Hoppa yfir valmynd

Synjun á greiðslu launa í uppsagnarfresti

Ár 2009, miðvikudaginn 7. október, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR

Kæruefnið og málavextir

Menntamálaráðuneytinu barst þann 30. september sl. stjórnsýslukæra A, f.h. B (hér eftir nefndur kærandi). Í kærunni er þess krafist að ákvörðun skólameistara skóla X, þess efnis að hafna greiðslu launa til kæranda í uppsagnarfresti, verði breytt á þann veg að skólanum verði gert að greiða kæranda laun í uppsagnarfresti í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings kæranda. Til vara er þess krafist að ákvörðun skólameistara skóla X um uppsögn kæranda verði felld úr gildi og skólameistara falið að taka ákvörðun er uppfylli kröfur stjórnsýslulaga.

Í gögnum málsins kemur fram að 2. apríl sl. hafi kæranda, á grundvelli dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. mars sl., og með hliðsjón af 45. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, með síðari breytingum, verið sagt upp starfi kennara við skóla X. Þann 28. ágúst sl. ritaði lögmaður kæranda bréf til skólameistara, þar sem gerð var krafa um greiðslu launa til kæranda í uppsagnarfresti í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings kæranda. Í svarbréfi skólameistara, dags. 15. september sl., var kröfunni hafnað og vísað til þess að uppsagnarfrestur ætti ekki við þegar um fyrirvaralausa uppsögn væri að ræða.

Rökstuðningur niðurstöðu:

Hin kærða ákvörðun skólameistara skóla X lýtur að synjun á kröfu kæranda um laun í uppsagnarfresti, á þeim forsendum að um hafi verið að ræða fyrirvaralausa uppsögn samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í ákvæðinu er kveðið á um að starfsmanni skuli víkja úr starfi fyrirvaralaust ef hann hefur játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla mætti að hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur þann 27. mars sl. var kærandi dæmdur til greiðslu sektar, að fjárhæð 250.000 kr., vegna brots á 210. gr. almennra hegningarlaga. Eins og fram kemur í ákvæði 49. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þá verður ákvörðunum stjórnvalda samkvæmt lögunum ekki skotið til æðri stjórnvalda nema öðruvísi sé fyrir mælt í einstökum ákvæðum laganna. Ekki er til staðar í lögunum heimild til að kæra framangreinda ákvörðun til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og verður því ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá ráðuneytinu, eins og nánar greinir í úrskurðarorðum:

Úrskurðarorð:

Stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar skólameistara skóla X, dags. 15. september 2009, að synja kröfu kæranda um greiðslu launa í kjölfar uppsagnar, er hér með vísað frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira