Hoppa yfir valmynd

Úrskurður heilbrigðisráðuneytisins nr. 15/2021

Úrskurður heilbrigðisráðuneytisins nr. 15/2021

 

 

Þriðjudaginn 16. nóvember 2021 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með kæru, dags. 12. maí 2021, kærði […] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun embættis landlæknis, dags. 26. febrúar 2021, um að synja henni um sérfræðileyfi í heimilislækningum. Kærandi krefst þess að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun embættis landlæknis og leggi fyrir embættið að veita henni starfsleyfi í heimilislækningum. 

 

Mál þetta er kært til ráðuneytisins á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og barst kæra innan kærufrests.

I. Málsmeðferð ráðuneytisins.

Ráðuneytinu barst kæra í málinu þann 12. maí 2021. Var kæran send til embættis landlæknis sem veitti umsögn þann 28. júní. Þann 19. júlí bárust athugasemdir kæranda um umsögn embættisins ásamt gögnum. Voru athugasemdirnar og gögnin send til embættis landlæknis sem kom á framfæri athugasemdum þann 3. september. Athugasemdirnar voru sendar til kæranda sem brást við með bréfi, dags. 15. september. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.

II. Málavextir.

Í kæru er rakið að kærandi hafi útskrifast úr læknisfræði frá […] og hlotið almennt lækningaleyfi hér á landi í […] 2013. Kærandi hafi hafið formlegt sérnám í heimilislækningum þann 1. maí 2013 og starfað á ýmsum stöðum í kjölfarið. Fram kemur að kærandi hafi sótt um sérfræðileyfi í heimilislækningum þann 23. apríl 2020. Með ákvörðun embættis landlæknis, dags. 26. febrúar 2021, var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að kærandi hefði ekki lokið formlega viðurkenndu sérfræðinámi í heimilislækningum, sbr. 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012, um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, þar sem hana skorti bæði starfstíma á heilsugæslustöð í rúma átta mánuði og þátttöku í kjarnafyrirlestrum í heimilislækningum.

III. Málsástæður og lagarök kæranda.

Kærandi vísar til þess að samhliða klínískum störfum og rannsóknarvinnu hafi hún starfað að […] og leikið lykilhlutverk í […] hér á landi undanfarin ár. Að baki umsókn hennar liggi þannig óvenjubreið reynsla til viðbótar þeim tíma í klínísku starfi sem reglugerð nr. 1222/2012 segi til um. Þá segir í kæru að frá því að hún hafi hafið sérnám vorið 2013 hafi hún starfað sem […]. Kærandi hafi einnig skipulagt og séð um […], en framangreint séu grunnstoðir læknastarfsins og mikilvægar í starfi heimilislæknis. Segir í kæru að kærandi hafi ekki farið hefðbundna leið að því að markmiði að sækja um sérfræðileyfi en margt hafi spilað inn í, svo sem mannabreytingar kennslustjóra í náminu, breytingar á reglugerð og barneignir. Síðastnefnda atriðið hafi tafið framvindu sérfræðináms og sé nauðsynlegt að taka tillit til þess við úrlausn málsins, enda fæli önnur nálgun í sér mismunun á grundvelli kynferðis sem sé í andstöðu við 65. gr. stjórnarskrár.

 

Vísar kærandi til þess að hún hafi hafið sérnám sitt í gildistíð reglugerðar nr. 1222/2012, en reglugerðin hafi verið felld úr gildi með reglugerð nr. 467/2015 um sama efni. Á grundvelli svonefnds sólarlagsákvæðis í reglugerð nr. 467/2015 hafi kærandi sótt um sérfræðileyfi samkvæmt eldri reglugerð. Rekur kærandi að talsverðar breytingar hafi verið gerðar með reglugerð nr. 467/2015, þær helstu að sérnám yrði samkvæmt staðfestum marklýsingum. Sá hópur lækna sem þegar hafi verið byrjaður í sérnámi hafi verið í þröngri stöðu vegna seinagangs við vinnu við marklýsingar. Fimm ára aðlögunartími, sem kveðið hafi verið á um með sólarlagsákvæði reglugerðar nr. 467/2015, hafi ekki verið nægilega langur, ekki síst fyrir lækna sem farið hefðu einu sinni eða oftar í fæðingarorlof á síðustu fimm árum og þar með tafið sérnám sitt. Hluti lækna falli þannig milli skips og bryggju með að ljúka sérnámi sínu. Byggir kærandi í þessu sambandi á bréfi Læknafélags Íslands til embættis landlæknis, dags. 20. nóvember 2020.

 

Kærandi byggir á því að meðferð málsins hjá embætti landlæknis hafi verið haldin ágöllum og að afgreiðslan hafi verið efnislega röng. Telur kærandi að embætti landlæknis hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína í málinu en rannsóknin hafi aðeins falist í því að afla umsagnar sérfræðideildar læknadeildar Háskóla Íslands í tvígang, ásamt því að afla gagna frá […], annars tveggja núverandi kennslustjóra sérnáms í heimilislækningum. Að mati kæranda sé verulega ámælisvert að ekki hafi verið rætt við þá umsagnaraðila sem hafi gefið henni jákvæða umsögn. Þá hafi ekki verið leitað umsagnar […] sem hafi verið starfandi kennslustjóri sérnáms stóran hluta af sérnámi kæranda. Hafi það verið sérlega mikilvægt í ljósi þess að upplýsingarnar sem […] hafi gefið embætti landlæknis hafi verið efnislega rangar, ófullkomnar og villandi eins og kærandi hafi bent embættinu á. Í hinni kærðu ákvörðun sé raunar tekið undir athugasemdir kæranda við umsögn […] og talið að gögn frá henni sýndu ekki fram á annað en að kærandi hefði tekið virkan þátt í fræðilega hluta sérnámsins í heimilislækningum.

 

Af hálfu kæranda er einnig byggt á því að umsagnir Háskóla Íslands hafi verið haldnar veigamiklum ágöllum, bæði formlegum og efnislegum. Ágallarnir hafi m.a. falist í því að sett hafi verið fram skilyrði sem ekki hafi mátt leiða af marklýsingu frá 2008 um starfsnám á kvensjúkdóma- og geðdeild. Undir þetta sé tekið í hinni kærðu ákvörðun. Að mati kæranda sé enn fremur verulega ámælisvert að í niðurstöðu sérfræðinefndar frá 12. október 2020 komi fram í inngangi niðurstöðuhluta að um sameiginlega niðurstöðu nefndarinnar sé að ræða. Þetta sé beinlínis rangt en endurupptökubeiðni kæranda hafi ekki verið send fulltrúa Læknafélags Íslands sem hafi í raun verið haldið utan við endurafgreiðslu málsins. Vísar kærandi í framhaldinu til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og stöðu þeirra lækna sem hafi hafið sérfræðinám sitt í gildistíð eldri reglugerðar.

 

Kærandi vísar til minnisblaðs Læknafélags Íslands, dags. 14. apríl 2021, þar sem teknar hafi verið saman upplýsingar varðandi veitingu sérfræðileyfa á grundvelli sólarlagsákvæðis reglugerðar nr. 467/2015. Í minnisblaðinu komi fram að félagið þekki dæmi þess að embættið hafi veitt læknum á tímabilinu 2015-2020 sérfræðileyfi í heimilislækningum á grundvelli ákvæðisins, þrátt fyrir að viðkomandi hefðu ekki lokið fræðilegum hluta sérnáms samkvæmt ströngustu túlkun sérfræðinefndar Háskóla Íslands, með þeim rökum að fræðilegur hluti í öðru sérnámi kæmi í staðinn og væri ígildi fræðilega hluta sérnámsins. Þá hafi margir læknar á sólarlagstímabilinu fengið sérfræðileyfi hér á landi án þess að hafa fylgt formlega viðurkenndu sérnámi, þ.e. stundað sérnám sitt á heilbrigðisstofnunum utan Reykjavíkur sem ekki hafi hlotið viðurkenningu. Telur kærandi að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu við meðferð máls hennar auk þess sem óumdeilt sé að hún hafi stundað allt sitt sérnám á viðurkenndum heilbrigðisstofnunum. Byggir kærandi einnig á því að þegar horft sé á málið heildstætt uppfylli hún án vafa þau faglegu skilyrði sem krafist sé af heimilislæknum. Það sé því í andstöðu við sjónarmið um meðalhóf, réttmætar væntingar og atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár að synja henni um sérfræðileyfi í heimilislækningum.

 

Í samtölum kæranda við […] hafi komið fram að ekki yrði tekið fullt tillit til fyrra sérnáms þeirra lækna sem hafi hafið nám á gildistíma eldri reglugerðar eftir að sólarlagsákvæðið rynni sitt skeið. Kærandi yrði því að sumu leyti sett aftur á byrjunarreit og telur hún ólíðandi að hún verði fórnarlamb reglugerða- og mannabreytinga á námstíma sínum. Kærandi tekur undir með Læknafélagi Íslands að meðalhófsreglan geri kröfu til þess að sá hópur lækna sem lendi á milli reglugerða fái einstaklingsbundið mat varðandi það hvort viðkomandi fullnægi þeim faglegu kröfum sem gerðar séu til innihalds sérnáms, þar sem ekki sé eingöngu horft til tímalengdar heldur að heildstætt mat sé framkvæmt. Byggir kærandi á því að í rökstuðningi embættis landlæknis hafi ekkert tillit verið tekið til einstaklingsbundinna þátta og umsókn hennar metin í gegnum nálarauga í stað þess að horfa á hana heildstætt.

 

Kærandi vísar til þess að málið varði mat á því hvort skilyrði c-liðar 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 séu uppfyllt, en í ákvæðinu sé mælt fyrir um að læknir skuli hafa lokið viðurkenndu sérfræðinámi eða sérfræðiprófi og tileinkað sér þekkingu, klíníska og verklega færni og aðferðafræði sem krafist er fyrir viðkomandi sérgrein skv. 10. gr. Þá er vísað til ákvæðis XIV í 10. gr. um innihald námsins. Vísar kærandi til þess að í núgildandi reglugerð sé ekki gerð krafa um skiptingu heildarnámstíma á heilsugæslustöð og deildaskiptu sjúkrahúsi, líkt og kveðið hafi verið á um í reglugerð nr. 1222/2012.

 

Í kæru leggur kærandi áherslu á að umsókn hennar verði metin heildstætt út frá persónubundnum þáttum þar sem reynsla hennar á lyflæknasviði, þekking í stjórnun og kennslu verði metin að verðleikum og þá þannig að hún komi í stað vinnutíma á heilsugæslu. Kveður kærandi í þessu sambandi að hún hafi ekki aðeins starfað á lyflæknadeildum heldur einnig á ýmsum öðrum deildum spítalans og sinnt mikilli göngudeildar- og ráðgjafavinnu. Í hinni kærðu ákvörðun hafi embætti landlæknis hafnað kröfu kæranda, án faglegs rökstuðnings, að sérnám hennar í lyflækningum og önnur reynsla yrði metin sem ígildi þess sem upp á vanti í heilsugæsluhlutann. Telur kærandi að þessi afstaða embættisins standist ekki skoðun. Fyrrnefnd sérfræðinefnd hafi einnig hafnað því að sérfræðinám í lyflækningum á lyflækningadeildum væri sambærilegt við jafnlangan tíma í viðurkenndu sérnámi í heimilislækningum á heilsugæslustöð.

 

Kærandi kveður að fjölmörg dæmi séu þess að íslenskir læknar hafi fengið sérfræðileyfi í heimilislækningum á árunum 2015-2020 þrátt fyrir að viðkomandi hafi ekki starfað í full tvö og hálft ár á heilsugæslustöð, heldur á blandaðri heilbrigðisstofnun. Telur kærandi mikilvægt að hafa í huga að aðeins hluti starfa á blönduðum heilbrigðisstofnunum úti á landi sé heilsugæslumóttaka, en önnur starfsemi fari m.a. fram á lyflæknadeildum. Vísar kærandi til jafnræðisreglu í þessu sambandi. Kærandi byggir á því að sá heildartími sem hún hafi verið í viðurkenndu sérnámi annars vegar í heimilislækningum og hins vegar í lyflækningum nái þeirri tímalengd sem reglugerð nr. 1222/2012 krefjist gagnvart sérfræðinámi í heimilislækningum. Ætti einnig að vera óumdeilt að faglegt innihald námsins sé hafið yfir vafa enda sé um að ræða viðurkennt sérnám. Kærandi telur að engin haldbær rök standi til þess að meta ekki tíma hennar í viðurkenndu sérnámi í lyflækningum og aðra reynslu sem hún ber yfir inn í heilsugæslutíma samkvæmt reglugerðinni. Telur kærandi eðlilegt að meta fengna reynslu í einu sérnámi að öðru enda hafi Læknafélag Íslands tekið undir það sjónarmið og bent á fordæmi því til stuðnings.

 

Bendir kærandi á að á Norðurlöndunum séu umsóknir um sérfræðileyfi metnar heildstætt og á einstaklingsbundnum grundvelli. Engar lagalegar hindranir séu til staðar fyrir því að slíkt verði einnig gert í þessu máli. Vísar kærandi til úrskurðar velferðarráðuneytisins í máli nr. 24/2018 í þessu sambandi. Telur kærandi að aðstæðum hennar verði jafnað til þeirra aðstæðna, en í málinu hafi ákvörðun embættis landlæknis um að synja um sérfræðileyfi í sjúkraþjálfun verið felld úr gildi þótt kærandi í því máli hafi aðeins lokið 75 ECTS-einingum en ekki 90 líkt og áskilið hafi verið í reglugerð. Hafi ráðuneytið talið að embætti landlæknis hafi ekki horft heildstætt á málið. Þá vísar kærandi til úrskurðar heilbrigðisráðuneytisins nr. 10/2019 þar sem litið hafi verið til samfelldrar starfsreynslu félagsráðgjafa við mat á því hvort viðkomandi uppfyllti skilyrði um starfsleyfi. Telur kærandi að líkt og í því máli megi ráða af umsögnum að kærandi uppfylli öll þau faglegu skilyrði sem krafist sé af heilsugæslulæknum. Þá byggir kærandi á því að embætti landlæknis hafi getað veitt kæranda sérfræðileyfi á grundvelli einstaklingsbundins mats, þrátt fyrir að sérfræðinefndin hafi ekki mælt með veitingu leyfisins.

 

Kærandi byggir á því að hún uppfylli öll viðmið sem komi fram í marklýsingu fyrir sérnám í heimilislækningum frá 2008. Telur kærandi að framlögð gögn staðfesti að hún hafi þann tíma sem hún hafi stundað sérnám í læknisfræði aflað sér þekkingar, mun lengur en þær 100 klukkustundir á ári sem krafist sé í marklýsingunni. Að mati kæranda fari málsmeðferð embættis landlæknis verulega úrskeiðis í þessum þætti málsins og málið ekki fullrannsakað. Kveður kærandi að embætti landlæknis hafi ranglega ályktað um þátttöku hennar í kjarnafyrirlestrum, en hún hafi tekið þátt í þeim í eitt og hálft ár en ekki eitt. Í hinni kærðu ákvörðun sé því ranglega haldið fram að kærandi hafi ekki lokið að fullu við fræðilega hluta sérnámsins. Felist í þeirri niðurstöðu að alfarið sé horft framhjá því að kjarnafyrirlestrar séu samkvæmt marklýsingunni aðeins einn hluti af fræðilegum hluta námsins, en eina skilyrðið sé að fræðilegt nám sé minnst 100 klukkustundir á ári.

 

Byggir kærandi á því að þegar viðamikil þekking og reynsla hennar sé tekin inn í myndina, til viðbótar þeim fjölda fyrirlestra sem hún hafi sótt, sé augljóst að hún uppfylli þetta skilyrði. Þá hafi verið ómögulegt að uppfylla þá tilbúnu kröfu að sinna þurfi kjarnafyrirlestrum að lágmarki 100 klukkustundum á ári, enda séu að jafnaði aðeins 5-6 klukkustundarlangir fyrirlestrar á hverri önn. Orðalag marklýsingarinnar um fræðilegan hluta námsins sé mjög opið og spanni allt frá sjálfsnámi til ráðstefna og ljóst að marklýsingin kalli á að fram fari mat í hverju tilviki fyrir sig. Þá kveður kærandi það vera rangt sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun að kærandi hafi ekki andmælt því að hún hafi ekki lokið að fullu við fræðilega hluta sérnámsins. Auk framangreinds komi hvergi fram í marklýsingunni eða annars staðar hver nákvæm efnistök kjarnafyrirlestra skuli vera. Að mati kæranda sé ekkert því til fyrirstöðu að leggja að jöfnu fyrirlestra í almennum lyflækningum og fyrirlestra í heimilislækningum. Við þetta bætist að kærandi mætti aukalega í kennslu fyrir sérnámslækna á ýmsum deildum. Með vísan til atvika allra og framlagðra gagna telur kærandi að almannahagsmunir geti ekki réttlætt þá takmörkun á atvinnufrelsi hennar sem leiðir af ákvörðun embættis landlæknis.

 

IV. Málsástæður og lagarök embættis landlæknis.

Í umsögn embættis landlæknis er áréttuð niðurstaða embættisins um að kærandi hafi ekki lokið viðurkenndu sérfræðinámi í heimilislækningum og að kennsla eða nám í annarri sérgrein komi ekki í stað formlegs sérfræðináms í heimilislækningum. Þá skorti kæranda tilskilinn tíma á heilsugæslustöð, eða átta mánuði og 22 daga. Að því er varðar þátttöku í kjarnafyrirlestrum bendir embættið á að í athugasemdum kæranda vegna umsagnar sérfræðinefndar læknadeildar Háskóla Íslands um umsókn kæranda komi fram að kærandi hafi stundað kjarnafyrirlestra heilsugæslunnar í samtals eitt ár að frádregnu fæðingarorlofi. Það sé einnig í samræmi við mat sérfræðinefndar lækna, sbr. umsögn dags. 12. október 2020. Að því virtu og með vísan til málsgagna telur embættið ljóst að kæranda skorti að minnsta kosti hálft ár af kjarnafyrirlestrum í heimilislækningum.

 

Í umsögninni fellst embætti landlæknis á að tilvísun í synjunarbréfi embættisins til þess að kærandi hafi ekki andmælt því að hún hafi ekki lokið að fullu við fræðilegan hluta sérnáms í heimilislækningum sé röng. Telur embættið aftur á móti ljóst af framlögðum gögnum að kærandi hafi ekki lokið við skipulagðan fræðilegan hluta sérnáms í heimilislækningum. Marklýsing fyrir námið geri ráð fyrir að „mentor“ eða lærimeistari hafi umsjón með því að læknir uppfylli við lok námstímans kröfur marklýsingar, en embættið telur ekki unnt að líta svo á að gögn frá þeim aðilum, sem vísað er til í kæru, geti komið í staðinn fyrir mat „mentors“ eða lærimeistara. Það sé hlutverk þeirra sem skipuleggja og séu í forsvari fyrir sérfræðinám í heimilislækningum að meta hvort ákveðin þekking eða reynsla geti komið í staðinn fyrir hluta af formlegu sérnámi í heimilislækningum. Að mati embættisins sé ekki unnt að leggja að jöfnu kennslu í almennum lyflækningum og kennslu í heimilislækningum.

 

Embætti landlæknis vísar til marklýsingarinnar frá 2008 og kveður að með fræðilegu námi samkvæmt henni sé átt við formlegt fræðilegt sérnám í heimilislækningum en ekki samansafn af annars konar námi, þekkingu eða reynslu. Væri það mikil stefnubreyting í skipulagi sérnáms lækna ef hægt væri að safna fyrirlestrum héðan og þaðan í stað þess að fylgja marklýsingu viðkomandi sérgreinar. Embætti landlæknis telur sig hafa uppfyllt rannsóknarskyldu sína með fullnægjandi hætti. Leitað hafi verið umsagnar sérfræðideildar Háskóla Íslands og óskað eftir upplýsingum um þátttöku kæranda í fræðilegum hluta sérnáms hennar. Embættið hafi hins vegar ekki talið þörf á að ræða við þá aðila sem hafi gefið kæranda jákvæða umsögn. 

 

Vegna málsástæðna kæranda er lúta að jafnræðisreglu hafnar embættið því að reglan hafi verið brotin við meðferð málsins eða að sambærileg mál hafi fengið ólíka meðferð án þess að hlutlægar eða málefnalegar ástæður hafi búið þar að baki. Bendir embættið á að umsóknir um sérfræðileyfi séu ólíkar og hver umsókn sé metin út frá fyrirliggjandi gögnum með hliðsjón af lögum, reglugerð og marklýsingum. Þá mótmælir embættið þeirri staðhæfingu kæranda að það hafi veitt læknum á tímabilinu 2015-2020 sérfræðileyfi á grundvelli sólarlagsákvæðis reglugerðar nr. 467/2015 þrátt fyrir að viðkomandi hefði ekki lokið fræðilegum hluta sérnáms samkvæmt ströngustu túlkun sérfræðinefndar Háskóla Íslands, með þeim rökum að fræðilegur hluti í öðru sérnámi kæmi í staðinn og væri ígildi fræðilega hluta sérnámsins. Kærandi hafi ekki bent á ákveðin dæmi fyrir þessar staðhæfingu svo ómögulegt sé fyrir embættið að vita til hvaða máls eða mála kærandi vísi til.

 

Fram kemur það mat embættis landlæknis að kærandi uppfylli ekki skilyrði reglugerðar nr. 1222/2012 um tveggja og hálfs árs starfstíma á heilsugæslustöð þar sem skorti bæði starfstíma á heilsugæslustöð, í átta mánuði og 22 daga, og þátttöku í kjarnafyrirlestrum í heimilislækningum. Ítrekar embætti landlæknis að ekki sé hægt að fallast á með kæranda að meta megi sérnámstíma hennar í almennum lyflækningum sem ígildi þess heilsugæslutíma sem hana skorti. Ef meta mætti aðra sérfræðiþjálfun sem ígildi starfstíma á heilsugæslustöð þyrfti að kveða skýrlega á um slíka heimild í reglugerð. Þá mótmælir embætti landlæknis því að hafa meðhöndlað umsókn kæranda með öðrum hætti en annarra sambærilegra umsækjenda sem og að hafa brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Í umsögninni segir að heimilislækningar og almennar lyflækningar séu tvær aðskildar sérgreinar sem hvor um sig geri sínar innri faglegu kröfur til sérfræðinema. Gerðar séu ríkar kröfur um formlega skipulagt nám til að öðlast sérfræðiréttindi og sé það ekki á valdi kæranda að ákveða með hvaða hætti hún hagi námi sínu til að öðlast tilgreind sérfræðiréttindi. Telur embætti landlæknis ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2005/36/EB styðja við þau rök embættisins sem fram koma í hinni kærðu ákvörðun. Embættið vísar til úrskurða sem kærandi rekur í kæru og telur sjónarmið í þeim ekki eiga við um mál hennar.

 

V. Athugasemdir kæranda.

Í athugasemdum kæranda um umsögn embættis landlæknis segir að hún hafi alltaf stefnt að sérfræðileyfi í heimilislækningum og að allar ákvarðanir hafi verið teknar í samráði við þáverandi kennslustjóra. Kærandi kveður að staðfestingar liggi fyrir á fullri og virkri þátttöku í svokölluðum kjarnafyrirlestrum í eitt og hálft ár en ekki eitt ár eins og standi í umsögn embætti landlæknis. Það hálfa ár sem embættið telji vanta upp á hafi kærandi stundað meðan hún hafi verið í fæðingarorlofi. Kærandi ítrekar þar sem fram kemur í kæru um að fordæmi séu fyrir því að starfstími á sjúkrahúsum hafi verið metinn til jafns við starfstíma á heilsugæslu í tilvikum þar sem læknar hafi stundað sérnám á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Vísar kærandi í þessu sambandi til minnisblaðs Læknafélags Íslands. Því sé vandséð á hvaða forsendum embætti landlæknis telji sér óheimilt að meta sérnámstíma í lyflækningum sem ígildi sérnámstíma í heimilislækningum. Hvað varðar tilvísun til einstakra mála telur kærandi nægja að vísa til umfjöllunar í minnisblaði Læknafélags Íslands. Þá hafi fyrrverandi formaður félags heimilislækna staðfest að fordæmi séu fyrir einstaklingsbundnu mati líkt og kærandi fari fram á.

 

Kærandi byggir á því að embætti landlæknis hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga með því að ræða ekki við þá aðila sem tilgreindir séu í kæru og hafi gefið kæranda jákvæða umsögn. Frá því að kæra hafi verið lögð fram hafi kærandi leitað álits […] á Landspítalanum. Fram komi í bréfi […] að eðlilegt sé að kærandi fengi sérfræðileyfi í heimilislækningum. Þá telur kærandi tilvísun embættis landlæknis til tilskipunar 2005/36/EB ekki eiga við í málinu.

 

VI. Athugasemdir embættis landlæknis.

Embætti landlæknis áréttar að kærandi hafi ekki lagt fram gögn frá skipuleggjendum sérnáms í heimilislækningum sem staðfesta að hún hafi lokið við fræðilega hluta þess sérnáms. Segir í athugasemdunum að umsóknir um sérfræðileyfi séu skoðaðar og afgreiddar á einstaklingsbundinn hátt en embættinu sé hins vegar ekki heimilt að víkja frá þeim kröfum sem gerðar séu um viðkomandi nám í reglugerð um lækna eða marklýsingu sérnáms. Telur embættið að því hafi ekki verið skylt að ræða við þá aðila sem kærandi hafi tilgreint og umsagnir þeirra geti ekki komið í staðinn fyrir mat „mentors“. Þá geri reglugerð um lækna ráð fyrir því að embætti landlæknis leiti til sérfræðinefndar lækna við Háskóla Íslands vegna umsókna um sérfræðileyfi. Embættið mótmælir þeirri staðhæfingu kæranda að ekki sé viðeigandi að líta til tilskipunar 2005/36/EB og telur ákvæði hennar hafa þýðingu við veitingu frumsérfræðileyfa hér á landi. Loks telur embættið að bréf sem kærandi vísar til hafi ekki áhrif á málið.

VII. Athugasemdir kæranda.

Í bréfi kæranda segir að hvorki í reglugerð um lækna né annars staðar sé að finna kröfu um staðfestingu frá skipuleggjendum sérnáms í heimilislækningum á því að hún hafi lokið við fræðilegan hluta sérnáms, líkt og embætti landlæknis hafi áréttað í sínum athugasemdum. Kærandi hafi lagt fram gögn til stuðnings því að hún uppfylli skilyrði sem farið sé fram á í marklýsingu varðandi fræðilega þekkingu. Kveður kærandi það vekja sérstaka furðu að embætti landlæknis telji það ekki hlutverk sitt að meta hvaða reynsla og þekking geti komið í staðinn fyrir hluta af skipulögðu sérnámi. Hún hafi stundað skipulagt sérnám í heimilislækningum og lyflækningum og lúti umsókn hennar einkum að því að sérnámið í lyflækningum verði að hluta metið að jöfnu við sérnám í heimilislækningum. Hvergi í reglugerð né annars staðar komi fram að ekki megi fara fram slíkt mat. Eins og lagaumhverfið sé í dag sé það embættis landlæknis að meta á grundvelli allra fyrirliggjandi gagna hvort skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis séu uppfyllt.

 

Kærandi hafnar fullyrðingu embættis landlæknis um að hún hafi ekki lokið sérnámi í heimilislækningum, en gögn málsins beri með sér að hún hafi lokið fræðilegum hluta námsins og rúmlega það. Þegar við bætist fordæmi þess að vinna á blönduðum heilbrigðisstofnunum, sjúkrahúsum og á landsbyggðinni hefur verið metin að jöfnu við vinnu á heilsugæslustöð þá blasi við að veita beri kæranda sérfræðileyfi í heimilislækningum. Hvergi sé kveðið á um að ekki megi meta starfsþjálfun í lyflækningum að jöfnu við starfsþjálfun á heilsugæslustöð. Markmið reglna um útgáfu sérfræðileyfa í læknisfræði hljóti að vera að tryggja að lágmarksþekking og reynsla sé til staðar hjá umsækjendum og af því leiði að við túlkun reglnanna verði að líta til markmiða þeirra í stað þess að túlka þær með íþyngjandi hætti gagnvart kæranda. Vísar kærandi til bréfa sem hún lagði fram í málinu og telur skoðanir sem þar komi fram hljóta að vega þungt við afgreiðslu málsins.

VIII. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að ákvörðun embættis landlæknis um að synja kæranda um sérfræðileyfi í heimilislækningum.

 

Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Með lögum nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, hefur frelsi til að starfa við heilbrigðisþjónustu verið sett ákveðnar skorður. Vísast í þessu sambandi til markmiðs laga um heilbrigðisstarfsmenn, sem er að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra.

 

Kveðið er á um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfa og leyfi til að starfa sem heilbrigðisstarfsmenn hér á landi í 5. og 6. gr. laganna. Samkvæmt 7. gr. laganna hefur sá einn rétt til að kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis. Í 8. gr. laganna er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis, en í 1. mgr. segir að ráðherra geti kveðið á um löggildingu sérfræðigreina innan löggiltrar heilbrigðisstéttar með reglugerð, að höfðu samráði við landlækni, viðkomandi fagfélag og menntastofnun hér á landi. Er kveðið á um í 2. mgr. 8. gr. að í reglugerð um veitingu sérfræðileyfis skuli kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þurfi til að hljóta leyfi til að kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi. Miðað skuli við að lokið hafi verið formlegu viðbótarnámi á viðkomandi sérfræðisviði. Í reglugerð skuli m.a. kveðið á um það sérfræðinám sem krafist sé til að hljóta sérfræðileyfi og um starfsþjálfun sé gerð krafa um hana. Enn fremur skuli kveðið á um í hvaða tilvikum skuli leitað umsagnar menntastofnunar eða annarra aðila um það hvort umsækjandi uppfylli skilyrði um sérfræðinám.

 

Í athugasemdum um 8. gr. í frumvarpi til laga um heilbrigðisstarfsmenn er fjallað um 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. ákvæðisins, sem kveður á um að við löggildingu nýrra sérfræðigreina skuli einkum litið til öryggis og hagsmuna sjúklinga. Segir í athugasemdunum að hagsmunir sjúklinga séu einkum fólgnir í því að staðfest sé að heilbrigðisstarfsmenn sem þeir leiti til hafi nauðsynlega þekkingu og hæfni á tilteknu sérsviði. Með ákvæðinu sé undirstrikað að hagsmunir sjúklinga skuli vera ráðandi fremur en hagsmunir stéttarinnar af því að fá að kalla sig sérfræðing. Í athugasemdunum segir jafnframt að mikilvægt sé að reglugerðir um skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfa hafi að geyma skýrar reglur um námskröfur, kröfur til starfsþjálfunar og reynslu og aðrar kröfur sem taldar eru nauðsynlegar til þess að einstaklingur megi kalla sig sérfræðing.

 

Á grundvelli 8. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn hefur ráðherra sett reglugerð nr. 467/2015, um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Í reglugerðinni er ákvæði til bráðabirgða um að lækni sem hefur fengið almennt lækningaleyfi og hafið skipulagt sérnám fyrir gildistöku reglugerðarinnar sé heimilt að sækja um sérfræðileyfi á grundvelli eldri reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 1222/2012, í fimm ár frá gildistöku reglugerðar nr. 467/2015. Í kæru kæranda segir að hún hafi fengið almennt lækningaleyfi í […] 2013 og hafið sérnám fyrir gildistöku reglugerðar nr. 467/2015. Hefur ekki verið deilt um það í málinu að aðstæður kæranda falli undir áðurnefnt bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 467/2015 og að henni sé þannig heimilt að sækja um sérfræðileyfi á grundvelli reglugerðar nr. 1222/2012. Kærandi hefur sótt um og telur sig uppfylla skilyrði um sérfræðileyfi á grundvelli eldri reglugerðar nr. 1222/2012, sbr. bráðabirgðaákvæði við reglugerð nr. 467/2015. Af kæru má jafnframt ráða að kærandi telji sig ekki uppfylla ákvæði núgildandi reglugerðar fyrir veitingu sérfræðileyfis. Verður því leyst úr málinu samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 1222/2012.

 

Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 hafði sá einn sem fengið hafði til þess leyfi landlæknis rétt til að kalla sig sérfræðing í sérgrein innan læknisfræði og starfa sem slíkur hér á landi. Skilyrði fyrir sérfræðileyfi voru rakin í 7. gr. en í 1. mgr. ákvæðisins sagði að sérfræðileyfi mætti veita í sérgreinum læknisfræði. Skilyrði væri að sérfræðinám umsækjanda væri skilgreint innan þeirrar sérgreinar sem umsókn hans um sérfræðileyfi tæki til. Skyldi viðkomandi sérgrein standa á traustum fræðilegum grunni og eiga sér samsvörun á viðurkenndum alþjóðlegum vettvangi. Í c-lið 2. mgr. 7. gr. var kveðið á um skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis, en samkvæmt ákvæðinu skyldi læknir hafa lokið viðurkenndu sérfræðinámi eða sérfræðiprófi og tileinkað sér þekkingu, klíníska og verklega færni og aðferðafræði sem krafist væri fyrir viðkomandi sérgrein skv. 10. gr. Þá sagði í 6. mgr. 7. gr. að um frekari skilyrði færi skv. 17. gr. reglugerðarinnar.

 

Í 8. gr. reglugerðarinnar sagði að sérnám skv. 10. gr. mætti einungis fara fram á þeim heilbrigðisstofnunum sem viðurkenndar væru til slíks í viðkomandi landi. Ráðherra veitti heilbrigðisstofnunum hér á landi slíka viðurkenningu samkvæmt tillögu nefndar þriggja lækna sem myndi meta starfsemi þeirra. Fjallað var um einstaka sérgreinar í 10. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 1. mgr. mátti veita sérfræðileyfi að loknu formlegu viðurkenndu sérfræðinámi á þeim sérsviðum sem tilgreind voru í töluliðum I-XXVI. Fram kom að heildarnámstími skyldi eigi vera skemmri en fjögur og hálft ár í aðalgrein. Kveðið var á um í 3. mgr. ákvæðisins að í stað eins árs í aðalgrein, sbr. a-lið í töluliðum ákvæðisins, væri sérfræðinefnd heimilt að viðurkenna eins árs nám á deild eða stofnun þar sem vísindalegar rannsóknir sem tengdust viðkomandi sérgrein færu fram. Í reglugerðinni var mælt fyrir um að sérnám í heimilislækningum skyldi fara fram með þeim hætti að ljúka skyldi annars vegar tveimur og hálfu ári á heilsugæslustöð og hins vegar tveimur árum á deildaskiptu sjúkrahúsi, sbr. a- og b-liði XIV liðar 10. gr. reglugerðarinnar. Þá sagði að námið færi fram samkvæmt „Marklýsingu fyrir sérnám í heimilislækningum“, útgefinni af Félagi íslenskra heimilislækna árið 2008. Þar væri meðal annars kveðið á um innihald, fyrirkomulag og lengd námsins, gæðakröfur, handleiðslu og hæfismat.

 

Í marklýsingu fyrir nám í heimilislækningum, útgefinni af Félagi íslenskra heimilislækna árið 2008, sagði að sérfræðinám í heimilislækningum væri að mestu starfsnám á heilsugæslustöð en að nokkru leyti einnig á sjúkra- og göngudeildum sjúkrahúsa. Lögð væri áhersla á þrjú meginsvið í náminu, þ.e. viðhorf, þekkingu og færni. Mótun viðhorfa og þekkingarmiðlun færi fram í fræðilega hluta námsins en einnig, og ekki síst, í starfsnáminu þar sem sérnámslæknirinn væri í stöðugum samskiptum við reynda heimilislækna í tengslum við sjúklingamóttöku sína. Í marklýsingunni var einnig fjallað um þann hluta sem snýr að fræðilegu námi, þar á meðal þátttöku í svonefndum kjarnafyrirlestrum. Sagði um þá fyrirlestra að hluti af starfsskyldum læknis í sérnámi væri að taka þátt í fræðilegu námi í minnst 100 klukkustundir á ári. Læknar í sérnámi hittust reglulega í 8-12 manna hópum til að ræða ákveðin viðfangsefni, en val viðfangsefna færi eftir marklýsingu og óskum læknanna í samráði við kennslustjóra. Allir fengju kennslu í kjarnaefnum sem farið væri yfir á þremur árum.

 

Málsmeðferð embættis landlæknis hefur þegar verið gerð nokkur skil, en embættið leitaði tvívegis eftir umsögn hjá sérfræðinefnd lækna við Háskóla Íslands. Var það niðurstaða nefndarinnar í bæði skipti að mæla ekki með því að veita kæranda sérfræðileyfi í heimilislækningum þar sem hana skorti tilskildan starfstíma á heilsugæslustöð, sbr. XIV. lið 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012. Í hinni kærðu ákvörðun vísar embætti landlæknis til skilyrða ákvæðisins um að umsækjandi um sérfræðileyfi í heimilislækningum skuli hafa lokið tveimur og hálfu ári á heilsugæslustöð og tveimur árum á deildaskiptu sjúkrahúsi. Þá fari námið fram samkvæmt marklýsingu fyrir sérnám í heimilislækningum frá 2008. Fjallað er um fræðilegan hluta námsins í ákvörðuninni og það mat embættis landlæknis að kærandi hafi ekki lokið við fræðilegan hluta sérfræðinámsins. Hafi embættið litið svo á að ekki sé unnt að leggja að jöfnu kennslu í almennum lyflækningum og heimilislækningum.

 

Að því er varðar starfstíma á heilsugæslustöð sé óumdeilt að kærandi hafi lokið 20 mánaða starfstíma hjá heilsugæslunni […]. Af þeim tíma hafi kærandi verið í fæðingarorlofi í 10 mánuði og 22 daga. Fram kemur í ákvörðuninni að sérfræðinefnd lækna hafi metið það svo að viðurkenna mætti eitt ár af rannsóknartengdu námi kæranda upp í heilsugæslutímann eins og heimilt hafi verið samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012. Eftir standi að kæranda skorti átta mánuði og 22 daga til að uppfylla skilyrði a-liðar XIV. töluliðar 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 um tvö og hálft ár á heilsugæslustöð. Taldi embættið ekki unnt að meta sérnám kæranda í lyflækningum til jafns við sérnám í heimilislækningum án sérstakrar heimildar í reglugerð nr. 1222/2012. Þar sem kæranda skorti átta mánuði og 22 daga á heilsugæslustöð uppfylli kærandi ekki skilyrði a-liðar XIV. tölul. 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 um starfstíma á heilsugæslustöð.

 

Af gögnum málsins má ráða að ekki sé deilt um að kæranda skorti þann starfstíma á heilsugæslustöð sem mælt er fyrir um í a-lið XIV. liðar 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012. Lúta röksemdir kæranda m.a. að því að leggja megi sérnám hennar í lyflækningum að jöfnu við sérnám í heimilislækningum sem komi til móts við þann tíma sem hana skorti á heilsugæslustöð. Þá verði að meta umsókn hennar í heild með hliðsjón af atvikum öllum, svo sem sérfræðinámi hennar og þekkingar sem hún hafi aflað sér. Byggir kærandi á því að séu aðstæður hennar virtar í heild uppfylli hún þær kröfur sem reglugerð nr. 1222/2012 gerði fyrir útgáfu sérfræðileyfis í heimilislækningum. Með hliðsjón af því megi gera undanþágu frá skilyrði um tiltekinn tíma á heilsugæslustöð, sbr. a-lið XIV. liðar 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012.

 

Ráðuneytið vísar til fyrri umfjöllunar um skilyrði fyrir útgáfu sérfræðileyfa á grundvelli reglugerðar nr. 1222/2012. Að því er mál kæranda varðar bendir ráðuneytið á að í reglugerðinni er lögð sérstök áhersla á að sérnám sé stundað innan þeirrar sérgreinar sem um ræðir. Kemur t.a.m. fram í 1. mgr. 7. gr. að skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis sé að sérfræðinám umsækjanda sé skilgreint innan þeirrar sérgreinar sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til. Í c-lið 2. mgr. 7. gr. er skilyrði að umsækjandi hafi lokið viðurkenndu sérfræðinámi og tileinkað sér þekkingu, klíníska og verklega færni og aðferðafræði sem krafist er fyrir viðkomandi sérgrein skv. 10. gr. Þá er kveðið á um í 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar að heildarnámstími skuli eigi vera skemmri en fjögur og hálft ár í aðalgrein.

 

Samkvæmt framangreindu felur reglugerðin í sér þá meginreglu um að sérnám skuli fara fram innan sérgreinar. Eina undanþágan sem reglugerð nr. 1222/2012 gerir frá skilyrðum um starfstíma er að í stað eins árs í aðalgrein, sbr. a-lið í töluliðum 10. gr., sé sérfræðinefnd samkvæmt 16. gr. heimilt að viðurkenna eins árs nám á deild eða stofnun þar sem vísindalegar rannsóknir sem tengjast viðkomandi sérgrein fara fram. Bendir ráðuneytið á að undanþágan er afmörkuð við að rannsóknirnar tengist viðkomandi sérgrein. Í umsögn sérfræðinefndar um umsókn kæranda frá 12. október 2020 féllst nefndin á að meta doktorsnám kæranda í stað eins árs á heilsugæslustöð. Starfstími í heilsugæsluhluta yrði þannig eitt ár og níu mánuðir.

 

Að mati ráðuneytisins eiga framangreind skilyrði reglugerðarinnar sér beina skírskotun til 2. mgr. 8. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, þar sem kveðið er á um að í reglugerð um veitingu sérfræðileyfis skuli miðað við að lokið hafi verið formlegu viðbótarnámi á viðkomandi sérfræðisviði, sem og markmiðs laganna um að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga. Ráðuneytið telur að líta verði svo á að hagsmunir sjúklinga séu að miklu leyti fólgnir í því að staðfest sé að heilbrigðisstarfsmenn sem þeir leita til hafi nauðsynlega þekkingu og hæfni á tilteknu sérsviði, sem leyfi landlæknis til handa þeim vísar til.

 

Ráðuneytið tekur undir það sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun um að ljóst sé að kærandi uppfylli ekki skilyrði a-liðar XIV. liðar reglugerðar nr. 1222/2012. Að frátalinni undanþágu 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar geri reglugerðin ekki ráð fyrir því að heimilt sé að víkja frá skilyrðum um námstíma og þeirri meginreglu að sérnám skuli fara fram innan sérgreinar, svo sem á grundvelli sérnáms í annarri sérgrein, kennslu eða heildstæðu mati á annan hátt. Sé þannig ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði um námstíma á heilsugæslustöð þar sem hana vanti átta mánuði og 22 daga til að skilyrðið sé uppfyllt. Vísar ráðuneytið í þessu sambandi jafnframt til úrskurðar ráðuneytisins nr. 11/2021, en í úrskurðinum komst ráðuneytið að niðurstöðu um að reglugerð nr. 1222/2012 hafi ekki veitt heimild til að víkja frá skilyrðum um námstíma í aðalgrein samkvæmt 10. gr. reglugerðarinnar að öðru leyti en rakið hefur verið.

 

Ráðuneytið telur auk þess að þeir úrskurðir sem kærandi vísar til hafi ekki þýðingu eða fordæmisgildi fyrir mál hennar, en þau mál vörðuðu aðrar starfsstéttir og önnur atriði en eru til umfjöllunar í máli kæranda. Hvað varðar meint brot gegn jafnræðisreglu telur ráðuneytið, að virtum athugasemdum sem liggja fyrir frá embætti landlæknis í málinu, að ekkert haldbært liggi fyrir um að embættið hafi gert undantekningar á  kröfum 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 um námstíma á sambærilegan hátt og kærandi byggir á að verði gert í hennar tilviki. Verður þannig ekki talið að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga eða réttmætum væntingum kæranda með því að synja henni um sérfræðileyfi.

 

Með vísan til framangreinds verður ekki talið að unnt sé að gera undantekningu frá a-lið XIV. lið 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 í máli kæranda, þess efnis að ljúka hafi átt tveimur og hálfu ári á heilsugæslustöð. Liggur þannig fyrir að kærandi uppfylli ekki umrætt skilyrði. Að mati ráðuneytisins leiðir framangreint til þess að kærandi teljist ekki uppfylla það skilyrði c-liðar 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 að hafa lokið viðurkenndu sérfræðinámi eða sérfræðiprófi.

 

Hvað varðar fræðilegan hluta námsins vísar ráðuneytið til þess sem fram kemur í marklýsingu um sérnám í heimilislækningum, en þar segir að hluti af starfsskyldum sé að taka þátt í fræðilegu námi minnst 100 klukkustundir á ári. Þá segir að allir fái kennslu í kjarnaefnum sem farið sé yfir á þremur árum. Í umsögn sérfræðinefndar um umsókn kæranda, dags. 11. júní 2020, segir að kæranda skorti þátttöku í kjarnafyrirlestrum. Í athugasemdum kæranda vegna umsagnarinnar, dags. 10. júlí sama ár, segir að kjarnafyrirlestra hafi átt að stunda í tvö ár af sérnáminu á þeim tíma sem um ræðir. Fram kemur að kærandi hafi stundað þá í samtals eitt ár að frádregnu fæðingarorlofi. Rekur kærandi í framhaldinu kennslu á heilsugæslu og telur að færa megi rök fyrir því að kennsla á lyflæknasviði hafi verið betri kennsla en kennsla sem hafi aðeins verið byggð á fyrirlestrum samnemenda hennar. Í seinni umsögn sérfræðinefndar um umsókn kæranda, dags. 12. október 2020, segir að kæranda vanti helming kjarnafyrirlestra í heimilislækningum, eða eitt ár af tveimur, en ekki sé hægt að leggja að jöfnu fyrirlestra í almennum lyflækningum og fyrirlestra í heimilislækningum. Þá vanti staðfestingu á ástundun frá kennslustjóra.

 

Í gögnum málsins eru tölvupóstar milli embættis landlæknis og […], sem mun samkvæmt gögnum málsins vera annar tveggja kennslustjóra sérnáms í heimilislækningum. Óskaði embætti landlæknis m.a. eftir upplýsingum um ástundun kæranda í fræðilega kennslu. Fram kemur í svari […], þann 21. desember 2020, að kærandi hafi, samkvæmt gögnum sérnámsins, mætt í 50% tíma í hópkennslu en krafa um mætingu í þann hluta námsins sé 85%. Að hennar mati uppfylli kærandi þannig ekki þær kröfur sem gerðar séu til fræðilegs hluta sérnáms samkvæmt því sem fram hafi komið í marklýsingu fyrir námið frá 2008. Þá greinir […] frá því, í tölvupósti þann sama dag, að hún eigi mætingabækur frá þessum tíma og að þær sýni að kærandi hafi ekki verið að mæta árið 2014. Frekari upplýsingar bárust frá […] um mætingu kæranda en þar segir að fræðilega kennslan hafi farið fram eftir hádegi á mánudögum árin 2013-2014. Samkvæmt […] hafi mæting kæranda í hópkennslu verið ófullnægjandi haustið 2013 og líka 2014-2015, en mætingabækur sýni 31 klukkustund af 60 sem gert hafi verið ráð fyrir í dagskránni.

 

Í XIV. lið 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 voru sett fram hlutlæg skilyrði um námstíma sem umsækjandi um sérfræðileyfi í heimilislækningum þurfti að uppfylla til að vera veitt slíkt leyfi. Hvað önnur atriði varðar var í reglugerðinni vísað til þess að námið færi fram samkvæmt fyrrnefndri marklýsingu frá 2008. Til að skilyrði c-liðar 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar, um að umsækjandi hefði tileinkað sér þekkingu, klíníska og verklega færni og aðferðafræði sem krafist hafi verið fyrir viðkokandi sérgrein skv. 10. gr., þarf umsækjandi um sérfræðileyfi í heimilislækningum að hafa uppfyllt þær kröfur sem settar voru fram í marklýsingu um fræðilegt nám. Mat á því hvort þær kröfur hafi verið uppfylltar eru á hendi þeirra aðila sem hafa umsjón með sérfræðinámi í heimilislækningum innan læknadeildar Háskóla Íslands, en í málinu liggur ekki fyrir staðfesting frá deildinni á því að kærandi uppfylli kröfur til ástundunar í kjarnafyrirlestra. Ráðuneytið hefur kynnt sér gögn sem kærandi hefur lagt fram og hún kveður sýna fram á frekari mætingu í fyrirlestra árin 2013-2015. Er það mat ráðuneytisins að kærandi hafi ekki leitt að því líkur að framangreint mat læknadeildar Háskóla Íslands hafi verið reist á ófullnægjandi upplýsingum. Í ljósi þess að ekki liggur fyrir staðfesting frá læknadeild Háskóla Íslands um að kærandi hafi uppfyllt kröfur marklýsingarinnar um fræðilegt nám telur ráðuneytið ekki unnt að líta svo á að kærandi uppfylli það skilyrði c-liðar 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 að hafa tileinkað sér þekkingu, klíníska og verklega færni og aðferðafræði sem krafist var fyrir sérnám í heimilislækningum.

 

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða ráðuneytisins að kærandi uppfylli ekki skilyrði c-liðar 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1222/2012, sbr. einnig a-lið XIV. liðar 10. gr. reglugerðarinnar. Verður hin kærða ákvörðun embættis landlæknis því staðfest.

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun embættis landlæknis, dags. 26. febrúar 2021, um að synja kæranda um sérfræðileyfi í heimilislækningum, er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira