Úrskurður félags- og húsnæðismálaráðuneytis 16/2025
Föstudaginn 4. júlí 2025, var í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, nú félags- og húsnæðismálaráðuneyti, sbr. forsetaúrskurð nr. 4/2025, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, dags. 3. apríl 2023, sbr. einnig tölvubréf, dags. 9. maí 2023, kærði […], kt. […], ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins, dags. 31. mars 2023, um að banna honum að hafa með höndum tiltekinn rekstur sem hann hafi stofnað til þar sem reksturinn teljist ósamrýmanlegur starfi hans hjá stofnuninni.
Málsatvik og málsástæður
Mál þetta varðar ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um að banna […]að hafa með höndum tiltekinn rekstur sem hann hafi stofnað til þar sem reksturinn teljist ósamrýmanlegur starfi hans hjá stofnuninni. Vísar Vinnueftirlit ríkisins í þessu sambandi meðal annars til 20. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hann ákvörðunina til ráðuneytisins með erindi, dags. 3. apríl 2023.
Erindi kæranda var sent Vinnueftirliti ríkisins til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 22. maí 2023, og var stofnuninni veittur frestur til 7. júní sama ár til að veita ráðuneytinu umbeðna umsögn. Umsögn Vinnueftirlits ríkisins barst ráðuneytinu þann 5. júní 2023.
Með bréfi ráðuneytisins, dags. 8. júní 2023 var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri við ráðuneytið athugasemdum sínum við umsögn Vinnueftirlits ríkisins og var frestur veittur til 23. júní sama ár. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu þann 23. júní 2023.
Með tölvubréfi Vinnueftirlits ríkisins til ráðuneytisins, dags. 13. júlí 2023, upplýsti stofnunin ráðuneytið um að kærandi hefði sagt upp starfi sínu hjá stofnuninni frá og með 1. júlí 2023.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 20. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, er kveðið á um að áður en starfsmaður hyggst, samhliða starfi sínu, taka við launuðu starfi í þjónustu annars aðila, ganga í stjórn atvinnufyrirtækis eða stofna til atvinnurekstrar beri honum að skýra því stjórnvaldi, er veitti starfið, frá því. Jafnframt er kveðið á um að innan tveggja vikna skuli starfsmanni skýrt frá því ef áðurnefnd starfsemi telst ósamrýmanleg starfi hans og honum bannað að hafa hana með höndum. Þá er kveðið á um að bera megi slíkt bann undir hlutaðeigandi ráðherra. Í framangreindu ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er því kveðið á um þær reglur sem skulu gilda um launuð aukastörf ríkisstarfsmanna samhliða aðalstarfi eins og slíkt starf er skilgreint í 1. gr. laganna.
Í máli þessu er kærð ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um að banna kæranda, með vísan til fyrrnefndrar 20. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að hafa með höndum tiltekinn rekstur sem hann hafi stofnað til þar sem reksturinn teljist ósamrýmanlegur þáverandi starfi hans hjá stofnuninni. Í ljósi þess að fram kemur í gögnum málsins að kærandi hafi sagt upp starfi sínu hjá Vinnueftirliti ríkisins frá og með 1. júlí 2023 er það mat ráðuneytisins að ekki séu fyrir hendi lögvarðir hagsmunir kæranda af því að fá úrlausn í máli þessu á æðra stjórnsýslustigi og því beri að vísa málinu frá ráðuneytinu.
Með vísan til framangreinds er það mat ráðuneytisins að vísa beri máli þessu frá ráðuneytinu.
Úrskurðarorð
Stjórnsýslukæru […], dags. 3. apríl 2023, vegna ákvörðunar Vinnueftirlits ríkisins um að banna honum að hafa með höndum tiltekinn rekstur sem hann hafi stofnað til, þar sem reksturinn teljist ósamrýmanlegur starfi hans hjá stofnuninni, er vísað frá ráðuneytinu.