá því að kærendur hafi óskað eftir þjónustu vegna dóttur þeirra samkvæmt lögum nr. 38/2018 frá Múlaþingi í verkfalli Kennarasambands Íslands en fengið synjun þar sem sveitarfélagið hafi talið þjónustu á skólatíma við fatlaða dóttur þeirra vera verkfallsbrot.
Skyldur sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 38/2018 séu ríkar og miði að því að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt sé að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Í 3. gr. laga nr. 38/2018 sé kveðið á um að opinberum aðilum beri að tryggja að þjónusta sem sé veitt fötluðu fólki sé samfelld og samþætt í þágu einstakra notenda.
Með tilkomu skóla án aðgreiningar njóti fötluð börn margs konar þjónustu vegna fatlana sinna innan veggja leik- og grunnskóla en slíkt fyrirkomulag tryggi margvísleg réttindi þeirra samkvæmt lögum nr. 38/2018. Þó verði að hafa í huga að lög nr. 38/2018 eigi að tryggja þjónustu við fötluð börn óháð því hvort kennsla kennara fari fram eða ekki. Synjun Múlaþings á beiðni foreldra stúlkunnar um þjónustu við stúlkuna vegna fatlana hennar í verkfalli kennara verði að teljast brjóta í bága við ákvæði laga nr. 38/2018. Skyldur sveitarfélaga séu ekki háðar starfsemi samkvæmt ákvæðum annarra laga landsins en ljóst sé að stuðnings- og þjónustuþarfir stúlkunnar falli ekki niður þrátt fyrir að kennsla falli niður.
Dóttir kærenda sé með stuðningsfulltrúa með sér allan daginn í skólanum en í málinu liggi fyrir að viðkomandi stuðningsfulltrúi hafi ekki verið í verkfalli og hafi mætt til vinnu en hafi ekki verið veitt heimild til að sinna stuðningi við stúlkuna á skólatíma.
Þá megi einnig upplýsa úrskurðarnefndina um að jafnaldrar stúlkunnar sem um ræði hafi getað verið heima einir síns liðs og án umönnunar foreldra sinna en foreldrar stúlkunnar hafi verið nauðbeygðir til að taka sér frí frá vinnu til að mæta umönnunarþörfum barns síns.
Kærendur fari fram á að hin kærða stjórnvaldsákvörðun verði felld úr gildi.
Í athugasemdum kærenda vegna greinargerðar Múlaþings kemur fram að málið snúist um lögbundna skyldu sveitarfélagsins til þess að veita fötluðu barni þjónustu samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Lögin leggi ríkar skyldur á sveitarfélög landsins til að þjónusta meðal annars fötluð börn og fjölskyldur þeirra.
Að mati kærenda geti ekki staðist að þjónusta samkvæmt lögum nr. 38/2018 sé háð starfsemi samkvæmt öðrum lögum landsins, í þessu tilfelli starfsemi kennara í grunnskóla. Fötluð börn njóti í mörgum tilfellum margs konar þjónustu vegna fatlana sinna innan veggja leik- og grunnskóla landsins. Með slíku fyrirkomulagi uppfylli sveitarfélög oft skyldur sínar til að veita fötluðum börnum þjónustu samkvæmt lögum nr. 38/2018 á þeim tíma sem þau séu í skólanum. Þetta sé yfirleitt hentugt fyrirkomulag í samfélaginu og mæti vel þörfum barnanna. Réttur fatlaðs barns til þjónustu og stuðnings samkvæmt lögum nr. 38/2018 og skylda sveitarfélags til að veita hana geti þó ekki fallið niður þótt skólahald falli niður eða raskist af einhverjum ástæðum, enda sé augljóst að þörf barnsins fyrir þjónustuna og stuðninginn vegna fötlunar sinnar falli ekki niður. Slíkt færi í bága við lagaleg réttindi barnanna til þjónustu og stuðnings vegna fatlana sinna.
Eins og tekið sé fram í greinargerð sveitarfélagsins sé þjónustan sem stúlkunni sé veitt innan veggja skólans, meðal annars aðstoð við að taka skóladót upp úr skólatösku hennar. Ljóst sé að stúlkan þurfi aðstoð við flestar athafnir daglegs lífs og ef ekki væri um að ræða skólatösku á skólatíma væri það til að mynda aðstoð við að taka dót upp úr annars konar tösku yfir daginn. Fatlanir stúlkunnar séu ekki háðar skólatíma en svo vilji til að hún gangi í skóla vegna skólaskyldu samkvæmt lögum landsins og þess vegna sé hentugt og í samræmi við hennar réttindi að henni sé jafnframt veitt aðstoð á skólatíma vegna fatlana hennar. Þjónustan sé hins vegar ekki háð skólanum og því ekki í samræmi við lög nr. 38/2018 að synja beiðni foreldra stúlkunnar um að veita stúlkunni þjónustu þegar ljóst sé að skólahald muni falla niður.
Verkfall kennara sem hafi hafist þann 1. febrúar 2025 hafi átt sér langan aðdraganda og hafi því ekki getað komið sveitarfélaginu Múlaþingi á óvart. Skyldur sveitarfélagsins til að þjónusta fötluð börn innan sveitarfélagsins samkvæmt lögum nr. 38/2018 nái til þess að þjónusta börnin óháð því hvort skólar starfi eða ekki.
Kærendur hafi haft samband við sveitarfélagið og óskað eftir þjónustu við barn sitt í verkfalli kennara og fengið synjun með þeim rökum að ekki mætti ganga í störf kennara í verkfalli þeirra. Slík rök standist ekki þar sem ekki hafi verið óskað eftir því að stúlkunni yrði kennt heldur hafi verið óskað eftir þjónustu við hana vegna fatlana hennar og réttinda samkvæmt lögum nr. 38/2018.
Þá liggi fyrir að undanþágubeiðni hafi verið send til undanþágunefndar með það að markmiði að fá undanþágu fyrir kennara stúlkunnar til að kenna henni í verkfallinu. Beiðninni hafi ekki verið svarað. Sú staðreynd að umrædd beiðni hafi verið send leysi sveitarfélagið ekki frá skyldu sinni til að þjónusta barnið vegna fatlana sinna. Ljóst sé að beiðninni hafi ekki verið svarað og því ekki fengist samþykki fyrir því að stúlkunni yrði kennt í verkfallinu. Óháð því hvort stúlkunni yrði kennt eða ekki þurfi einnig að þjónusta hana vegna fatlana hennar. Slík skylda hvíli á sveitarfélaginu samkvæmt lögum nr. 38/2018.
Eins og áður hafi komið fram sé þjónusta við stúlkuna vegna fatlana hennar, sem hún telji þörf fyrir og eigi rétt á samkvæmt lögum nr. 38/2018, ekki bundin við að hún fari fram innan veggja skólans og því ljóst að þegar skólahald falli niður nái skyldur sveitarfélagsins til þess að veita þjónustu óháð því hvort skólahald falli niður eða raskist. Kærendur telji það ekki vera sitt hlutverk að segja til um hvernig sveitarfélagið útfæri lagalegar skyldur sínar til að veita þjónustu samkvæmt lögum nr. 38/2018 svo framarlega sem aðferð sveitarfélagsins uppfylli kröfur laganna og mæti lagalegum réttindum fatlaðra barna til þjónustu í samræmi við þarfir þeirra, en bendi þó réttilega á að stuðningsfulltrúi stúlkunnar hafi verið í vinnu í verkfalli kennara.
Röksemdir Múlaþings sem séu settar fram í greinargerð standist alls ekki kröfur sem leiði af lögum nr. 38/2018. Röksemdir á borð við umönnunarskyldu foreldra, tímalengd verkfallsins og að ekki hafi mátt ganga í störf kennara í verkfallinu séu ekki haldbærar í máli þessu, enda eigi fötluð börn lagalegan rétt á þjónustu vegna fatlana sinna í hvívetna og eftir þörfum hvers og eins barns. Ekki hafi verið farið fram á að stúlkunni yrði kennt. Enginn hafi vitað hversu lengi verkfallið myndi standa og umönnunarskylda foreldra gagnvart fötluðu barni sínu dragi ekki úr lögbundnum skyldum sveitarfélagsins til að veita fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra lögbundna þjónustu.
Í athugasemdum kærenda vegna svars Múlaþings, dags. 16. júní 2025, er tekið fram að sérstaklega hafi verið óskað eftir að frístundaþjónusta sveitarfélagsins, D, myndi lengja opnunartíma sinn í verkfallinu til að þjónusta dóttur þeirra vegna fatlana hennar en því hafi verið neitað. D hafi því eingöngu verið opin frá klukkan 14 til 16 í verkfallinu eins og aðra hefðbundna skóladaga, þvert á skyldu sveitarfélagsins samkvæmt 16. gr. laga nr. 38/2018.
III. Sjónarmið Múlaþings
Í greinargerð Múlaþings kemur fram að barn kærenda njóti þjónustu í samræmi við lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Tilefni kærunnar sé að þjónusta sveitarfélagsins gagnvart barninu hafi legið niðri meðan á verkfalli grunnskólakennara hafi staðið frá 1. febrúar til 9. febrúar 2025. Í kærunni sé óskað eftir því að ákvörðun sveitarfélagsins um að þjónusta ekki barnið, meðan á verkfallinu hafi staðið, verði dæmd ógild.
Kæran byggist á því að kærendur telji að sveitarfélaginu hafi verið skylt að veita þjónustu í samræmi við lögin, þrátt fyrir verkfallið. Í því sambandi sé vísað til 3. gr. laganna sem kveði á um að opinberum aðilum beri að tryggja að þjónusta samkvæmt 1. mgr. sé samfelld og samþætt í þágu einstakra notenda. Kærendur telji að verkfall kennara hafi ekki áhrif á þessar skyldur sveitarfélagsins og vísi til þess að barnið sé með stuðningsfulltrúa með sér allan daginn í skólanum sem hafi ekki verið í verkfalli og hafi ekki verið veitt heimild til að sinna stuðningi við stúlkuna á skólatíma.
Í máli þessu eigi við lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Markmið laganna sé að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt sé að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna.
Í 3. gr. laganna komi fram hvaða rétt fatlað fólk eigi til þjónustu. Þar komi meðal annars fram að það eigi rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga og að ávallt skuli veita þeim þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði félagsþjónustu, húsnæðismála, menntunar, vinnumarkaðar, öldrunarþjónustu og heilbrigðisþjónustu.
IV. kafli laganna fjalli um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Þjónusta við börn sé eðli máls samkvæmt ekki alltaf sú sama og við fullorðna, meðal annars vegna umönnunarskyldna foreldra.
Grunnskólakennarar hafi farið í verkfall frá og með 1. febrúar til og með 9. febrúar 2025. Einungis hafi verið um fimm virka daga að ræða sem hefðu verið kennsludagar ef ekki hefði komið til verkfalls. Af þessum fimm dögum hafi einn þeirra fallið niður vegna óveðurs sem hafi átt sér stað fimmtudaginn 6. febrúar 2025.
Á meðan á verkfallinu hafi staðið hafi kennslustundir í skólanum fallið niður sem hafi orðið til þess að öll börn á skólaskyldualdri hafi ekki sótt skóla. Stuðningsfulltrúar í skólunum hafi ekki verið í verkfalli á meðan á þessu hafi staðið.
Í samræmi við 20. og 21. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna hafi sveitarfélagið leitast eftir því að fá umrædd kennarastörf á lista yfir störf sem væru undanþegin verkfalli, en erindinu hafi aldrei verið svarað.
Barnið njóti stuðningsþjónustu, sbr. 26. og 27. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 38/2018. Í því felist að aðili sinni barninu félagslega 15 klukkutíma á viku, til dæmis með því að fara með það í sund og annað slíkt. Sú þjónusta hafi ekki fallið niður meðan á verkfalli grunnskólakennara hafi staðið.
Barnið njóti ekki stoðþjónustu, sbr. 4. tölul. 8. gr. laga nr. 38/2018, enda hafi aldrei borist umsókn um slíkt til sveitarfélagsins.
Barnið njóti frístundaþjónustu, sbr. 16. gr. laga nr. 38/2018, og starfsemi hennar hafi verið óbreytt og barnið hafi því notið þjónustu hennar meðan á verkfalli hafi staðið. Frístundaþjónustan sé með starfsemi alla virka daga frá klukkan 14:30 til 16:00.
Barnið njóti þjónustu stuðningsfulltrúa í skólanum, sbr. 2. mgr. 17. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008, en sá aðili starfi undir leiðsögn sérkennara og umsjónarkennara. Stuðningsfulltrúi aðstoði barnið meðan á skólatíma standi í kennslustund, til dæmis með því að taka dót upp úr tösku barnsins og láta það vinna verkefnin sín sem sérkennari setji fyrir og umsjónarkennari. Þjónusta stuðningsfulltrúa sé því ætluð til að vera viðbót við þá þjónustu sem kennarar veiti.
Sveitarfélagið fari fram á að kröfu kærenda verði hafnað. Sveitafélagið bendi einnig á að af málatilbúnaði kærenda mætti ætla að þjónusta sveitarfélagsins hafi legið niðri gagnvart barninu. Einungis takmörkuð þjónusta hafi legið niðri meðan á verkfallinu hafi staðið, sem hafi falist í skólaþjónustu kennara og stuðningsfulltrúa. Önnur þjónusta hafi verið veitt á tímabilinu.
Sveitarfélagið byggi á eftirfarandi rökum fyrir því að þjónusta ekki barnið meðan á verkfalli kennara hafi staðið.
Í fyrsta lagi hafi verið reynt að viðhalda þjónustunni meðan á verkfalli hafi staðið, sbr. 20. og 21. gr. laga nr. 94/1986, með því að fá undanþágu fyrir kennarana sem hafi sinnt barninu, en því hafi aldrei verið svarað. Stuðningsfulltrúar starfi eftir fyrirmælum frá sérkennara og umsjónarkennara og sé ætlað að aðstoða barnið við námið. Þar sem það hafi verið bannað að kenna vegna verkfalls kennara þá leiði það jafnframt til þess að hlutverk stuðningsfulltrúa hafi verið ekkert fyrir vikið, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 17. gr. grunnskólalaga.
Í öðru lagi komi fram í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 38/2018 að fatlað fólk eigi rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga, meðal annars samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar. Þá komi fram í 3. mgr. að þjónustan sem sé veitt samkvæmt lögum nr. 38/2018 komi til viðbótar þjónustu sem sé veitt á grundvelli annarra laga en ekki í stað hennar.
Þar sem kennsla hafi fallið niður í skólum vegna verkfalls kennara hafi fallið niður sú þjónusta sem kennarar veiti börnum. Þar sem stuðningsþjónustunni sé ætlað, eins og áður segi, að koma til viðbótar við þjónustu en ekki í stað hennar, þá hafi verið eðlilegt að barnið hafi ekki verið þjónustað meðan á verkfalli hafi staðið. Í þessu samhengi sé rétt að benda á að þjónusta við börn sé ekki sú sama og við fullorðna, meðal annars vegna umönnunarskyldu foreldra. Þegar verkfall kennara hafi skollið á hafi foreldrar allra skólabarna þurft að sinna umönnunarskyldu sinni, mismikið eftir þroska barna og eðli máls.
Í þriðja lagi vilji sveitarfélagið benda á að samkvæmt 18. gr. laga nr. 94/1986 megi ekki ganga í störf verkfallsmanna, sem í þessu tilfelli hafi verið grunnskólakennarar. Af því leiði að ekki hafi verið hægt að láta annað starfsfólk sveitarfélagsins sinna barninu meðan á því hafi staðið. Vegna þessa hafi ekki verið hægt að þjónusta barnið meðal annars með því að breyta opnunartíma frístundar með því að framlengja hann.
Í svari Múlaþings vegna beiðni úrskurðarnefndar um frekari upplýsingar kemur fram að boðið sé upp á frístundaþjónustu vegna starfsdaga og annarra tilfella, t.d. þegar kennarar séu starfandi en ekki að sinna börnum og einnig þegar þeir séu ekki starfandi. Í þeim tilvikum sé opið lengur, þ.e. frá klukkan 9 til 16 þá daga. Sú þjónusta hafi verið nýtt af kærendum.
Að mati sveitarfélagsins sé það fyrirkomulag þó ekki sambærilegt því þegar verkföll kennara eigi sér stað. Það sé meginregla í vinnurétti að ekki megi ganga í störf þeirra sem séu í verkfalli. Í nýlegum dómi Félagsdóms, nr. 1/2025, hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að allt sveitarfélagið væri vinnuveitandi en ekki einstakir grunnskólar. Sveitarfélagið telji því að ekki hafi verið heimilt að gera sérstakar ráðstafanir vegna þessa.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Múlaþings, dags. 29. janúar 2025, um að synja dóttur kærenda um þjónustu vegna fötlunar hennar á skólatíma á tímabilinu 1. - 9. febrúar 2025 meðan á verkfalli Kennarasambands Íslands stóð en synjunin grundvallaðist á þeirri forsendu að ekki mætti ganga í störf kennara í verkfalli.
Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir kemur fram að markmið laganna sé að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt sé að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skal þjónusta samkvæmt lögunum miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði sem skipta máli, svo sem kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna, trúarbrögð og fleira.
Í 3. gr. laganna er fjallað um rétt til þjónustu. Í 1. mgr. segir að fatlað fólk skuli eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skuli veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði félagsþjónustu, húsnæðismála, menntunar, vinnumarkaðar, öldrunarþjónustu og heilbrigðisþjónustu.
Í IV. kafla laga nr. 38/2018 er kveðið á um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Segir þar í 1. mgr. 13. gr. að tryggja skuli að fötluð börn fái nauðsynlega þjónustu svo að þau geti notið mannréttinda og mannhelgi til jafns við önnur börn, lifað sjálfstæðu lífi og tekið þátt í samfélaginu án aðgreiningar. Þá skuli fötluð börn hafa raunverulegan aðgang að og njóta menntunar, þjálfunar, starfsundirbúnings og tómstunda. Í 2. mgr. greinarinnar segir að fjölskyldur fatlaðra barna skuli fá nægilega þjónustu til þess að fötluð börn þeirra geti notið réttinda sinna til fulls og jafns við aðra.
Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 38/2018 skulu sveitarfélög bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónustu eftir að reglubundnum skóladegi þeirra lýkur, og eftir atvikum áður en dagleg kennsla hefst, svo og á þeim dögum, öðrum en lögbundnum frídögum, þegar skólar starfa ekki. Þessi þjónusta taki við af almennri frístundaþjónustu grunnskóla og henni ljúki þegar viðkomandi ljúki framhaldsskóla. Þjónustan skuli vera einstaklingsmiðuð og á því formi sem best henti viðkomandi. Veita skuli þjónustu vegna fötlunar samhliða almennum frístundatilboðum, eins og mögulegt er. Þessi þjónusta skuli að jafnaði taka mið af metnum stuðningsþörfum og vera hluti af einstaklingsbundinni þjónustuáætlun viðkomandi barns eða ungmennis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 38/2018 segir svo:
„Í 1. mgr. er mikilvægt nýmæli sem hefur ekki áður verið lögbundið verkefni sveitarfélaga, en í greininni er kveðið á um að sveitarfélög skuli bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á sértæka frístundaþjónustu eftir að reglubundnum skóladegi þeirra lýkur, og eftir atvikum áður en dagleg kennsla hefst svo og á þeim dögum þegar skólar starfa ekki, öðrum en lögbundnum frídögum.
Sem kunnugt er eru frístundaheimili starfrækt við fjölmarga grunnskóla, sér í lagi í stærri sveitarfélögum. Þar er boðið upp á þjónustu fyrir börn í 1.–4. bekk, en eldri börn eru talin hafa öðlast nægilega færni til að sjá um sig sjálf að loknum skóladegi. Hið sama gildir ekki um fötluð skólabörn í 5. bekk og eldri. Því er víða boðið upp á lengda viðveru, þ.e. þjónustu sem tekur við af frístundaheimilum. Með frumvarpi þessu er lagt til að sú þjónusta verði nefnd sértæk frístundaþjónusta þar sem hún skal að jafnaði byggjast á metnum stuðningsþörfum fatlaðra barna og vera hluti af einstaklingsbundinni þjónustuáætlun viðkomandi, sbr. 3. málsl. 1. mgr. Lagt er til að betur sé komið til móts við fötluð börn og þeim veitt sú þjónusta sem hentar hverju og einu, líkt og á við um ófötluð börn. Tilgangur þessa er að jafna aðstöðu foreldra á vinnumarkaði þannig að þeir geti unnið fullan vinnudag og þurfi ekki að ljúka vinnudegi um leið og hefðbundnum skóladegi lýkur. Það er því mikill ávinningurinn fyrir samfélagið í heild sinni að slík þjónusta sé í boði í hverju sveitarfélagi. Þá er tilgangurinn einnig að bjóða öllum börnum, fötluðum og ófötluðum, upp á sambærilega þjónustu. Einnig má benda á að könnun á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2013 leiddi í ljós að mikil eftirspurn er eftir sértækri frístundaþjónustu. Jafnframt er tilgangur þessarar þjónustu að rjúfa félagslega einangrun fatlaðra barna.“
Fyrir liggur að dóttir kærenda nýtur frístundaþjónustu frá Múlaþingi á grundvelli 16. gr. laga nr. 38/2018. Frístundaþjónustan er opin alla virka daga frá klukkan 14:30 til 16:00 og frá klukkan 9 til 16 á starfsdögum og þeim dögum þegar skólar starfa ekki.
Af hálfu Múlaþings hefur meðal annars komið fram að það hafi ekki verið hægt að breyta opnunartíma frístundarinnar þegar verkfall kennara stóð yfir þar sem óheimilt sé að ganga í störf þeirra sem séu í verkfalli. Ekki hafi verið hægt að láta annað starfsfólk sveitarfélagsins sinna barninu meðan á því hafi staðið og því hafi ekki verið hægt að þjónusta barnið með því að breyta opnunartíma frístundarinnar.
Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ráðið að starfsemi frístundarþjónustu Múlaþing hafi ekki legið niðri sökum verkfalls kennara hjá Kennarasambandi Íslands, heldur hafi sveitarfélagið metið það svo að ekki mætti hafa frístundarþjónustuna opna á skólatíma þar sem með því væri verið að ganga inn í störf kennara í verkfalli. Að mati úrskurðarnefndar verður ekki talið að sveitarfélagið hafi getað gengið út frá því við fyrrgreinda ákvörðun sína að um verkfallsbrot hafi verið að ræða, meðal annars þar sem starfsmenn frístundarþjónustu voru ekki í verkfalli og þjónustan var almennt opin.
Líkt og að framan greinir er sveitarfélögum skylt samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 38/2018 að bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónustu meðal annars á þeim dögum þegar skóla starfa ekki, öðrum en lögbundnum frídögum.
Með vísan til alls framangreinds telur úrskurðarnefnd velferðarmála að hin kærða ákvörðun Múlaþings frá 29. janúar 2025 hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 16. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og er hún því felld úr gildi.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Múlaþings, dags. 29. janúar 2025, um að synja dóttur A, og B, um þjónustu vegna fötlunar hennar á skólatíma, er felld úr gildi.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir