Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun Matvælastofnunar um synjun á umsókn um svæðisbundinn stuðning í sauðfjárrækt

Með erindi, dags. 25. janúar 2019, kærði [A], hér eftir nefndur kærandi, ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. janúar 2019 um synjun á umsókn um svæðisbundinn stuðning í sauðfjárrækt.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst erindi kærenda innan kærufrests.

 

Kröfur

Engin krafa er tilgreind í kæru en ljóst er að kærandi óskar þess að ákvörðun um synjun verði afturkölluð.

 

Málsatvik

Matvælastofnun auglýsti eftir undanþágum vegna svæðisbundins stuðnings í Bændablaðinu þann 13. desember 2018 og á heimasíðu Matvælastofnunar 14. desember 2018. Kærandi lagði fram umsókn til Matvælastofnunar um svæðisbundinn stuðning þann 8. janúar 2019. Þann 22. janúar var kæranda sent synjunarbréf frá stofnuninni þar sem fram kom að hann uppfyllti ekki skilyrði um fjölda skráðra ærgilda samkvæmt haustskýrslu næstliðið ár sbr. b-lið 1. mgr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt nr. 1262/2018. Með erindi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins dags. 25. janúar 2019 var ákvörðun Matvælastofnunar kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Með bréfi dags. 7. febrúar 2019 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna kærunnar auk allra gagna málsins. Umsögn Matvælastofnunar barst með erindi dags. 21. febrúar 2019. Þann 28. febrúar 2019 var kæranda send umsögn stofnunarinnar og gefinn frestur til andmæla. Andmæli kæranda bárust með tölvupósti þann 11. mars 2019.

 

Sjónarmið kæranda

Kærandi telur sig eiga rétt á svæðisbundnum stuðningi í sauðfjárrækt. Vísar hann til þess að hann eigi ekki síður tilkall til þess réttar en bændur í Árneshreppi þar sem hann búi á mjög snjóþungu svæði þar sem oft er um lokanir á vegum að ræða. Hann búi auk þess við þær kvaðir að hann megi ekki selja kindur til lífs líkt og bændur í Árneshreppi. Kærandi vísar í þessu sambandið til jafnræðisreglunnar. Hann kveðst telja að byggðasjónarmið hljóti að ná yfir Skíðadal líkt og önnur svæði á landinu.

 

Sjónarmið Matvælastofnunnar

Af hálfu Matvælastofnunar kemur fram að samkvæmt b-lið 22. gr. reglugerðar nr. 1262/2018 liggi fyrir að vetrarfóðraðar kindur þurfi að vera að lágmarki 300 næstliðið haust og frávik þess vegna í 2. mgr. sömu greinar sem segi að framleiðendur í Árneshreppi teljist þó uppfylla b-lið 1. mgr. eigi þeir að minnsta kosti 100 vetrarfóðraðar kindur. Kveðst Matvælastofnun ekki hafa heimild til að fara út fyrir heimildir reglugerðarinnar, en samkvæmt henni sé aðeins heimilt að veita undanþágu frá fjarlægðarmörkum en ekki vegna fjölda fjár eða búsetu. Birt fyrirmæli reglugerðarinnar bindi því alla, einnig kæranda, frá og með 1. janúar 2019, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað. Matvælastofnun telji því að kæran eigi ekki við rök að styðjast og fer fram á að synjun stofnunarinnar verði staðfest.

 

Forsendur og niðurstaða

            Málið lýtur að umsókn kærenda um svæðisbundinn stuðning í sauðfjárrækt. Í samræmi við 30. gr. búvörulaga, nr. 99/1993 hafa verið gerðir samningar á milli íslenska ríkisins og Bændasamtaka Íslands, m.a. samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar, með gildistíma frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2026. Samkvæmt 8. gr. samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar verður greiddur sérstakur svæðisbundinn stuðningur á samningstímanum til framleiðenda á ákveðnum landsvæðum sem háðust eru sauðfjárrækt. Þá kemur m.a. fram að svæði sem eigi rétt á stuðningi skuli skilgreina í reglugerð að fenginni tillögu Byggðastofnunar. Endanlegt fyrirkomulag um útdeilingu stuðnings skuli einnig ákveðið í reglugerð að fenginni tillögu Byggðastofnunar og eftir umsögn framkvæmdanefndar búvörusamninga.

            Fjallað er um svæðisbundinn stuðning í IV. kafla þágildandi reglugerðar nr. 1262/2018, um stuðning við sauðfjárrækt. Í 20. gr. reglugerðarinnar kemur fram að markmið svæðisbundins stuðnings sé að styðja þá framleiðendur sem séu á landsvæðum sem háðust séu sauðfjárrækt og framleiðendur sem hafi takmarkaða möguleika á annarri tekjuöflun. Í 21. gr. er tiltekið að framleiðendur skuli uppfylla öll  eftirfarandi skilyrði: a) Lögbýli sé í að minnsta kosti 40 km akstursfjarlægð eða lengra frá þéttbýlisstöðum sem eru með yfir 1.000 íbúa, b) lögbýli sé í að minnsta kosti 75 km akstursfjarlægð eða lengra frá þéttbýlisstöðum sem eru með yfir 10.000 íbúa og c) lögbýli sé í að minnsta kosti 150 km akstursfjarlægð eða lengra frá Reykjavík. Matvælastofnun skuli byggja á gögnum frá Byggðastofnun hvað varði lista yfir þau sauðfjárbú sem standist ofangreind skilyrði og við útreikning skuli miða við staðsetningu íbúðarhúss lögbýlis. Þá kemur fram að Matvælastofnun sé heimilt að víkja frá fyrrgreindum skilyrðum ef sýnt er fram á með sannan­legum hætti að þjóðvegur að lögbýli þar sem umsækjandi stundar sauðfjárrækt hafi lokast vegna snjóa, skriðufalla og vatnavaxta í meira en átta klukkustundir í senn á sólarhring í fimm daga á ári síðast­liðin tvö ár. Framleiðandi skuli sækja um slíka undanþágu til Matvælastofnunar eigi síðar en 10. janúar ár hvert. Í 22. gr. með fyrirsögninni Rétthafar greiðslna kemur fram í 1. mgr. að rétthafar greiðslna vegna svæðisbundins stuðnings skuli a) vera handhafar greiðslna samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar  og b) hafa átt 300 vetrarfóðraðar kindur eða fleiri samkvæmt haustskýrslu næstliðið haust. Í 2. mgr. 22. gr. kemur þó fram að framleiðendur í Árneshreppi teljist uppfylla b-lið 1. mgr. ef þeir eigi 100 vetrarfóðraðar kindur eða fleiri samkvæmt haustskýrslu næstliðið haust.

            Samkvæmt umræddri haustskýrslu kæranda uppfyllti hann ekki skilyrði b. liðar 1. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1262/2018 hvað fjölda vetrarfóðraðra kinda varðar og féll ekki undir undanþáguheimild 2. mgr. 22. gr. sömu reglugerðar. Af framangreindu þykir ljóst að kærandi taldist ekki uppfylla skilyrði fyrir svæðisbundnum stuðningi sbr. þágildandi reglugerð nr. 1262/2018 um stuðning í sauðfjárrækt. Með vísan til alls framangreinds er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 22. janúar 2019, um synjun á umsókn kæranda um svæðisbundinn stuðning í sauðfjárrækt.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 22. janúar 2019, um synjun á umsókn [A], um svæðisbundinn stuðning í sauðfjárrækt er hér með staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira