Mál nr. 7/2025. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 11. apríl 2025
í máli nr. 7/2025:
Félag atvinnurekenda
gegn
Fjársýslunni og
Sveitarfélaginu Hornafirði
Lykilorð
Kröfu um stöðvun innkaupaferlis hafnað.
Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfu kæranda um að stöðva innkaupaferli varnaraðila þar sem skilyrði 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup voru ekki talin uppfyllt.
Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 14. mars 2025 kærði Félag atvinnurekenda (hér eftir „kærandi“) innkaupaferli Fjársýslunnar f.h. sveitarfélagsins Hornafjarðar (hér eftir sameiginlega vísað til sem „varnaraðilar“) nr. 23159 auðkenndu „Lunch meals for primary schools at Hornafjarðar“.
Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupaferli varnaraðila um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru með vísan til 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Kærandi krefst þess að útboðið verði fellt úr gildi og kærunefnd útboðsmála leggi fyrir varnaraðila að auglýsa útboðið á nýjan leik með vísan til 1. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016. Kærandi krefst þess enn fremur að kærunefnd útboðsmála veiti álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og að varnaraðili greiði kæranda málskostnað við að hafa kæruna uppi með vísan til 2. og 3. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016.
Varnaraðilum var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Varnaraðili Fjársýslan sendi tölvupóst til kærunefndar útboðsmála 20. mars 2025 og tilkynnti að útboðið yrði dregið til baka. Það hafi verið fjarlægt af íslenska útboðsvefnum en vegna tæknilegra vandræða hafi ekki tekist að fjarlægja það af evrópska vefnum. Það sé þó í vinnslu og innkaupin verði boðin út á nýjan leik. Af þessum sökum muni varnaraðilar ekki skila athugasemdum vegna kærunnar.
Kærunefnd útboðsmála gaf kæranda tækifæri á að tjá sig um tilkynningu varnaraðila og með tölvupósti 26. mars 2025 kvað kærandi ekki ástæðu til þess að leggja fram frekari athugasemdir á þessu stigi málsins.
Hið kærða útboð var auglýst 6. mars 2025 á vef Evrópusambandsins, en um var að ræða útboð á skólamáltíðum fyrir Grunnskóla Hornafjarðar samkvæmt svokallaðri „léttu leið“ í samræmi við VIII. kafla laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, sbr. grein 1.1 í útboðsgögnum. Samkvæmt grein 1.5.2 var um að ræða þriggja ára samning og heimilt væri að framlengja samninginn tvisvar sinnum um eitt ár í senn. Samkvæmt grein 1.1.3.1 var gert að skilyrði að maturinn væri eldaður á Höfn eða í næsta nágrenni, og maturinn skyldi fluttur í skólann í sérútbúnum kössum sem halda matnum heitum og skyldi afhentur á tveimur stöðum, þ.e. í Hafnarskóla og í Heppuskóla. Í grein 1.3.8 voru gerðar tilteknar kröfur til tæknilegrar og faglegrar getu bjóðenda, m.a. um viðurkenningu á aðstöðu verktaka af hálfu Heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags og starfsleyfi, um löggiltan yfirmatreiðslumeistara og tveggja ára reynslu af sambærilegum verkefnum. Valforsendur komu fram í grein 1.4 og tekið fram að verð myndi gilda 100%.
Í kæru kæranda eru gerðar athugasemdir við tilkynningu varnaraðila á útboðsvef Evrópusambandsins, þar sem engar upplýsingar hafi verið að finna um annan varnaraðila, sveitarfélagið Hornafjörð, í málinu og engar hæfiskröfur hafi verið gerðar til bjóðenda. Þær hafi hins vegar komið fram í útboðsgögnum sjálfum, sbr. greinar 1.3.4-1.3.9, án þess þó að tiltekið sé hvað teljist nægjanlegt svo geta til að vinna verkið sé trygg. Þá telji kærandi það rangt í útboðsgögnum að um sé að ræða innkaup samkvæmt hinni svokölluðu „léttu leið“ samkvæmt VIII. kafla laga nr. 120/2016 og reglugerðar nr. 1000/2016. Telji kærandi að varnaraðilar hafi miðað við ranga tilgreiningu á CPV kóða. Að auki telji kærandi ekki geta staðist að innkaupin séu undir viðmiðunarfjárhæðum eins og þær séu skilgreindar í 4. gr. reglugerðar nr. 360/2022. Kærandi telji jafnframt að krafa útboðsgagna, um að maturinn skuli eldaður á Höfn eða í næsta nágrenni, sé í ósamræmi við 15. gr. laga nr. 120/2016, þar sem tekið sé fram að gæta skuli jafnræðis og meðalhófs við opinber innkaup og að óheimilt sé að takmarka samkeppni með óeðlilegum hætti.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er kærunefnd útboðsmála, að kröfu kæranda, heimilt að stöðva innkaupaferli eða samningsgerð um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, enda hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila.
Í máli þessu hefur varnaraðili Fjársýslan upplýst um að útboðið verði dregið til baka, það hafi verið fjarlægt af íslenska útboðsvefnum og þegar leyst verði úr tæknilegum vandræðum verði það jafnframt fjarlægt af evrópska útboðsvefnum. Þá verði útboðið auglýst á nýjan leik.
Af þessu leiðir að hvorki er til staðar innkaupaferli né er fyrirhuguð samningsgerð sem geta verið andlag kröfu um stöðvun. Kröfu kæranda þess efnis er því hafnað.
Úr öðrum kröfum aðila verður leyst með úrskurði þegar aðilar hafa skilað endanlegum sjónarmiðum sínum í málinu og lagt fram þau gögn sem þeir telja máli skipta.
Ákvörðunarorð
Hafnað er kröfu kæranda, Félags atvinnurekenda, um að stöðva innkaupaferli varnaraðila, Fjársýslunnar f.h. sveitarfélagsins Hornafjarðar, nr. 23159 auðkennt „Lunch meals for primary schools at Hornarfjarðar“.
Reykjavík, 11. apríl 2025
Reimar Pétursson
Kristín Haraldsdóttir
Auður Finnbogadóttir