Nr. 311/2025 Úrslurður
Hinn 23. apríl 2025 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 311/2025
í stjórnsýslumáli nr. KNU24110083
Kæra [...]
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 13. nóvember 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir kærandi), ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 30. október 2024, um frávísun frá Íslandi.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2016/399 um för yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar), stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi kom til Íslands með flugi frá Varsjá, Póllandi, 30. október 2024. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 30. október 2024, var kæranda vísað frá landinu.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kæranda hafi verið frávísað frá Íslandi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Í skýrslu lögreglu, dags. 30. október 2024, er greint frá afskiptum lögreglu af kæranda við löggæslueftirlit á Keflavíkurflugvelli. Kærandi kvaðst ætla að verja tíma með frænku sinni og eiginmanni hennar og aðstoða þau vegna nýfædds barns. Kærandi hafi sýnt fram á farmiða úr landi að nýju auk fjármuna til þess að standa straum af kostnaði við dvöl á Íslandi. Aðspurð um fyrri dvöl á landinu hafi kærandi gengist við því að hafa dvalið of lengi árið 2023. Við nánari skoðun hafi ættingjar sem kærandi kvaðst munu gista hjá eiga ólokin mál í kerfum lögreglu. Í framhaldinu hafi lögregla tekið ákvörðun um að frávísa kæranda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, einkum vegna gruns um of langa dvöl með vísan til dvalar á árinu 2023.
Kærandi kærði ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar útlendingamála 13. nóvember 2024. Kærandi lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum vegna málsins 4. desember 2024.
III. Málsástæður og rök kæranda
Farið hefur verið yfir greinargerð kæranda og lagt mat á þau sjónarmið er þar koma fram. Í ljósi niðurstöðu málsins verður greinargerð kæranda ekki reifuð nánar.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Ákvæði 11. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Í 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga kemur fram að í máli er varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis skal útlendingi þegar í upphafi máls leiðbeint um réttindi sín og meðferð málsins á tungumáli sem ætla má með sanngirni að hann geti skilið. Samkvæmt a-lið ákvæðisins skal útlendingi m.a. leiðbeint um rétt sinn til að leita aðstoðar lögmanns eða annars fulltrúa á eigin kostnað við meðferð máls.
Í skýrslu lögreglu, dags. 30. október 2024, kemur ekki fram hvort kæranda hafi verið leiðbeint um rétt sinn til að leita aðstoðar lögmanns í upphafi máls. Kærunefnd aflaði upplýsinga frá lögreglu 21. mars 2025 um það hvort kæranda hafi verið leiðbeint um framangreindan rétt sinn. Í upplýsingum frá lögreglu, dags. 27. mars 2025, kemur fram að kæranda hafi ekki verið leiðbeint um rétt sinn til að leita aðstoðar lögmanns eða annars fulltrúa á fyrstu stigum málsins, með formlegum hætti. Kæranda hafi verið tilkynnt um þann rétt eftir upplýsingatöku við tilkynningu ákvörðunar um frávísun. Kæranda hafi þó ekki verið meinað eða komið í veg fyrir að hún hefði samband við þá einstaklinga sem hún hafi viljað hafa samband við. Hafi hún haft aðgang að öllum sínum eigum, þ.m.t. að símtæki, og því getað rætt við þá aðila sem hún kysi.
Ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um fortakslausa skyldu íslenskra stjórnvalda til að hafa frumkvæði að því að leiðbeina útlendingi við upphaf máls um rétt sinn til að leita aðstoðar lögmanns eða annars fulltrúa á eigin kostnað. Samkvæmt framangreindu var kæranda ekki leiðbeint um þann rétt sinn í samræmi við 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga og kann að vera að sá annmarki hafi haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Er því óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.
Úrskurðarorð
Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum er felld úr gildi.
The decision of the Police Commissioner of Suðurnes District is vacated.
Valgerður María Sigurðardóttir Vera Dögg Guðmundsdóttir