Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir félags- og húsnæðismálaráðuneytisins

Úrskurður félags- og húsnæðismálaráðuneytis 19/2025

Fimmtudaginn 10. júlí 2025 var í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, nú félags- og húsnæðismálaráðuneyti, sbr. forsetaúrskurð nr. 4/2025, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, dags. 16. júní 2023, kærði Grundarfjarðarbær, kt. 520169-1729 (hér eftir kærandi), ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. maí 2023, um synjun um endurgreiðslu til kæranda á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, vegna veittrar aðstoðar kæranda við erlenda ríkisborgara.

 

 

Málavextir og málsástæður

Mál þetta varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. maí 2023, um synjun um endurgreiðslu til kæranda á grundvelli 15. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, vegna veittrar aðstoðar kæranda við erlenda ríkisborgara.

 

Kærandi vildi ekki una fyrrnefndri ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hann því ákvörðunina til ráðuneytisins með erindi, dags. 16. júní 2023, á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í erindi kæranda kemur meðal annars fram að Vinnumálastofnun hafi hafnað að hluta endurgreiðslubeiðni kæranda eða fjárhæð sem nemi 726.872 kr. sem sé útlagður kostnaður kæranda sem hann hafi sannanlega innt af hendi vegna aðstoðar við fjölskyldu sem saman standi af erlendum ríkisborgurum sem átt hafi lögheimili hér á landi skemur en tvö ár við brottflutning frá landinu. Um sé að ræða kostnað vegna húsaleigu og úttektar á leiguíbúð fjölskyldunnar í lok leigutíma sem og vegna viðgerða, rafmagnskostnaðar og flutningsþrifa þegar fjölskyldan hafi flutt úr húsnæðinu. Auk þess sé um að ræða kostnað vegna bílaleigubifreiðar sem flutti viðkomandi fjölskyldu til Keflavíkurflugvallar í tengslum við flutning fjölskyldunnar úr landi og túlkaþjónustu. 

 

Erindi kæranda var sent Vinnumálastofnun til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 10. október 2023, og var stofnuninni veittur frestur til 24. október 2023 til að veita umbeðna umsögn.

 

Í umsögn Vinnumálastofnunar, dags. 27. október 2023, kemur meðal annars fram að kærandi hafi þann 17. apríl 2023 sótt um endurgreiðslu til Vinnumálastofnunar vegna veittrar aðstoðar við erlenda ríkisborgara sem átt hafi lögheimili á landinu skemur en tvö ár. Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 25. maí 2023, hafi stofnunin upplýst kæranda um að stofnunin hafi tekið ákvörðun um að synja að hluta um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar kæranda vegna framangreindra einstaklinga sem endurgreiðslubeiðnin hafi lotið að, samtals að fjárhæð 726.872 kr.

 

Í umsögn sinni tekur Vinnumálastofnun fram að við umfjöllun málsins á kærustigi hafi þótt rétt að mati stofnunarinnar að samþykkja endurgreiðslu á útlögðum kostnaði kæranda að fjárhæð 9.232 kr. vegna túlkaþjónustu, sbr. 11. gr. leiðbeinandi reglna fyrir sveitarfélög um móttökuþjónustu og aðstoð við félagslega þátttöku flóttafólks. Að öðru leyti hafi Vinnumálastofnun talið að rétt hafi verið að synja um endurgreiðslu vegna útlagðs kostnaðar kæranda í tengslum við húsaleigu, rafmagn, hita og þrif sem og kostnaðar sem hafi fallið til vegna mats á skemmdum á því húsnæði sem um ræðir og viðgerða á því í kjölfar þess að umræddir einstaklingar hafi flutt út úr húsnæðinu. Fram kemur í umsögn Vinnumálastofnunar að það sé mat stofnunarinnar að fyrrnefndir kostnaðarliðir falli ekki undir 6. gr. fyrrgreindra leiðbeinandi reglna, sbr. b-lið 2. mgr. 15. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, enda sé hvorki um að ræða styrki eða lán vegna fyrirframgreiðslu eða tryggingu í tengslum við húsaleigu né húsbúnaðarstyrk. Þá verði ekki séð að mati Vinnumálastofnunar að önnur ákvæði fyrrnefndra leiðbeinandi reglna taki til umræddra kostnaðarliða auk þess sem ekki verði séð að umræddur kostnaður falli undir reglur félags- og skólaþjónustu Snæfellinga.

 

Þá kemur fram í umsögn Vinnumálastofnunar að það hafi verið mat stofnunarinnar að rétt hafi verið að synja um endurgreiðslu kostnaðar vegna bílaleigubifreiðar þar sem kostnaðurinn hafi ekki komið til vegna breyttra aðstæðna í upprunaríki viðkomandi fjölskyldu þannig að forsendur hafi skapast fyrir fjölskylduna til að hverfa þangað að nýju og setjast þar að í skilningi 10. gr. fyrrnefndra leiðbeinandi reglna, sbr. b-lið 2. mgr. 15. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá eigi önnur ákvæði leiðbeinandi reglnanna ekki við um þann kostnaðarlið að mati Vinnumálastofnunar.

 

Með bréfi ráðuneytisins til kæranda, dags. 30. október 2023, var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri við ráðuneytið athugasemdum við umsögn Vinnumálastofnunar, dags. 27. október 2023, og var frestur veittur til 6. nóvember 2023. Þar sem engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda um umsögn Vinnumálastofnunar er málið tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu.

 

 

Niðurstaða

Í 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Félags- og húsnæðismálaráðuneyti fer með mál er varða Vinnumálastofnun, þar á meðal málefni innflytjenda og einstaklinga með vernd hér á landi, sem og með mál er varða félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. f- og j-lið 2. tölul. 4. gr. forsetaúrskurðar nr. 5/2025, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Stjórnsýsla hér á landi byggist á því að ráðherra hvers málaflokks fer með yfirstjórn þeirra mála sem undir hann heyra samkvæmt gildandi forsetaúrskurði hverju sinni og sinnir hann jafnframt eftirliti með þeirri starfsemi sem fellur undir málefnasvið hans. Í ljósi framangreinds verður því að ætla að stjórnvaldsákvarðanir, þar á meðal ákvörðun um synjun um endurgreiðslu til sveitarfélags á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, vegna veittrar aðstoðar sveitarfélagsins til erlendra ríkisborgara, sem teknar eru af þar til bæru stjórnvaldi á málefnasviði félags- og húsnæðismálaráðuneytis, sæti endurskoðun ráðuneytisins í samræmi við meginreglu 26. gr. stjórnsýslulaga þar sem ekki hefur verið kveðið á um annað í öðrum lögum.

 

Í b-lið 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, er kveðið á um skyldu ríkissjóðs til að endurgreiða sveitarfélagi veitta aðstoð við erlenda ríkisborgara skv. 12. og 13. gr. laganna sem átt hafa lögheimili í landinu skemur en tvö ár. Að mati ráðuneytisins ber meðal annars að túlka ákvæðið með hliðsjón af samhengi þess við önnur ákvæði laganna sem og í samræmi við lögskýringargögn. Ákvæði 2. mgr. 15. gr. laganna var breytt í núverandi horf með 4. gr. laga nr. 34/1997, um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sbr. lög nr. 31/1994 og 130/1995. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess er varð að fyrrnefndum lögum kemur fram að „2. mgr. frumvarpsgreinarinnar, sem tekur til endurgreiðslu ríkissjóðs til sveitarfélaga vegna veittrar aðstoðar við erlenda ríkisborgara, er efnislega óbreytt frá gildandi lögum.“ Í 12. gr. laganna, sem vísað er til í b-lið 2. mgr. 15. gr. laganna, er meðal annars kveðið á um að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Jafnframt er kveðið á um að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf.

 

Í 1. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga segir að markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga sé að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess er varð að fyrrnefndri 1. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að aðalmarkmið allrar félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga sé að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúa á grundvelli samhjálpar. Jafnframt kemur fram að viðurkennt sé að samfélagið hafi skyldur við einstaklinginn og þurfi að grípa til ráðstafana til að tryggja afkomu hans þannig að grundvallarþörfum í efnahagslegu og félagslegu tilliti sé fullnægt. Þá segir þar enn fremur að ákvæðið geri ráð fyrir að ná megi framangreindum markmiðum meðal annars með aðgerðum sem miði að því að bæta lífskjör þeirra sem standi höllum fæti. Fram kemur að í þeim efnum vísist einkum til kafla frumvarpsins um fjárhagsaðstoð og húsnæðismál.

 

Í 20. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga segir að um skyldur sveitarfélags til að veita fjárhagsaðstoð gildi almenn ákvæði um félagsþjónustu skv. IV. kafla laganna. Þá er í 1. og 2. mgr. 21. gr. laganna kveðið á um að sveitarstjórn skuli setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar og að félagsmálanefnd sveitarfélags meti þörf og ákveði fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglurnar. Í 1. gr. reglna félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, sem gilda um fjárhagsaðstoð kæranda á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, segir að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar.

 

Í máli þessu liggur fyrir að endurgreiðslukrafa kæranda snýr meðal annars að kostnaði hans vegna leiguíbúðar fyrir tiltekna einstaklinga í sömu fjölskyldunni en um er að ræða erlenda ríkisborgara sem höfðu átt lögheimili hér á landi skemur en tvö ár við brottflutning frá landinu. Jafnframt liggur fyrir að framangreind endurgreiðslukrafa kæranda byggir á kostnaði kæranda vegna umræddrar leiguíbúðar að lokinni dvöl viðkomandi fjölskyldu í íbúðinni eða kostnaði vegna húsaleigu og úttektar á íbúðinni í lok leigutíma sem og vegna viðgerða, rafmagnskostnaðar og flutningsþrifa þegar fjölskyldan flutti úr húsnæðinu. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið felur veitt aðstoð í skilningi laga um félagsþjónustu sveitarfélaga að mati ráðuneytisins meðal annars í sér fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og ráðstafanir til að tryggja afkomu þeirra þannig að grundvallarþörfum í efnahagslegu og félagslegu tilliti sé fullnægt. Sömu sjónarmið eiga við í framangreindum reglum kæranda um fjárhagsaðstoð. Að mati ráðuneytisins fellur því framangreindur kostnaður kæranda ekki undir veitta aðstoð í skilningi 15. gr. laga um félagslega aðstoð, enda ekki um að ræða framfærslu viðkomandi fjölskyldu.

 

Í ljósi framangreinds verður því ekki séð að framangreindir kostnaðarliðir í endurgreiðslukröfu kæranda feli í sér veitta aðstoð vegna erlendra ríkisborgara skv. 12. og 13. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem átt hafa lögheimili í landinu skemur en tvö ár, sbr. b-lið 2. mgr. 15. gr. laganna. Þá verður ekki séð að framangreindir kostnaðarliðir falli undir reglur félags- og skólaþjónustu Snæfellinga um fjárhagsaðstoð. Heimild ríkissjóðs til endurgreiðslu til sveitarfélaga á grundvelli b-liðar 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er því ekki fyrir hendi hvað framangreinda kostnaðarliði varðar.

 

Í máli þessu liggur fyrir að endurgreiðslukrafa kæranda snýr enn fremur að kostnaði kæranda vegna bílaleigubifreiðar í tengslum við flutning viðkomandi fjölskyldu úr landi.

 

Í IV. kafla fyrrnefndra reglna félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, sem eiga við um fjárhagsaðstoð kæranda á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, er fjallað um að heimilt sé að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna. Í 5. tölul. 1. mgr. 23. gr. reglnanna segir að heimilt sé að meta kostnað vegna búslóðarflutninga sem framfærslukostnað og skal kostnaðurinn nema að hámarki 25% af grunnframfærslu einstaklings.

 

Fram kemur í gögnum málsins að viðkomandi fjölskylda flutti úr landi með aðstoð kæranda sem meðal annars greiddi fyrir bílaleigubifreið sem flutti fjölskylduna til Keflavíkurflugvallar. Enn fremur kemur fram í gögnum málsins að umrædd ákvörðun Vinnumálastofnunar fól meðal annars í sér synjun um endurgreiðslu til kæranda vegna framangreinds kostnaðarliðar á grundvelli þess að ferðin hafi ekki komið til vegna breyttra aðstæðna í upprunaríki viðkomandi fjölskyldu þannig að forsendur hafi skapast til að hverfa þangað að nýju og setjast þar að í skilningi 10. gr. leiðbeinandi reglna fyrir sveitarfélög um móttökuþjónustu og aðstoð við félagslega þátttöku flóttafólks. Samkvæmt reglum félags- og skólaþjónustu Snæfellinga um fjárhagsaðstoð er heimilt að meta kostnað vegna búslóðarflutninga sem framfærslukostnað að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Að mati ráðuneytisins verður ekki séð af gögnum málsins að Vinnumálastofnun hafi lagt mat á hvort skilyrði fyrrnefndra reglna félags- og skólaþjónustu Snæfellinga um fjárhagsaðstoð varðandi kostnað við framangreinda búslóðarflutninga séu uppfyllt svo unnt sé að meta hvort heimild ríkissjóðs til endurgreiðslu á grundvelli b-liðar 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sé fyrir hendi hvað umræddan kostnaðarlið varðar.

 

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að skilyrði b-liðar 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, um endurgreiðslu á veittri aðstoð vegna erlendra ríkisborgara, hafi ekki verið uppfyllt í máli þessu varðandi endurgreiðslukröfu kæranda á kostnaði hans vegna leiguíbúðar að lokinni dvöl viðkomandi fjölskyldu í íbúðinni. Í samræmi við framangreint beinir ráðuneytið því hins vegar til Vinnumálastofnunar að taka til nýrrar efnislegrar meðferðar endurgreiðslukröfu kæranda á kostnaði hans vegna bílaleigubifreiðar til Keflavíkurflugvallar vegna flutnings viðkomandi fjölskyldu úr landi.

 

 

Úrskurðarorð

Sá hluti ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 25. maí 2023, um synjun um endurgreiðslu til kæranda á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, vegna veittrar aðstoðar kæranda við erlenda ríkisborgara, sem snýr að kostnaði kæranda vegna leiguíbúðar viðkomandi fjölskyldu að lokinni dvöl fjölskyldunnar í íbúðinni, skal standa. Sá hluti fyrrnefndrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar sem snýr að kostnaði kæranda vegna bílaleigubifreiðar til Keflavíkurflugvallar vegna flutnings viðkomandi fjölskyldu úr landi er felldur úr gildi og er þeim hluta málsins vísað til Vinnumálastofnunar að nýju til nýrrar efnislegrar meðferðar.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta