Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 06060163

Þann 26. júní 2007 var í kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

Ráðuneytinu hafa borist kærur Landssambands veiðifélaga, dags. 17. júlí 2006, Samtaka eigenda sjávarjarða, dags. 27. júlí 2006, Hvalfjarðarsveitar, dags. 27. júlí 2006 og Geirsár ehf., dags. 23. júlí 2006 vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu þorskeldis AGVA ehf. í Hvalfirði og í Stakksfirði frá 23. júní 2006. Fram komnar kærur beinast eingöngu að fyrirhuguðu þorskeldi í Hvalfirði.

I. Hin kærða ákvörðun og málsmeðferð.

Skipulagsstofnun ákvað þann 23. júní 2006 að fyrirhugað þorskeldi í sjókvíum í Hvalfirði og í Stakksfirði, allt að 3000 tonn af eldisþorski á hvorum stað skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Framkomnar kærur voru sendar til umsagnar AGVA ehf., Siglingastofnunar Íslands, Kjósarhrepps, Sveitarfélagsins Voga, Landbúnaðarstofnunar, Fiskistofu, Skipulagsstofnunar, Hafrannsóknastofnunar, Umhverfisstofnunar og Veiðimálastofnunar. Einnig var Reykjanesbæ tilkynnt um framkomnar kærur. Umsagnir voru sendar til athugasemda kærenda og framkvæmdaraðila.

II. Kröfur, kæruatriði og umsagnir um þær.

Samtök eigenda sjávarjarða, Landssamband veiðifélaga, og Geirsá ehf. og Hvalfjarðarsveit krefjast þess að úrskurðað verði að fyrirhuguð framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum.

1. Málsmeðferð Skipulagsstofnunar.

Landssamband veiðifélaga telur að Skipulagsstofnun hafi ekki leitað til sérfróðra aðila um vistkerfi laxfiska og möguleg umhverfisáhrif af stórfeldu þorskeldi í nágrenni ósa veiðiáa. Í Hvalfjörð renni þrjár laxveiðiár. Hvorki veiðimálasvið Landbúnaðarstofnunar, Veiðimálastofnun eða veiðifélög á svæðinu hafi fengið málið til umsagnar. Af þessu leiði að nánast ekkert sé fjallað um áhrif eldisins á laxastofna, með tilliti til nálægðar þess við gönguslóða laxa og silungs í árnar og laxaseiða til hafs.

Samtök eigenda sjávarjarða krefjast þess að samráð verði haft við alla sem málið varði, landeigendur, sérfróða aðila og stofnanir.

Í umsögn Skipulagsstofnunar til ráðuneytisins er vísað til þess að samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 skuli stofnunin áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra aðila eftir eðli máls hverju sinni. Leyfisveitendur í þessu tilviki séu Umhverfisstofnun skv. reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, nr. 785/1999 og Fiskistofa samkvæmt lögum um eldi nytjastofna sjávar, nr. 33/2002. Aðrir aðilar sem Skipulagsstofnun hafi talið þörf á að leita umsagnar hjá vegna áhrifa á vistkerfi og þar á meðal laxfiska hafi verið dýralæknir fisksjúkdóma hjá Landbúnaðarstofnun, Hafrannsóknarstofnunin og sveitarstjórn Kjósahrepps. Ástæða þess að ekki var leitað umsagnar veiðimálasviðs Landbúnaðarstofnunar, fyrrum veiðimálastjóra, sé sú að eldi nytjastofna sjávar heyri undir Fiskistofu samkvæmt lögum þar um, nr. 33/2002. Með þeim lögum hafi Fiskistofa orðið leyfisveitandi rekstarleyfa annars fiskeldis en laxfiska. Ástæða þess að ekki hafi nú, frekar en áður, verið leitað umsagnar Veiðimálastofnunar, sé sú að um sé að ræða rannsóknarstofnun á vegum landbúnaðarráðuneytisins sem litið hefur verið á sem faglegan bakhjarl stjórnsýslustofnana þess sama ráðuneytis. Ástæða þess að ekki hafi verið leitað umsagna veiðifélaga sé sú að það hafi ekki verið gert þegar um þorskeldi hefur verið að ræða, fremur en að leitað hafi verið álits annarra hugsanlegra hagsmunaaðila svo sem landeigenda.

2. Áhrif á laxfiska.

Í kærum Hvalfjarðarsveitar og samtaka eigenda sjávarjarða segir að rétt sé að kanna áhrif eldisins á lax og laxveiði .

Í kæru landssambands veiðifélaga er vísað til þess að í skýrslu framkvæmdaraðila séu fullyrðingar um að enginn fiskur sleppi úr kvíum. Í þessu sambandi öllu verði að líta til fenginnar reynslu erlendis sem og reynslu af þorskeldi í sjókvíum við Ísland. Í nýútkominni skýrslu Hafrannsóknarstofnunarinnar komi fram að á árinu 2004 hafi eldið numið 1000 tonnum af þorski og að 8000 þorskar hafi sloppið úr eldiskvíum samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar. Athyglisvert sé að slíkar tölur liggi fyrir með nákvæmum hætti í þorskeldinu. Það sé reynsla þeirra sem alið hafa þorsk að hann sé mjög ágengur við netpoka eldiskvía. Þorskur sem sleppi úr kvíum verði eðli málsins samkvæmt staðbundinn í Hvalfirði og fjörðurinn sé því hans fæðustöð. Ekki sé hægt að ganga út frá öðru en að 24000 fiskar geti sloppið úr kvíum árlega í Hvalfirði sé miðað við 3000 tonna eldi. Þessir strokufiskar muni afla sér ætis í Hvalfirðinum m.a. við ósa laxveiðiáa. Vísað er til skýrslu framkvæmdaraðila þar sem fjallað er um möguleg neikvæð áhrif á göngu laxfiska og laxfiskaseiða vegna staðsetningar eldiskvíanna út af Hvammshöfða í Hvalfirði. Ekki verði fallist á það með framkvæmdaraðila að laxaseiðum sé ekki hætta búin í nálægð þorska, þótt bólusettir séu en fyrirhuguð staðsetning eldiskvíanna sé á gönguslóð seiða úr Botnsá og Brynjudalsá. Tekið er fram að svo virðist sem bæði framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnun í ákvörðun sinni hafi yfirsést sú staðreynd að laxaseyði er á lista yfir fæðutegundir þorsks. Í kæru er einnig vísað til þess að um árabil hafi verið stunduð hafbeit hérlendis með magnsleppingu laxaseiða í göngustærð. Nokkrar upplýsingar hafi fengist um afdrif seiða við sjógöngu á þessum tíma. Einn af helstu áhættuþáttum við sleppingu seiðanna hafi verið afrán þorska. Það hafi verið algengt þegar seiðum hafi verið sleppt til hafs úr Lárósstöðinni á Snæfellsnesi að trillukarlar úr Grundarfirði hafi veitt þorsk sem étið hafi laxaseiði. Af þessu verði að draga þá ályktun að þorskeldi í Hvalfirði muni hafa skaðleg áhrif á viðgang laxastofna í nærliggjandi ám þar sem laxaseiði í sjógöngu verða hluti af fæði strokuþorska. Í þeim laxveiðiám sem falli til sjávar í Hvalfjörð séu fólgin mikil náttúruleg verðmæti. T.d. sé staðbundinn urriðastofn (sjóbirtingur) í Laxá í Kjós sem gangi til sjávar að vori eða snemmsumars og sé í fæðunámi á svæðinu uns hann gangi aftur í ána síðsumars. Þessa sé að engu getið í skýrslu framkvæmdaaðila eða í umsögnum. Um gríðarlega eignarhagsmuni veiðiréttareigenda sé að tefla í þessu máli. Ef litið sé til söluverðs hlunnindajarða að undanförnu sé ljóst að virði laxveiðinnar á því svæði sem um ræði skipti milljörðum króna.

Framkvæmdaraðili segir að það sem minnki líkur á að eldisþorskar muni sleppa úr kvíum sé að kvíar, nætur og festingar séu hannaðar til að þola það álag sem þeim sé ætlað og að styrkmörk og þolmörk séu ríflega yfirreiknuð, að framkvæmdaraðili búi yfir þeirri þekkingu og þeim samböndum sem til þurfi til að sú hönnun skili tilætluðum árangri og að stöðugt eftirlit sé í gangi með ástandi nóta og festa eftir að rekstur hefjist. Framkvæmdaraðili leggi mikla áherslu á þessi atriði. Í viðskiptaáætlun verkefnisins sé gert ráð fyrir kostnaði upp á allt að 36,7 m.kr. á ári fari í viðhald nóta og annars búnaðar. Gert sé ráð fyrir að nætur verði reglubundið fluttar á nótaverkstæði þar sem þær séu hreinsaðar, nákvæmlega yfirfarnar og styrktarþolsprófaðar. Ennfremur sé gert ráð fyrir 4 m kr. ár ári við að kafari rannsaki hverja nót reglubundið fjórum sinnum á ári og auk þess að það sé staðsett neðansjávarmyndavél í hverri kví sem stöðugt sé í gangi. Ein af meginforsendum þess að rekstur eldisins muni skila árangri sé að eldisþorskur muni ekki sleppa úr kvíum. Fyrirsvarsmaður framkvæmdaraðila hafi hannað og stjórnað uppbyggingu tveggja fiskeldisstöðva á Austurlandi þar sem engin lax hafi sloppið úr kvíum frá því fyrstu laxar komi í kvíarnar árið 2000. Þetta sé hægt að fá staðfest hjá Veiðimálastjóra. Umræddur eldisþorskur sem hugsanlega sleppi kunni ekki að éta lifandi fæðu. Allar rannsóknir á stroki eldislaxa bendi til þess að þeir eigi erfitt með að afla sér fæðu í hinu villta umhverfi. Ósennilegt sé að eldisþorskur leiti að árósum Laxár í Kjós sem sé í 6 km, fjarlægð frá kvíunum að vori og bíði komu seiðanna enda forðist þeir ferska vatnið.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til þess að fram hafi komið hjá dýralækni fisksjúkdóma að þorskeldi af þeirri stærðargráðu sem um ræðir í hinni kærðu ákvörðun hafi engin neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang þeirra villtu fiskistofna sem fyrir séu í vistkerfi Faxaflóa. Þorskur og lax séu óskyldar tegundir.

Í umsögn Veiðimálastofnunar segir að það sé álit stofnunarinnar að meiriháttar áform um fiskeldi eigi að fara í umhverfismat. Um viðkvæmt svæði sé að ræða þar sem mikilvægar veiðiár renni til sjávar auk annarrar eldisstarfsemi eins og hjá Geirsá og fleiri aðila sem stundi kræklingaeldi í firðinum. Eldi á þorski í miklum mæli geti sýnilega haft áhrif. Nægi þar að nefna mengun, sjúkdóma og sníkjudýrahættu, auk hættu á að þorskur stundi afnám á laxfiskaungviði, einkum ef hann sleppi.

Í umsögn veiðimálastjórnar, stjórnsýslusviðs Landbúnaðarstofnunar segir að við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun hafi eingöngu verið leitað eftir umsögn dýraheilbrigðissviðs stofnunarinnar en ekki veiðimálastjórnar sem leyfisveitanda í eldi laxfiska varðandi aðra hagsmuni í veiðimálum t.d. varðandi vistfræðilega þætti og hugsanleg áhrif á veiðiár. Segir í umsögninni að varasamt verði talið að heimila stórfellt þorskeldi í sjókvíum í Hvalfirði í næsta nágrenni Laxár í Kjós sem sé ein verðmætasta laxveiðiá landsins. Fyrirliggjandi upplýsingar bendi til þess að þorskur geti sloppið úr sjókvíum í verulegum mæli og verði þá hugsanlega staðbundinn í næsta nágrenni kvíanna. Vitað sé að laxaseyði geti verið kjörfæða þorsks við vissar aðstæður og laxveiðiánum gæti því verið hætta búin vegna afráns þorsks á sjógönguseiðum. Þetta hafi lítið verið rannsakað hér á landi og þyrfti því að skoða ofan í kjölinn, áður en þorskeldi af þeirri stæðargráðu, sem hér um ræðir verið heimilað. Ekki verði því talið hægt að heimila 3000 lesta eldi á þorski í Hvalfirði án þess að fram hafi farið mat á hugsanlegum umhverfisáhrifum slíkrar starfsemi, einkum varðandi vistfræðilega þætti svo sem afrán þorsks á sjógönguseyðum og hugsanlegar truflanir á göngum laxfiska af ýmsum tegundum.

Í umsögn Kjósahrepps segir að sveitarstjórn hafi verulegar áhyggjur af þróun mála í Hvalfirði og mögulegar neikvæðar afleiðingar á náttúrulega laxagengd. Stórfelld uppbygging stóriðju, aukin skipaumferð og gengdarlaus uppdæling malarefna af sjávarbotni sé nægileg ástæða til efasemda um að lífríki fjarðarins standist ekki álagið.

Í umsögn Fiskistofu segir að samkvæmt lögum um eldi nytjastofna sjávar, nr. 33/2002 þurfi rekstrarleyfi Fiskistofu til eldis nytjastofna sjávar. Samkvæmt 3. gr. laganna skuli Fiskistofa upplýst m.a. um matsskyldu framkvæmda, skilríki um afnot vatns og sjávar, starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, leyfi til mannvirkjagerðar og önnur leyfi sem skylt er að afla. Af þessu sé ljóst að Fiskistofa byggi útgáfu rekstarleyfis til eldis nytjastofna sjávar að verulegu leyti á ákvörðunum annarra opinberra stofnana sem Fiskistofa hafi hvorki ástæður né forsendur til að hafa áhrif á né vefengja. Ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum sé þar á meðal enda sé sú sérfræðiþekking sem þurfi til greiningu þeirra þátta sem ákvarða um mat á umhverfisáhrifum ekki til staðar á Fiskistofu.

Í umsögn Hafrannsóknarstofnunarinnar segir að með tilliti til staðsetningar, umfangs fyrirhugaðs eldis og fyrirliggjandi gagna verði að teljast litlar líkur á alvarlegum áhrifum á umhverfið. Ekki ætti því að vera ástæða til að umrædd starfsemi fari í umhverfismat.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að stofnunin hafi ekki sérþekkingu til að meta hugsanleg víxláhrif þorskeldis og laxagengdar en stofnunin telji mikilvægt að fiskeldi sé ekki í farleiðum laxfiska til að minnka hugsanlega áhrif á villta stofna.

3. Áhrif á æðavarp.

Í kæru Hvalfjarðarsveitar segir að margir bændur hafi talsverðra hagsmuna að gæta í tengslum við æðarvarp. Hvalfjörður sé æðarfugli afar mikilvægt fæðu- og athafnasvæði, ekki síst hvað varði uppeldi æðarunga fyrstu vikurnar eftir útleiðslu. Óvíst sé hvaða áhrif aukin umferð og umsvif í tengslum við fyrirhugað þorskeldi hafi á æðarfuglinn á viðkvæmum tímum t.d. á vorin og hætta geti verið á að hann leiti á önnur svæði í stað þess að leita á hefðbundnar varpslóðir. Aukin umferð og umsvif geti hugsanlega truflað fuglinn við ætisleit og þannig beint honum frá hefðbundnum fæðuslóðum á firðinum. Æðarungarnir séu háðir afmörkuðum svæðum á grunnslóð og minnsta truflun á viðkvæmum tíma geti verið þeim skaðleg. Þá þyki óvíst hvaða mengun kann að fylgja þorskeldinu en ef um mengun sé að ræða muni hún að öllum líkindum hafa áhrif á æðarfugl sem og lífríkið í heild sinni.

Í umsögn framkvæmdaraðila kemur fram að fyrirhuguð staðsetning eldiskvía sé 600-800 metra frá landi. Æðarfugl haldi sig við fjöruna yfir varptímann enda verpi hann á landi. Engin umferð sé fyrirsjáanleg á vegum framkvæmdaraðila við eða í fjörum fjarðarins og því muni framkvæmdin eða rekstur fyrirtækisins engin neikvæð áhrif hafa á varp eða afkomu æðarfugls.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að æðarfugl geti fests í netum en erfitt sé að meta hver séu hugsanleg áhrif fiskeldis á æðarfugl. Það þurfi m.a. að skoða í ljósi þess hvort sjókvíar séu staðsettar á mikilvægum fæðu- og athafnasvæðum æðarfugls og dýpis við kvíarnar.

4. Önnur áhrif á lífríki.

Í kærum Hvalfjarðarsveitar og samtaka eigenda sjávarjarða er lögð áhersla á fjölskrúðugt lífríki fjarðarins. Hvalfjörður sé tiltölulega djúpur fjörður og lokaður.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin telur að fyrirhugað þorskeldi í Hvalfirði kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif m.t.t. hugsanlegra áhrifa á þörungablóma í firðinum.

Í umsögn Hafrannsóknarstofnunarinnar segir að nýlega hafi verið gerðar mælingar á straumum í á fyrirhuguðum eldisstað í Hvalfirði. Í ljós hafi komið að þar sé sterkir fallastraumar, yfirleitt 15-30 cm/s að hámarki, inn og út fjörðinn en þó sterkari inn fjörðinn. Verði því að teljast góðar líkur á góðri dreifingu úrgangsefna frá þorskeldi sem staðsett verði á þessum stað og fremur litlar líkur á ofauðgun.

5. Áhrif á hagsmuni annarra rétthafa.

Í kæru samtaka eigenda sjávarjarða segir að þótt sjálfar eldisstöðvarnar séu staðsettar utan netlaga sé verið að hefja stórfellda starfsemi á landamerkjum lögbýla og á hafsvæði sem sé sameign sjávarjarða og íslenska ríkisins. Ráðuneytið geti ekki heimilað þorskeldi í sjónum umhverfis Ísland án samráðs við meðeigendur .

Í umsögn framkvæmdaraðila segir að fyrirhugaðar framkvæmdir AGVA ehf. í Hvalfirði séu allar utan netlaga. Ekki séu fyrirhugaðar neinar framkvæmdir innan netlaga í Hvalfirði. Fyrirhuguð starfsemi sé háð leyfi Fiskistofu að fenginni umsögn Hafrannsóknarstofnunarinnar. Ekki sé þörf annarra leyfa þar sem framkvæmdir séu allar utan netlaga.

6. Áhrif á kræklingarækt og fiskeldi sem fyrir er í Hvalfirði.

Í kæru Hvalfjarðarsveitar segir að rétt sé að tekið sé tillit til hugsanlegra áhrifa fyrirhugaðrar framkvæmdar á kræklingarækt en tilraunarækt á kræklingi hafi verið stunduð um nokkurt skeið í Hvalfirði.

Í umsögn framkvæmdaraðila segir að til skamms tíma hafi verið gerð tilraun með kræklingarækt í Hvammsvík. Fimm kílómetra siglingaleið sé frá Hvammsvík út fjörðinn að fyrirhugaðri staðsetningu. Staðsetningin sé því alls ekki mjög nálægt Hvammsvík. Sambýli fiskeldis við krækling, villtan eða alinn sé talið af hinu góða fyrir krækling þar sem eldið auki blóma þörunga á nærliggjandi svæðum og auki þannig æti fyrir krækling þó að um lítil áhrif sé að ræða.

Í umsögn Umhverfisstofnunar er tekið undir að eðlilegt væri að gera grein fyrir hugsanlegum áhrifum á kræklingarækt.

 

Málsástæður kæranda Geirsár ehf. eru að ekki liggi fyrir þolmörk fyrir þorskeldi í Hvalfirði. Kærandi rekur fiskeldisstöðina Strönd sem er í landi Saurbæjar, Hvalfjarðarstrandarhreppi. Samkvæmt kæru hefur á undanförnum árum verið unnið að stækkun starfsleyfis fyrir Geirsá ehf. Stefnt sé að 2000 tonna eldi á bleikju og þorski í landkerjum og kvíum. Ekki séu nema 2 km. milli stöðvar Geirsár ehf. og fyrirhugaðrar eldisstöðvar. Verði að telja eðlilegt að fiskeldisstöðin Strönd njóti vafans um að umhverfismat fari fram til að sjá hver þolmörk Hvalfjarðar séu. Þar sem AGVA ehf. fyrirhugi starfsemi sína sé ríkjandi vindátt og sjávarföll sem liggi að fiskeldisstöðinni Strönd. Það atriði þurfi að skoða sérstaklega. Fiskeldisstöðinni Strönd hafi verið sett þau skilyrði að stunda ekki kvíaeldi með laxfiska vegna verndunar laxfiska. Útgáfa á leyfi til AGVA ehf. geti skaðað enn frekar uppbyggingu á starfsemi fiskeldisstöðvarinnar Strandar.

Í umsögn framkvæmdaraðila segir að fjarlægðin frá fyrirhugaðri staðsetningu að Saurbæjarvík sé samkvæmt sjókorti nr. 366 af Hvalfirði rúmir 2,5 kílómetrar. Straumfar sé í stórum dráttum þannig að straumurinn fari inn að sunnanverðu og út að norðan. Er í þessu sambandi vísað til myndar í skýrslu framkvæmdaraðila. Ætla megi þess vegna að hverfandi áhrifa muni gæta milli þessara svæða.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til þess sem fram hefur komið hjá Fiskistofu að engin rekstarleyfi til eldis nytjastofna sjávar í Hvalfirði gefin út af stofunni séu í gildi.

7. Áhrif á siglingar o.fl.

Í kæru Landssamband veiðifélaga segir að ekki sé gert ráð fyrir áhættu vegna íss eða ísreks þegar fjörðinn leggi. Þá sé ekki fjallað um áhrif stórskipaumferðar til og frá Grundartanga með tilliti til álags á eldisbúnað.

Í kæru Hvalfjarðarsveitar segir að talsverð aukning hafi orðið á skipaumferð um fjörðinn undanfarin ár, bæði vélknúinna báta af ýmsum stærðum sem og minni sjófarartækja eins og kajaka. Í úrskurði Skipulagsstofnunar sé ekki minnst á aðrar siglingar en þær sem tengjast iðnaðarsvæðinu á Grundartanga. Ljóst þyki að fyrirhugað þorskeldi geti haft áhrif á siglingar.

Í umsögn framkvæmdaraðila er vísað til þess að Grundartangi er norðanmegin í Hvalfirði. Staðsetning eldisins sunnan megin og u.þ.b. 8,5 kílómetrum innar í firðinum. Gengið sé út frá því að sjófarendur virði íslenskar og alþjóðlegar siglingareglur og þar af leiðandi séu ekki fyrirséð vandamál í því sambandi.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að þeirri ábendingu hafi verið komið á framfæri við framkvæmdaraðila að hann sendi Sjómælingum Íslands upplýsingar um endanlega staðsetningu sjókvía til að hana megi færa inn á sjókort.

8. Áhrif á ferðaþjónustu.

Í kæru samtaka eigenda sjávarjarða segir Hvalfjörður sé vinsælt ferðamannasvæði og muni gegna vaxandi hlutverki á því sviði í framtíðinni.

Í kæru Hvalfjarðarsveitar segir að í úrskurði Skipulagsstofnunar sé ferðaþjónustu og útivist gefið lítið vægi, nema hvað varðar ferðaþjónustu í Hvammsvík. Ljóst sé að umferð um Hvalfjörð hafi mikið breyst frá opnun Hvalfjarðarganga. Bílaumferð sé mun minni og hægari og samhliða hafi fjörðurinn notið síaukinna vinsælda sem útivistarsvæði og ferðamannastaður. Fiskeldi breyti ásýnd fjarðarins og hafi þar með áhrif á upplifun ferðamanna um svæðið. Þá veki það upp spurningar hvort sjónræn áhrif fyrirhugaðs þorskeldis í Hvammsvik geti haft áhrif á frístundabyggð í Hvalfirði og skipulagningu nýrra frístundasvæða.

Í umsögn framkvæmdaraðila er vísað til skýrslu sem fylgdi tilkynningu um framkvæmdina varðandi sjónræn áhrif. Framkvæmdaraðili telur að staðsetning kvíanna muni nánast ekkert sjást frá veginum sunnan megin því Reynisvallaháls og Hvammshöfði skyggi á. Að norðan sé hægt að finna staði þar sem sjáist yfir fjörðinn en fjarlægði sé minnst 3 km. Hin sjónrænu áhrif sem vegfarendur verði fyrir hljóti því að teljast óveruleg.

III. Niðurstaða.

1. Um málsmeðferð Skipulagsstofnunar.

Landssamband veiðifélaga telur að ekki hafi verið leitað til sérfróðra aðila um vistkerfi laxfiska og möguleg umhverfisáhrif af stórfeldu þorskeldi í nágrenni ósa veiðiáa. Samtök eigenda sjávarjarða telja að samráðs sé ábótavant í ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 skal Skipulagsstofnun áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra aðila eftir eðli máls hverju sinni. Við meðferð málsins leitaði stofnunin álits lögboðinna umsagnaraðila. Frekari rannsókn stofnunarinnar fólst í því að leitað var umsagnar hjá Landbúnaðarstofnun, Hafrannsóknarstofnuninni og sveitarstjórn Kjósahrepps m.a. vegna áhrifa á vistkerfi og þar á meðal laxfiska. Hlutverk Hafrannsóknarstofnunarinnar er m.a. að afla alhliða þekkingar um hafið og lífríki þess, afla þekkingar um eðlis- og efnafræðilega eiginleika sjávar umhverfis Ísland, einkum með tilliti til áhrifa á lífríkið og að stunda rannsóknir á eldi sjávarlífvera.

Samkvæmt framansögðu telur ráðuneytið að rannsókn Skipulagsstofnunar hafi verið í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ráðuneytið fellst því ekki á sjónarmið kærenda um að skortur hafi verið á að leitað væri til sérfróðra aðila um vistkerfi laxfiska og möguleg umhverfisáhrif af þorskeldi.

2. Áhrif á laxfiska.

Í kærum Hvalfjarðarsveitar og samtaka eigenda sjávarjarða segir að rétt sé að kanna áhrif eldisins á lax og laxveiði. Í kæru landssambands veiðifélaga er vísað til þess að í skýrslu framkvæmdaraðila séu fullyrðingar um að enginn fiskur sleppi úr kvíum. Í nýútkominni skýrslu Hafrannsóknarstofnunarinnar komi hins vegar fram að á árinu 2004 hafi eldið numið 1000 tonnum af þorski og að 8000 þorskar hafi sloppið úr eldiskvíum samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til þess að fram hafi komið hjá dýralækni fisksjúkdóma að þorskeldi af þeirri stærðargráðu sem um ræðir í hinni kærðu ákvörðun hafi engin neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang þeirra villtu fiskistofna sem fyrir séu í vistkerfi Faxaflóa. Þorskur og lax séu óskyldar tegundir. Í umsögn Fiskistofu segir að samkvæmt lögum um eldi nytjastofna sjávar, nr 33/2002 þurfi leyfi Fiskistofu til eldis nytjastofna sjávar. Samkvæmt 3. gr. laganna skuli Fiskistofa upplýst m.a. um matsskyldu framkvæmda, skilríki um afnot vatns og sjávar, starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, leyfi til mannvirkjagerðar og önnur leyfi sem skylt er að afla. Af þessu sé ljóst að Fiskistofa byggi útgáfu rekstarleyfis til eldis nytjastofna sjávar að verulegu leyti á ákvörðunum annarra opinberra stofnana sem Fiskistofa hafi hvorki ástæður né forsendur til að hafa áhrif á né vefengja. Ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum sé þar á meðal enda sé sú sérfræðiþekking sem þurfi til greiningu þeirra þátta sem ákvarða um mat á umhverfisáhrifum ekki til staðar á Fiskistofu. Í umsögn Veiðimálastofnunar segir að um viðkvæmt svæði sé að ræða þar sem mikilvægar veiðiár renni til sjávar. Eldi á þorski í miklum mæli geti haft áhrif. Nægi þar að nefna hættu vegna mengunar, sjúkdóma og sníkjudýra, auk hættu á að þorskur stundi afrán á laxfiskaungviði, einkum ef hann sleppi. Í umsögn veiðimálastjórnar, stjórnsýslusviðs Landbúnaðarstofnunar segir að við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun hafi eingöngu verið leitað eftir umsögn dýraheilbrigðissviðs stofnunarinnar en ekki veiðimálastjórnar sem leyfisveitanda í eldi laxfiska varðandi aðra hagsmuni í veiðimálum t.d. varðandi vistfræðilega þætti og hugsanleg áhrif á veiðiár. Segir í umsögninni að varasamt verði talið að heimila stórfellt þorskeldi í sjókvíum í Hvalfirði í næsta nágrenni Laxár í Kjós sem sé ein verðmætasta laxveiðiá landsins. Fyrirliggjandi upplýsingar bendi til þess að þorskur geti sloppið úr sjókvíum í verulegum mæli og verði þá hugsanlega staðbundinn í næsta nágrenni kvíanna. Vitað sé að laxaseyði geti verið kjörfæða þorsks við vissar aðstæður og laxveiðiánum gæti því verið hætta búin vegna afráns þorsks á sjógönguseiðum. Þetta hafi lítið verið rannsakað hér á landi og þyrfti því að skoða ofan í kjölinn, áður en þorskeldi af þeirri stæðargráðu, sem hér um ræðir verið heimilað. Ekki verði því talið hægt að heimila 3000 lesta eldi á þorski í Hvalfirði án þess að fram farið mat á hugsanlegum umhverfisáhrifum slíkrar starfsemi, einkum varðandi vistfræðilega þætti svo sem afrán þorsks á sjógönguseyðum og hugsanlegar truflanir á göngum laxfiska af ýmsum tegundum. Í umsögn Kjósahrepps segir að sveitarstjórn hafi verulegar áhyggjur af þróun mála í Hvalfirði og mögulegar neikvæðar afleiðingar á náttúrulega laxagengd. Stórfelld uppbygging stóriðju, aukin skipaumferð og gengdarlaus uppdæling malarefna af sjávarbotni sé nægileg ástæða til efasemda um að lífríki fjarðarins standist ekki álagið.

Framkvæmdaraðili telur að það sem minnki líkur á að eldisþorskar muni sleppa úr kvíum sé að kvíar, nætur og festingar séu hannaðar til að þola það álag sem þeim sé ætlað og að styrkmörk og þolmörk séu ríflega yfirreiknuð. Gert sé ráð fyrir að nætur verði reglubundið fluttar á nótaverkstæði þar sem þær séu hreinsaðar, nákvæmlega yfirfarnar og styrktarþolsprófaðar. Ennfremur muni kafari rannsaka hverja nót reglubundið fjórum sinnum á ári og auk þess að það sé staðsett neðansjávarmyndavél í hverri kví sem stöðugt sé í gangi. Ein af meginforsendum þess að rekstur eldisins muni skila árangri sé að eldisþorskur muni ekki sleppa úr kvíum. Fyrirsvarsmaður framkvæmdaraðila hafi hannað og stjórnað uppbyggingu tveggja fiskeldisstöðva á Austurlandi þar sem engin lax hafi sloppið úr kvíum frá því fyrstu laxar komi í kvíarnar árið 2000. Umræddur eldisþorskur sem hugsanlega sleppi kunni ekki að éta lifandi fæðu. Allar rannsóknir á stroki eldislaxa bendi til þess að þeir eigi erfitt með að afla sér fæðu í hinu villta umhverfi. Ósennilegt sé að eldisþorskur leiti að árósum Laxár í Kjós sem sé í 6 km. fjarlægð frá kvíunum að vori og bíði komu seiðanna enda forðist þeir ferska vatnið. Í umsögn Hafrannsóknarstofnunarinnar segir að með tilliti til staðsetningar, umfangs fyrirhugaðs eldis og fyrirliggjandi gagna verði að teljast litlar líkur á alvarlegum áhrifum á umhverfið. Ekki ætti því að vera ástæða til að umrædd starfsemi fari í umhverfismat.

Ráðuneytið telur með hliðsjón af umsögn Landbúnaðarstofnunar og Veiðimálastofnunar, mögulegt að þorskur í fyrirhuguðu eldi stundi afrán á laxfiskaungviði einkum ef þorskur sleppur úr kvíunum. Einnig eru taldir möguleikar á að truflanir verði á göngum laxfiska af ýmsum tegundum. Töluverðir hagsmunir eru af veiði í laxveiðiám í nágrenni fyrirhugaðrar framkvæmdar í Hvalfirði. Framkvæmdaraðili gerir ráð fyrir aðgerðum í rekstri og viðhaldi eldiskvía til að draga hættu á áhrifum á laxfiska og heldur því fram að eldisþorskur kunni ekki að éta lifandi fæðu. Ráðuneytið telur að óvissa sé um það hver áhrif þorskeldis af þeirri stærðargráðu sem fyrirhuguð er hafi á laxfiska og laxveiði og því rétt að þau áhrif verði könnuð nánar.

3. Áhrif á æðavarp.

Í kæru Hvalfjarðarsveitar segir að margir bændur hafi talsverðra hagsmuna að gæta í tengslum við æðarvarp. Hvalfjörður sé æðarfugli afar mikilvægt fæðu- og athafnasvæði, ekki síst hvað varði uppeldi æðarunga fyrstu vikurnar eftir útleiðslu. Óvíst sé hvaða áhrif aukin umferð og umsvif í tengslum við fyrirhugað þorskeldi hafi á æðarfuglinn á viðkvæmum tímum.

Í umsögn framkvæmdaraðila segir að fyrirhuguð staðsetning eldiskvía sé 600-800 metra frá landi. Æðarfugl haldi sig við fjöruna yfir varptímann enda verpi hann á landi. Engin umferð sé fyrirsjáanleg á vegum framkvæmdaraðila við eða í fjörum fjarðarins og því muni framkvæmdin eða rekstur fyrirtækisins engin neikvæð áhrif hafa á varp eða afkomu æðarfugls.

Að teknu tilliti til fyrirhugaðrar staðsetningar eldiskvía telur ráðuneytið ekki líkur á að fyrirhuguð framkvæmd hafi veruleg áhrif á æðarvarp i Hvalfirði.

4. Önnur áhrif á lífríki.

Í kærum Hvalfjarðarsveitar og samtaka eigenda sjávarjarða er lögð áhersla á fjölskrúðugt lífríki Hvalfjarðar og að Hvalfjörður sé tiltölulega djúpur fjörður og lokaður.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin telur að fyrirhugað þorskeldi í Hvalfirði kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif m.t.t. hugsanlegra áhrifa á þörungablóma í firðinum.

Samkvæmt frekari upplýsingum Umhverfisstofnunar telst nýting þorsks á fóðri í eldi betri en t.d. hjá eldislaxi. Framkvæmdaraðili gerir ráð fyrir að nota myndavélar við stýringu fóðurgjafar en það er aðferð sem fellur undir skilgreiningu á bestu fáanlega tækni í fiskeldi. Þrátt fyrir betri nýtingu þorskfiska á fóðri verður töluverður úrgangur frá eldinu og aukinn styrkur næringarefna s.s. köfunarefnis og fosfórs þar sem gert er ráð fyrir að fyrirhugað eldi nemi um 3000 tonnum. Ráðuneytið telur að þrátt fyrir niðurstöður Hafrannsóknarstofnunarinnar varðandi styrk hafstrauma á fyrirhuguðum eldisstað kunni úrgangur og ýmis næringarefni frá eldinu að skapa auknar líkur á blóma eitraðra þörunga í Hvalfirði. Samkvæmt framansögðu telur ráðuneytið að fyrirhuguð framkvæmd kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér vegna næringarefnaauðgunar og því rétt að fram fari nánara mat á þeim áhrifum.

5. Áhrif á hagsmuni annarra rétthafa.

Í kæru samtaka eigenda sjávarjarða segir að þótt sjálfar eldisstöðvarnar séu staðsettar utan netlaga sé verið að hefja stórfellda starfsemi á landamerkjum lögbýla og á hafsvæði sem sé sameign sjávarjarða og íslenska ríkisins. Ráðuneytið geti ekki heimilað þorskeldi í sjónum umhverfis Ísland án samráðs við meðeigendur.

Ákvörðun um matsskyldu felur ekki í sér ákvörðun um leyfi fyrir viðkomandi starfsemi. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 33/2002 um eldi nytjastofna sjávar þarf rekstrarleyfi Fiskistofu til eldis nytjastofna sjávar. Eins og fram kemur í umsögn framkvæmdaraðila er gert ráð fyrir að eldisstöðvar verði staðsettar utan netlaga. Sú framkvæmd sem hin kærða ákvörðun lýtur að er því fyrirhuguð á svæði sem ekki lýtur beinum eignarrétti.

6. Áhrif á aðrar framkvæmdir.

Í kæru Hvalfjarðarsveitar segir að rétt sé að tekið sé tillit til hugsanlegrar áhrifa fyrirhugaðrar framkvæmdar á kræklingarækt en tilraunarækt á kræklingi hafi verið stunduð um nokkurt skeið í Hvalfirði.

Í umsögn framkvæmdaraðila segir að til skamms tíma hafi verið gerð tilraun með kræklingarækt í Hvammsvík. Fimm kílómetra siglingaleið sé frá Hvammsvík út fjörðinn að fyrirhugaðri staðsetningu. Staðsetningin sé því alls ekki mjög nálægt Hvammsvík.

Í kæru Geirsár ehf. segir að ekki liggi fyrir þolmörk fyrir þorskeldi í Hvalfirði. Kærandi reki fiskeldisstöðina Strönd sem er í landi Saurbæjar, Hvalfjarðarstrandarhreppi. Á undanförnum árum hafi verið unnið að stækkun starfsleyfis fyrir Geirsá ehf. Stefnt sé að 2000 tonna eldi á bleikju og þorski í landkerjum og kvíum. Ekki séu nema 2 km. milli stöðvar Geirsár ehf. og fyrirhugaðrar eldisstöðvar.

Fram kom hjá Fiskistofu við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun að engin rekstarleyfi til eldis nytjastofna sjávar í Hvalfirði gefin út af stofunni séu í gildi. Í umsögn framkvæmdaraðila segir að fjarlægðin frá fyrirhugaðri staðsetningu að Saurbæjarvík sé samkvæmt sjókorti af Hvalfirði rúmir 2,5 km. Saurbæjarvík er norðan megin í Hvalfirði en fyrirhuguð staðsetning fiskeldisstöðvar AGVA ehf. sunnan megin. Í umsögn Hafrannsóknarstofnunarinnar segir að sterkir fallastraumar, yfirleitt 15-30 cm/s að hámarki, séu inn og út Hvalfjörð en þó sterkari inn fjörðinn. Verði því að teljast góðar líkur á góðri dreifingu úrgangsefna frá þorskeldi sem staðsett verði á þessum stað og fremur litlar líkur á ofauðgun. Í umsögn Umhverfisstofnunar er tekið undir að eðlilegt væri að gera grein fyrir hugsanlegum áhrifum á kræklingarækt og að fyrirhugað þorskeldi í Hvalfirði kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif m.t.t. hugsanlegra áhrifa á þörungablóma í firðinum.

Ráðuneytið telur upplýsingar skorta um möguleg áhrif fyrirhugaðs þorskeldis AGVA ehf. á framgreinda starfsemi sem þegar er fyrir hendi í Hvalfirði. Með hliðsjón af umfangi fyrirhugaðs eldis og því álagi á lífríki sem fyrir er í Hvalfirði telur ráðuneytið rétt að fram fari mat á þeim áhrifum.

7. Áhrif á siglingar o.fl.

Í kæru Hvalfjarðarsveitar segir að ljóst þyki að fyrirhugað þorskeldi geti haft áhrif á siglingar.

Eins og segir í umsögn framkvæmdaraðila er Grundartangi norðanmegin í Hvalfirði. Staðsetning fyrirhugaðs eldis er hins vegar sunnan megin í firðinum og u.þ.b. 8,5 kílómetrum innar. Umhverfisstofnun hefur bent á að unnt sé að færa staðsetningu kvíanna inn á sjókort. Ráðuneytið telur því ekki líkur á að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa umtalsverð áhrif á siglingar.

8. Áhrif á ferðaþjónustu.

Í kæru samtaka eigenda sjávarjarða segir Hvalfjörður sé vinsælt ferðamannasvæði og muni gegna vaxandi hlutverki á því sviði í framtíðinni. Í kæru Hvalfjarðarsveitar segir að í úrskurði Skipulagsstofnunar sé ferðaþjónustu og útivist gefið lítið vægi, nema hvað varðar ferðaþjónustu í Hvammsvík. Ljóst sé að umferð um Hvalfjörð hafi mikið breyst frá opnun Hvalfjarðarganga.

Í umsögn framkvæmdaraðila er vísað til skýrslu sem fylgdi tilkynningu um framkvæmdina varðandi sjónræn áhrif. Framkvæmdaraðili telur að staðsetning kvíanna muni nánast ekkert sjást frá veginum sunnan megin því Reynisvallaháls og Hvammshöfði skyggi á. Að norðan sé hægt að finna staði þar sem sjáist yfir fjörðinn en fjarlægð sé minnst 3 km. Hin sjónrænu áhrif sem vegfarendur verði fyrir hljóti því að teljast óveruleg.

Ráðuneytið telur með hliðsjón af upplýsingum sem fram koma í skýrslu sem fylgdi tilkynningu um framkvæmdina og öðrum gögnum málsins að ekki séu líkur á að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa umtalsverð áhrif á ferðaþjónustu.

9. Niðurstaða.

Ráðuneytið fellst á með kærendum að fjölskrúðugt lífríki er í Hvalfirði. Einnig er fyrir nokkuð álag á það lífríki eins og fram hefur komið. Með vísan til þess sem að framan segir, einkum um möguleg áhrif á lífríki og laxagegnd í nágrenni fyrirhugaðar framkvæmdar og um möguleg sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum, telur ráðuneytið að fyrirhuguð framkvæmd kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis og staðsetningar sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Telur ráðuneytið því rétt að fram fari mat á umhverfisáhrifum hennar hvað varðar þorskeldi í Hvalfirði en ekki þarf að fara fram mat á umhverfisáhrifum hvað varðar þorskeldi í Stakksfirði. Er því felld úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar, frá 23. júní 2006, um að fyrirhuguð framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum sbr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr 106/2000, hvað varðar það þorskeldi sem fyrirhugað er í Hvalfirði.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 23. júní 2006 um að fyrirhugað þorskeldi í sjókvíum í Hvalfirði og í Stakksfirði, allt að 3000 tonn af eldisþorski á hvorum stað skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum er ógild hvað varðar fyrirhugað þorskeldi í Hvalfirði, en ekki í Stakksfirði og skal fara fram mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs þorskeldis AGVA ehf. í Hvalfirði.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta