Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 63/2025-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 63/2025

Mánudaginn 7. apríl 2025

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, 29. janúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 13. nóvember 2024, um að synja umsókns hans um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 8. október 2024, sótti kærandi um endurnýjun á umsókn sinni um félagslegt leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ. Umsókn kæranda var tekin fyrir á húsnæðisfundi 10. október 2024 þar sem henni var synjað með vísan til þess að eignir hans væru yfir eignamörkum reglugerðar nr. 1342/2020 um ráðstöfun leiguíbúða samkvæmt 37. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Kærandi áfrýjaði þeirri ákvörðun til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem tók málið fyrir á fundi þann 12. nóvember 2024 og staðfesti synjunina. Kæranda var tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 13. nóvember 2024.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 29. janúar 2025. Með bréfi, dags. 25. febrúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst 11. mars 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. mars 2025. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að Hafnarfjarðarbær hafi hafnað umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði vegna fjárhagsstöðu hans. Hún sé ekki lengur sú sama og því vilji kærandi kæra þá ákvörðun.

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi verið á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði frá árinu 2021. Hann búi í foreldrahúsum ásamt þremur systkinum. Kærandi sé með þjónustu í stuðnings- og stoðþjónustuteymi sveitarfélagsins. Í 3. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ komi fram að endurnýja þurfi umsókn um leiguíbúð árlega með skilum á gögnum til að halda inni umsókn á biðlista. Skila þurfi inn afriti af síðustu skattskýrslu, launaseðlum síðustu sex mánaða (staðgreiðsluskrá) og öðrum gögnum sem kunni að skipta máli, svo sem læknisvottorði eða öðrum vottorðum er kunni að varða mál umsækjanda. Kærandi hafi skilað inn endurnýjun á umsókn 8. október 2024, ásamt fylgiskjölum, og hafi í umsókn óskað eftir að sækja um félagslegt leiguhúsnæði með bróður sínum sem einnig búi í foreldrahúsum. Í 1. og 5. gr. framangreindra reglna komi fram skilyrði og mat á umsóknum. Í 1. gr. segi að reglurnar byggi á 1. mgr. 37. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál til að tryggja þeim sem búi við erfiðar félagslegar aðstæður rétt til að sækja um félagslegt leiguhúsnæði hjá sveitarfélaginu. Í 2. mgr. 37. gr. laga um húsnæðismál sé kveðið á um að leigjendur þurfi að uppfylla ákveðin eignamörk til að falla undir ákvæði 1. mgr. 37. gr. laganna. Reglugerð nr. 1342/2020, um ráðstöfun leiguíbúða samkvæmt 37. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, með síðari breytingum, hafi verið sett með stoð í 37. gr. laga um húsnæðismál. Sveitarfélagið hafi miðað við þau eignamörk sem fram komi í 3. gr. reglugerðarinnar við mat á því hvort skilyrði laganna og reglna sveitarfélagsins séu uppfyllt.

Mál kæranda hafi verið tekið fyrir á húsnæðisfundi 10. október 2024 og fyrir hafi legið að samkvæmt skattframtali hafi kærandi verið yfir eignamörkum. Eignir hafi samtals verið 12.498.227 kr. og eftirfarandi bókun hafi verið gerð:

„Bókun húsnæðisteymis: Við endurmat á umsókn á félagslegu leiguhúsnæði, eru eignir umsækjanda, A yfir eignamörkum. Samkvæmt skattframtali er innistæða á banka að upphæð 12.498.227 kr. Samkvæmt reglugerð um ráðstöfun leiguíbúða skv. 37. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998 með síðari breytingum eru eignamörk 7.745.000 kr. Því er umsókn á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði synjað.“

Á húsnæðisfundi sé lagt heildstætt mat á félagslegar aðstæður umsækjanda og að mati sveitarfélagsins hafi legið fyrir þær upplýsingar um kæranda sem nauðsynlegar séu til að meta aðstæður út frá reglum um úthlutun, þar á meðal að kærandi sé með opið stuðningsmál hjá stuðnings- og stoðþjónustuteymi og með ráðgjafa og þjónustu á grundvelli laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Kærandi sé með akstursþjónustu og einstaklingsstuðning í 12 tíma á mánuði. Hann fari í vinnu með akstursþjónustu alla virka daga.

Þann 12. nóvember 2024 hafi fjölskylduráð Hafnarfjarðar staðfest niðurstöðu fjölskyldu- og barnamálsviðs.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að synja umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði með vísan til þess að hann væri yfir eignamörkum reglugerðar nr. 1342/2020, um ráðstöfun leiguíbúða samkvæmt 37. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Samkvæmt 45. gr. laganna skulu sveitarstjórnir, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.

Í 1. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ kemur meðal annars fram að rétt til að sækja um almennar leiguíbúðir eigi þeir sem búi við erfiðar félagslegar aðstæður, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, VI. kafla reglugerðar nr. 1042/2013 um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar séu til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum og XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Almennar leiguíbúðir séu hugsaðar sem tímabundið úrræði fyrir fólk í húsnæðiserfiðleikum eða neyðarúrræði.

Í VIII. kafla laga nr. 44/1998 um húsnæðismál er kveðið á um lán til leiguíbúða. Þar segir í 33. gr. að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sé heimilt að veita meðal annars sveitarfélögum lán til byggingar eða kaupa leiguíbúða. Í 37. gr. laganna er að finna ákvæði um ráðstöfun leiguhúsnæðis. Þar segir í 1. mgr. að árstekjur leigjenda íbúða sem veitt hafi verið lán til fyrir 10. júní 2016 og eingöngu séu ætlaðar tilgreindum hópi leigjenda sem séu undir ákveðnum tekju- og eignamörkum skuli ekki nema hærri fjárhæð en 5.532.000 kr. fyrir hvern einstakling en 7.746.000 kr. fyrir hjón og sambúðarfólk. Við þá fjárhæð bætist 1.383.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem búi á heimilinu. Með tekjum sé átt við allar tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt samkvæmt skattframtali síðasta árs, staðfestu af ríkisskattstjóra, að teknu tilliti til frádráttar samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 30. gr. og frádráttar samkvæmt 31. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skal samanlögð heildareign leigjenda íbúða samkvæmt 1. mgr. að frádregnum heildarskuldum við upphaf leigu, með vísan til 72.–75. gr. laga um tekjuskatt samkvæmt skattframtali síðasta árs, staðfestu af ríkisskattstjóra, ekki nema hærri fjárhæð en 5.971.000 kr. Þá segir í 3. mgr. að fjárhæðir samkvæmt 1. og 2. mgr. komi til endurskoðunar ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála og skuli vera í heilum þúsundum króna. Þegar framangreind skilyrði leiði til þess að fjárhæðir samkvæmt 1. og 2. mgr. hækki skuli ráðherra breyta þeim með reglugerð. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 1342/2020, settri með stoð í 37. gr. laga um húsnæðismál, nemur fjárhæð vegna eigna leigjenda nú 7.745.000 kr.

Fyrir liggur skattframtal kæranda vegna tekjuársins 2023 sem lagt var til grundvallar hinni kærðu ákvörðun. Samkvæmt því námu eignir kæranda samtals 12.498.227 kr. í formi innistæðna á bankareikningum. Þar sem eignir kæranda voru yfir eigamörkum reglugerðar nr. 1342/2020 á þeim tíma sem lagt var mat á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði telur úrskurðarnefndin ekki ástæðu til að gera athugasemd við að Hafnarfjarðarbær hafi synjað umsókninni. Hvað varðar tilvísun kæranda til þess að fjárhagsstaða hans sé ekki lengur sú sama bendir úrskurðarnefndin á að kærandi getur lagt inn nýja umsókn hjá sveitarfélaginu hafi aðstæður hans breyst frá fyrri umsókn.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 13. nóvember 2024, um að synja umsókn A, um félagslegt leiguhúsnæði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta