Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Ákvörðun Matvælastofnunar um að vísa ekki kærumáli um dýraníð í blóðmerahaldi til lögreglu.

Mánudaginn, 30.06.2025, var í atvinnuvegaráðuneytinu

kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

Stjórnsýslukæra

 

Með erindi dags. 29. apríl 2025, kærði [X] fyrir hönd [X] (hér eftir „kærendur“) ákvörðun Matvælastofnunar (MAST) að vísa ekki kærumáli framangreindra samtaka um dýraníð í blóðmerahaldi til lögreglu. Sú ákvörðun stofnunarinnar var tilkynnt með tölvupósti til kærenda dags. 28. apríl 2025. 

 

Kröfur 

 

Ráðuneytið leggur þann skilning í kæruna að kærendur krefjist þess að hinni kærðu ákvörðun verði breytt eða hún felld úr gildi. 

 

Málsatvik og ágreiningsefni málsins 

 

Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að málið eigi rætur að rekja til þess að kærendur kærðu illa meðferð á dýrum til MAST á grundvelli sönnunargagna sem þau létu MAST í té. Í kjölfar þess tók stofnunin málið til rannsóknar og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru efni til að bregðast við. 

 

Þann 8. janúar 2025 óskuðu kærendur eftir því að þeir yrðu upplýstir um niðurstöðu rannsóknarinnar þegar henni lyki af hálfu MAST. Með tölvupósti dags. 22. janúar 2025, var kærendum tilkynnt að stofnunin mundi upplýsa kærendur um niðurstöðu málsins þegar hún lægi fyrir. 

 

Þann 9. apríl 2025 ákvað MAST að loka málinu, með vísan til viðbragða og úrbóta rekstraraðilans sem miðuðu að því að slík atvik myndu ekki eiga stað og málsatvika í heild sinni sbr. fréttatilkynning á vef MAST 9. apríl dags 2025. 

 

Með tölvupóst, dags. 10. apríl 2025, óskaði [X] fyrir hönd kærenda eftir upplýsingum frá MAST um hvort stofnunin hafi vísað málinu til lögreglu. Þann 28. apríl 2025 svaraði MAST framangreindum tölvupósti þar sem fram kom að stofnunin hefði ekki vísað málinu til lögreglu.

 

Þann 29. apríl 2025, var ákvörðun MAST frá 28. apríl 2025, um að vísa ekki kærumáli kærenda  til lögreglu kærð til ráðuneytisins. Óskaði þá ráðuneytið eftir umsögn MAST vegna málsins og barst hún 2. júní 2025. Kæranda var í framhaldinu gefinn frestur til andmæla og bárust sú andmæli þann 16. júní 2025.  

 

Málið er tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

 

Sjónarmið kærenda

 

Í erindi kærenda dags. 29. apríl 2025, kemur fram að þau afbrot sem eru studd með myndbandsupptöku hafi sýnt illa og ólögmæta meðferð á blóðmerum, og séu de facto refsilaus. Grundvallast slíkt á þeirri staðreynd að áskilnaður sé í lögum um velferð dýra nr. 55/2013 um að MAST vísi málum til lögreglu til að lögreglurannsókn á brotum laganna fari fram sbr. 6. mgr. 45. gr. laganna. Benda kærendur á að þeir hafi áður lagt fram sambærilegt sönnunargagn til lögreglu sem hefur ekki fallist á rannsókn á grundvelli þess að MAST hafi ekki vísað málinu til lögreglu. 

 

Kærendur benda á að stjórnvöld, þar á meðal atvinnuvegaráðuneytið, telji að dýraverndunarsamtök á borð við sig ekki eiga aðild að málum er varða illa meðferð á dýrum. Á það jafnframt við um umboðsmann Alþingis sem komst nýlega að sams konar niðurstöðu í máli kærenda sbr. niðurstaða í máli nr. 52/2025. Að mati kærenda er það afar alvarleg staða að tiltekinn málaflokkur, það er velferð dýra, sé undanskilinn stjórnsýslulegri endurskoðun á þeim forsendum að aðilarnir sem ákvarðanir bitna á séu mállausar skepnur. 

 

Kærendur benda þó á að í því tilviki sem hér um ræðir voru það kærendur sem kærðu illa meðferð dýranna sem um ræðir til MAST sem hafði málið til rannsóknar mun lengur en stofnunin upplýsti upphaflega um að til stæði. Þá hafi stofnunin fellt málið niður í tilefni fjölmiðlaumfjöllunar með yfirlýsingu á vefsvæði sínu dags. 9. apríl 2025. Kærendum hafi verið tjáð að niðurstaða stofnunarinnar yrði þeim kunngerð þegar hún lægi fyrir en ekki hafi verið staðið við þá yfirlýsingu af hálfu stofnunarinnar þegar til kastanna kom. 

 

Kærendur benda á að í yfirlýsingu MAST vegna erindis þeirra um illa meðferð dýranna komi eftirfarandi fram: „Matvælastofnun hefur yfirfarið framkomin gögn og greint þau atvik sem talin voru geta brotið í bága við lög um meðferð dýra og metið áhrif þeirra á hryssurnar. Var það mat stofnunarinnar að á einum bæ hafi komið fram endurtekin óásættanleg meðferð á hryssum sem var metið sem alvarlegt frávik við meðferð og umgengni við hryssur. Þar sem rekstraraðili blóðtökunnar ber ábyrgð meðan á blóðstöðu stendur á bænum óskaði Matvælastofnun eftir afstöðu hans til málsins.“ Að mati kærenda liggur fyrir að MAST mat ábendingarnar a.m.k. að hluta til „alvarleg frávik“ frá lögum/reglum. Samt sem áður vísaði stofnunin  málinu sem um ræðir ekki til lögreglu. Með vísan til þess telja kærendur ómögulegt að beita viðurlögum gagnvart einstaklingi/einstaklingum sem gerðust uppvísir að alvarlegu fráviki frá lögum um velferð dýra nr. 55/2013. Lögbrot séu því orðin refsilaus með framkvæmdinni sem um ræðir og viðurlagakafli framangreindra laga þar með að engu hafandi. 

 

Með vísan til alls framangreinds fara kærendur fram á að stjórnsýslukæra þeirra dags. 29. apríl 2025 verði tekin til úrskurðar vegna þeirrar ákvörðunar MAST um að vísa ekki til lögreglu til rannsóknar málum er stofnunin taldi með eigin orðum „endurtekna óásættanlega meðferð á hryssum” sem var metið sem alvarlegt frávik. Er það mat kærenda að með þessari stjórnsýsluframkvæmd bregðist MAST  meginhlutverki sínu sem er að sjá til þess að lög um velferð dýra nr. 55/2013 séu uppfyllt. 

 

Jafnframt er það mat kærenda að það sé á ábyrgð atvinnuvegaráðherra að bregðast við því að MAST hafi vanrækt eftirlitshlutverki sínu m.t.t. skorts á viðurlögum skv. fyrrgreindum lögum. 

 

Að öðru leyti vísast til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.   

 

Sjónarmið MAST 

 

Umsögn MAST vegna málsins barst með tölvupósti dags. 3. júní 2025. MAST telur að vísa eigi umræddri stjórnsýslukæru frá enda liggi fyrir að kærendur séu ekki aðilar máls sbr. tveir úrskurðir ráðuneytisins frá 25. janúar 2025 og álit umboðsmanns Alþingis nr. 52/2005. Með vísan til þess telur stofnunin ekki rétt að víkja að efnislegum  forsendum málsins.

 

Að öðru leyti vísast til þess sem segir í umsögn MAST.  

 

Athugasemdir kærenda við umsögn MAST

 

Andmæli kærenda bárust með tölvupósti þann 16. júní 2025. Kærendur leggjast gegn því að umræddri kæru verði vísað frá ráðuneytinu með vísan til aðildarskorts. Benda kærendur á að því miður hafi borið á því að yfirvöld telji dýraverndunarsamtök ekki eiga aðild að málum er varða illa meðferð á dýrum. Að mati kærenda er það afar alvarleg þróun sem geti leitt til þess að tiltekinn málaflokkur, þ.e. velferð dýra, sé undanskilinn stjórnsýslulegri endurskoðun á þeim forsemdum að ákvarðanir bitna á mállausum dýrum sem ekki eru lögaðilar og geti því ekki sjálf átt aðild að málum.

Er það mat kærenda að ekki ætti að koma til slíkrar þröngrar túlkunar, líkt og MAST fer fram á. Benda kærendur á að það hljóti að vera ljóst að kærendur eigi skýra og beina aðild enda er um að ræða stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar MAST í máli sem kærendur áttu frumkvæði að, með því að kæra sjálf illa meðferð dýra á blóðtökutímabili haustsins 2024 til MAST á grundvelli sönnunargagna sem kærendur létu MAST í té. Sé ekki fallist á að kærendur séu aðilar máls í þessu tilfelli sé komin upp sú staða að engin geti talist aðili máls og þar með ógerlegt að fá endurskoðun á þeirri stjórnsýslulegu ákvörðun um að vísa málum ekki til lögreglu til viðeigandi rannsóknar. Jafnframt benda kærendur á að MAST hafi upplýst þau ítrekað um framgang rannsóknarinnar. Þá hafi stofnunin með  tölvupósti dags. 22. janúar 2025 til kærenda sagt að stofnunin myndi upplýsa kærendur um niðurstöðu málsins þegar hún lægi fyrir. Með vísan til þess er það mat kærenda að MAST hafi við vinnslu málsins á fyrri stigum litið á kærendur sem aðila máls. 

 

Um athugasemdir kæranda við sjónarmið MAST vísast að öðru leyti til þess sem segir í athugasemdunum. 

 

Forsendur og niðurstaða 

 

Mál þetta varðar ákvörðun MAST dags. 28. apríl 2025 um að vísa ekki kærumáli kærenda um dýraníð í blóðmerahaldi til lögreglu. 

 

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Eins og ljóst er af orðalagi 1. mgr. 26. gr. er kærurétturinn bundinn við aðila málsins hverju sinni. Aðildarhugtakið er hins vegar ekki skilgreint í stjórnsýslulögunum en í frumvarpi því er varð að lögunum eru rakin þau meginsjónarmið sem rétt er að líta til við mat á því hvort einstaklingur eða lögaðili eigi aðild að máli, þ.m.t. kæruaðild. Samkvæmt því ræðst aðildin af atvikum hverju sinni og lögvörðum hagsmunum hlutaðeigandi af úrlausn málsins og því hvort sá hinn sami eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta í málinu.

 

Kærendur eru þrenn samtök sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni og hafa það að markmiði að berjast fyrir bættri velferð dýra, ýmist á Íslandi eða á alþjóðlegum vettvangi. Málið á rætur að rekja til þess að kærendur kærðu illa meðferð á dýrum til MAST sem tók málið til rannsóknar og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru efni til að bregðast við. Kærendur kærðu þá niðurstöðu MAST til ráðuneytisins. 

 

Fyrir liggja tveir úrskurðir atvinnuvegaráðuneytisins frá 25. janúar 2025 og afstaða umboðsmanns Alþingis í máli nr. 52/2025 þar sem deilt var annars vegar um aðild sömu dýravelferðarsamtaka og hins vegar einstaklings að málum er lúta að blóðmerahaldi. Niðurstaða ráðuneytisins í framangreindum úrskurðum var að kærunum var vísað frá sökum þess að hvorki samtökin né einstaklingurinn voru  talin eiga aðild að málunum.

 

Að mati ráðuneytisins eiga sömu sjónarmið við í fyrirliggjandi máli, sem umboðsmaður Alþingis tók jafnframt undir sbr. mál umboðsmanns nr. 52/2025. Þar kemur m.a. fram að afstaða ráðuneytisins til aðildar samtakanna að málinu byggist á því að í lögum nr. 55/2013, um velferð dýra, sé ekki mælt fyrir um rýmkaða aðild dýraverndunarsamtaka að stjórnsýslumálum sem heyra undir lögin. Þá verði ekki séð að Árósasamningurinn, sem fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfinum, leiði til þeirrar niðurstöðu. Enn fremur hafi almennt verið lagt til grundvallar að afskipti af málum sem byggjast á hagsmunum sem sprottnir séu af lífsskoðunum skapi ekki aðilastöðu í stjórnsýslumáli.  Á hið sama við um þá málsástæðu að tilkynning samtakanna til lögreglu um tilgreint atvik við blóðmerahald leiði til þess að þau njóti aðildar að því máli kemur fram að almennt hafi verið litið svo á að sá sem kemur á framfæri ábendingu eða tilkynningu til stjórnvalds verði aðeins sjálfur aðili þess máls ef hann á beinna, sérstakra, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þess. 

 

Í framangreindum úrskurðum átti málið rætur að rekja til þess að einn kærenda, tilkynnti til lögreglu um atvik sem náðist á myndband þar sem einstaklingur virðist sparka í höfuð fylfullrar hryssu í tengslum við blóðtöku úr dýrinu. Lögregla sendi síðan málið í kjölfarið til MAST til frekari athugunar sem tók málið til skoðunar og komast að þeirri niðurstöðu að ekki væru efni til að bregðast við. 

 

Í fyrirliggjandi máli halda kærendur því fram að það hljóti að vera ljóst að kærendur eigi skýra og beina aðild þar sem hér er að um ræða stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar MAST í máli sem kærendur áttu frumkvæði að, með því að kæra sjálf illa meðferð dýra á blóðtökutímibili haustsins 2024 til MAST á grundvelli sönnunaragna sem umrædd samtök létu MAST í té. 

 

Að mati ráðuneytisins er málið ekki vaxið öðruvísi sem leiðir til þess að kærendur eigi aðild að málinu. Þá hafa enginn ný gögn að mati ráðuneytisins borist sem kunna að breyta fyrri afstöðu þess hvað varðar aðild kærenda. 

 

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að kærendur bresti aðild í máli þessu enda hafa kærendur ekki sýnt fram á að þeir eigi eða hafi átt einstaklegra eða verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn þess. Í ljósi þess og á framangreindum grundvelli er stjórnsýslukæru [X] frá 29. apríl 2025 vísað frá ráðuneytinu.

 

 

Úrskurðarorð

 

Stjórnsýslukæru, dags. 29. apríl 2025, er vísað frá ráðuneytinu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta