Úrskurður í máli nr. IRN24090009
Þann 22. maí 2025 er í innviðaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. IRN24090009:
Kæra, kröfur og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru sem ráðuneytið móttók 3. september 2024 kærði X (hér eftir kærandi), kt. […], ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir lögreglustjóri) frá 27. júní 2024 þess efnis að synja beiðni hans um endurveitingu ökuréttar. Af kæru má ráða að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lögreglustjóra verði gert að endurveita kæranda ökurétt.
Kæruheimild er í 5. mgr. 105. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.
Málsatvik
Kærandi var sviptur ökurétti ævilangt frá 19. mars 2014 með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli […].
Með umsókn móttekinni af lögreglustjóra 23. maí 2024 sótti kærandi um endurveitingu ökuréttar en var synjað með ákvörðun lögreglustjóra 27. júní sama ár með vísan til 2. mgr. 105 gr. umferðarlaga.
Með stjórnsýslukæru móttekinni af ráðuneytinu 3. september 2024 kærði kærandi ákvörðun lögreglustjóra til ráðuneytisins. Með tölvubréfi sama dag var lögreglustjóra gefinn kostur á að koma að frekari gögnum og athugasemdum til ráðuneytisins. Gögn og athugasemdir lögreglustjóra bárust ráðuneytinu 4. október 2024.
Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 4. október 2024 var kæranda gefinn kostur á að gæta andmæla gagnvart sjónarmiðum lögreglustjóra. Með tölvubréfi dags. 14. október 2024 bárust ráðuneytinu athugasemdir frá kæranda.
Sjónarmið kæranda
Í athugasemdum kæranda segir m.a. að hann hafi reynt að borga af skuld vegna dóms frá árinu 2014 án árangurs. Utan þess kveðst kærandi vera með hreint sakarvottorð frá árinu 2014 fyrir utan tvær sáttir sem hann gekkst undir á árunum 2022 og 2023. Lýsir kærandi aðstæðum sínum frekar í athugasemdun en ekki þykir ástæða til að rekja þær frekar hér.
Athugasemdir / Umsögn
Í umsögn lögreglustjóra segir að kærandi hafi verið sviptur ökurétti ævilangt frá 19. mars 2014 með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli […]. Samkvæmt framangreindu uppfyllir kærandi skilyrði 1. mgr. 105. gr. umferðarlaga, þ.e. að svipting ökuréttar hans hafi staðið í fimm ár.
Segir jafnframt í umsögn lögreglustjóra að í 2. mgr. 105. gr. umferðarlaga komi fram að heimila megi endurveitingu samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins þegar sérstakar ástæður mæli ekki gegn því. Þá segi að við mat á umsókn vegna endurveitingar skuli m.a. litið til þess að viðkomandi hafi sýnt reglusemi og að ekki séu lengur fyrir hendi þær ástæður sem ökuleyfissviptingin byggðist á. Við matið skuli litið til brotaferils samkvæmt sakarvottorði frá sviptingu, háttsemi samkvæmt málaskrá lögreglu, útistandandi sekta og sakarkostnaðar enda eigi hann rót í málarekstri vegna sviptingarinnar og umsækjandi er gjaldfær og aðstæðna umsækjanda að öðru leyti.
Lögreglustjóri greinir frá því í umsögn sinni að kærandi hafi í tvígang á sviptingartímabilinu gengist undir sátt vegna brots gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni, síðast vegna máls frá júní 2023. Enn fremur sé sakarkostnaður vegna þess máls sem leiddi til ökuleyfissviptingarinnar ógreiddur. Með hliðsjón af framanrituðu var það mat lögreglustjóra að kærandi hefði ekki sýnt þá reglusemi sem áskilin er og sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 105. gr. umferðalaga mæltu því gegn endurveitingu ökuréttar að svo stöddu. Telur lögreglustjóri að við matið hafi verið byggt á málefnalegum sjónarmiðum sem séu í beinu samhengi við það sem hafa skuli til hliðsjónar við mat á umsókn um endurveitingu ökuréttar.
Niðurstaða
Í ákvæði 1. mgr. 105. gr. umferðarlaga segir að hafi maður verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár þá geti lögreglustjóri, þegar svipting hefur staðið í þrjú ár, heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju. Hafi maður verið sviptur ökurétti ævilangt má þó eigi veita ökurétt að nýju fyrr en svipting hefur staðið í fimm ár. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var sviptur ökurétti ævilangt frá 19. mars 2014 með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli […]. Hefur sú svipting staðið í fimm ár og því ljóst að svipting kæranda hefur náð þeim tímamörkum sem kveðið er á um til þess að endurveiting ökuréttar komi til álita.
Samkvæmt 2. mgr. 105. gr. umferðarlaga er matsgrundvöllur ákvörðunar um endurveitingu ökuréttar sá að umsókn verði aðeins synjað ef sérstakar ástæður mæli með því. Ljóst er að þær ástæður verða að vera í málefnalegu og beinu samhengi við þau sjónarmið sem koma til mats við ákvörðun lögreglustjóra um hvort orðið verði við umsókn um endurveitingu ökuréttar.
Niðurstaða ráðuneytisins við endurskoðun á ákvörðun lögreglustjóra ræðst þ.a.l. af því hvort mat hans samkvæmt 2. mgr. 105. gr. umferðarlaga sé málefnalegt og forsvaranlegt og hvort sú matskennda ákvörðun sé í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og ólögfestar reglur stjórnsýsluréttarins. Mat á því hvort sérstakar ástæður mæli gegn endurveitingu ökuréttar ræðst m.a. af því hvort viðkomandi hafi sýnt reglusemi og ekki séu lengur fyrir hendi þær ástæður sem ökuleyfissviptingin byggðist á. Þá segir í ákvæðinu að við matið skuli litið til eftirfarandi þátta:
- brotaferils samkvæmt sakavottorði frá sviptingu,
- háttsemi samkvæmt málaskrá lögreglu,
- útistandandi sekta og sakarkostnaðar, enda eigi hann rót í málarekstri vegna sviptingarinnar og umsækjandi er gjaldfær,
- aðstæðna umsækjanda að öðru leyti.
Þegar litið er til sakaferils umsækjanda um endurveitingu, skv. a-lið 2. mgr. 105. umferðarlaga, þá er forsvaranlegt við matið að ljá brotum sem teljast til mismunandi brotaflokka meira eða minna vægi eftir því hvort brot af þeim toga bendi sérstaklega til óreglu. Þá verður að koma til skoðunar hversu langt sé liðið frá brotum kæranda en óhætt er að slá því föst að því lengra sem liðið er frá broti því minna vægi hafi það nema það sé í kjölfarið ítrekað.
Varðandi háttsemi kæranda samkvæmt málaskrá lögreglu, þá er það hlutverk lögreglustjóra að tilgreina þær ástæður sem mæli sérstaklega gegn endurveitingu sé þeim til að dreifa, sbr. b-lið 2. mgr. 105. gr. umferðarlaga. Það sama gildir um c-lið sama ákvæðis.
Þá býður d-liður ákvæðisins upp á að ýmis gögn sem lúta að meðferðarúrræðum eða renna stoðum undir að viðkomandi sýni af sér reglusemi séu lögð fram af hálfu umsækjanda um endurveitingu ökuréttar. Slík gögn gætu verið kæranda til hagsbóta og vegið upp á móti atriðum sem benda til óreglu með því að renna stoðum undir reglusemi kæranda. Verða engar ályktanir dregnar um hagi kæranda nema út frá fyrirliggjandi gögnum.
Ráðuneytið hefur yfirfarið forsendur og sjónarmið lögreglustjóra sem og önnur gögn málsins. Það er mat ráðuneytisins að framangreind brot kæranda á sviptingartímabilinu hafi töluvert vægi þegar mat er lagt á hvort sérstakar aðstæður mæli gegn endurveitingu ökuréttar samkvæmt áðurnefndu ákvæði 105. gr. umferðarlaga. Bendi upplýsingar frá lögreglu til þess að ekki sé uppfyllt það skilyrði 2. mgr. 105. gr. umferðarlaga að umsækjandi hafi sýnt af sér reglusemi, sbr. einnig 2. gr. reglugerðar nr. 706/2004 um endurveitingu ökuréttar. Kærandi gekkst sem fyrr segir undir tvær sáttir vegna brota gegn lögum um ávana og fíkniefni þann 14. ágúst 2022 og 16. júní 2023, sbr. mál […] og […].
Í ljósi þess skamma tíma sem liðinn var frá síðustu sátt kæranda og þegar hann sótti um endurveitingu ökuréttar er það mat ráðuneytisins að forsvaranlegt sé að líta til þess atviks við mat á því hvort kærandi uppfylli skilyrðin fyrir endurveitingu ökuréttar. Því séu að mati ráðuneytisins fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæla gegn því að kæranda verði veittur ökuréttur að nýju, sbr. 2. mgr. 105. gr. umferðarlaga. Samkvæmt framangreindu er það því mat ráðuneytisins að ekki sé unnt að fallast á beiðni kæranda um að hin kærða ákvörðun lögreglustjóra verði felld úr gildi.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 27. júní 2024 um að synja umsókn X um endurveitingu ökuréttar.