Hoppa yfir valmynd

Úrskurður heilbrigðisráðuneytisins nr. 006/2020 - Beiðni um undanþágu frá takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar - (MK)

I. Beiðni um undanþágu.

Með tölvupósti, dags. 13. mars 2020, barst heilbrigðisráðuneytinu beiðni frá Menntaskólanum í Kópavogi (MK) um undanþágu frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, fyrir viðkvæma hópa. 

Í beiðninni er óskað eftir undanþágu fyrir tvo hópa nemenda. Annars vegar fyrir nemendur með einhverfu á starfsbraut. Fram kemur að um sé að ræða 15 nemendur og fimm starfsmenn. Sérstakur inngangur sé inn á starfsbraut skólans og auðveldlega sé hægt að halda allri starfsemi aðskilinni frá aðalbyggingu skólans. Um sé að ræða afar viðkvæman hóp nemenda sem hafa ekki getu til að stunda fjarnám. Sum glími við hegðunarvanda og fái þau ekki þjónustu skólans muni það hafa verulega mikið álag í för með sér á aðstandendur þeirra. Fáist undanþága til að bjóða upp á reglulega starfsemi starfsbrautar munu allar sóttvarnir verða með sama hætti og væri um heilbrigðisstofnun að ræða. Komi upp COVID-19 smit eða tilefni til sóttkvíar verði staðan endurmetin.

Hins vegar er óskað eftir undanþágu fyrir kennslu í Krýsuvík. Fram kemur að MK hafi sinnt kennslu nemenda á meðferðarheimilinu Krýsuvík. Á meðan starfsemi er í gangi í Krýsuvík sé óskað heimildar fyrir fjóra kennara skólans að kenna að óbreyttu ungu fólki í Krýsuvík, að því gefnu að Krýsuvík loki ekki vegna farsóttar. Sökum sérstöðu nemenda í Krýsuvík sé erfiðara um vik að sinna fjarkennslu.


II. Umsagnir.

Heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir umsögnum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og sóttvarnasviðs Embættis landlæknis um undanþágubeiðnina. Í umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir meðal annars eftirfarandi:

„Er snýr að beiðni vegna nemenda með einhverfu á starfsbraut í Menntaskólanum í Kópavogi þá er fjallað um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum í reglugerð nr. 230/2012. Í 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að nemendur með sérþarfir teljast þeir sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar sbr. 2. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með þroskaröskun og geðraskanir og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir.

Samkvæmt samtali við skólameistara Menntaskólans í Kópavogi er sá möguleiki fyrir hendi að skipta þeim nemendum sem eru á starfsbraut skólans niður í hópa þannig að þeir geti mætt t.d. annan hvorn dag. Sérstakur inngangur væri inn á starfsbraut skólans og munu allar sóttvarnir verða með sama hætti og væri um heilbrigðisstofnun að ræða. Skólameistari ítrekaði að nauðsynlegt væri að veita þessa undanþágur ef ekki væri fyrir þennan hóp sem er mjög viðkvæmur fyrir breytingum þá í að minnsta kosti fyrir aðstandendur þeirra en fái þau ekki þjónustu skólans mun það hafa verulega mikið álag í för með sér fyrir þau.

Ráðuneytið tekur undir þessi sjónarmið skólameistara Menntaskólans í Kópavogi og leggst ekki gegn því að beiðni þessi verði tekin til greina enda telur ráðuneytið að gæta þurfi meðalhófs að eins miklu leyti og hægt er og að verði beiðnin tekin til greina þá fari það ekki gegn markmiðum auglýsingar um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar enda megi líta svo á að hagsmunir þessara einstaklinga og aðstandenda þeirra séu meiri en aðgerðin að loka skólanum. Ráðuneytið gerir umsögn þessa á þeim forsendum sem snýr að menntamálum í landinu en ef umsögn sóttvarnarlæknis er önnur mun ráðuneytið ekki leggjast gegn niðurstöðu hans.

Er snýr að beiðni vegna kennslu á Krýsuvík þá ber að taka fram að meðferðarheimilið í Krýsuvík er meðferðarúrræði fyrir einstaklinga þar sem lögð er áhersla á að hjálpa/leysa þá hluti í fari vistmanna, sem hafa tafið þá í þroska eða haldið þeim utan við samfélagið í lengri eða skemmri tíma. Kennsla í Krýsuvíkurskóla er að ýmsu leyti frábrugðin hefðbundinni kennslu. Hún er samofin þeirri meðferð sem þar fer fram og er eitt lykilatriði þess að auka sjálfsstyrk vistmanna með því að auka menntun þeirra, víkka sjóndeildarhringinn og bæta félagslega hæfni. Sérstök námsáætlun er fyrir Krýsuvík þar sem námið er brotið upp í smærri einingar, sem hver varir í fjórar vikur. Samkvæmt samtali við skólameistara Menntaskólans í Kópavogi fara fjórir kennarar einu sinni í viku í skólann og varir hver kennslustund um 90 mínútur.

Ráðuneytið tekur undir þessi sjónarmið og leggst ekki gegn því að beiðnin verði tekin til greina enda telur ráðuneytið að hér sé ekki um að ræða ákvörðun sem hefur mikil áhrif á skólakerfið í heild sinni sem og að um sé að ræða einstakt námsúrræði fyrir vistmenn heimilisins. Þeir dvelja nú þegar á meðferðarheimilinu og er því ekki um að ræða samkomu á ákveðnum stað með það markmið að stunda nám. Ráðuneytið gerir umsögn þessa á þeim forsendum sem snýr að menntamálum í landinu en ef umsögn sóttvarnarlæknis er önnur mun ráðuneytið ekki leggjast gegn niðurstöðu hans.“

Af hálfu sóttvarnasviðs landlæknis kom fram að eins og beiðnin væri sett fram og að teknu tilliti til aðstæðna umræddra nemenda, og eftir atvikum aðstandenda, sem og þeirra sóttvarnaráðstafana sem boðaðar væru í beiðninni, væri eðlilegt að veita umbeðnar undanþágur fyrir bæði tilvikin.


III. Niðurstaða.

Í 5. gr. auglýsingar nr. 216/2020 segir að framhalds- og háskólum skuli lokað og fjarkennslu skuli sinnt eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari ákvörðun menntamálayfirvalda. Samkvæmt 6. gr. auglýsingar nr. 216/2020 getur heilbrigðisráðherra veitt undanþágu frá takmörkun skólastarfs ef ekki er talin hætta á að slíkt fari gegn markmiðum opinberra sóttvarnaráðstafana. Við mat á því hvort heimila eigi undanþágu samkvæmt ákvæðinu þarf því meðal annars að líta til þess hvort undanþágan sem slík setji í hættu ráðstafanir til að varna útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins en jafnframt hvort undanþágan yrði fordæmi sem ekki væri unnt að fylgja eftir vegna þess að samþykkt allra sambærilegra tilvika myndi grafa undan framangreindum ráðstöfunum. 

Að mati ráðuneytisins kemur einkum til greina að veita undanþágur þegar um mjög sérstakar aðstæður er að ræða og að takmörkun á skólahaldi kæmi sérstakleg þungt niður á viðkomandi nemendum, kennurum eða aðstandendum, svo sem í tilvikum þeirra sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Enn fremur þegar aðstæður á viðkomandi stað gera það mun erfiðara en annars staðar að fylgja fyrirmælum ákvörðunarinnar.

Heilbrigðisráðuneytið hefur farið yfir umsóknina og umsagnir umsagnaraðila auk þess að afla frekari upplýsinga um þá starfsemi sem beiðnirnar lúta að. Ráðuneytið tekur undir þær röksemdir sem koma fram í umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins og sóttvarnasviðs landlæknis og telur að í ljósi þeirra veigamiklu hagsmuna sem einhverfir nemendur á starfsbraut MK og aðstandendur þeirra hafa af því að skólastarfi þeirra verði ekki raskað, og með hliðsjón af þeim sóttvarnaráðstöfunum sem boðaðar eru, sé unnt að fallast á umbeðna undanþágu vegna þessara nemenda eins og hún er fram sett í beiðninni og með þeim skilyrðum sem þar koma fram. Þá telur ráðuneytið enn fremur að þar sem nemendur í Krýsuvík dveljist hvort eð er saman í meðferðarúrræði fari það ekki gegn markmiðum opinberra sóttvarnaráðstafana að veita umbeðna undanþágu vegna þeirra. Að öðru leyti beri að fara eftir ákvæðum auglýsingar nr. 216/2020, og ákvæðum auglýsingar nr. 217/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, eftir því sem við á.

Ráðherra getur, svo sem vegna breyttra aðstæðna í skóla, í viðkomandi landshluta eða á landinu öllu, í tengslum við útbreiðslu farsóttar afturkallað ákvörðun þessa.  

 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðnir Menntaskólans í Kópavogi um undanþágur frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, fyrir 15 nemendur með einhverfu á starfsbraut og fyrir nemendur í meðferðarúrræðinu í Krýsuvík eru samþykktar með þeim skilyrðum sem koma fram í beiðnunum.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira