Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir félags- og húsnæðismálaráðuneytisins

Úrskurður félags- og húsnæðismálaráðuneytis 9/2025

Fimmtudaginn 8. maí 2025 var í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, nú félags- og húsnæðismálaráðuneyti, sbr. forsetaúrskurð nr. 4/2025, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, dags. 5. desember 2023, kærði Eining-Iðja, stéttarfélag, fyrir hönd […], ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 16. október 2023, um synjun á ábyrgð sjóðsins á kröfu kæranda á hendur þrotabúi Matsmiðjunnar ehf., kt. 670697-2239.

 

Málavextir og málsástæður

Mál þetta varðar ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um synjun á ábyrgð sjóðsins á kröfu kæranda á hendur þrotabúi Matsmiðjunnar ehf. um vangreitt orlof sem og vangreidda orlofs- og desemberuppbót. 

 

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hann ákvörðunina til ráðuneytisins með erindi, dags. 5. desember 2023, með vísan til 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.

 

Í erindi kæranda kemur meðal annars fram að hlutaðeigandi félag hafi verið úrskurðað gjaldþrota þann 27. október 2022 og að innköllun hafi verið birt í Lögbirtingablaði þann 4. nóvember sama ár. Fram kemur að þegar félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota hafi kærandi þegar verið búinn að ganga frá starfslokum sínum og hafi október 2022 verið síðasti mánuðurinn sem kærandi hafi starfað hjá félaginu. Kærandi hafi því verið hættur störfum þegar félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta en félagið hafi séð til þess að starfsfólk hafi fengið greidd laun fyrir vinnu sína allt fram að gjaldþroti félagsins. 

 

Í erindi kæranda kemur fram að samkvæmt launaseðlum í tengslum við störf kæranda hjá félaginu hafi orlof verið reiknað ofan á laun og síðan hafi sama fjárhæð verið dregin frá og lögð inn á orlofsreikning á nafni kæranda, líkt og algengt sé. Enn fremur kemur fram að þegar sá háttur sé hafður á sé venjan sú að mati kæranda að umræddir orlofsreikningar séu læstir þar til starfsfólk fái aðgang að orlofi sínu í maímánuði ár hvert. Við starfslok kæranda hjá félaginu hafi kærandi gert ráð fyrir að félagið hefði lagt fyrrnefnd orlofslaun inn á orlofsreikning á nafni kæranda um hver mánaðamót og að kærandi myndi fá orlofslaunin greidd í maí 2023. Það hafi síðar komið í ljós, þegar kærandi hafi fengið orlofslaunin greidd sem hafi verið á fyrrnefndum orlofsreikningi, að félagið hafi ekki lagt inn á orlofsreikninginn í samræmi við það sem fram komi á fyrrnefndum launaseðlum. Þegar kærandi hafi áttað sig á þessu hafi hann leitað til síns stéttarfélags. Þar sem frestur til að lýsa kröfu í þrotabúið hafi verið liðinn hafi kærandi fengið samþykki annarra kröfuhafa í þrotabúið fyrir því að krafan kæmist að í búinu og hafi skiptastjóri samþykkt kröfuna eftir að leyfi kröfuhafa hafi legið fyrir. Þegar stéttarfélagið hafi fengið málið í sínar hendur hafi það einnig uppgötvast að kærandi hafi ekki fengið greidda hlutfallslega desember- og orlofsuppbót og því sé einnig gerð krafa um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa hvað það varðar. 

 

Í erindi kæranda kemur jafnframt fram að á þessum tíma hafi sex mánaða frestur til að fá kröfu tekna til greina hjá Ábyrgðasjóði launa, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nýlega verið liðinn. Í því sambandi bendir kærandi á að samkvæmt sömu grein sé unnt að fá kröfu tekna til greina hafi hún borist innan 12 mánaða, að því gefnu að sýnt sé fram á að ekki hafi verið hægt að gera kröfuna fyrr. 

 

Fram kemur í erindinu að kærandi telji eðlilegt að fólk fylgist almennt ekki reglulega með stöðu á orlofsreikningum sínum þegar skýrt komi fram á launaseðlum að orlofslaun hafi verið lögð inn á þar til gerðan reikning. Við útgreiðslu orlofslauna sé hins vegar eðlilegt að mati kæranda að farið sé yfir hvort greiðslur hafi verið réttar. Það hafi því verið eðlilegt að mati kæranda að hann hafi ekki áttað sig á að ekki hafi öll orlofslaun verið lögð inn á orlofsreikninginn. Þá bendir kærandi einnig á að hann hafi verið staddur erlendis um það leyti sem hlutaðeigandi félag hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Eins og áður hafi komið fram hafi kærandi á þeim tíma ekki lengur starfað hjá hlutaðeigandi félagi og hafi hann staðið í þeirri trú að hann hefði fengið öll sín laun greidd frá félaginu. 

 

Kærandi byggir á því að af ofangreindum ástæðum hafi ekki verið hægt að gera umrædda kröfu fyrr. Það sé því mat kæranda að skilyrði 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa séu uppfyllt og því sé eðlilegt að Ábyrgðasjóður launa ábyrgist umrædda kröfu. 

 

Erindi kæranda var sent Ábyrgðasjóði launa til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 12. desember 2023, og var sjóðnum veittur frestur til 8. janúar 2024 til að veita ráðuneytinu umsögn sína. Þar sem umsögn Ábyrgðasjóðs launa barst ráðuneytinu ekki innan þess frests sem veittur hafði verið ítrekaði ráðuneytið beiðni sína um umsögn sjóðsins með bréfi, dags. 24. janúar 2024.

 

Í umsögn Ábyrgðasjóðs launa, dags. 19. febrúar 2024, kemur meðal annars fram að umsókn kæranda hafi borist sjóðnum 26. maí 2023 en krafan hafi verið tilkomin vegna vangreidds orlofs sem og vegna vangreiddrar orlofs- og desemberuppbótar. Jafnframt kemur fram að bú hlutaðeigandi félags hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 27. október 2022 en innköllun í Lögbirtingablaði hafi verið birt þann 4. nóvember sama ár. Að auki kemur fram að þann 16. október 2023 hafi stjórn Ábyrgðasjóðs launa tekið ákvörðun um að synja kröfu kæranda, með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, í ljósi þess að krafa hafi verið gerð á hendur sjóðnum eftir að sex mánuðir voru liðnir frá birtingu innköllunar hlutaðeigandi félags í Lögbirtingablaði og ekki hafi verið sýnt fram á að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr. 

 

Í umsögn Ábyrgðasjóðs launa kemur einnig fram að lög um Ábyrgðasjóð launa gildi um greiðslur til launamanna úr sjóðnum vegna vangoldinna krafna við gjaldþrot vinnuveitanda. Frestur til að gera kröfu á hendur sjóðnum komi fram í 12. gr. laganna en samkvæmt ákvæðinu verði krafa aðeins tekin til greina hafi hún borist sjóðnum innan sex mánaða frá birtingu innköllunar í bú vinnuveitanda í Lögbirtingablaði en slík birting ráði lokum kröfulýsingarfrests í hlutaðeigandi bú. Fram kemur að í ákvæðinu sé jafnframt kveðið á um að stjórn Ábyrgðasjóðs launa sé þó heimilt að taka til greina kröfu sem berst innan 12 mánaða frá birtingu innköllunar ef sýnt sé fram á að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr. 

 

Í umsögninni kemur auk þess fram að þar sem umsókn kæranda hafi borist sjóðnum eftir að sex mánaða frestur frá birtingu innköllunar í Lögbirtingablaði hafi verið liðinn hafi stjórn sjóðsins tekið kröfuna til umfjöllunar en komist að þeirri niðurstöðu að krafan hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Fram kemur að það hafi verið mat stjórnarinnar að það að kröfuhafi hafi verið erlendis um tíma og hafi ekki áttað sig á því fyrr en í maí 2023 að hann kynni að eiga kröfu á hendur hlutaðeigandi félagi geti ekki talist nægjanleg rök fyrir því að ekki hafi verið hægt að gera kröfuna fyrr. Þá kemur fram í umsögninni að almennt megi gera þá kröfu til launafólks að það skoði launaseðla og kanni hvort staðið hafi verið skil á launum, orlofsgreiðslum og lífeyrissjóðsgreiðslum, en sérstaka kröfu verði að gera til launafólks þegar atvinnurekandi verði gjaldþrota. Í tilviki kæranda hefði honum jafnframt átt að vera ljóst að hann hefði ekki fengið greiddar aðrar launauppbætur eins og desember- og orlofsuppbót. 

 

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 21. júní 2024, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn Ábyrgðasjóðs launa og var frestur veittur til 5. júlí sama ár. Athugasemdir kæranda við umsögn Ábyrgðasjóðs launa bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 2. júlí 2024. 

 

Í bréfinu kemur meðal annars fram að kærandi geri alvarlegar athugasemdir við niðurstöðu og rökstuðning Ábyrgðasjóðs launa í málinu þessu. Þá telji kærandi að umsögn sjóðsins í málinu hafi farið langt út fyrir efni þess erindis sem málið snúist um. Að mati kæranda sé ekki litið til meginreglna kröfuréttar, vinnuréttar eða stjórnsýsluréttar þegar sjóðurinn túlki gildi launaseðla. Að einhverju leyti sé hægt að skilja sjónarmið sjóðsins varðandi hlutfallslega orlofs- og desemberuppbót, en þegar komi að orlofslaunum, sem launþegum séu tryggð með lögum um orlof, nr. 30/1987, og kjarasamningum, hafni kærandi alfarið túlkun Ábyrgðasjóðs launa þess efnis að það liggi jákvæð skylda á launþegum að sannreyna greiðslur á launaseðli. 

 

Þá segir í svarbréfi kæranda að í ljósi ofangreinds sé í fyrsta lagi nauðsynlegt að skoða túlkun á 12. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, en ákvörðun sjóðsins byggi að mati kæranda á of þröngri túlkun á 1. mgr. ákvæðisins. Þó svo að ákvæðið kveði á um sex mánaða frest til að koma fram með kröfu um ábyrgð sjóðsins veiti það einnig skýra heimild til að taka til greina kröfu sem berist innan 12 mánaða ef sýnt sé fram á að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr. Að mati kæranda sé augljóst að hann hafi ekki haft raunhæfa möguleika á að gera kröfuna fyrr, enda hafi hann verið í góðri trú um að greiðslur inn á orlofsreikning hefðu verið inntar af hendi í samræmi við það sem fram hafi komið á launaseðlum. 

 

Í svarbréfi kæranda er einnig vísað í meginreglur kröfuréttar um sönnunarbyrði en að mati kæranda sé það grundvallarregla í kröfurétti að greiðandi beri sönnunarbyrði fyrir því að greiðsla hafi farið fram. Túlkun Ábyrgðasjóðs launa snúi þessari meginreglu á hvolf að mati kæranda með því að leggja þá skyldu á launþega að sannreyna að greiðslur sem komi fram á launaseðli hafi í raun verið inntar af hendi. 

 

Þá bendir kærandi jafnframt á að skv. grein 1.11.4 í kjarasamningi Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins vegna veitinga-, gisti-, þjónustu- og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi og 7. gr. laga um orlof eigi starfsmenn rétt á að fá launaseðil með sundurgreindum liðum, þar á meðal orlofslaunum. Að mati kæranda styrki þetta væntingar starfsmanna um að upplýsingar á launaseðli séu réttar og að þeir geti treyst slíkum seðlum sem kvittun fyrir greiðslum.

 

Þá segir í svarbréfi kæranda að kærandi telji umrædda ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa brjóta gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en með því að gera þá kröfu til launþega að þeir sannreyni sérstaklega hverja einustu greiðslu sem komi fram á launaseðli sé gengið lengra en nauðsynlegt sé.

 

Jafnframt bendir kærandi á að ekki sé sjálfgefið að orlofsreikningur launþega sé í viðskiptabanka launþegans sjálfs. Auk þess sé mikilvægt að taka fram að upplýsingar um stöðu orlofsreikninga séu almennt ekki sjálfkrafa sýnilegar í netbönkum viðkomandi einstaklinga. Til að fá aðgang að slíkum upplýsingum þurfi oftast að breyta stillingum eða jafnvel hafa samband við viðkomandi banka. Að mati kæranda þýði þetta að til þess að kærandi hafi getað sannreynt stöðu orlofsreiknings síns hafi hann annað hvort þurft að fara í viðkomandi banka og biðja sérstaklega um upplýsingar um stöðu orlofsreikningsins eða kanna og breyta stillingum í netbanka sínum, sem sé ekki sjálfgefið að allir viðskiptavinir viti hvernig eigi að gera. Að gera slíkar kröfur til launafólks sé að mati kæranda hvorki sanngjarnt né í samræmi við eðlilegar væntingar í vinnuréttarsambandi. Að ætlast til að launafólk sannreyni sérstaklega allar greiðslur, sérstaklega þær sem ekki eru sýnilegar í venjulegum bankayfirlitum, sé óhófleg krafa að mati kæranda og gangi gegn grundvallarreglum um traust og áreiðanleika í viðskiptasamböndum. 

 

Í svarbréfi kæranda er einnig vísað til tilgangs og markmiða Ábyrgðasjóðs launa en túlkun sjóðsins í þessu máli gangi að mati kæranda þvert gegn tilgangi sjóðsins sem sé að tryggja launþegum greiðslu vangoldinna launa við gjaldþrot vinnuveitenda en túlkunin feli í sér óeðlilegar hindranir sem komi í veg fyrir að sjóðurinn uppfylli hlutverk sitt. 

 

Að lokum segir í svarbréfinu að kærandi leggi sérstaka áherslu á að endurskoða beri niðurstöðu Ábyrgðasjóðs launa varðandi orlofskröfuna þar sem launþegi hafi ekki haft raunhæfa möguleika á að gera kröfuna fyrr en í maí 2023 þegar orlofslaunin hafi átt að koma til greiðslu. Þetta falli að mati kæranda innan 12 mánaða frests skv. 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa og ætti því að teljast krafa sem hafi borist innan tímafrests. Auk þess telur kærandi vert að benda á að Ábyrgðasjóður launa láti sér ekki nægja að gera kröfu um að launþegar sannreyni orlofslaun heldur nái túlkun sjóðsins einnig til lögbundinna lífeyrissjóðsgreiðslna. Fram kemur að kærandi vilji vekja athygli á þessu til að undirstrika hversu víðtækt og varasamt fordæmi Ábyrgðasjóður launa sé að setja en slík túlkun gangi að mati kæranda gegn grundvallarreglum um réttindi launþega og ábyrgð vinnuveitenda.

 

Niðurstaða

Í 1. mgr. 16. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, er kveðið á um að heimilt sé að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir Ábyrgðasjóðs launa sem teknar eru á grundvelli laganna. Mál þetta lýtur að ágreiningi um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á kröfu kæranda á hendur þrotabúi vinnuveitanda.

 

Í 1. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa kemur fram að markmið laganna sé að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðslur vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitanda eða þegar dánarbú vinnuveitanda er til opinberra skipta og erfingjar ábyrgjast ekki skuldbindingar. Í 1. mgr. 2. gr. laganna er kveðið á um að starfrækja skuli Ábyrgðasjóð launa sem ábyrgist greiðslur á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningum, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi. Kröfur sem njóta ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa eru síðan nánar skilgreindar í a-e lið 5. gr. laganna en skv. c-lið ákvæðisins tekur ábyrgð sjóðsins til kröfu launamanns um orlofslaun sem réttur hefur unnist til á ábyrgðatímabili skv. 4. gr. laganna. Þá tekur ábyrgð sjóðsins til krafna launamanns í bú vinnuveitanda um vinnulaun í allt að þrjá starfsmánuði hans í þjónustu vinnuveitanda skv. a-lið ákvæðisins. Í athugasemdum við a-lið 5. gr. frumvarps þess er varð að lögum um Ábyrgðasjóð launa er tekið fram að desember- og orlofsuppbætur njóti ábyrgðar sjóðsins sem hluti af launakröfu starfsfólks.  

 

Í greinargerð með 1. gr. frumvarps þess er varð að gildandi 16. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, sbr. lög nr. 131/2005, um breytingu á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, kemur meðal annars fram að varsla Ábyrgðasjóðs launa sé á ábyrgð stjórnar sjóðsins en starfsfólk Vinnumálastofnunar annist að jafnaði afgreiðslu umsókna í umboði stjórnar Ábyrgðasjóðs launa. Þegar upp komi mál sem talið er að þarfnist nánari skoðunar sé gert ráð fyrir að starfsfólkið leggi þau mál fyrir stjórn sjóðsins sem tekur þá ákvörðun um hvernig málið skuli afgreitt. Þá kemur fram að þrátt fyrir að einstakar umsóknir hljóti þannig umfjöllun hjá stjórn sjóðsins verði öll mál afgreidd á sama stjórnsýslustigi. Því sé litið svo á að ákvörðun hafi verið tekin af stjórnvaldinu Ábyrgðasjóði launa hvort sem málið hafi hlotið umfjöllun hjá stjórn eða eingöngu hjá starfsmönnum Vinnumálastofnunar.

 

Í 1. málsl. 1. mgr. 12. laga um Ábyrgðasjóð launa er kveðið á um að krafa á hendur Ábyrgðasjóði launa verði því aðeins tekin til greina að hún berist sjóðnum innan sex mánaða frá þeirri birtingu innköllunar í bú vinnuveitanda í Lögbirtingablaði er ræður lokum kröfulýsingarfrests í búið. Í 2. málsl. sömu greinar segir að stjórn sjóðsins sé þó heimilt að taka til greina kröfu er berst innan tólf mánaða frá birtingu innköllunar ef sýnt sé að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr. 

 

Fram kemur í gögnum málsins að hlutaðeigandi félag hafi verið úrskurðað gjaldþrota þann 27. október 2022 og að innköllun hafi verið birt í Lögbirtingablaði þann 4. nóvember sama ár. Enn fremur kemur fram í gögnunum að kærandi hafi lýst kröfu í þrotabú hlutaðeigandi félags eftir lok kröfulýsingarfrests, en skiptastjóri þrotabúsins hafi þó samþykkt kröfuna eftir að hafa fengið leyfi kröfuhafa fyrir því. Jafnframt kemur fram í gögnum málsins að kærandi hafi gert kröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa þann 26. maí 2023 og var því liðinn sá sex mánaða frestur sem kveðið er á um í 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa til að gera kröfu á hendur sjóðnum. 

 

Þá kemur fram í gögnum málsins að stjórn Ábyrgðasjóðs launa hafi tekið málið til umfjöllunar og að stjórnin hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr og því ætti undantekningarákvæði 2. máls. 1. mgr. 12. gr. laganna ekki við. 

 

Að mati ráðuneytisins er í lögum um Ábyrgðasjóð launa skýrt kveðið á um þann frest sem einstaklingar hafa til að gera kröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa. Það er jafnframt mat ráðuneytisins að þegar bú atvinnurekanda er tekið til gjaldþrotaskipta hafi launafólk sem hefur starfað hjá félaginu ríka ástæðu til að fara yfir kröfur sem það kann að eiga á hendur hinu gjaldþrota félagi. 

 

Fram kemur í gögnum málsins að kærandi hafi látið af störfum hjá hlutaðeigandi félagi í sama mánuði og félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Bendir ráðuneytið í því sambandi á að samkvæmt 8. gr. laga um orlof hvílir sú skylda á atvinnurekanda að greiða launamanni öll áunnin orlofslaun hans við lok ráðningartímans. Í ljósi þess er það mat ráðuneytisins að kærandi hafi því þegar við fyrrnefnd starfslok getað gert kröfu um greiðslu áunninna orlofslauna. 

 

Að mati ráðuneytisins verður því ekki séð af gögnum málsins að sýnt hafi verið fram á að ekki hafi verið hægt að gera kröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa innan þess sex mánaða frests sem kveðið er á um í 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa og því eigi undantekningarákvæði 2. málsl. sömu greinar ekki við í máli þessu. Verður því að mati ráðuneytisins ekki annað séð en ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um synjun á ábyrgð sjóðsins á kröfu kæranda í máli þessu hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum.

 

Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að umrædd krafa á hendur Ábyrgðasjóði launa um greiðslu orlofs sem og um greiðslu orlofs- og desemberuppbótar, uppfylli ekki skilyrði laga um Ábyrgðasjóð launa fyrir ábyrgð sjóðsins.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 16. október 2023, um synjun á ábyrgð sjóðsins vegna kröfu Einingar-Iðju, stéttarfélags, fyrir hönd […], á hendur þrotabúi Matsmiðjunnar ehf., skal standa.

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta