Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta.

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá [A] f.h. [B ehf.], dags. 20. apríl 2021, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 8. apríl 2021, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 til bátsins [C].

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 8. apríl 2021, um skiptingu til fiskiskipa og úthlutun byggðakvóta Bakkafjarðar fiskveiðiárið 2020/2021, með vísan til 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006.

 

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 16. mars 2021, sem birt var á vefsíðu Fiskistofu: www.fiskistofa.is auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 í nokkrum byggðarlögum, m.a. Bakkafirði í Langanesbyggð en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 728/2020, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021. Umsóknarfrestur var til og með 30. mars 2021. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 257 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Langanesbyggðar sem skiptust á byggðarlögin Þórshöfn, 116 þorskígildistonn og Bakkafjörð, 141 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Langanesbyggð með bréfi, dags. 30. nóvember 2020.

Kærandi sótti um byggðakvóta á Bakkafirði í Langanesbyggð fyrir bátinn [C] með umsókn til Fiskistofu.

Hinn 8. apríl 2021 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum á Bakkafirði í Langanesbyggð ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun í byggðarlaginu. Kæranda, [B ehf.], var tilkynnt að úthlutað hafi verið til báts félagsins tilteknu magni af byggðakvóta og var ákvörðunin byggð á 10. gr. laga nr. 116/2006, reglugerð nr. 728/2020 og auglýsingu nr. 271/2021, um (I.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta.

Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu um ákvörðunina, sbr. 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006.

Hinn 20. apríl 2021 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum á Bakkafirði í Langanesbyggð að eldri ákvarðanir stofnunarinnar um úthlutun byggðakvóta á Bakkafirði í Langanesbyggð hefðu verið afturkallaðar og að teknar hefðu verið nýjar ákvarðanir um úthlutun byggðakvóta í byggðarlaginu sem einnig voru byggðar á 10. gr. laga nr. 116/2006, reglugerð nr. 728/2020 og auglýsingu nr. 271/2021. Samkvæmt ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. apríl 2021, var úthlutað tilteknu magni af byggðakvóta til bátsins [C].

Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu um ákvörðunina, sbr. 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006.

 

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 20. apríl 2021, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærði [A] f.h. [B ehf.], til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 8. apríl 2021, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 til bátsins [C].

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að með bréfi Fiskistofu, dags. 8. apríl 2021, til [B ehf.] hafi komið fram að Fiskistofa úthlutaði bátnum [C] alls 3.460 kg í þorskígildum talið. Með bréfinu hafi fylgt yfirlitsblað um skiptingu byggðakvóta á Bakkafirði milli fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021. Á yfirlitsblaðinu sjáist hvað hvert fiskiskip, er sótti um byggðakvóta á Bakkafirði, hafi fengið í úthlutun af byggðakvóta, miðað við landaðan afla, í þorskígildum talið. Kærandi telji að Fiskistofa hafi ekki farið að ákvæðum 10. gr. laga nr. 116/2006 eða 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 728/2020, né heldur farið eftir d-lið auglýsingar nr. 271/2021, við úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2020/2021 á Bakkafirði, með því að telja og reikna með í lönduðum botnfiskafla í þeim tegundum sem hafa þorskígildisstuðla á viðmiðunartímabilinu 1. september 2019 - 31. ágúst 2020 á Bakkafirði, landaðan grásleppuafla á viðmiðunartímabilinu 1. september 2019 - 31. ágúst 2020 á Bakkafirði, við skiptingu til fiskiskipa og úthlutun byggðakvóta Bakkafjarðar fiskveiðiárið 2020/2021. Fiskistofa hafi einnig virt að vettugi d-lið auglýsingar nr. 271/2021 um að draga skuli úthlutað sértækt aflamark Byggðastofnunar frá lönduðum botnfiskafla á viðmiðunartímabilinu 1. september 2019 - 31. ágúst 2020 á Bakkafirði.

Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: 1) Bréf Fiskistofu til [B ehf.], dags. 8. apríl 2021. 2) Yfirlitsblað um úthlutun byggðakvóta á Bakkafirði, dags. 8. apríl 2021.

Með tölvubréfi, dags. 28. apríl 2021, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Með bréfi, dags. 4. maí 2021, tilkynnti Fiskistofa ráðuneytinu að hin kærða ákvörðun, dags. 8. apríl 2021, hefði verið afturkölluð og að tekin hefði verið ný ákvörðun um úthlutun byggðakvóta til skips kæranda, [C]. Einnig kom þar fram að með hliðsjón af því að hin kærða ákvörðun hafi verið afturkölluð telji Fiskistofa ekki þörf á að bregðast við erindi ráðuneytisins eins og það var lagt fram og væri málinu lokið.

Með bréfinu fylgdu ljósrit af umræddri afturköllun ásamt nýrri ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. apríl 2021.

 

 

Rökstuðningur

Stjórnsýslukæra í máli þessu er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt greininni. Ákvæðið verður að skýra með hliðsjón af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem einnig gilda um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum. Kæruheimild í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 byggir samkvæmt því á því að kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta sem beinlínis reynir á við úrlausn tiltekins máls sem kært er til ráðuneytisins.

Kæruefni í stjórnsýslukæru er byggt á því að kærandi telur að bátur félagsins, [C], hafi átt að fá hærri úthlutun byggðakvóta samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 728/2020 og auglýsingu nr. 271/2021 og byggir það á tilteknum forsendum sem gerð er grein fyrir hér að framan í umfjöllun um málsástæður í stjórnsýslukæru.

Með bréfi, dags. 4. maí 2021, tilkynnti Fiskistofa ráðuneytinu að hin kærða ákvörðun, dags. 8. apríl 2021, hefði verið afturkölluð og að tekin hefði verið ný ákvörðun um úthlutun byggðakvóta til skips kæranda, [C] á grundvelli umsóknar félagsins.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að kærandi hafi ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þessa máls en samkvæmt því verður stjórnsýslukæru í máli þessu vísað frá.

 

 

Úrskurður

Stjórnsýslukæru [B ehf.], dags. 20. apríl 2021, er vísað frá.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira