Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 13/2022

Úrskurður nr. 13/2022

 

Þriðjudaginn 14. júní 2022 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með kæru, sem barst ráðuneytinu þann 16. janúar 2022, kærði [...] málsmeðferð embættis landlæknis í kvörtunarmáli sem lauk með útgáfu álits, dags. 4. nóvember 2021.

 

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að málsmeðferðin verði ómerkt og að embætti landlæknis verði gert að taka málið til meðferðar á ný.

 

Málið er kært á grundvelli 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, og barst kæra innan kærufrests.

I. Málavextir og málsmeðferð ráðuneytisins.

Samkvæmt gögnum málsins kvartaði [...] (hér eftir A), þann 20. janúar 2020, til embættis landlæknis yfir aðgerð sem kærandi framkvæmdi á henni árið 2016 vegna verkja í öxl. Byggði kvörtun A m.a. á því að kærandi hefði framkvæmt aðgerðina á öðrum lið en þeim sem verkurinn hefði stafað af og að eftir aðgerðina hefði öxl hennar sigið enn frekar og fram á við. Við meðferð málsins aflaði embætti landlæknis umsagnar óháðs sérfræðings, [...] (hér eftir B), sem taldi kæranda hafa sýnt af sér vanrækslu og/eða mistök í aðdraganda umræddrar aðgerðar, enda hefði ekki verið til staðar ábending fyrir aðgerðinni. Í áliti embættis landlæknis, dags. 4. nóvember 2021, var það mat embættisins að kærandi hefði vænrækt hlutverk sitt er hann framkvæmdi aðgerð á A án þess að hafa sýnt fram á að ábending væri fyrir aðgerðinni. Þá var það niðurstaða embættisins að kærandi hefði vanrækt að færa sjúkraskrá.

 

Kæra í málinu var send embætti landlæknis til umsagnar, en umsögn barst með bréfi, dags. 17. mars 2022. Kæranda var veitt færi á að tjá sig um umsögnina og bárust athugasemdir þann 7. apríl sl. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru byggir kærandi á því að B, sem hafi veitt umsögn sem óháður sérfræðingur, hafi ekki starfað við bæklunarlækningar í áratugi og hafi sérmenntað sig mest í sjúkdómum og áverkum handar og úlnliðs. Greinir kærandi frá því að embætti landlæknis hafi synjað beiðni hans um að fenginn yrði annar umsagnaraðili sem hefði meiri reynslu og kunnáttu í axlarmeiðslum. Kveður kærandi að ekkert í umsögn B útiloki að A hafi verið með „impingement“ og að ekki sé hægt að segja að aðgerðin hafi verið ónauðsynleg. Telur kærandi að niðurstaða embættis landlæknis feli í sér grófar ásakanir sem eigi sér ekki hliðstæðu. Óskar kærandi eftir því að fenginn verði annar umsagnaraðili sem hafi reynslu og faglega þekkingu á þessu sviði.

 

III. Málsástæður og lagarök embættis landlæknis.

Í umsögn embættis landlæknis er vísað til umfjöllunar í áliti embættisins um athugasemdir kæranda er lutu að hæfi B til að leggja mat á kvörtun A. Kemur fram í áliti embættisins að B hafi mikla reynslu af gerð umsagna og læknisfræðilegra matsgerða. Í málinu hafi ekki verið séð að fyrir hendi væru aðstæður eða forsendur sem krefðust þekkingar á axlaraðgerðum umfram það sem flestir bæklunarlæknar byggju yfir. Gagnrýni B hafi ekki lotið að framkvæmd aðgerðarinnar eða hugsanlegum hnökrum á henni, heldur að undirbúningi og ákvörðun um aðgerðina. Rökstuðningi B hafi ekki verið andmælt af hálfu kæranda með öðrum hætti en að vefengja faglega hæfni B. Þá er rakin umfjöllun í umsögn B þar sem fram kemur að hann hafi lokið sérfræðinámi í bæklunarskurðlækningum og í handarskurðlækningum og að hann hafi umtalsverða reynslu af greiningum og meðferð áverka eins og um ræði í málinu. Í umsögn embættisins segir að val á óháðum sérfræðingi hafi farið fram að vel rannsökuðu máli, enda ferill B langur og hann þekktur fyrir faglega vinnu og fræðimennsku. Það sé mat embættisins að B hafi án nokkurs vafa verið hæfur til að veita umsögn í málinu á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar og reynslu í læknisfræði um ágreiningsefni málsins.

 

IV. Athugasemdir kæranda.

Í athugasemdum byggir kærandi á því að niðurstaða B standist ekki rök. Fjallar kærandi í framhaldinu um læknisfræðileg atriði í tengslum við aðgerðina og telur að ómögulega sé hægt að líta svo á að hann hafi gert mistök á þeim forsendum að ábending hafi verið röng. Byggir kærandi á því að sú ákvörðun, að framkvæma þrýstingsléttandi aðgerð sem lið í að reyna að minnka óþægindi sjúklings, geti ekki talist læknamistök. Kveðst kærandi hafa stundað axlaraðgerðir í [...] ár og hálshryggjaraðgerðir í [...] ár, en vandamál A hafi einmitt lotið að hálsi og öxl. Reynsla hans sé þannig mun meiri en B og hafi hann ekki upplifað slíkan rökstuðning á öllum sínum ferli.

 

V. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að kæru kæranda á málsmeðferð embættis landlæknis í kvörtunarmáli, sbr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.

 

Í II. kafla laganna er fjallað um eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Fjallað er um kvörtun til landlæknis í 12. gr., en samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins er heimilt að beina formlegri kvörtun til embættisins vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skal landlæknir að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Þá segir í ákvæðinu að um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Að lokinni málsmeðferð gefi landlæknir skriflegt álit, þar sem embættið skuli tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu. Í 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 er kveðið á um að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæðinu til ráðherra.

 

Eins og fram er komið kvartaði A til embættis landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt var af hálfu A, einkum vegna aðgerðar á öxl sem framkvæmd var í mars 2016. Óskaði embætti landlæknis eftir umsögn B, sem er bæklunar- og handarskurðlæknir, um kvörtunina en í umsögn hans kemur fram að hann hafi umtalsverða reynslu af greiningum og meðferð áverka eins og um ræðir í málinu. B telji sig vera hæfan til að gefa álit í málinu þó svo vinna hans hafi meira snúist um handarskurðlækningar eftir aldamót. Í umsögn sinni taldi B ekki unnt að fullyrða að sú aðgerð, sem vísað hefur verið til, hafi verið framkvæmd á röngum lið. Þá taldi hann ekkert benda til þess að A hefði orðið fyrir taugaskaða í aðgerðinni.

 

Hvað varðar ábendingu fyrir aðgerðinni taldi B að kærandi hefði ekki fært fram nein sannfærandi rök fyrir því að ábending hafi verið til staðar fyrir aðgerðinni. Segir í umsögninni, með vísan til atvika málsins, að ómögulegt sé að komast að annarri niðurstöðu en að ekki hafi verið til staðar ábending fyrir aðgerðinni sem framkvæmd hafi verið á A. Þá sé ekkert sem bendi til þess að fullnægjandi klínísk skoðun hafi verið framkvæmd áður en A hafi verið ráðlagt að fara í aðgerðina. Að mati B hafi vinnubrögð kæranda verið ámælisverð og engan veginn í samræmi við góða og gegna starfshætti læknis. Geti B ekki flokkað það undir annað en mistök og/eða vanrækslu að ráðleggja og framkvæma aðgerð sem ekki hafi verið ábending fyrir. 

 

Í áliti embættis landlæknis var vísað til umsagnar B og komist að þeirri niðurstöðu að gögn málsins bentu ótvírætt til þess að kærandi hefði gert aðgerð á vinstri öxl kvartanda án þess að hafa sýnt fram á ábendingu fyrir þeirri aðgerð, þegar hugsanlega hafi aðrar skýringar á einkennum verið til staðar og aðgerðin ekki líkleg til þess að bæta fyrirliggjandi einkenni. Taldi embættið hins vegar ekki sýnt fram á að mistök hefðu orðið í aðgerðinni sjálfri. Í ljósi framangreinds var það mat embættisins að kærandi hefði vanrækt hlutverk sitt. Þá gerði embættið alvarlega athugasemd við færslu sjúkraskrár.

 

Í kæru byggir kærandi annars vegar á því að B hafi ekki nægilega faglega þekkingu á axlaraðgerðum til að leggja mat á málið sem sérfræðingur og hins vegar að hann hafi komist að efnislega rangri niðurstöðu.

 

Málsástæður í málum, sem kærð eru á grundvelli 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, lúta í mörgum tilvikum að efnislegri niðurstöðu landlæknis um hvort mistök eða vanræksla hafi átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu. Með vísan til fyrri umfjöllunar um 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu brestur ráðuneytinu heimild að lögum til að endurskoða þau atriði í málinu sem varða læknisfræðilegt mat á því hvort mistök eða vanræksla hafi átt sér stað. Í því ljósi hefur ráðuneytið ekki forsendur til að endurskoða efnislega umfjöllun í umsögn óháðs sérfræðings eða áliti embættis landlæknis að því marki sem hún varðar mat á því hvort fullnægjandi ábending hafi verið til staðar fyrir umræddri aðgerð. Af gögnum málsins telur ráðuneytið hins vegar ljóst að forsvaranlegt mat hafi verið lagt á kvörtun í málinu með öflun umsagnar B sem sérfræðings og að matið hafi sætt skoðun hjá embætti landlæknis með fyrrgreindri niðurstöðu. Sé þannig ekki ástæða til að gera athugasemdir við málsmeðferð embættis landlæknis að þessu leyti.

Að því er varðar val á óháðum sérfræðingi er það mat ráðuneytisins að slík ákvörðun sé hluti af málsmeðferð embættis landlæknis og sæti þannig endurskoðun á kærustigi. Af gögnum málsins er ljóst að kvörtun A beindist að heilbrigðisþjónustu sem veitt var af kæranda, sem er bæklunarlæknir, en við meðferð málsins aflaði embætti landlæknis umsagnar B í málinu, sem er bæklunar- og handarskurðlæknir með langa starfsreynslu. Þá er hann að eigin sögn með umtalsverða reynslu af greiningum og meðferð áverka á borð við þá sem um ræðir í málinu. Bendir ráðuneytið einnig á að niðurstaða málsins varðaði einungis mat á því hvort ábending hefði verið til staðar fyrir aðgerðinni, sem telja verður ljóst B hafi haft faglega þekkingu til að meta. Með vísan til framangreinds og þess, sem rakið hefur verið í úrskurðinum um menntun og reynslu B á sviði bæklunarskurðlækninga, telur ráðuneytið ljóst að B teljist sérfræðingur á þessu sviði í skilningi 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Þá hefur ekkert komið fram um að hann teljist ekki vera óháður í skilningi ákvæðisins og hafi þannig ekki verið bær til að veita umsögn í málinu sem óháður sérfræðingur. Er það mat ráðuneytisins að atvik og gögn málsins gefi að öðru leyti ekki til kynna að annmarkar hafi verið á málsmeðferð embættis landlæknis í málinu.

 

Að framangreindu virtu verður málsmeðferð embættis landlæknis vegna álits, dags. 4. nóvember 2021, því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Málsmeðferð embættis landlæknis vegna kvörtunar varðandi kæranda, sem lauk með útgáfu álits dags. 4. nóvember 2021, er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira