Hoppa yfir valmynd
K

Nr. 321/2025 Úrslurður

 

 

 

Hinn 23. apríl 2025 er kveðinn upp svohljóðandi 

úrskurður nr. 321/2025

í stjórnsýslumáli nr. KNU25010074

 

Kæra [...]

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 21. janúar 2025 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Póllands (hér eftir kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 15. og 16. janúar 2025, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tíu ár.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, EES-samningurinn, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna (Sambandsborgaratilskipunin), auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi skráði dvöl sína hér á landi 4. september 2023. Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði var kærandi dæmdur í tveggja ára og sex mánaða fangelsi með dómi Landsréttar nr. 466/2024, dags. 28. nóvember 2024 fyrir brot gegn 173. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 7. janúar 2025, var kæranda tilkynnt að til skoðunar væri að brottvísa honum og ákvarða endurkomubann með vísan til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis, sbr. 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga. Í bréfinu vísaði Útlendingastofnun til afbrotasögu kæranda með hliðsjón af þeim lagaskilyrðum sem gilda um brottvísun EES- og EFTA-borgara. Var kæranda veittur sjö daga frestur frá birtingu bréfsins til þess að leggja fram greinargerð vegna málsins. Bréfið var birt fyrir kæranda 8. janúar 2025, og lýsti hann því yfir að hann hygðist leggja fram greinargerð vegna málsins. Var kæranda veittur frestur til þess að leggja fram greinargerð til 15. janúar 2025, að teknu tilliti til 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga. Útlendingastofnun tók ákvörðun í máli kæranda 15. janúar 2025 og komst að þeirri niðurstöðu að honum skyldi brottvísað frá landinu með endurkomubanni til tíu ára. Sama dag lagði kærandi fram andmæli vegna málsins en ekki var fjallað um málatilbúnað kæranda í ákvörðuninni. Af gögnum málsins má ráða að Útlendingastofnun hafi tekið nýja ákvörðun 16. janúar 2025 þar sem tekið hafi verið tillit til málatilbúnaðar kæranda. Jafnframt hafi Útlendingastofnun gert [...], hvar kærandi dvaldi, viðvart um að tekin yrði ný ákvörðun í málinu en á þeim tímapunkti var fyrri ákvörðun óbirt. Þrátt fyrir framangreint hafi ákvörðun, dags. 15. janúar 2025, verið birt fyrir kæranda 16. janúar 2025. Þegar Útlendingastofnun hafi orðið ljóst að röng ákvörðun hafi verið birt fyrir kæranda hafi stofnunin upplýst umboðsmann hans um það með tölvubréfi, dags. 20. janúar 2025. Með tölvubréfinu var honum jafnframt látið endurrit nýrrar ákvörðunar, dags. 16. janúar 2025, í té. Stofnunin vísaði til 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga og áleit að bersýnileg mistök hafi verið gerð við fyrri birtingu. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. janúar 2025, hafi kæranda verið brottvísað með endurkomubanni til tíu ára. Í ákvörðuninni fjallaði Útlendingastofnun um málatilbúnað kæranda með hliðsjón af 97. gr. laga um útlendinga, 71. gr. stjórnarskrár, og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að sjónarmið kæranda hafi ekki staðið í vegi fyrir brottvísun.

Með tölvubréfi kæranda, dags. 21. janúar 2025, voru ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 15. og 16. janúar 2025, kærðar til kærunefndar útlendingamála. Með tölvubréfinu óskaði kærandi eftir því að réttaráhrifum ákvarðananna yrði frestað á meðan málið yrði rekið fyrir kærunefnd. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 21. janúar 2025, var kærandi upplýstur um að kæra fresti réttaráhrifum sjálfkrafa, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga, enda hafði hann skráð dvöl sína sem EES-borgari. Hinn 4. febrúar 2025 lagði kærandi fram greinargerð og önnur fylgigögn til kærunefndar. 

Samkvæmt framansögðu frestaði stjórnsýslukæra réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd. Að öðru leyti gilda ákvæði XI. kafla laga um útlendinga um stjórnsýslumál þetta. 

III. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi telji Útlendingastofnun hafa tekið ákvörðun, dags. 15. janúar 2025, áður en andmælafrestur rann út, sem sé slíkur annmarki að varði ómerkingu. Vísar kærandi til fyrirliggjandi sendingarkvittana frá Signet transfer þar að lútandi. Að sögn kæranda hafi Útlendingastofnun áttað sig á vandanum og sent lögmanni kæranda nýja ákvörðun með vísan til 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Hin nýja ákvörðun hafi þó í meginatriðum verið sama efnis og fyrri, en nú væri vísað til andmæla kæranda. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi ekki verið heimilt að birta kæranda nýtt endurrit ákvörðunar á grundvelli 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga. Þvert á móti telur kærandi að í raun hafi verið bætt úr meiriháttar annmarka á málsmeðferð, en þó eingöngu til málamynda. Framangreint eigi að valda ómerkingu hinna kærðu ákvarðana. Málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi einkennst af fljótræði og fyrirhyggjuleysi sem bendi til þess að eina markmiðið hafi verið að koma kæranda úr landi án þess að staða hans hafi verið metin á hlutlausan og sanngjarnan hátt.

Kærandi hafi dvalið hér á landi frá sumrinu 2023 en með dómi Landsréttar nr. 466/2024, dags. 28. nóvember 2024, hafi hann verið dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi. Þrátt fyrir dóminn telur kærandi að ekki sé ástæða til þess að brottvísa honum frá landinu. Um það vísar kærandi til 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga og þess að framferði hans hafi ekki verið þess eðlis að það feli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Þá eigi háttsemi hans ekki að segja til um að hann muni fremja refsivert brot á ný. Kærandi sé á sextugsaldri og eigi sér þann draum að lifa friðsælu lífi á Íslandi og stunda vinnu. Að sögn kæranda hafi hegðun hans í fangelsi verið til fyrirmyndar og hafi honum verið heimilað að afplána á [...]. Að mati kæranda sýni þetta fram á að hann sé ekki ógn við grundvallarhagsmuni samfélagsins heldur þvert á móti að hann geti lagt sitt af mörkum til samfélagsins með jákvæðum hætti. Þá hafi bróðir kæranda nýlega flutt til Íslands og er ætlun bræðranna að styðja hvor við annan. Bróðir kæranda starfi sem matreiðslumaður og gegni ákveðnu kjölfestuhlutverki gagnvart kæranda. Að sögn kæranda hafi síðustu ár verið erfið og ljóst að hann hafi stigið feilspor. Að hans mati séu brotin þó ekki svo alvarleg að þau kalli á brottvísun og endurkomubann, einkum þegar haft er í huga ætlun hans að byggja upp líf sitt. Þá hafi kærandi tengsl við Ísland í ljósi fyrri dvalar og búsetu bróður hans.

Samhliða greinargerð lagði kærandi fram tiltekin fylgigögn málsins, þ.m.t. kvittanir frá Signet transfer og ákvarðanir Útlendingastofnunar. 

IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Reglur stjórnsýsluréttar og málsmeðferð samkvæmt lögum um útlendinga 

Samkvæmt málatilbúnaði kæranda er megináhersla lögð á málsmeðferðarannmarka sem valdi því að ákvarðanir Útlendingastofnunar skuli felldar úr gildi. Um það vísar kærandi einkum til 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga. Þar að auki telur kærandi að úrbætur á fyrri ákvörðun hafi verið til málamynda. 

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að kærandi lagði fram greinargerð vegna málsins 15. janúar 2025, á lokadegi veitts frests, að teknu tilliti til 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga. Að því leytinu til hafi ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. janúar 2025, verið ótímabær og ekki tekið mið af andmælarétti kæranda. Af gögnum málsins liggur enn fremur fyrir að Útlendingastofnun hafi breytt ákvörðuninni áður en hún var birt fyrir kæranda, sbr. 1. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga. [...] hafi sannarlega verið gert viðvart og [...] afhent endurrit nýrrar ákvörðunar til birtingar.

Þrátt fyrir framangreint hafi röng ákvörðun verið birt fyrir kæranda. Samkvæmt gögnum málsins hafi Útlendingastofnun þegar brugðist við eftir að mistökin urðu ljós, og látið kæranda endurrit nýrrar ákvörðunar í té án tafa. Með ákvörðun, dags. 16. janúar 2025, komst Útlendingastofnun að sömu niðurstöðu og í fyrri ákvörðun, þ.e. að brottvísa kæranda með tíu ára endurkomubanni, sbr. 95. og 96. gr. laga um útlendinga. 

Af efni seinni ákvörðunarinnar er ljóst að leggja þurfti mat á tiltekin matskennd atriði, svo sem tengsl kæranda við landið. Gildissvið 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga takmarkast við leiðréttingar á bersýnilegum villum en samkvæmt athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum eru bersýnilegar villur miðaðar við misritun á orði, nafni eða tölu og reikningsskekkju, svo og aðrar bersýnilegar villur er varða form ákvörðunar. Heimildin tekur hins vegar ekki til leiðréttingar á efni ákvörðunar. Hafi efni ákvörðunar orðið rangt, svo sem vegna ónógra upplýsinga um málsatvik, er ekki unnt að breyta ákvörðun á grundvelli þessa ákvæðis. Verður því ekki fallist á með Útlendingastofnun að heimilt hafi verið að breyta ákvörðuninni með framangreindum hætti á grundvelli 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til framangreinds hefði Útlendingastofnun með réttu átt að afturkalla fyrri ákvörðunina, sbr. t.d. 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga, enda hefði það ekki verið kæranda til tjóns.

Líkt og fram hefur komið tók Útlendingastofnun nýja ákvörðun í máli kæranda, dags. 16. janúar 2025, og var hún birt með lögmætum hætti fyrir kæranda, sbr. 3. málsl. 4. mgr. 44. gr. reglugerðar um útlendinga. Kærandi kærði báðar ákvarðanir til kærunefndar útlendingamála, og fá sjónarmið hans umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum. Ber að líta á ákvarðanirnar sem eina heild og fjalla um þær í einum úrskurði, sbr. til hliðsjónar úrskurð kærunefndar nr. 283/2025, dags. 2. apríl 2025. Að framangreindu virtu var annmarki á meðferð málsins ekki slíkur að valdi ógildingu á hinum kærðu ákvörðunum. 

Að teknu tilliti til andmæla kæranda og áhrifa þeirra á hinar kærðu ákvarðanir er ekki unnt að slá því föstu að umfjöllun Útlendingastofnunar hafi verið til málamynda og verða hinar kærðu ákvarðanir ekki felldar úr gildi þegar af þeirri ástæðu. Með vísan til 6. mgr. 8. gr. laga um útlendinga skal kærunefnd meta að nýju alla þætti kærumáls og verður því fjallað efnislega um málatilbúnað kæranda síðar í úrskurði þessum. 

Brottvísun og endurkomubann

Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Í 95. gr. laga um útlendinga er fjallað um brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis. Í 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga segir að brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. sé heimil ef framferði viðkomandi feli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Ákvörðun um brottvísun skuli ekki eingöngu byggjast á almennum forvarnaforsendum. Ef viðkomandi hafi verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar, sé brottvísun af þessari ástæðu því aðeins heimil, að um sé að ræða háttsemi sem geti gefið til kynna að viðkomandi muni fremja refsivert brot á ný. Fyrri refsilagabrot nægi ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt.

Með dómi Landsréttar nr. 466/2024, dags. 28. nóvember 2024, var kærandi dæmdur til tveggja ára og sex mánaða fangelsisrefsingar fyrir stórfellt fíkniefnabrot, sbr. 173. gr. a almennra hegningarlaga. Háttsemi kæranda fólst í skipulagningu, fjármögnun, og öflun fíkniefna í heimaríki, og að fá annan aðila til þess að koma efnunum til Íslands, til söludreifingar í ágóðaskyni. Í dómi Landsréttar hafi það m.a. horft til refsiþyngingar kærandi hafi verið í farbanni hér á landi þegar brotið átti sér stað og hafi brotavilji hans því verið bæði styrkur og einbeittur. Að öðru leyti var niðurstaða Héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna hans. 

Við mat á því hvort framferði kæranda sé þess eðlis að skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt, sbr. 27. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38, verður einkum að líta til þess að kærandi var dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir stórfellt fíkniefnabrot og háttsemi hans var heimfærð undir 173. gr. a almennra hegningarlaga, en ákvæðið heyrir undir XVIII. kafla laganna sem fjallar um brot sem hafa í för með sér almannahættu. Slíkt brot getur varðað við almannaöryggi í skilningi 1. mgr. 95. gr. laga um útlendinga en til hliðsjónar má líta til þess að í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins hafa fíkniefnabrot verið talin geta fallið undir hugtakið almannaöryggi (e. public security), sbr. til dæmis mál C-145/09 Tsakouridis frá 23. nóvember 2010, m.a. 46. og 47. mgr. dómsins.

Enn fremur er ljóst að brot kæranda beindist að grundvallarhagsmunum íslensks samfélags í skilningi 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga, t.a.m. þeim hagsmunum að vernda einstaklinga og þjóðfélagið í heild gegn þeirri skaðsemi sem ávana- og fíkniefni fela í sér, og jákvæðra skyldna íslenska ríkisins þar að lútandi. Hefur löggjafinn hér á landi reynt að stemma stigu við dreifingu, sölu og notkun á slíkum efnum með refsingum og öðrum refsikenndum viðurlögum líkt og ákvæði almennra hegningarlaga og laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 bera með sér. Með hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli E-15/12, Jan Anfinn Wahl, frá 22. júlí 2013, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 191/2012, dags. 17. október 2013, er ljóst að eðli þeirra viðurlaga sem eru ákveðin við tiltekinni háttsemi getur haft þýðingu þegar sýna þarf fram á að háttsemin sé nægilega alvarlegs eðlis til að réttlæta takmarkanir á rétti EES-borgara, að því gefnu að hlutaðeigandi einstaklingur hafi verið fundinn sekur um slíkan glæp og að sú sakfelling hafi verið hluti af því mati sem stjórnvöld reistu ákvörðun sína á. Með vísan til alvarleika brots kæranda gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga og þeirri miklu vá sem fíkniefnaneysla hefur gagnvart almannaheill, sbr. fyrrgreint mál C-145/09, verður talið að framferði kæranda feli í sér raunverulega og yfirvofandi ógn í skilningi 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga og að háttsemi hans, með frumkvæði, fjármögnun og skipulagningu flutnings fíkniefna til landsins, hafi verið slík að hún geti gefið til kynna að hann muni fremja refsivert brot á ný. Þá horfir kærunefnd einnig til þess sem fram kemur í dómi Landsréttar að kærandi hafi afplánað dóm í heimaríki í 19 ár, þar til hlé hafi verið gert á afplánun vegna heilsufars kæranda. Í dóminum kemur ekki fram fyrir hvaða sakir en samkvæmt atburðarásinni var kærandi kominn til landsins og byrjaður að brjóta gegn íslensku samfélagi um hálfu ári síðar. Er það til marks um síbrotahegðun. 

Í 97. gr. laga um útlendinga eru ákvæði um takmarkanir á heimild til brottvísunar samkvæmt 95. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum málsins skráði kærandi dvöl sína hér á landi 4. september 2023 og hefur því ekki rétt til ótímabundinnar dvalar, sbr. a-lið 1. mgr. 97. gr. laga um útlendinga, sbr. 87. gr. sömu laga. Þá eiga aðrir stafliðir 1. mgr. 97. gr. bersýnilega ekki við í málinu. Í 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga kemur fram að brottvísun skuli ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum EES- og EFTA-borgara eða aðstandanda hans við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu aðstandendum hans. Við matið skuli m.a. taka mið af lengd dvalar á landinu, aldri, heilsufari, félagslegri og menningarlegri aðlögun, fjölskyldu- og fjárhagsaðstæðum og tengslum viðkomandi við heimaland sitt. 

Í greinargerð er byggt á því að kærandi eigi bróður sem sé nýfluttur til landsins, auk þess sem kærandi eigi þann draum að lifa friðsælu lífi á Íslandi og stunda vinnu. 

Líkt og þegar hefur verið rakið skráði kærandi dvöl sína í september 2023 en að virtum málsatvikum áðurnefnds Landsréttardóms er ljóst að kærandi hafi strax hafið brotastarfsemi hér á landi. Hann var m.a. ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa á tilteknu tímabili í september 2023 tekið við nánar tilgreindu reiðufé frá óþekktum aðila en fram kom að reiðuféð væri ávinningur af sölu ávana- og fíkniefna og eftir atvikum öðrum refsiverðum brotum. Við meðferð málsins hafi ákæruvaldið þó fallið frá ákæruliðnum en haldið sig við kröfu um upptöku fjármuna, svo sem Landsréttur fjallar ítarlega um í áðurnefndum dómi. Ekki hafði verið sýnt fram á öflun fjármunanna með lögmætum hætti og var fallist á upptöku fjármunanna á tveimur dómstigum. Meðferð hins ólögmæta reiðufjár hafi komið í ljós við handtöku á Keflavíkurflugvelli, þegar kærandi var á leið úr landi 16. september 2023. Í kjölfarið hafi kærandi verið settur í farbann. Líkt og þegar hefur komið fram horfði Landsréttur sérstaklega til styrks og einbeitts brotavilja að fá þriðja mann til þess að flytja fyrrgreind fíkniefni til Íslands í ljósi yfirstandandi farbanns. Áður en þessi atvik áttu sér stað hafði kærandi engin tengsl við Ísland. Hann hafði t.a.m. ekki stundað neina atvinnu né átt nokkur fjölskyldutengsl við landið. Þá er áréttað að samkvæmt dómi Landsréttar hafði kærandi losnað úr afplánun í heimaríki um hálfu ári áður en hann hóf að brjóta gegn íslensku samfélagi.

Við mat á fjölskyldutengslum er m.a. litið til 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með dómi Slivenko gegn Lettlandi (mál nr. 48321/99), frá 9. október 2003 leit Mannréttindadómstóll Evrópu m.a. til þess að vernd ákvæðis 8. gr. sáttmálans nái eingöngu til kjarnafjölskyldu, þ.e. foreldra og barna þeirra sem halda heimili í sameiningu. Hefur þessi framkvæmd dómstólsins þýðingu við túlkun 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga og leiða tengsl kæranda, sem er 56 ára, við bróður sinn ekki til þess að brottvísun teljist ósanngjörn í skilningi 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga. Líkt og þegar hefur komið fram verður ekki annað ráðið en að tilgangur með komu kæranda til landsins hafi verið að hagnast á ólögmætri og refsiverðri háttsemi. Kærandi var hnepptur í gæsluvarðhald innan tveggja mánaða frá því að hann skráði dvöl sína hér á landi. Dvöl hans hefur að stærstum hluta farið fram í úrræðum á vegum refsivörslukerfisins og verður sú dvöl ekki metin honum til hagsbóta í málinu. Góð hegðun í afplánun breytir þar engu um. Þrátt fyrir að síðustu ár hafi verið kæranda erfið leysir það hann ekki undan ábyrgð gjörða sinna. 

Að framangreindu virtu stendur 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga ekki í vegi fyrir brottvísun kæranda frá landinu. Verða ákvarðanir Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda því staðfest. Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um útlendinga felur brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. í sér bann við komu til landsins síðar. Í sama ákvæði er kveðið á um að endurkomubann geti verið varanlegt eða tímabundið en þó ekki styttra en tvö ár. Við mat á því skuli sérstaklega litið til atriða sem talin eru upp í 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga. Með hinum kærðu ákvörðunum var kæranda bönnuð endurkoma til Íslands í tíu ár. Að virtum málsatvikum, alvarleika brots kæranda, og lítilla tengsla hans við landið er endurkomubann hans hófstillt. Að framangreindu virtu verður tíu ára endurkomubann hans því staðfest. Athygli er vakin á því að samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga um útlendinga er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann. Þá er athygli kæranda jafnframt vakin á því að tímabilið sem kæranda er bönnuð endurkoma til landsins hefst við framkvæmd brottvísunar.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu eru ákvarðanir Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann kæranda staðfestar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

 

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

 

 

Valgerður María SigurðardóttirVera Dögg Guðmundsdóttir

 

  


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta