Hoppa yfir valmynd
K

Mál nr. 8/2025-Úrskurður

Mál nr. 8/2025

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

B

 

Frávísun. Aðild. Lögvarðir hagsmunir.                                                    

Málinu var vísað frá kærunefnd jafnréttismála þar sem kæruheimild til kærunefndar jafnréttismála er samkvæmt lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála takmörkuð við aðila sem telja að ákvæði laga um jafnréttismál hafi verið brotin gagnvart sér. Kæra sveitarstjórnarfulltrúa vegna kynjahlutfalls fulltrúa í tilteknum nefndum hjá sveitarfélagi var ekki talin falla undir aðildarskilgreiningu 9. gr. laga nr. 151/2020.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 10. júní 2025 er tekið fyrir mál nr. 8/2025 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, sem móttekin var 18. mars 2025, kærði A, sveitar­stjórnarmaður í B, bæjarstjórn B til kærunefndar jafnréttismála þar sem hún telur að bæjarstjórn hafi ekki uppfyllt ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna við skipan í nefndir. Í velferðar- og mannréttindaráði séu fimm konur og tveir karlar, í skipulags- og umhverfisráði séu tvær konur en fimm karlar og í menntaráði séu tveir karlar en fimm konur. Var nánar vísað til upplýsinga á vefyfirlitssíðu nefnda sveitarfélagsins.
  3. Í greinargerð B, sem barst í bréfi, dags. 14. maí 2025, kemur fram að af hálfu B sé þess krafist að kærunni verði vísað frá á þeim grundvelli að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020. Yrði ekki fallist á þá kröfu B var óskað eftir fresti til að skila inn efnislegum athugasemdum.
  4. Með tölvubréfi, dags. 3. júní 2025, bárust athugasemdir frá kæranda við framangreinda afstöðu B. Kom þar m.a. fram að kærandi sé kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn B og bæjarstjórn hafi kosið hana til að sitja í velferðar- og mann­réttindaráði sem jafnréttismálin og framkvæmd löggjafar um jafnréttismál heyri undir. Kjörnir fulltrúar beri samkvæmt sveitarstjórnarlögum ábyrgð á stjórn sveitarfélagsins fyrir hönd íbúa og á því að lögum sé framfylgt í stjórn sveitarfélagsins. Telji hún sig því hafa lögvarða hagsmuni af því að farið sé eftir jafnréttislögum og að málið skuli tekið til efnismeðferðar.

    Niðurstaða

  5. Í 9. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála er kveðið á um að aðilar sem telja að ákvæði laga um jafnréttismál hafi verið brotin gagnvart sér geti leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur m.a. fram að gert sé ráð fyrir að þeim sem telja á sér brotið á grundvelli laga um jafnréttismál verði kleift að kæra ætluð brot til nefndarinnar. Að öðru leyti fari um málsmeðferð hjá nefndinni samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, ákvæðum laga sem málskotsréttur byggist á og nánari reglum sem ráðherra sé heimilt að setja. Í 10. gr. reglugerðar nr. 1320/2024 um kærunefnd jafnréttismála er kveðið á um að aðili sem telji ákvæði laga um jafnréttismál hafi verið brotin gagnvart sér geti leitað atbeina nefndarinnar.
  6. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórn­sýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafn­réttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  7. Svo sem að framan greinir lýtur kæruefnið að meintu broti bæjarstjórnar B á ákvæðum laga um jafnréttismál með því að gæta ekki að jafnrétti kynjanna við kosn­ingu í tiltekin ráð sveitarfélagsins. Skilja verður kæru kæranda til nefndarinnar svo að kærandi, sem sveitarstjórnarfulltrúi í sveitarfélaginu B, skuli í krafti þeirrar stöðu sinnar gæta að því að lögum, þ.m.t. jafnréttislögum, sé fylgt við stjórn sveitar­félagsins.
  8. Í IV. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið nánar á um réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna. Þau ákvæði verða ekki skilin svo að einstakir sveitarstjórnarmenn teljist hafa slíka lögvarða hagsmuni af ráðstöfunum sveitarfélagsins að jafngildi því að meint brot gegn ákvæðum laga á sviði jafnréttismála teljist fela í sér brot gegn sveitarstjórnarmanni í skilningi 9. gr. laga nr. 151/2010, um stjórnsýslu jafnréttismála. Verður ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum málsins að ákvæði laga nr. 151/2020 hafi verið brotin gagnvart kæranda. Ekki verður því séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Er kærunni því, þegar af þessari ástæðu, vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

                                   Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Andri Árnason

Maren Albertsdóttir

Anna Mjöll Karlsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta