Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 121/2025-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 121/2025

Fimmtudaginn 8. maí 2025

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 25. febrúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 4. desember 2024, um að synja umsókn hennar um akstursþjónustu fatlaðs fólks.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 10. október 2024, sótti kærandi um akstursþjónustu fatlaðs fólks í 12 mánuði. Með bréfi miðstöðvar Reykjavíkurborgar, dags. 30. október 2024, var umsókn kæranda synjað og var sú ákvörðun staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarráðs 4. desember 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. febrúar 2025. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. febrúar 2025, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 26. mars 2025 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. apríl 2025. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi eigi mjög erfitt með gang, sé mjög dettin og þurfi stundum stuðning. Oft komi fyrir að hægri fótur verði eins og lamaður og þá þurfi að hjálpa fætinum. Jafnvægi kæranda sé heldur ekki gott. Nokkrum sinnum hafi kærandi dottið á leið sinni og þá hafi gangandi vegfarendur aðstoðað hana á fætur þar sem hún nái ekki að standa upp sjálf óstudd.

Tekið er fram að kærandi þurfi að taka þrjá strætisvagna frá heimili sínu til vinnu. Hún sé mjög lengi að komast á milli vagna og missi stundum af næsta vagni. Kærandi vinni hálfan daginn, fimm daga vikunnar í verslun og fari í sjúkraþjálfun einu sinni í viku. Kærandi geti alls ekki tekið strætó í hálku eða hvassviðri. Þá hafi kærandi þurft mikla aðstoð foreldra sinna til að komast til og frá vinnu, í sjúkraþjálfun og til lækna.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til þess að kærandi sé X ára gömul kona sem glími við fjölþættar áskoranir. Kærandi hafi orðið fyrir súrefnisskorti í fæðingu sem hafi valdið skertri samhæfingu, skertri hreyfifærni í vinstri fæti og greindarskerðingu. Kærandi glími almennt við mikinn stífleika sem valdi því að hún hafi átt erfitt með að fara leiðar sinnar með sjálfstæðum hætti. Hreyfifærni kæranda sé misjöfn og stundum þurfi hún að styðja sig við veggi og geti ekki reist sig við auðveldlega ef hún falli í jörðina. Kærandi hafi alla tíð verið í markvissum æfingum hjá sjúkraþjálfara svo hægt sé að auka hreyfifærni hennar. Kærandi geti ekki farið allra sinna ferða með almenningssamgöngum heldur verði foreldrar hennar að aka henni til og frá vinnu en kærandi starfi í 50% starfshlutfalli í matvörubúð. Að sögn kæranda geti hún nýtt sér almenningssamgöngur að sumarlagi og óski því eftir akstursþjónustu fatlaðs fólks í sex mánuði þar sem hún treysti sér ekki til að fara ferða sinna í hálku og slæmri færð.

Kærandi hafi sótt um akstursþjónustu fatlaðs fólks með umsókn, dags. 10. október 2024, sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 30. október 2024. Kærandi hafi skotið framangreindri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 4. nóvember 2024 sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 4. desember 2024 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á Rafrænni miðstöð Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu fatlaðs fólks skv. 1. gr. reglna fyrir sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu.“

Fram komi í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga að fatlað fólk skuli eiga kost á akstursþjónustu sem miði að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kjósi, á þeim tíma sem það velji og gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Núgildandi reglur um sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu hafi tekið gildi 1. júlí 2020, verið samþykktar á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 12. febrúar 2020 og á fundi borgarráðs þann 20. febrúar 2020. Fyrrgreindar reglur séu settar með stoð í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og III. kafla laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

1. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu sé svohljóðandi:

„Akstursþjónusta fatlaðs fólks er ætluð til afnota fyrir þá íbúa Reykjavíkur, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sem uppfylla það skilyrði að fötlun þeirra falli að skilgreiningu 2. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, og að þeir eigi ekki rétt á niðurgreiddri akstursþjónustu frá öðrum aðilum eða rétt á akstri samkvæmt öðrum lögum, reglugerðum eða reglum.“

Í 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sé að finna ýmsar skilgreiningar á hugtökum, svo sem fötlun og fatlað fólk:

„1. Fötlun: Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.

2. Fatlað fólk: Fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.

Þá sé einnig tekið fram í 3. mgr. 1. gr. reglna fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu að umsækjandi skuli uppfylla annað eða bæði eftirfarandi skilyrða:

„a. Er hreyfihamlaður og þarf að nota hjólastól. Skilyrði er að um sé að ræða varanlega hreyfihömlun eða hreyfihömlun sem hefur varað í þrjá mánuði eða lengur.

b. Er ófær um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar.“

Það hafi verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs að kærandi félli ekki að framangreindri skilgreiningu á fötlun samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2028 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði a. liðar 3. mgr. 1. gr. framangreindra reglna þar sem hún notaði ekki hjólastól né b. liðar sama ákvæðis þar sem hún væri ekki með langvarandi fötlun.

Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta bæri synjun starfsmanna Rafrænnar miðstöðvar, dags. 30. október 2024, á umsókn kæranda um akstursþjónustu fatlaðs fólks þar sem kærandi hafi ekki verið talin falla að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafi kærandi ekki verið talin uppfylla skilyrði a. og b. liða 3. mgr. 1. gr. áðurnefndra reglna.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan greini sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum Reykjavíkurborgar fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu, lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum nr. 38/2018  um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir eða ákvæðum annarra laga eða reglna. Þá telji áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn um akstursþjónustu fatlaðs fólks.

Í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um akstursþjónustu fatlaðs fólks. Þar segir í 1. mgr.:

„Fatlað fólk skal eiga kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.“

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2018 er fötlun skilgreind sem:

„Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.“

Þá er í sömu grein að finna skilgreiningu á fötluðu fólki, en þar segir:

„Fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.“

Reykjavíkurborg hefur útfært nánar framkvæmd akstursþjónustu fyrir fatlað fólk með reglum nr. 645/2020 fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglnanna er akstursþjónusta fatlaðs fólks ætluð til afnota fyrir þá íbúa Reykjavíkur, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sem uppfylla það skilyrði að fötlun þeirra falli að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og að þeir eigi ekki rétt á niðurgreiddri akstursþjónustu frá öðrum aðilum eða rétt á akstri samkvæmt öðrum lögum, reglugerðum eða reglum.

Þá segir í 3. mgr. 1. gr. reglnanna að umsækjandi skuli uppfylla annað eða bæði eftirfarandi skilyrða:

  1. Er hreyfihamlaður og þarf að nota hjólastól. Skilyrði er að um sé að ræða varanlega hreyfihömlun eða hreyfihömlun sem hefur varað í þrjá mánuði eða lengur.
  2. Er ófær um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar.“

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að það sé ljóst að kærandi hvorki falli að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um fötlun né sé hún með varanlega hreyfihömlun. Þá sé kærandi ekki ófær um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar.

Í fyrirliggjandi læknisvottorði, dags. 8. október 2024, kemur fram að kærandi glími við fötlun og sé hreyfihömluð vegna einkenna frá báðum fótum. Kærandi geti ekki nýtt sér almenningssamgöngur og þurfi því ferðaþjónustu fatlaðra.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er Reykjavíkurborg skylt að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í framangreindu læknisvottorði kemur skýrt fram að kærandi glími fötlun og að hún geti ekki nýtt sér almenningssamgöngur. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þær upplýsingar hafi gefið Reykjavíkurborg tilefni til að rannsaka nánar líkamlegt ástand kæranda áður en til synjunar kom, til að mynda með því að gefa henni kost á að leggja fram ítarlegra læknisvottorð, enda vottorðið afgerandi og ekki að sjá að önnur læknisfræðileg gögn hafi legið fyrir við ákvörðunartöku.

Með vísan til þess er ákvörðun Reykjavíkurborgar felld úr gildi og málinu vísað aftur til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 4. desember 2024, um að synja umsókn A, um akstursþjónustu fatlaðs fólks, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta