Mál, nr. 668/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 668/2024
Fimmtudaginn 13. febrúar 2025
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 19. desember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 11. desember 2024, um að synja umsókn hans um fjárhagsaðstoð.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 30. október 2024, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu aftur í tímann fyrir tímabilið 1. október 2024 til 31. október 2024. Umsókn kæranda var synjað og staðfesti áfrýjunarnefnd velferðarráðs þá niðurstöðu með ákvörðun, dags. 11. desember 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. desember 2024. Með bréfi, dags. 2. janúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 27. janúar 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. janúar 2025. Athugasemdir bárust frá kæranda 8. og 9. febrúar 2025.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að honum hafi verið synjað um fjárhagsaðstoð fyrir október 2024. Kærandi hafi í kjölfarið haft samband við félagsráðgjafa sem hafi sagt honum að hann fengi ekki fjárhagsaðstoð fyrr en hann gæti sýnt fram á að hann hefði engar tekjur í B. Kærandi hafi lagt fram vottorð frá skattyfirvöldum í B um skort á tekjum árið 2024, auk vottorðs frá lífeyrissjóði og almannatryggingasjóði B. Félagsráðgjafi kæranda hafi tjáð honum að það væri ekki nóg og að kærandi yrði að fara til B og loka fyrirtæki sínu þar. Það skipti ekki máli hvort kærandi hefði tekjur af því eða ekki.
Kærandi hafi haft samband við lögfræðinga mannréttindasamtaka sem hafi tjáð honum að ekki væri bannað að eiga eignir erlendis ef þær skili ekki tekjum. Þar að auki hafi verið lagt hald á allar eignir fyrirtækis kæranda og hann hafi lagt fram gögn því til stuðnings. Þá sé fyrirtækið sjálft á svæði ófriðar og ekki hægt að tala um nein viðskipti.
Kærandi hafi nú verið án fjárhagsaðstoðar í nokkra mánuði, sé búinn að missa leiguhúsnæði sitt, borði frítt í mötuneyti og hafi verið sendur til Virk í endurhæfingu vegna heilsufars. Kærandi óski eftir því að litið verði til stöðu hans og endurhæfingar.
Í athugasemdum kæranda, dags. 9. febrúar 2025, kemur fram að margt í greinargerð Reykjavíkurborgar sé rangt, ekki í samræmi við raunveruleikann og margar fullyrðingar byggi á getgátum. Í fyrsta lagi hafi kærandi ekki fengið fjárhagsaðstoð á Íslandi frá 1. janúar 2023 því hann hafi komið til landsins 13. janúar 2023 og fyrst sótt um fjárhagsaðstoð í mars sama ár.
Í öðru lagi haldi Reykjavíkurborg því fram að kærandi hafi dvalið erlendis í meira en 200 daga árið 2024 sem sé algjörlega ósatt. Á tímabilinu sem kærandi hafi átt að vera erlendis hafi hann greitt með íslensku greiðslukorti sínu á Íslandi og sótt tungumálanámskeið. Varðandi þá staðreynd að kærandi hafi farið yfir landamærin hafi hann sagt oftar en einu sinni að vegabréfi hans hafi verið stolið um mitt ár 2023 sem hann hafi strax tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík. Árið 2024 hafi sá sem hafi stolið vegabréfi kæranda verið handtekinn í B með vegabréfið sem sé staðfest í skjali frá lögreglu. Þessi manneskja sé ekki ættingi kæranda eins og Reykjavíkurborg haldi fram.
Því sé einnig haldið fram að allir farseðlar hafi verið greiddir með B greiðslukorti kæranda en það sé ekki rétt. Öll kort kæranda í B hafi verið læst síðan í mars 2023 og eftir að hafa fengið vitneskju um það hafi Reykjavíkurborg sent beiðni til flugvallarins. Félagsráðgjafi hafi greint frá því að allir farseðlar hafi verið greiddir af ólíku fólki og komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi beðið allt þetta fólk um að greiða farseðlana fyrir sig. Síðar hafi Reykjavíkurborg beðið kæranda um upplýsingar um eignir hans í B.
Reykjavíkurborg blási af einhverjum ástæðum upp fjármagn fyrirtækis kæranda og gefi til kynna að það eigi um X þótt sú upphæð hafi í raun lækkað síðan árið 2022 og sé nú undir X. Það sem mestu máli skipti sé að hlutafé fyrirtækisins samanstandi alfarið af kostnaði við íbúðina sem kærandi og foreldrar hans, sem hafi verið meðeigendur fyrirtækisins, séu skráð fyrir og hafi búið í fyrir stríðið. Þetta séu allt opinberar upplýsingar sem hver sem er geti séð en af einhverjum ástæðum hafi Reykjavíkurborg túlkað gögnin sér í hag.
Í 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg segi:
„Eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði til eigin nota og eina bifreið, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skal honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Ef umsækjandi, maki hans eða sambýlisaðili, á eignir sem nýtast geta til framfærslu á hann ekki rétt á fjárhagsaðstoð.“
Umrædd eign sé íbúðin sem fjölskylda kæranda hafi búið í og fyrirtækið hafi engar tekjur haft í meira en tvö ár. Þá hafi kærandi sem einstaklingur ekki haft neinar tekjur í B árið 2024 eins og vottorð frá skattyfirvöldum í landinu sýni. Varðandi fyrrverandi eiginkonu kæranda sé afstaða Reykjavíkurborgar ekki mjög skýr en hann hafi lagt fram skilnaðarúrskurð dómstóls í desember 2023. Kærandi spyrji hvaða tengsl geti verið á milli tekna konunnar og tekjuleysis kæranda árið 2024 þegar þau hafi þegar verið skilin 1. janúar 2024.
Þá sé óljóst á hverju synjun Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð í október 2024 byggi. Borgin virðist byggja synjun sína á því að kærandi hafi verið erlendis þótt hún hafi engar sannanir fyrir því. Kærandi hafi lagt fram læknisvottorð um að hann hafi verið veikur frá 3. til 30. október 2024 en einhverra hluta vegna hafi ekki verið tekið tillit til þess við meðferð umsóknarinnar. Kærandi hafi verið með fulla mætingu á tungumálanámskeið og veitt bankayfirlit sem sýni að hann hafi greitt fyrir mat í verslunum í Reykjavík allan þann tíma.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gamall karlmaður frá B. Misvísandi upplýsingar hafi borist hvað varði fjölskylduhagi og félagslega stöðu kæranda en reynt verði eftir fremsta megni að gera grein fyrir stöðu hans með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum. Kærandi hafi komið til landsins í lok árs 2022 og skráð sig í þjóðskrá þann 3. janúar 2023. Kærandi hafi skráð sig sem giftur í þjóðskrá en í fyrsta viðtali sínu hjá félagsráðgjafa á vesturmiðstöð hafi komið í ljós að hann hafi ekki verið það, að eigin sögn. Þann 30. nóvember 2023 hafi hjúskaparstaða hans hjá þjóðskrá verið uppfærð í „ekkill“ eftir að kærandi hafi skilað inn fölsuðu dánarvottorði vegna látinnar eiginkonu sinnar að nafni C og þann 28. maí 2024 hafi hjúskaparstaða hans aftur verið uppfærð í þjóðskrá og þá í „skilinn að lögum“.
Kærandi hafi þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu tímabilið 1. janúar 2023 til 30. september 2024, fyrir utan tímabilið 1. júní 2024 til 30. júní 2024 þar sem hann hafi verið erlendis á því tímabili. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi óskað eftir upplýsingum frá Landamæraeftirlitinu um flugferðir kæranda og upplýsingar hafi borist um ítrekaðar ferðir hans erlendis á tímabilinu 1. janúar 2024 til 30. mars 2024. Hann hafi þá farið 13 sinnum til útlanda og dvalið erlendis í samtals 200 daga. Þegar framangreindar ferðir hafi verið bornar upp við kæranda hafi hann gefið þá skýringu að vegabréfi hans hefði verið stolið og að einhver annar hefði ferðast á milli landa með vegabréfinu hans. Flugferðirnar hafi samt sem áður verið bókaðar á hans nafni, kennitölu og greitt hafi verið fyrir þær með greiðslukorti í eigu kæranda. Kærandi hafi tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að vegabréfi hans hefði verið stolið og í umræddri tilkynningu komi fram að því hafi verið stolið þann 8. júní 2023 hjá D. Þann 7. ágúst 2024 hafi kærandi lagt fram upplýsingar frá lögmanni sínum í B, en umræddur lögmaður sé jafnframt frændi hans, um að maður hefði verið handtekinn í E í B með vegabréf hans. Ekki sé hægt að líta svo á að umræddar upplýsingar séu fullnægjandi og því ekki hægt að líta til þeirra við mat á því hvort vegabréfi kæranda hafi verið stolið og teljist það því ósannað að kærandi hafi dvalið á Íslandi á umsóknartímabilinu.
Kærandi hafi ítrekað afboðað komu sína til ráðgjafa á miðstöð vegna veikinda eða annarra persónulegra ástæðna. Þá hafi hann tekið háar upphæðir út úr hraðbanka án skýringa líkt og megi sjá á yfirliti yfir innborganir fyrir tímabilið 1. september 2024 til 31. október 2024. Óljóst sé hver menntun kæranda sé en hann hafi bæði sagst vera menntaður félagsráðgjafi og hagfræðingur. Þá hafi hann sótt um störf sem samrýmist ekki menntun hans, svo sem starf fasteignasala, stjórnanda góðgerðarsamtaka, deildarstjóra, íþróttakennara og fleira. Kærandi hafi skilað inn læknisvottorði vegna óvinnufærni sökum verkja í mjöðmum og hnjám, dags. 1. nóvember 2024. Kærandi sé að eigin sögn greindur með mjaðmarliðsgigt og kaupi þar af leiðandi dýr lyf frá B í stað þess að nýta sér íslenska heilbrigðisþjónustu eða fara í röntgenmyndatöku til að staðfesta framangreinda verki.
Kærandi búi hjá öðrum í leiguíbúð á almennum leigumarkaði án leigusamnings en ekki sé vitað hversu mikið hann greiði fyrir húsaleigu. Kærandi eigi íbúð í B og upplýsingar úr fyrirtækjaskrá í B sýni að kærandi sé skráður eigandi nokkurra fyrirtækja í B þrátt fyrir yfirlýsingu hans um eignaleysi. Þá hafi kærandi stofnað fyrirtæki í B í nafni eiginkonu sinnar sem hann hafi áður sagt látna en sé nú skilinn við. Að sögn kæranda eigi hann þrjú börn, tvö fullorðin og eitt undir 18 ára aldri, en óljóst sé hvar börnin dvelji. Þá hafi kærandi ekki skilað inn umbeðnum gögnum vegna barnanna, það er fæðingarvottorðum og skattframtali. Samkvæmt úrskurðum héraðsdóma í B hafi kærandi verið dæmdur til að greiða meðlag með einu barni og fyrrverandi konu hans veittur skilnaður við hann. Kærandi kveðist eignalaus en jafnframt að hann eigi fyrirtæki í B sem skili engum tekjum. Samkvæmt opinberum skráningum í B sé kærandi skráður eigandi að þremur fyrirtækjum. Kærandi hafi sótt um endurhæfingu hjá Virk og sú umsókn sé í vinnslu.
Þann 30. október 2024 hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu aftur í tímann fyrir tímabilið 1. október 2024 til 31. október 2024. Með bréfi, dags. 11. nóvember 2024, hafi umsókn kæranda verið synjað á grundvelli 9. mgr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg fyrir framangreint tímabil. Kærandi hafi skotið framangreindri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 11. desember 2024 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:
„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á miðstöð Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. október 2024 til 31. október 2024, skv. 9. mgr. 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.“
Þann 19. desember 2024 hafi kærandi skotið framangreindri ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum hafi tekið gildi þann 1. apríl 2021 og verið samþykktar á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 24. febrúar 2021 og á fundi borgarráðs þann 4. mars 2021. Umræddar reglur séu settar á grundvelli 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð til framfærslu frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Í 1. gr. reglnanna komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, sbr. og III. kafla reglnanna. Um fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg gildi sú meginregla að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu ef hann geti ekki framfleytt sér. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, sbr. 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.
Í II. kafla reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sé að finna ákvæði sem lúti að umsóknum um fjárhagsaðstoð og kveði 8. gr. reglnanna á um hvaða skilyrði umsókn þurfi að uppfylla, hvaða upplýsingar umsækjendur skuli veita og hvaða fylgigögnum skuli skilað. Í 9. mgr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Reykjavík segi:
„Umsækjandi skal skila inn nauðsynlegum gögnum í síðasta lagi tveimur vikum eftir að umsókn hefur verið undirrituð. Að öðrum kosti skal umsókn synjað á grundvelli ófullnægjandi gagna. Heimilt er að synja umsókn um fjárhagsaðstoð ef umsækjandi neitar að veita upplýsingar um fjárhag sinn og/eða maka síns eða aðrar upplýsingar, sbr. 3. mgr. 8 gr. reglna þessara.“
Líkt og kveðið sé á um í málavaxtalýsingu hafi mjög misvísandi upplýsingar borist frá kæranda varðandi meðal annars hjúskaparstöðu, fjölskylduhagi, menntun, félagslega stöðu, upplýsingar um eignir og fyrirtæki í B og fleira eins og fram komi í greinargerð félagsráðgjafa til áfrýjunarnefndar, dags. 25. nóvember 2024. Líkt og komið hafi fram hafi kærandi þegið fjárhagsaðstoð sér til framfærslu fyrir tímabilið 1. janúar 2023 til 30. september 2024, fyrir utan tímabilið 1. júní 2024 til 30. júní 2024. Eftir að upplýsingar hafi borist frá Landamæraeftirlitinu um ítrekaðar ferðir kæranda erlendis á tímabilinu 1. janúar 2024 til 30. mars 2024 hafi verið talið nauðsynlegt að skoða mál hans nánar. Við framangreinda skoðun hafi komið í ljós að kærandi eigi nokkur fyrirtæki í B samkvæmt upplýsingum sem hafi komið fram á opinberum miðlum þar í landi, þar á meðal sé hann skráður stofnandi og eigandi (með 20% hlutabréf) G. Framangreint fyrirtæki eigi X sem jafngildi 3.331.525 kr. í lögbundnum sjóði. Að eigin sögn fái kærandi ekki tekjur frá þeim fyrirtækjum sem hann sé skráður eigandi að. Þá hafi hann neitað að loka framangreindum fyrirtækjum, eins og gerð sé krafa um í 14. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Rétt hefði því verið að synja umsókn kæranda einnig á grundvelli 14. gr. reglnanna og beðist sé velvirðingar á þeim mistökum. Miðað við framangreint uppfylli kærandi ekki ákvæði 9. mgr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð þar sem hann hafi ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum og umsókn hans hafi því verið synjað á grundvelli ófullnægjandi gagna. Þá hafi hann einnig neitað að veita upplýsingar um fjárhag sinn sem og aðrar upplýsingar, sbr. 3. mgr. 8. gr. sömu reglna. Að framangreindu virtu hafi kærandi ekki átt rétt á fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. október 2024 til 31. október 2024.
Auk framangreinds beri einnig að nefna að kærandi hafi ekki mætt á miðstöð tímabilið 8. október 2024 til 31. október 2024 og slökkt hafi verið á síma hans 24. október 2024 og 28. október 2024 þegar ráðgjafi hafi reynt að hafa samband við hann í þeim tilgangi að athuga af hverju hann hefði ekki mætt á miðstöð síðan 8. október 2024, fá upplýsingar um það hvort hann væri á landinu, fá upplýsingar um mætingu hans á íslenskunámskeið og upplýsa hann um hvaða gögnum hann ætti eftir að skila. Kærandi hafi verið skráður í íslenskunám hjá Norrænu Akademíunni og hafi verið skráður í fjarnám tímabilið 8. október 2024 til 26. október 2024. Því sé einnig grunur um að kærandi hafi verið erlendis tímabilið 1. október 2024 til 31. október 2024. Því hefði einnig mátt synja umsókn kæranda á grundvelli 2. mgr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð.
Að lokum skuli tekið fram að gögn og útskýringar kæranda vegna stöðu hans þyki ótrúverðug og misvísandi. Tekið skuli fram að mikið af þeim gögnum sem litið hafi verið til í tengslum við rannsókn á máli þessu séu á B, svo sem dómsúrskurðir, læknisvottorð frá B og upplýsingar úr fyrirtækjaskrá B sem menningamiðlari vesturmiðstöðvar hafi tekið að sér að fara yfir í tengslum við mál kæranda. Óski úrskurðarnefnd velferðarmála eftir framangreindum gögnum muni velferðarsvið Reykjavíkurborgar verða við þeirri beiðni.
Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs því talið að synja bæri kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu aftur í tímann fyrir tímabilið 1. október 2024 til 31. október 2024 á grundvelli 9. mgr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og staðfest synjun starfsmanna vesturmiðstöðvar Reykjavíkurborgar á fjárhagsaðstoð fyrir áðurgreint tímabil. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að einnig hefði mátt synja umsókn um fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt fleiri ákvæðum reglna um fjárhagsaðstoð til framfærslu og beðist sé velvirðingar á því.
Með vísan til alls framangreinds verði að telja að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 eða fleiri lögum.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. október 2024 til 31. október 2024 á grundvelli 9. mgr. 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.
Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr.
Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Sveitarfélög skuli tryggja að stuðningur við íbúa sem hafi barn á framfæri sé í samræmi við það sem sé barninu fyrir bestu. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.
Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um lagagrundvöll fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Í 2. gr. reglnanna kemur einnig fram sama grundvallarregla og í 19. gr. laga nr. 40/1991 að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.
Í 8. gr. framangreindra reglna er fjallað um umsóknir um fjárhagsaðstoð og fylgigögn. Þar segir í 9. mgr.:
„Umsækjandi skal skila inn nauðsynlegum gögnum í síðasta lagi tveimur vikum eftir að umsókn hefur verið undirrituð. Að öðrum kosti skal umsókn synjað á grundvelli ófullnægjandi gagna. Heimilt er að synja umsókn um fjárhagsaðstoð ef umsækjandi neitar að veita upplýsingar um fjárhag sinn og/eða maka síns eða aðrar upplýsingar, sbr. 3. mgr. 8 gr. reglna þessara.“
Fyrir liggur að umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. til 31. október 2024 var hafnað á þeirri forsendu að hann hefði ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er þó óljóst hvaða gögn það nákvæmlega eru sem kallað var eftir og ekki skilað. Undir meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni hefur Reykjavíkurborg vísað til þess að þar sem kærandi hefði neitað að loka fyrirtækjum sínum í B hefði verið rétt að synja umsókn hans einnig á þeim grundvelli, sbr. 14. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Þá hefur Reykjavíkurborg vísað til þess að það væri uppi sá grunur að kærandi hefði ekki verið á landinu á framangreindu tímabili, þ.e. 1. til 31. október 2024, og því hefði einnig mátt synja umsókn hans á grundvelli 2. mgr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Þau gögn sem lögð voru fram frá flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum ná þó aðeins til aprílmánaðar 2024.
Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin ljóst að mál kæranda hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti áður en ákvörðun um synjun var tekin. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 11. desember 2024, um að synja umsókn A, um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. október 2024 til 31. október 2024, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir