Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar sýslumanns um skipun fyrirsvarsmanns

Mánudaginn, 13.11.2023, var í matvælaráðuneytinu

kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

Stjórnsýslukæra

Með erindi dags, 23. janúar 2023, kærði [A] (hér eftir kærandi) ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi um tilnefningu fyrirsvarsmanns jarðarinnar [X] skv. 7. gr. a. jarðalaga nr. 81/2004.

Ekki er tilgreind kæruheimild í kærunni sjálfri en þar sem engin kæruheimild er í jarðalögum nr. 81/2004 má gera ráð fyrir að kæran sé reist á hinni almennu kæruheimild í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kveður á um að heimilt sé að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds nema annað leiði af lögum eða venju. 

 

Kröfur

Þess er krafist að ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi frá 2. nóvember 2022, um tilnefningu fyrirsvarsmanns jarðarinnar [X] skv. 7. gr. a. jarðalaga nr. 81/2004, verði felld úr gildi og lagt fyrir sýslumann að leysa úr málinu samkvæmt gildandi lögum. 

 

Málsatvik og málsmeðferð

Málsatvik eru á þann veg að þann 2. nóvember 2022 tilnefndi sýslumaðurinn á Vesturlandi fyrirsvarsmanns jarðarinnar [X] skv. 7. gr. a. jarðalaga nr. 81/2004 með síðari breytingum. 

Í rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun sem nefndur er úrskurður í gögnum málsins kom fram það mat embættisins að ekki væri til staðar ágalli á umboðum þeim sem í málinu voru lögð til grundvallar og að engir annmarkar væru á fundinum frá 24. september 2022 sem valdi ógildingu hans eða kosningu [B] sem fyrirsvarsmanns jarðarinnar.

Með bréfi, dags. 23. janúar 2023, var framangreind ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi um tilnefningu fyrirsvarsmanns jarðarinnar skv. 7. gr. a. jarðalaga nr. 81/2004 kærð til ráðuneytisins. 

Þar sem ekki er tilgreind kæruheimild í kærunni sjálfri er gert ráð fyrir að kæran sé reist á hinni almennu kæruheimild 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kveður á um að heimilt sé að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds nema annað leiði af lögum eða venju.

Kærunni var upphaflega beint að dómsmálaráðuneytinu en á grundvelli álits forsætisráðuneytisins frá júní 2023 var kæran send til matvælaráðuneytisins til málefnalegrar meðferðar. Óskað var eftir umsögn sýslumannsins á Vesturlandi vegna málsins auk gagna málsins og barst ráðuneytinu umsögnin þann 4. júlí sl. Í kjölfarið var kæranda gefinn kostur á að koma andmælum sínum á framfæri vegna umsagnarinnar og bárust andmæli kæranda þann 18. júlí 2023. Málið er tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

 

Sjónarmið kæranda 

Í stjórnsýslukæru, dags 23. janúar 2023, kemur fram að kærandi byggir á því að sýslumanni hafi skort heimild að lögum til að taka umrætt mál til úrskurðar. Vísar kærandi til þess að ekkert er kveðið á um það í jarðalögum né stjórnsýslulögum  að sýslumaður skuli taka mál, líkt og um ræðir í fyrirliggjandi máli, til úrskurðar. 

Þá byggir kærandi á því að sýslumanni hafi skort heimild að lögum til að gefa út skipunarbréf og þinglýsa því á fasteignina. Vísar kærandi til þess að auk úrskurðarins, dags. 2. nóvember 2022, sem kærður er í fyrirliggjandi máli hafi sýslumaður gefið út skipunarbréf þann sama dag handa [B] til að vera fyrirsvarsmaður jarðarinnar. Telur kærandi að sýslumaður hafi ekki haft heimild til þess enda sé ekkert kveðið á um það í jarðalögum. 

Þá byggir kærandi á því að sýslumaður hafi ekki verið bær til að taka málið efnislega til afgreiðslu lögum samkvæmt. Vísar kærandi til þess að sýslumaður hafi skipað [B] sem fyrirsvarsmann en slíkt samræmist ekki 5. og 6. málsl. 7. gr. a. jarðalaga. Bendir kærandi á að í framangreindri grein komi fram að sýslimanni sé aðeins heimilt að tilnefna þann sem eigi stærstan eignarhlut, og ef tveir eða fleiri eiga jafnan eignarhlut skuli hann tilnefna annan þeirra. Í fyrirliggjandi máli hafi sýslumaður hins vegar hafi skipað [B] sem fyrirsvarsmann en hann er ekki í eigendahópi jarðarinnar. Af því sögðu telur kærandi að sú skipun samræmist ekki orðalagi ákvæðisins. 

Að lokum telur kærandi að sýslumaður hafi með alvarlegum hætti virt að vettugi reglur jarðalaga um fyrirsvar jarða í sameign og þinglýsingarlaga nr. 39/1978 um að skilyrði þess að skjali verði þinglýst. Vísar kærandi til þess að fundargerðin, þ.e. þar sem fram kom að kosinn hafi verið fyrirsvarsmaður, sé undirrituð af tveimur einstaklingum. Annars vegar [B] og hins vegar sé þar áletrun sem virðist eiga að vera nafnritun en sé ólæsileg. Því hafi fundargerðin ekki verið undirrituð af neinum þinglýstum eiganda jarðarinnar en auk þess hafi [B] ekki undirritað hana „eftir umboði“ líkt og kærandi telur að honum hafi verið rétt að gera. 

Þá gerir kærandi alvarlegar athugasemdir við form og framsetningu úrskurðar sýslumannsins frá 2. nóvember 2022. Bendir kærandi á að í úrskurðinn hafi verið skjáskot af m.a. ákvæðum jarðalaga, upplýsingum úr þinglýsingarkerfinu og af fundargerð. Telur kærandi slík vinnubrögð sýslumanns ekki samræmast góðum stjórnsýsluháttum og formkröfum stjórnsýslulaga. Að lokum óskar kærandi eftir því að ráðuneytið taki starfshætti sýslumannsins á Vesturlandi til rannsóknar. 

Að öllu framangreindu virtu krefst kærandi þess að umræddur úrskurður sýslumannsins á Vesturlandi frá 2. nóvember verði felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumann að leysa úr málinu samkvæmt gildandi lögum. Ef fallist verði á kröfur kæranda er þess óskað að þinglýsingarstjóri muni afmá skipunarbréfið úr fasteignbók af eigninni á grundvelli 1. mgr. 27. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978, og eftir atvikum á grundvelli 38. gr. sömu laga. 

 

Sjónarmið sýslumanns á Vesturlandi

Þann 4. júlí sl. barst ráðuneytinu umsögn frá sýslumanni á Vesturlandi vegna málsins auk annarra gagna málsins. Umsögnin er sett upp með þeim hætti að í henni er svarað þeim athugasemdum sem kærandi listaði upp í kæru sinni. 

Við þá athugasemd kæranda um að sýslumanni hafi skort heimild að lögum til að taka umrætt mál til úrskurðar vísar embættið til ítarlegs minnisblaðs, dags. 31. maí 2022, sem forsætisráðuneytið sendi í kjölfarið að setningu laga nr. 74/2022. Kemur þar fram að ráðuneytið telur að málsmeðferð um tilnefningu fyrirsvarsmanns jarðar fari eftir reglum stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttar. Telur embættið að minnisblaðið gefi til kynna þá fyrirætlun forsætisráðuneytisins um hvernig ætti að vinna mál sem þetta. 

Við þá athugasemd kæranda um að sýslumanni hafi skort heimilt að lögum til þess að gefa út skipunarbréf handa [B] til þess að vera fyrirsvarsmaður umræddar jarðar, þá telur embættið það leiða af hlutarins eðli að til þess að ná fram markmiðum laga nr. 70/2022 þurfti að rita skriflegt bréf um skipunina. Þá bendir embættið á að það hvort skipunin sé kölluð „tilnefning“ eða „skipun“ skipti í sjálfu sér ekki máli varðandi lögmæti ákvörðunarinnar. 

Við þá athugasemd kæranda um að sýslumaður hafi ekki verið bær að taka málið efnislega til afgreiðslu lögum samkvæmt þá vísar embættið til þess að 7. gr. a. gerir það ekki að skilyrði að mál sé tekið til meðferðar að skipunarbeiðandi sé einn af sameigendum. Bendir embættið á að slíkt er ekki tekið fram í ákvæðinu og þar með verður að gagnálykta sem svo að þetta atriði sé ekki skilyrði. Þá bendir embættið á að ef lagatúlkun kæranda sé svo að einungis þeir sem eru sameigendur að jörðinni komi til greina sem fyrirsvarsmaður, þá væri ákvæðið mjög erfitt í framkvæmd. Þá hafnar embættið tilvísun til 5. og 6. málsl. 7. gr. sem rangri. Telur embættið að sú regla eigi einungis við þegar sýslumanni hefur ekki borist tilnefning. Þar sem að í fyrirliggjandi máli hafi borist tilnefning eiga þessir málsliðir ekki við að mati embættisins. 

Við athugasemdir kæranda um að fundargerðin hafi ekki verið undirrituð af hinum kosna fyrirsvarsmanni, [B] samkvæmt umboði, þá bendir embættið á að það sé ekkert í þinglýsingarlögunum sem gefur til kynna að gerð sé krafa um það. Þá bendir embættið á að það sé venja í félagsstörfum að fundarstjórar og/eða fundarritarar geti undirritað fundargerðir, og því til viðbótar þekkist að þeir sem kosnir eru til trúnaðarstarfa undirriti fundargerðir. 

Við athugasemdir kæranda við form og framsetningu úrskurðar  bendir embættið á að það hvernig upplýsingar eru framsettar í úrskurðum er undir stjórnun þess sem úrskurðinn ritar. Þá hafði komið athugasemdir til embættisins áður en embættið gekk frá skipun/tilnefningu [B] og hafi því verið þörf að taka hluta af þeim atriðum í Word-skjal með breytingarslóðum og ýmis skjáskot. Þá bendir embættið á að regla 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rökstuðning ber að túlka með megintilgang hennar að leiðarljósi, sem er að ákvörðun sé rökstudd. Sá megintilgangur ætti því ekki að drukkna í hugmyndum um fagurfræði og telur embættið því að ef notkun skjámynda og „track-changes“ sé það sem þarf til að skýra út það sem rökstuðningurinn fjallar um sé fráleitt að hengja sig á slík smáatriði. 

Að lokum bendir embættið á að matvælaráðuneytið sé kæruaðili að kærum vegna jarðalaga nr. 81/2004 með síðari breytingum. Það hlutverk veiti ráðuneytinu ekki vald til þess að taka rannsókn á starfsháttum sýslumanns að sér líkt og kærandi hefur óskað eftir.

 

Athugasemdir kæranda við umsögn sýslumanns 

Athugasemdir kæranda við umsögn sýslumanns barst ráðuneytinu þann 18. júlí 2023. 

Kærandi telur að umsögn sýslumanns staðfesti þann misskilning sem liggi fyrir í málinu varðandi ætlaðan lagagrundvöll hins kærða úrskurðar og þeirrar málsmeðferðar sem sýslumanni bar að fylgja á grundvelli jarðalaga nr. 81/2004. Telur kærandi að af umsögn sýslumanns megi telja að sýslumaður telji að um málsmeðferðina hafi gilt stjórnsýslulög nr. 37/1993. Kærandi er ekki sammála því og telur að þegar sameigendur hafa kosið sér sinn eigin fyrirsvarsmann og sent tilkynningu þess efnis til sýslumanns í samræmi við 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. a. jarðalaga þá gildi þinglýsingalög nr. 39/1978 um málsmeðferðina. Þá bendir kærandi á að í hinu kærða máli hafi erindi [B] til sýslumanns verið í eðli sínu tilkynning um að hann hefði á fundi sameigenda verið kosinn fyrirsvarsmaður jarðarinnar sbr. 2. og 3. mgr. 1. mgr. 7. gr. a. jarðalaga, enda hafi erindið verið reist á nánar tilgreindri fundargerð þess efnis. Samkvæmt 3. málsl. bar sýslumanni að mati kæranda því að taka afstöðu til þess á grundvelli þinglýsingalaga hvort tilkynningin væri tæk til þinglýsingar.  

Þá bendir kærandi á að ef ráðuneytið telji að stjórnsýslulögin hafi gilt um hina kærðu málsmeðferð þá liggi fyrir að sýslumaður kvað upp hinn kærða úrskurð án þess að tilkynna sameigendum jarðarinnar um þá fyrirætlun sína eða gefa þeim kost á að koma á framfæri sérstakri greinargerð um málið. Af þeirri ástæðu ætti að ógilda hinn kærða úrskurð. 

Auk þess sem kærandi telur að sýslumaður hafi ekki byggt á réttum lagagrundvelli, þá hafi hann einnig gefið út skipunarbréf og þinglýst því í kjölfarið á fasteignina. Þær málsástæður sem sýslumaður heldur fram í umsögn sinni í fyrirliggjandi máli er hafnað af hálfu kæranda sem rökleysu. Kærandi telur að til þess að ná markmiðum laga nr. 74/2022 hefði sýslumaður átt að framfylgja 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. jarðalaga, það er að þinglýsa tilkynningu sameigenda um fyrirsvarsmann jarðar, væri hún að öðru leyti tæk til þinglýsingar að hans mati, ella vísa henni frá, sbr. 7. gr. þinglýsingarlaga. Með því að kveða upp úrskurð á grundvelli stjórnsýslulaga og í kjölfarið gefa út skipunarbréf hafi sýslumaður virt að vettugi þá málsmeðferð sem honum hafi borið að fylgja samkvæmt jarðalögum. Að mati kæranda komst hann þannig í raun fram hjá þeim formkröfum sem gerðar eru til skjala sem þinglýsa á samkvæmt þinglýsingalögum.

Þá telur kærandi það ekki samrýmast jarðalögum að aðili sem nýtur ekki þinglýstrar eignarheimildar, eins og í hinu kærða máli, geti óskað eftir því að þinglýst verði á fasteignina að hann hafi verið kosinn fyrirsvarsmaður jarðarinnar, þar sem til grundvallar beiðninnar hafi einungis legið fundargerð sem hann einn hafi gefið út og undirritað. 

Þá áréttar kærandi að fyrirliggjandi kæra hans lúti að því að sýslumanni verði gert að fara eftir þeim reglum sem honum eru settar samkvæmt, jarða-, stjórnsýslu- og þinglýsingarlögum. Telur kærandi að sýslumaður hafi misbeitt valdi sínu og virt að vettugi þær málsmeðferðarreglur sem löggjafinn hefur sett í þessum efnum. Þá ítrekar kærandi þann meginmun sem er á orðalagi 1. mgr. 7. gr. a. jarðalaga, sem felst í því að eigendur jarða í sameign skulu tilkynna til sýslumanns hver hafi verið kosinn fyrirsvarsmaður jarðarinnar og hins vegar því að lögbundið er að sýslumaður skuli tilnefna þann stærstan eignarhlut á, hafi honum ekki borist tilkynning um fyrirsvarsmann. 

Að öllu framangreindu virtu ítrekar kærandi þá kröfu sínu um að úrskurður sýslumannsins á Vesturlandi frá 2. nóvember 2022, um skipun fyrirsvarsmanns jarðarinnar [X] skv. 7. gr. jarðalaga. nr. 81/2004 verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir sýslumann að leysa úr málinu samkvæmt gildandi lögum. 

 

Forsendur og niðurstaða

Málið lýtur að tilnefningu sýslumanns á Vesturlandi, dags. 2. nóvember 2022, þar sem [B] var skipaður fyrirsvarsmaður jarðarinnar [X] á grundvelli  7. gr. a. jarðalaga nr. 81/2004 með síðari breytingum. Þann sama dag þinglýsti sýslumaður á Vesturlandi skipunarbréfi á jörðina [X] þar sem fyrrgreindur aðili var skipaður fyrirsvarsmaður. Bæði í stjórnsýslukæru og umsögn sýslumanns er fjallað um að um úrskurð sýslumanns sé að ræða í málinu. Ráðuneytið telur þó óljóst hvort um úrskurð sé að ræða þó ljóst sé að sýslumaður hafi vissulega tekið stjórnvaldsákvörðun um tilnefningu fyrirsvarsmanns og um þinglýsingu þeirrar tilnefningar. Sú ákvörðun var síðar rökstudd í bréfi til kæranda. Hér eftir mun ráðuneytið því ekki fjalla um úrskurð heldur þá ákvörðun sýslumanns um að tilnefna fyrirsvarsmann, sbr. orðalag 7. gr. a. jarðalaga nr. 81/2004.

Kærandi byggir á því að sýslumanni hafi skort heimild að lögum til að tilnefna fyrirsvarsmann. Þá telur kærandi að sýslumanni hafi skort heimild að lögum til að gefa út „skipunarbréf“ og þinglýsa því á fasteignina. Því til viðbótar telur kærandi að sýslumaður hafi ekki verið bær til að taka málið efnislega til afgreiðslu. Að lokum telur kærandi að sýslumaður hafi með alvarlegum hætti virt að vettugi reglur jarðalaga um fyrirsvar jarða í sameign og þinglýsingalaga nr. 39/1978 um skilyrði þess að skjali verði þinglýst.

Sýslumaðurinn á Vesturlandi telur að sér hafi verið heimilt að tilnefna fyrirsvarsmann á grundvelli 1. mgr. 7. gr. a. jarðalaga nr. 81/2004. 

Í 1. mgr. 7. gr. a. jarðalaga kemur fram að ef eigendur jarðar eða annars lands sem lögin gilda um eru fleiri en þrír fjárráða einstaklingar eða lögaðilar sé þeim skylt að tilnefna fyrirsvarsmann. Fyrirsvarsmaður skal kosinn í meirihlutakosningu á fundi sameiganda. Fyrirsvarsmann skal tilkynna til sýslumanns er þinglýsir þeirri tilkynningu á viðkomandi fasteign, svo og tilkynningum um breytingu á fyrirsvarsmönnum. Hafi sýslumanni ekki verið tilkynnt um fyrirsvarsmann skal sýslumaður tilnefna þann fyrirsvarsmann sem stærsta eignarhlut á. Ef tveir eða fleiri eiga jafnan eignarhlut tilnefnir sýslumaður einn þeirra sem fyrirsvarsmann.  

Í málinu liggur fyrir að sýslumanninum á Vesturlandi hafi borist beiðni frá [B] þar sem þess var óskað að hann yrði skipaður fyrirsvarsmaður fyrir jörðina [X]. Að mati ráðuneytisins var erindi [B] til sýslumanns í eðli sínu tilkynning um að hann hefði á fundi sameigenda verið kosinn fyrirsvarsmaður jarðarinnar sbr. 2. og 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. a. jarðalaga. Var erindið til sýslumanns reist á tilgreindri fundargerð þess efnis um að [B] hafi verið kjörinn af eigendum 70,8 % hluta jarðarinnar til að gegna stöðu fyrirsvarsmanns. 

Með setningu 7. gr. a. jarðalaga sbr. lög nr. 74/2022 um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna (óskipt sameign, landamerki o.fl.) var þágildandi 9. gr jarðalaga felld brott sem kvað á um að ef eigendur jarða eða annars lands sem lögin tækju til væru fleiri en þrír fjárráða einstaklingar eða lögaðili væri þeim skylt að tilnefna fyrirsvarsmann sem hafi umboð til að koma fram fyrir hönd annarra eigenda jarðarinnar við úrlausn mála er lúta að réttindum og skyldum eigenda o.fl. Var kveðið á um það að fyrirsvarsmenn skyldu tilkynna til sýslumanns er skyldi þinglýsa þeirri tilkynningu á viðkomandi fasteign, svo og breytingum á fyrirsvarsmönnum. Með fyrrgreindum breytingarlögum var ekki verið að breyta framangreindu heldur var markmiðið að setja skýrari reglur um fyrirsvarsmenn en líkt og kemur fram í greinargerð með lögunum var mikill misbrestur á því að ákvæðinu væri fylgt. Með vísan til þess var lögunum breytt á þann hátt að fyrirsvarsmaður væri kosinn í meirihlutakosningu. Þá var því til viðbótar var bætt við lögin að ef sýslumanni væri ekki tilkynnt um fyrirsvarsmann skyldi hann tilnefna þann fyrirsvarsmann sem stærstan eignarhlut ætti. Ef tveir eða fleiri eigi jafnan eignarhlut skyldi sýslumaður tilnefna einn þeirra. Í þinglegri meðferð frumvarpsins sem varð að lögum nr. 74/2022 var ákvæðinu breytt og tilgreint að það beri að þinglýsa því þegar sýslumaður tilnefni fyrirsvarsmann og þá átt við þau tilfelli þegar sýslumaður þarf að eigin frumkvæði að tilnefna fyrirsvarsmann sbr. það sem fram kemur í nefndaráliti meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar sbr. þingskjal 1269-416. mál. Ekki hefði þurft að bæta við lögin ákvæði um þinglýsingu í þeim tilfellum þar sem fyrirsvarsmaður er kosinn í meirihlutakosningu sameigenda þar sem þá þegar var kveðið á um það í ákvæðinu og nú lögunum. Skýrt er í 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. a jarðalaga að sýslumaður skuli þinglýsa slíkri tilkynningu en svo er sérstaklega tekið fram í 4. málsl. sömu málsgreinar að tilskipun sýslumanns skuli jafnframt þinglýst. Ljóst er að mál þetta varðar 3. málsl. þar sem fyrirsvarsmaður var  kosinn í meirihlutakosningu sameigenda. Með framangreindum breytingalögum var ekki verið að fella brott þá meginreglu um að sameigendur jarða kjósi sjálfir fyrirsvarsmann en einungis skýrt að slíkur fyrirsvarsmaður þyrfti að vera kosinn í meirihlutakosningu sameigenda. Tilkynna þurfi slíkt til sýslumanns sem þinglýsir tilkynningunni á eignina. Ekki er í jarðalögum nr. 81/2004 eða lögskýringargögnum kveðið á um sérstakt form tilkynninga skv. 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. a laganna eða þá hvernig þeim skuli þinglýst. Með vísan til þess gerir ráðuneytið ekki athugasemdir við það að sýslumaður hafi þinglýst tilkynningunni sem tilnefningu frá fyrirsvarsmanni en undanfari þinglýsingarinnar er ljós og uppfyllir skilyrði jarðalaga sbr. fyrrgreindan 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. a. Þá fæst ekki séð að tilnefning sýslumanns í þessu tilfelli hafi önnur eða meiri réttaráhrif en gert er ráð fyrir við þinglýsingu tilkynningar um fyrirsvarsmann sbr. 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. a.

Að öllu framangreindu virtu er það mat ráðuneytisins að sýslumanninum á Vesturlandi hafi þannig verið heimilt að tilnefna fyrirsvarsmann á grundvelli 1. mgr. 7. gr. a. jarðalaga nr. 81/2004 þar sem [B] var kosinn fyrirsvarsmaður jarðarinnar [X] í meirihlutakosningu á fundi sameigenda samkvæmt gögnum málsins.

Hvað varðar ósk kæranda um að ráðuneytið taki starfshætti sýslumannsins á Vesturlandi, þ.m.t. vinnubrögð og hæfni, til rannsóknar, bendir ráðuneytið á að jarðalög nr. 81/2004, með síðari breytingum, veita ráðuneytinu ekki heimildir til að taka slíka rannsókn að sér.

Hvað varðar málsástæður kæranda um að sýslumanni hafi skort heimild að lögum til að þinglýsa tilnefningu fyrirsvarsmanns á fasteignina þar sem skilyrði þess hafi ekki verið uppfyllt vísar ráðuneytið til þess að um ágreining um þinglýsingar gilda þinglýsingarlög nr. 39/1978. Í 1. mgr. 3. gr. framangreindra laga er kveðið á um að bera megi úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu skv. lögunum undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra. Að því sögðu er þeim ágreiningi vísað frá ráðuneytinu.

Með vísan til þess sem rakið er hér er það mat ráðuneytisins að skilyrðum 7. gr. a. jarðalaga nr. 81/2004 hafi verið fullnægt þegar sýslumaðurinn á Vesturlandi, dags. 2. nóvember 2022, tilnefndi [B] sem fyrirsvarsmann jarðarinnar [X].

Ráðuneytið telur ekki þurfi að ráða frekar úr öðrum málsástæðum sem tilgreindar hafi verið við meðferð málsins þar sem úrlausn þeirra hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins. 

 

 

Úrskurðarorð

Tilnefning sýslumannsins á Vesturlandi, dags. 2. nóvember 2022, á fyrirsvarsmanni jarðarinnar [X] skv. 1. mgr. 7. gr. a. jarðalaga nr. 81/2004, er hér með staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum