Úrskurður félags- og húsnæðismálaráðuneytis 3/2025
Föstudaginn 4. apríl 2025 var í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, nú félags- og húsnæðismálaráðuneyti, sbr. forsetaúrskurð nr. 4/2025, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, dags. 13. júní 2023, kærði […], lögmaður, fyrir hönd Laugalækjar ehf., kt. 420516-2660, og […], sem er ríkisborgari Filippseyja, fd. […], ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. maí 2023, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […] í því skyni að ráða sig til starfa hjá Laugalæk ehf.
I. Málavextir og málsástæður.
Mál þetta varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […], sem er ríkisborgari Filippseyja, í því skyni að ráða sig til starfa hjá Laugalæk ehf. Sótt hafði verið um umrætt atvinnuleyfi á grundvelli 9. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, vegna skorts á starfsfólki.
Fyrrnefndri ákvörðun vildu kærendur ekki una og kærðu þeir ákvörðunina til ráðuneytisins með erindi, dags. 13. júní 2023, sbr. einnig erindi til ráðuneytisins, dags. 25. september 2023, þar sem greinargerð kærenda barst ráðuneytinu. Í erindi kærenda er þess krafist að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi og að ráðuneytið leggi fyrir Vinnumálastofnun að taka umsókn kærenda um tímabundið atvinnuleyfi til meðferðar að nýju.
Í erindi kærenda kemur meðal annars fram að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi hafið veitingarekstur á árinu 2016 en um sé að ræða rekstur kaffihúss í Reykjavík. Sótt hafi verið um tímabundið atvinnuleyfi til handa viðkomandi útlendingi en honum hafi verið ætlað að gegna starfi matreiðslumanns og gæðastjóra á fyrrnefndu kaffihúsi. Þá kemur fram að kærendur hafni þeirri ályktun sem fram hafi komið í ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að skortur á starfsfólki sé tímabundið ástand og telja kærendur rökstuðning stofnunarinnar þar að lútandi ekki byggðan á staðreyndum. Um það leyti sem sótt hafi verið um tímabundið atvinnuleyfi til handa viðkomandi útlendingi hafi að mati kærenda verið einn mesti skortur á starfsfólki á innlendum vinnumarkaði frá því fyrir efnahagshrun. Máli sínu til stuðnings benda kærendur meðal annars á könnun sem Seðlabanki Íslands og Samtök atvinnulífsins hafi látið gera í júní 2022. Frá þeim tíma hafi hlutaðeigandi atvinnurekandi leitað eftir starfsmanni með aðstoð Vinnumálastofnunar þar sem almennar atvinnuauglýsingar hafi ekki skilað árangri og hafi þeir umsækjendur sem hafi sótt um starfið í gegnum vef Vinnumálastofnunar ekki uppfyllt þær kröfur sem hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi gert til þess sem ráðinn yrði til að gegna starfinu.
Í erindi kærenda kemur einnig fram að hlutaðeigandi atvinnurekanda berist reglulega tölvupóstar frá einstaklingum innan Evrópska efnahagsvæðisins sem séu í atvinnuleit en oftast séu þeir að sækjast eftir sumarstarfi eða tímabundnu starfi. Erfitt sé fyrir hlutaðeigandi atvinnurekanda að ráða fólk sem er búsett erlendis en er ekki skráð í þjóðskrá eða með íslenska kennitölu. Fram kemur að hlutaðeigandi atvinnurekanda hafi jafnframt þótt erfitt að átta sig á hvort umsækjandi um starfið sé góður kostur nema að viðkomandi hafi tekið að minnsta kosti eina prufuvakt. Hafi það því að mati hlutaðeigandi atvinnurekanda ekki komið til álita að ráða starfsfólk sem hafi verið búsett á Evrópska efnahagssvæðinu án þess að vita nokkuð um vinnubrögð þess. Þá kemur fram að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi einnig leitað eftir aðstoð Vinnumálastofnunar við ráðningu starfsfólks og meðal annars ráðið til starfa einstakling með skerta starfsgetu, fengið ráðningarstyrk til að ráða einstaklinga sem skráðir hafa verið án atvinnu hjá stofnuninni auk þess sem hann hafi ráðið til starfa einstaklinga á grundvelli tímabundins atvinnuleyfis vegna náms.
Í erindi kærenda er einnig bent á að umsóknarferlið í tengslum við umrætt atvinnuleyfi hafi hafist fyrir ári síðan og enn sé skortur á starfsfólki hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda. Því til stuðnings er í erindi kærenda bent á greiningu á vinnuafli sem kynnt hafi verið á menntadegi atvinnulífsins þann 27. mars 2023 sem og tölur um útgefin atvinnuleyfi innan Evrópusambandsins sem séu í sögulegri lækkun að mati kærenda. Þá er í erindi kærenda bent á að nýlega hafi verið gerðar breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem að mati kærenda gefi til kynna skilning stjórnvalda á þörf atvinnurekenda til að geta ráðið til sín starfsfólk utan innlends vinnumarkaðar.
Í erindi kærenda kemur enn fremur fram að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi reynt til þrautar að leita eftir starfsfólki á Íslandi og innan Evrópska efnahagssvæðisins, meðal annars með aðstoð Vinnumálastofnunar, áður en hann hafi loksins fundið einstakling með þekkingu og starfsreynslu til að gegna starfinu. Þá hafi viðkomandi útlendingur gegnt hlutastarfi hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda, eftir að honum hafi verið veitt tímabundið atvinnuleyfi vegna náms, en að mati kærenda eigi stjórnvöld ekki að standa í vegi fyrir ráðningu starfsfólks þegar augljóst sé að slíkt sé ekki til hagsbóta fyrir atvinnurekendur í landinu.
Erindi kærenda var sent Vinnumálastofnun til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 3. október 2023, og var stofnuninni veittur frestur til 25. október 2023 til að veita umbeðna umsögn. Með tölvupóstum til ráðuneytisins, dags. 16. nóvember 2023 og 13. desember sama ár, óskaði Vinnumálastofnun eftir fresti til að skila umbeðinni umsögn til ráðuneytisins og var viðbótarfrestur veittur.
Í umsögn Vinnumálastofnunar, dags. 22. desember 2023, kemur meðal annars fram að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi auglýst laust til umsóknar starf umsjónarmanns gæðamála á umræddu kaffihúsi á vef stofnunarinnar þann 28. desember 2022 og hafi umsóknarfrestur verið tilgreindur til 4. febrúar 2023. Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar hafi að minnsta kosti átta umsóknir borist hlutaðeigandi atvinnurekanda um starfið með milligöngu stofnunarinnar en einnig hafi einstaklingar getað sent umsóknir sínar beint til atvinnurekandans án milligöngu stofnunarinnar. Í umsögn Vinnumálastofnunar kemur fram að enginn þeirra sem sótt hafi um starfið með milligöngu stofnunarinnar hafi verið ráðinn í starfið en hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi vísað til þess að umsækjendur hafi ekki verið með viðeigandi reynslu af eldhússtörfum og gæðaeftirliti. Þá hafi hlutaðeigandi atvinnurekandi einnig vísað til þess að einn umsækjandi hafi komið til greina í starfið að hans mati en viðkomandi hafi verið ráðinn annars staðar.
Enn fremur kemur fram í umsögn Vinnumálastofnunar að umrætt starf sé samkvæmt starfslýsingu starf matreiðslumanns og gæðastjóra í eldhúsi en í starfinu felist meðal annars að fylgjast með hitastigi á kælum og geymslum, finna lausnir til að lágmarka matarsóun, fylgjast með þrifastöðlum í eldhúsi og taka þátt í þjálfun nýs starfsfólks í samvinnu við stjórnendur. Fram kemur að það hafi verið mat Vinnumálastofnunar, með hliðsjón af þeim upplýsingum sem hafi legið fyrir, að um hafi verið að ræða hefðbundið starf við umsjón í eldhúsi á veitingastað hlutaðeigandi atvinnurekanda, ekki síst þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að gerðar væru kröfur til þess einstaklings sem ráðinn yrði til að gegna starfinu umfram kröfur um almennt hæfi, almenna menntun og/eða almenna starfsreynslu/þjálfun. Með vísan til framangreinds hafi það verið mat Vinnumálastofnunar að ekki hafi verið forsendur fyrir þeirri fullyrðingu kærenda að ekki hafi fengist fólk til að gegna umræddu starfi, enda liggi fyrir að enginn þeirra umsækjenda sem stofnunin hafi haft milligöngu um hafi verið ráðinn í starfið.
Með bréfi ráðuneytisins, dags. 2. janúar 2024, var kærendum gefinn kostur á að koma á framfæri við ráðuneytið athugasemdum við umsögn Vinnumálastofnunar og var frestur veittur til 17. janúar 2024.
Þann 17. janúar 2024 bárust ráðuneytinu athugasemdir kærenda þar sem meðal annars kemur fram að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi ekki að ástæðulausu lagt í töluverða vinnu við að ráða viðkomandi útlending en erfiðlega hafi gengið að manna þá stöðu sem honum hafi verið ætlað að gegna. Enn fremur ítreka kærendur að hlutaðeigandi atvinnurekandi hafi gert tilraunir til að ráða starfsfólk sem þegar hafi haft aðgengi að innlendum vinnumarkaði og hafni kærendur því að hægt sé að gera þá kröfu að hvaða umsækjandi sem er verði ráðinn í starfið einfaldlega vegna þess að hann hafi sótt um starfið. Þá telja kærendur að Vinnumálastofnun hafi ekki litið til málefnalegra sjónarmiða þegar stofnunin tók ákvörðun í málinu auk þess sem kærendur ítreka fyrri sjónarmið sín í málinu.
II. Niðurstaða.
Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, er atvinnurekanda og útlendingi sameiginlega heimilt að kæra til félags- og húsnæðismálaráðuneytis ákvörðun Vinnumálastofnunar á grundvelli laganna. Í máli þessu er kærð ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. maí 2023, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis vegna skorts á starfsfólki, sbr. 9. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.
Atvinnuleyfi vegna starfa útlendinga á innlendum vinnumarkaði eru veitt í samræmi við lög um atvinnuréttindi útlendinga, reglugerðir sem settar eru með heimild í þeim lögum og stefnu íslenskra stjórnvalda hverju sinni að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga þeirra.
Samkvæmt 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna tiltekins starfs hér á landi þegar starfsfólk fæst hvorki á innlendum vinnumarkaði né innan Evrópska efnahagssvæðisins, í EFTA-ríkjum eða í Færeyjum. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæðinu eru meðal annars að skilyrði 1. mgr. 7. gr. laganna séu uppfyllt. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 7. gr. laganna er það skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis að starfsfólk fáist hvorki á innlendum vinnumarkaði né innan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA-ríkja eða Færeyja eða aðrar sérstakar ástæður mæli með veitingu atvinnuleyfis. Þá er tekið fram að áður en atvinnuleyfi er veitt beri atvinnurekanda að hafa leitað eftir starfsfólki með aðstoð Vinnumálastofnunar nema slík leit sé fyrirsjáanlega árangurslaus að mati stofnunarinnar.
Í athugasemdum við 7. gr. a frumvarps þess er varð að gildandi 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. lög nr. 78/2008, um breytingu á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og lögum nr. 47/1997, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, kemur fram að ákvæðið fjalli um tímabundið atvinnuleyfi sem ætlað er að mæta tímabundnum sveiflum í íslensku atvinnulífi. Gert sé „ráð fyrir að einungis reyni á ákvæði þetta við sérstakar aðstæður enda mikil áhersla lögð á að atvinnurekendur leiti fyrst eftir starfsfólki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Áfram er því gert ráð fyrir því að atvinnurekandi þurfi að færa sérstök rök fyrir nauðsyn þess að ráða til sín erlent starfsfólk frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins enda verði höfð hliðsjón af aðstæðum á innlendum vinnumarkaði við veitingu atvinnuleyfa sem og hvort vinnuafl fáist frá aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EFTA-ríkjum eða Færeyjum. Er gert ráð fyrir að ríkar kröfur verði gerðar til atvinnurekenda svo talið verði fullreynt að finna starfsfólk með aðstoð Vinnumálastofnunar sem þegar hefur aðgengi að innlendum vinnumarkaði en mat á þörf eftir vinnuafli verður áfram á ábyrgð Vinnumálastofnunar.“ Er jafnframt vísað til athugasemda við 5. gr. frumvarpsins er varð að gildandi 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Þar er tekið fram að atvinnurekandi verði að gera grein fyrir þeim tilraunum sem hann hafi gert til að ráða fólk sem þegar hafi aðgengi að innlendum vinnumarkaði auk þess sem áhersla er lögð á að atvinnurekendur leiti fyrst eftir starfsfólki innan Evrópska efnahagssvæðisins með aðstoð Vinnumálastofnunar með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, áður en leitað sé út fyrir svæðið eftir starfsfólki. Þá segir að það falli „í hlut Vinnumálastofnunar að kanna sjálfstætt áður en atvinnuleyfi er veitt hvert atvinnuástandið innan lands er á hverjum tíma og hvort útséð er um að vinnuafl fáist innan Evrópska efnahagssvæðisins, frá EFTA-ríkjum eða Færeyjum, sbr. a-lið 1. mgr. ákvæðis þessa, enda hlutverk stofnunarinnar að fylgjast með atvinnuástandi í landinu í því skyni að koma í veg fyrir atvinnuleysi eins og frekast er unnt.“
Af efni ákvæðis a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga má því ráða að mat Vinnumálastofnunar á því hvort skilyrði ákvæðisins fyrir veitingu tímabundinna atvinnuleyfa séu uppfyllt skuli aðallega byggjast á aðstæðum á innlendum vinnumarkaði hverju sinni sem og á því hvort starfsfólk fáist innan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA-ríkja eða Færeyja. Þar á meðal er átt við hið lögbundna hlutverk Vinnumálastofnunar að meta hvort leit atvinnurekanda að starfsmanni, sem þegar hefur heimild til að ráða sig til starfa án takmarkana á innlendum vinnumarkaði, sé fyrirsjáanlega árangurslaus og þar með ekki nauðsynlegt skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis. Beiðni um aðstoð Vinnumálastofnunar við leit að starfsfólki sem þegar hefur heimild til að ráða sig til starfa án takmarkana á innlendum vinnumarkaði er því lögbundið skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis, enda telji stofnunin leitina ekki fyrirsjáanlega árangurslausa.
Við mat á því hvort skilyrði a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga séu uppfyllt ber Vinnumálastofnun jafnframt að líta til skuldbindinga íslenskra stjórnvalda samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að skapa skilyrði fyrir fulla atvinnu, bætt lífskjör og bætt starfsskilyrði á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. einnig lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Ákvæði 28.-30. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið fjalla sérstaklega um frjálsa för launafólks og eru ákvæðin nánar útfærð í gerðum um þetta efni sem hafa verið felldar undir V. viðauka samningsins. Samkvæmt reglugerð nr. 492/2011/ESB, um frjálsa för launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem tekið hefur gildi hér á landi, sbr. lög nr. 105/2014, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, skal sérhver ríkisborgari annars aðildarríkis njóta þeirra réttinda að ráða sig til starfa á yfirráðasvæði annars aðildarríkis með sama forgangsrétti og ríkisborgarar þess ríkis. Er þar jafnframt kveðið á um náið samstarf vinnumiðlana aðildarríkjanna um miðlun lausra starfa innan svæðisins. Það telst því felast í skuldbindingum íslenskra stjórnvalda samkvæmt framangreindum samningi að þau veiti einstaklingum sem eru ríkisborgarar annarra aðildarríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins sama aðgang og íslenskir ríkisborgarar hafa að lausum störfum á innlendum vinnumarkaði og þar með forgang fram yfir ríkisborgara ríkja utan svæðisins að þeim störfum.
Það er því jafnframt lögbundið skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis vegna skorts á starfsfólki á grundvelli 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga að atvinnurekandi hafi áður leitað aðstoðar Vinnumálastofnunar við leit að starfsfólki innan Evrópska efnahagssvæðisins með milligöngu EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, eftir að leit hans innanlands hefur ekki skilað árangri. Jafnframt eru gerðar ríkar kröfur til atvinnurekenda svo talið verði fullreynt að finna starfsfólk með aðstoð Vinnumálastofnunar sem þegar hefur heimild til að ráða sig til starfa án takmarkana á innlendum vinnumarkaði.
Fram kemur í gögnum málsins að eftir að hafa lagt mat á aðstæður á innlendum vinnumarkaði hafi Vinnumálastofnun talið að meginregla ákvæðis a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga ætti við í máli þessu og því nauðsynlegt skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis að talið væri fullreynt að ráða einstakling í umrætt starf með aðstoð stofnunarinnar sem þegar hefði heimild til að ráða sig til starfa án takmarkana á innlendum vinnumarkaði.
Að mati ráðuneytisins verður ekki annað séð en að mat Vinnumálastofnunar þess efnis að hlutaðeigandi atvinnurekanda hafi borið að óska eftir aðstoð stofnunarinnar við leit að starfsmanni sem þegar hefur heimild til að ráða sig til starfa án takmarkana á innlendum vinnumarkaði hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Þá verður að mati ráðuneytisins ekki annað ráðið af gögnum málsins en að sótt hafi verið um tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs í eldhúsi fyrir ófaglærðan einstakling. Á það ekki síst við í ljósi þess að ekki verður ráðið af gögnum málsins að gerð hafi verið krafa um að sá sem ráðinn yrði til að gegna umræddu starfi hafi lokið tiltekinni menntun eða hafi tiltekin iðnréttindi auk þess sem fram kemur í gögnum málsins að launakjör hafi átt að taka mið af kjarasamningi Eflingar stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins en algengt er að launakjör ófaglærðra starfsmanna á vinnumarkaði taki mið af þeim samningi.
Við framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga hefur meðal annars verið lögð áhersla á mikilvægi þess að viðhaldið sé jafnvægi milli framboðs á starfsfólki og eftirspurnar eftir því á innlendum vinnumarkaði. Er því jafnframt þýðingarmikið að horfa til þeirra langtímaáhrifa sem útgáfa tímabundinna atvinnuleyfa getur haft á jafnvægi á vinnumarkaði hvað varðar framboð og eftirspurn eftir starfsfólki.
Það fellur ávallt í hlut atvinnurekenda að leita fyrst eftir starfsfólki á innlendum vinnumarkaði og á sameiginlegum vinnumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins áður en atvinnuleyfi er veitt á grundvelli 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga vegna skorts á starfsfólki. Ríkar kröfur eru því gerðar til atvinnurekenda svo talið verði fullreynt að finna starfsfólk sem þegar hefur heimild til að ráða sig til starfa án takmarkana á innlendum vinnumarkaði með aðstoð Vinnumálastofnunar áður en skilyrði fyrir veitingu tímabundinna atvinnuleyfa vegna starfa ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins eru talin uppfyllt, enda þótt ætla verði atvinnurekendum ákveðið svigrúm varðandi þær kröfur sem þeir gera til starfsfólks sem hjá þeim starfar.
Fram kemur í gögnum málsins að umrætt starf hafi verið auglýst laust til umsóknar með milligöngu Vinnumálastofnunar þann 28. desember 2022 og að hlutaðeigandi atvinnurekanda hafi í kjölfarið borist að minnsta kosti átta umsóknir um starfið en auk þess hafi einstaklingar getað sótt um starfið beint til hlutaðeigandi atvinnurekanda án milligöngu stofnunarinnar. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins var enginn þeirra einstaklinga sem sóttu um umrætt starf með milligöngu Vinnumálastofnunar ráðinn til að gegna starfinu.
Það er mat ráðuneytisins að í ljósi framangreinds hafi ekki verið fullreynt að ráða einstakling í það starf sem hér um ræðir sem þegar hefur heimild til að ráða sig til starfa án takmarkana á innlendum vinnumarkaði. Á það ekki síst við þegar litið er til þess að ráða má af gögnum málsins að um sé að ræða starf fyrir ófaglærðan einstakling sem og þess fjölda umsókna sem barst hlutaðeigandi atvinnurekanda í kjölfar þess að hann auglýsti starfið laust til umsóknar. Þá verður að mati ráðuneytisins jafnframt að telja málefnalegt í ljósi alls framangreinds að gera þá kröfu að hlutaðeigandi atvinnurekandi ráði starfsmann til að gegna starfinu sem þegar hefur heimild til að ráða sig til starfa án takmarkana á innlendum vinnumarkaði.
Þegar litið er til aðstæðna á innlendum vinnumarkaði, skuldbindinga íslenskra stjórnvalda samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. einnig lög nr. 105/2014, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, eðli þess starfs sem um ræðir, sem og gagna málsins í heild, er það mat ráðuneytisins að í máli þessu hafi ekki verið sýnt fram á að fullreynt hafi verið að ráða einstakling í umrætt starf, hvorki af innlendum vinnumarkaði né af sameiginlegum vinnumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins, sem þegar hefur heimild til að ráða sig til starfa án takmarkana á innlendum vinnumarkaði.
Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að skilyrði 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis vegna skorts á starfsfólki, hafi ekki verið uppfyllt í máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. maí 2023, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […], sem er ríkisborgari Filippseyja, í því skyni að ráða sig til starfa hjá Laugalæk ehf., skal standa.