Mál nr. 89/2025-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 89/2025
Mánudaginn 24. mars 2025
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 11. febrúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 29. janúar 2025, um að synja umsókn hennar um fjárhagsaðstoð.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 16. desember 2024, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 31. desember 2024. Umsókn kæranda var synjað 9. janúar 2025 og staðfesti áfrýjunarnefnd velferðarráðs þá niðurstöðu með ákvörðun, dags. 29. janúar 2025.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. febrúar 2025. Með bréfi, dags. 12. febrúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 26. febrúar 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. febrúar 2025. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Rökstuðningur fylgdi ekki kæru en af henni má ráða að kærandi óski eftir því að ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn hennar um fjárhagsaðstoð verði felld úr gildi.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gömul kona frá B. Hún sé ekkja og eigi sex uppkomin börn. Kærandi hafi komið til Íslands í ágúst 2024 í gegnum fjölskyldusameiningu við dóttur sína sem sé frá B og tengdason sem sé einnig frá B en með C ríkisfang. Tengdasonur kæranda hafi komið til Íslands árið 2017 en dóttir hennar hafi komið til Íslands í gegnum fjölskyldusameiningu við eiginmann sinn (tengdason kæranda) árið 2021. Kærandi búi hjá dóttur sinni og tengdasyni ásamt tveggja ára gömlu barni þeirra. Hún hafi ætlað sér að vera stuðningur inn á heimili þeirra og aðstoða þau við að sjá um dóttur þeirra, en þau séu bæði útivinnandi. Kærandi hafi veikst fljótlega eftir að hún hafi komið til landsins og hafi verið lögð inn á spítala. Síðan þá hafi hún verið í rannsóknum, læknisheimsóknum og verið lögð aftur inn á spítala. Kærandi sé ekki sjúkratryggð og því hafi dóttir hennar og tengdasonur þurft að standa undir heilbrigðiskostnaði vegna framangreinds. Þau hafi fjárhagslegar áhyggjur og telji forsendur við að fá kæranda til landsins hafa brostið og hafi því leitað til Reykjavíkurborgar eftir fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir kæranda.
Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. nóvember 2024 til 30. nóvember 2024 með umsókn, dags. 27. nóvember 2024. Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir framangreint tímabil hafi verið samþykkt fyrir mistök á rafrænni miðstöð með bréfi, dags. 29. nóvember 2024. Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. desember 2024 til 31. desember 2024 með umsókn, dags. 16. desember 2024. Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu hafi verið synjað með bréfi, dags. 9. janúar 2025. Kærandi hafi skotið framangreindri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 29. janúar 2025 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:
„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á Suðurmiðstöð Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. desember 2024 til 31. desember 2024, skv. 2. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sbr. útlendingalög nr. 80/2016.“
Kærandi hafi nú skotið ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum hafi tekið gildi þann 1. apríl 2021 og verið samþykktar á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 24. febrúar 2021 og á fundi borgarráðs þann 4. mars 2021. Umræddar reglur séu settar á grundvelli 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð til framfærslu frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Í 1. gr. reglnanna komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. og III. kafla reglnanna. Um fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg gildi sú meginregla að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu ef hann geti ekki framfleytt sér. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sbr. 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.
Núgildandi ákvæði 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg fjalli um framfærsluskyldu og sé svohljóðandi:
„Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára, sbr. hjúskaparlög nr. 31/1993 og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Fólk sem er í skráðri sambúð í þjóðskrá á sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón.“
Þá komi meðal annars fram í 2. mgr. 8. gr. framangreindra reglna að umsækjanda beri að leggja fram dvalarleyfi í þeim tilfellum sem það eigi við. Í tilfelli kæranda sé um að ræða tímabundið dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar samkvæmt c. lið 82. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og það gildi frá 28. október 2024 til 6. maí 2029.
Ákvæði 82. gr. laga um útlendinga sé svohljóðandi:
„82. gr. Dvöl aðstandenda EES- eða EFTA-borgara.
Aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem fellur undir ákvæði þessa kafla hefur rétt til að dveljast með honum hér á landi. Aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem hafa dvalarrétt eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi skulu óháð ríkisfangi eiga rétt á að stunda atvinnu eða gerast sjálfstætt starfandi einstaklingar hér á landi.
Aðstandandi EES- og EFTA-borgara er:
- maki og sambúðarmaki ef aðilar eru í skráðri sambúð eða sambúð sem er staðfest með öðrum hætti,
- niðji viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka í beinan legg sem er yngri en 21 árs eða á framfæri borgarans,
- ættingi viðkomandi, maka eða sambúðarmaka hans í beinan legg sem er á framfæri borgarans.
Í 1. mgr. 82. gr. framangreindra laga komi fram að aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem falli undir ákvæðið hafi rétt til að dveljast með honum hér á landi og sé heimilt að stunda atvinnu og gerast sjálfstætt starfandi einstaklingur. Þá sé í 2. mgr. framangreinds ákvæðis nánar skilgreint hverjir aðstandendur EES- og EFTA-borgara séu. Í c. lið 2. mgr. 82. gr. framangreindra laga komi fram að [það sé] ættingi viðkomandi, maka eða sambúðarmaka hans í beinan legg sem sé á framfæri borgarans. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafi kærandi skilað inn ráðningarsamningi og launaseðlum EES-ríkisborgarans sem hún byggi rétt sinn á. Útlendingastofnum hafi upplýst velferðarsvið Reykjavíkurborgar um að engin undanþága hafi verið gefin frá framfærsluskyldu við veitingu dvalarleyfisins.
Dóttir kæranda sem og tengdasonur hennar séu bæði í launaðri vinnu. Útborguð laun þeirra beggja séu samtals að upphæð 600.000 kr. til 700.000 kr. á mánuði. Ætla megi að framangreind upphæð dugi kæranda, dóttur hennar, tengdasyni sem og barnabarni hennar til framfærslu. Umrædd upphæð sé hærri en viðmiðunarmörk fjárhagsaðstoðar til framfærslu fyrir þau öll. Í greinargerð til áfrýjunarnefndar, dags. 8. janúar [2025], hafi komið fram að fagfundur hafi ekki mælt með samþykki á umræddri umsókn kæranda í ljósi þess að hún væri með tímabundið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar og búi hjá dóttur sinni sem hafi sótt um dvalarleyfi fyrir kæranda á þeim grundvelli að hún og maður hennar gætu tryggt framfærslu kæranda. Þá hafi verið tekið fram að dóttir kæranda sem og tengdasonur hennar væru bæði í fullri vinnu og staða þeirra hefði því ekki breyst eftir að kærandi hefði komið til landsins, þrátt fyrir veikindi hennar.
Þessu til viðbótar liggi fyrir að það hafi verið mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði, með fullnægjandi hætti, sýnt fram á að framfærsla hennar væri örugg samkvæmt skilyrðum laga þegar hún hefði sótt um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. c. lið 2. mgr. 82. gr. laga um útlendinga. Aðstæður dóttur hennar og tengdasonar séu óbreyttar frá því að dvalarleyfi kæranda hafi verið veitt af hálfu Útlendingastofnunar en þau séu bæði enn þá í vinnu. Suðurmiðstöð Reykjavíkurborgar hafi því ekki talið unnt að samþykkja fjárhagstoð til framfærslu vegna ófyrirséðs heilbrigðiskostnaðar sökum veikinda kæranda.
Með hliðsjón af framansögðu hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs því talið að synja bæri umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. desember 2024 til 31. desember 2024 á grundvelli 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sbr. lög nr. 80/2016 um útlendinga, og staðfest synjun starfsmanna suðurmiðstöðvar Reykjavíkurborgar á fjárhagsaðstoð fyrir áðurgreint tímabil.
Með vísan til alls framangreinds verði að telja að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. og III. kafla reglnanna., né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða ákvæðum útlendingalaga nr. 80/2016.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. til 31. desember 2024.
Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr.
Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Sveitarfélög skuli tryggja að stuðningur við íbúa sem hafi barn á framfæri sé í samræmi við það sem sé barninu fyrir bestu. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.
Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um lagagrundvöll fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Í 2. gr. reglnanna kemur einnig fram sama grundvallarregla og í 19. gr. laga nr. 40/1991 að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.
Fyrir liggur að kæranda var synjað um fjárhagsaðstoð á grundvelli framangreindrar 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð og laga nr. 80/2016 um útlendinga, en kærandi er með tímabundið dvalarleyfi hér á landi. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að dóttir kæranda og tengdasonur hennar séu bæði í launaðri vinnu og útborguð laun þeirra séu hærri en viðmiðunarmörk fjárhagsaðstoðar til framfærslu fyrir kæranda, dóttur hennar, tengdason og barnabarn. Þá hafi það verið mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi sýnt fram á að framfærsla hennar væri örugg þegar hún hafi sótt um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. c. lið 2. mgr. 82. gr. laga nr. 80/2016. Aðstæður dóttur kæranda og tengdasonar hennar væru óbreyttar frá því að dvalarleyfi hefði verið veitt en þau séu bæði enn í fullri vinnu. Reykjavíkurborg hafi því ekki talið unnt að samþykkja fjárhagsaðstoð til framfærslu vegna ófyrirséðs heilbrigðiskostnaðar sökum veikinda kæranda.
Líkt og að framan greinir gera reglur Reykjavíkurborgar ráð fyrir að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu m.a. einstaklinga sem ekki geta séð fyrir sér án aðstoðar. Fjárhagsaðstoðin er þannig neyðarúrræði fyrir þá sem ekki hafa tök á að sjá sjálfir um sína framfærslu ef sú skylda liggur ekki á öðrum lögum samkvæmt. Fyrir liggur að kærandi fékk samþykkt dvalarleyfi hér á landi á þeirri forsendu að dóttir hennar og tengdasonur myndu sjá um framfærslu hennar en það var í ágúst 2024. Mál þetta lýtur að umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir desembermánuð 2024 en ekki verður séð að nokkur breyting hafi orðið á stöðu og högum dóttur kæranda og tengdasonar frá því að dvalarleyfi kæranda var gefið út. Að mati úrskurðarnefndar hefur Reykjavíkurborg lagt fullnægjandi mat á stöðu dóttur kæranda og tengdasonar og að þau hafi burði til þess að framfæra kæranda líkt og þau höfðu gengist undir hjá Útlendingastofnun. Með vísan til þess er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kærnda um fjárhagsaðstoð staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 29. janúar 2025, um að synja umsókn A, um fjárhagsaðstoð, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir