Nr. 160/2025 Úrskurður
Hinn 26. mars 2025 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 160/2025
í stjórnsýslumáli nr. KNU24100008
Kæra [...]
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 1. október 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir kærandi), ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 30. september 2024, um frávísun frá Íslandi.
Kærandi krefst þess að ákvarðanir lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 30. september 2024, þess efnis að neita honum inngöngu yfir landamærin og vísa honum frá landinu á grundvelli c- og d-liða 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, auk þess að ákvarða honum tilkynningarskyldu á Keflavíkurflugvelli á grundvelli 1. mgr. 114. gr. sömu laga, verði felldar úr gildi.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2016/399 um för yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar), stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi kom til Íslands með flugi frá Verona, Ítalíu, 30. september 2024. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 30. september 2024, var kæranda vísað frá landinu.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kæranda hafi verið frávísað frá Íslandi á grundvelli c- og d-liða 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Ákvörðuninni fylgdu þær viðbótarathugasemdir að kærandi uppfyllti ekki skilyrði um tilgang dvalar auk þess sem hann hefði ekki næg fjárráð vegna fyrirhugaðrar dvalar.
Í frumskýrslu lögreglu, dags. 1. október 2024, er greint frá afskiptum lögreglu af kæranda við löggæslueftirlit á Keflavíkurflugvelli. Kærandi kvaðst ætla að starfa fyrir tiltekið rafmyntafyrirtæki í tíu daga og framvísaði ráðningarsamningi þar að lútandi. Að sögn kæranda fengi hann ekki greidd laun frá fyrirtækinu og væru störf hans takmörkuð við ráðgjafarvinnu í sjálfboðastarfi. Í ráðningarsamningi kæmi þó fram að hann fengi greitt í rafmynt fyrir störf sín. Kærandi hafi upplýst lögreglu um fulltrúa fyrirtækisins, sem staddur væri á Keflavíkurflugvelli til að sækja kæranda. Lögregla hafi rætt við fulltrúa fyrirtækisins sem hafi greint frá því að kærandi myndi dvelja hérlendis í eitt ár og að sótt yrði um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir hans hönd. Að sögn kæranda hafi hann ætlað sér að dvelja hér í tíu daga til tvær vikur. Hann hafi ekki átt bókaðan farmiða frá landi, framvísað 900 evrum í reiðufé og kvaðst vera með 200 evrur á greiðslukorti til viðbótar. Lögregla hafi tekið ákvörðun um frávísun kæranda á grundvelli c-, og d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga þar sem tilgangur dvalar þótti óljós, ósamræmi væri milli framburðar kæranda og fulltrúa meints vinnuveitanda hans, óvissa væri um lengd fyrirhugaðrar dvalar, auk þess sem að fjárráð kæranda væru ekki næg. Við mat á fjármunum leit lögregla hvort tveggja til dvalar í tvær vikur, en einnig til þess að kærandi hafði ekki bókaðan farmiða frá landinu og mátti ætla að dvöl hans yrði lengri en til tveggja vikna, að teknu tilliti til framburðar fulltrúa meints vinnuveitanda hans.
Kærandi kærði ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar útlendingamála 1. október 2024. Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 25. nóvember 2024, var kæranda skipaður talsmaður, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga, en talsmaður hans hafði lagt fram greinargerð vegna málsins 29. október 2024.
III. Málsástæður og rök kæranda
Farið hefur verið yfir greinargerð kæranda og lagt mat á þau sjónarmið er þar koma fram. Í ljósi niðurstöðu málsins verður greinargerð kæranda ekki reifuð nánar.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Ákvæði 11. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Í 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga kemur fram að í máli er varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis skal útlendingi þegar í upphafi máls leiðbeint um réttindi sín og meðferð málsins á tungumáli sem ætla má með sanngirni að hann geti skilið. Samkvæmt a-lið ákvæðisins skal útlendingi m.a. leiðbeint um rétt sinn til að leita aðstoðar lögmanns eða annars fulltrúa á eigin kostnað við meðferð máls.
Í frumskýrslu lögreglu kemur ekki fram hvort kæranda hafi verið leiðbeint um rétt sinn til að leita aðstoðar lögmanns í upphafi máls. Kærunefnd aflaði upplýsinga frá lögreglu 20. febrúar 2025 um það hvort kæranda hafi verið leiðbeint um framangreindan rétt sinn. Í upplýsingum frá lögreglu, dags. 17. mars 2025, kemur fram að kæranda hafi ekki verið leiðbeint um rétt sinn til að leita aðstoðar lögmanns eða annars fulltrúa á fyrstu stigum málsins, með formlegum hætti. Kæranda hafi verið tilkynnt um þann rétt eftir upplýsingatöku við tilkynningu ákvörðunar um frávísun. Kæranda hafi þó ekki verið meinað eða komið í veg fyrir að hann hefði samband við þá einstaklinga sem hann hafi viljað hafa samband við. Hafi hann haft aðgang að öllum sínum eigum, þ.m.t. að símtæki, og því getað rætt við þá aðila sem hann kysi.
Ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um fortakslausa skyldu íslenskra stjórnvalda til að hafa frumkvæði að því að leiðbeina útlendingi við upphaf máls um rétt sinn til að leita aðstoðar lögmanns eða annars fulltrúa á eigin kostnað. Samkvæmt framangreindu var kæranda ekki leiðbeint um þann rétt sinn í samræmi við 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga og kann að vera að sá annmarki hafi haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Er því óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.
Tilkynningarskylda hjá lögreglu
Í málatilbúnaði kæranda er gerð krafa þess efnis að felld verði úr gildi ákvörðun lögreglu um að gera kæranda að sæta tilkynningarskyldu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 114. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið mælir fyrir um heimild til þess að skylda útlending til að sinna reglulegri tilkynningarskyldu um veru sína hér á landi eða að dveljast á ákveðnum stað. Ákvæði c-liðar tilgreinir að ráðstöfunin sé gerð þegar það þykir nauðsynlegt til þess að tryggja framkvæmd þegar tekin hefur verið ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið og þegar mál sem getur leitt til slíkrar ákvörðunar er til meðferðar. Þá kemur fram í 3. mgr. 114. gr. laga um útlendinga að útlendingur eigi rétt á að fá skorið úr því fyrir dómstólum hvort skilyrði fyrir ákvörðun skv. 1. mgr. séu til staðar og hvort grundvöllur sé fyrir að framfylgja ákvörðuninni. Um slíka meðferð máls vísast til XV. kafla laga um meðferð sakamála. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar að endurskoðun á ákvörðunum lögreglu sem teknar eru á grundvelli 114. gr. laga um útlendinga sé á höndum dómstóla en ekki kærunefndar útlendingamála. Verður þeim hluta málsins því vísað frá kærunefnd.
Athugasemdir við málsmeðferð lögreglu
Að því er varðar athugasemdir kæranda um að verklag Lögreglunnar á Suðurnesjum brjóti gegn 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar þá bendir nefndin á að í þessu máli hefur ákvörðun lögreglustjórans verið felld úr gildi á grundvelli formreglna laga um útlendinga. Að hvaða marki lögreglan hafði efnislegar forsendur til þess að vísa kæranda frá Íslandi sætir því ekki endurskoðun fyrir nefndinni. Að öðru leyti getur kærandi borið umkvartanir um vinnubrögð lögreglu undir nefnd um eftirlit með lögreglu eða héraðssaksóknara, sbr. VII. kafla lögreglulaga nr. 90/1996, telji hann ástæðu til.
Úrskurðarorð
Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum er felld úr gildi.
The decision of the Police Commissioner of Suðurnes District is vacated.
Þorsteinn Gunnarsson Valgerður María Sigurðardóttir