Mál nr. 8/2025. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 2. júní 2025
í máli nr. 8/2025:
Papco hf.
gegn
Fjársýslu ríkisins,
SRX hf.,
Tandur hf. og
Rekstrarvörur ehf.
Lykilorð
Sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar.
Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfu varnaraðila, F, og T um að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar yrði aflétt, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.
Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 29. mars 2025 kærði Papco hf. (hér eftir „kærandi“) útboð Fjársýslu ríkisins (hér eftir „varnaraðili“) nr. 22136 auðkennt „FA Cleaning supplies“.
Kærandi krefst þess að ákvarðanir varnaraðila, um að hafna tilboði kæranda sem ógildu og að ganga til samninga samkvæmt tilkynningu 20. mars 2025, verði lýstar ógildar og að varnaraðila verði gert að auglýsa útboðið á nýjan leik. Þá krefst kærandi þess að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart honum og að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað. Loks krefst kærandi þess að innkaupaferli útboðsins verði stöðvað þar til endanlega hefur verið skorið úr kærunni.
Varnaraðila, SRX hf., Tandur hf. og Rekstrarvörum ehf. var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir.
Rekstrarvörur ehf. skilaði greinargerð 10. apríl 2025 og mótmælti kröfum kæranda. Varnaraðili krefst þess í greinargerð 11. apríl 2025 að kröfum kæranda verði hafnað og að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar verði aflétt. SRX hf. krefst þess í greinargerð sama dag að kröfum kæranda verði hafnað. Tandur hf. krefst þess í greinargerð 14. apríl 2025 að kröfum kæranda verði hafnað og að kærunefndin aflétti banni við samningsgerð.
Með erindi 28. apríl 2025 til varnaraðila óskaði kærunefnd útboðsmála eftir afriti af tilboðum hagsmunaaðila sem og öðrum gögnum sem félögin kynnu að hafa lagt fram eftir opnun tilboða í útboðinu. Þá óskaði nefndin eftir afriti af auglýsingu útboðsins á vef útgáfuskrifstofu Evrópusambandsins. Varnaraðili svaraði erindinu 5. maí sama ár og afhenti umbeðin gögn.
Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til krafna varnaraðila og Tandur hf. um að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar verði aflétt en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.
I
Varnaraðili auglýsti hið kærða útboð 17. janúar 2025. Í grein 1.1.2 kom fram að útboðið skiptist í tvo hluta. Í hluta 1 var óskað eftir tilboðum í hreinlætispappír, húðvörur, spritt og hreinlætisefni en í hluta 2 eftir umbúðum og pokum. Bjóðendum var heimilt að bjóða í báða hluta eða hvorn hluta fyrir sig.
Í grein 1.3.7, sem laut að tæknilegri og faglegri getu bjóðenda, kom fram að bjóðandi skyldi hið minnsta hafa þriggja ára reynslu af sölu og þjónustu þess vöruflokks sem hann byði í. Þá kom einnig fram að bjóðandi skyldi vera með virka heimasíðu og netverslun með upplýsingum um boðnar vörur, svo sem verð þeirra, stærð, lit, innihald, umhverfisvottun og fleira. Með því að gera tilboð staðfesti bjóðandi að hann uppfyllti umræddar kröfur en varnaraðili áskildi sér rétt til að sannreyna þetta. Skyldu bjóðendur í þeim tilvikum tafarlaust veita umbeðnar upplýsingar sem málið varðaði ella áskildi varnaraðili sér rétt til að vísa tilboði frá. Í sérstökum skilareit kom fram að bjóðandi ætti að tilgreina vefsíðu/netverslun fyrirtækisins með upplýsingum um boðnar vörur og verð.
Í grein 1.7 í útboðslýsingu var orðið vöruflokkur skýrt með þeim hætti að þar væri átt við eina eða fleiri vörutegundir sem skilgreindar væru í sérstakan hóp, annað hvort samkvæmt númerakerfi framleiðanda/seljanda eða alþjóðlegu númerakerfi.
Í kafla 1.6 komu fram þær kröfur sem voru gerðar til boðinna vara. Í grein 1.6.1 voru útlistaðar kröfur til boðinna vara í hluta 1 en grein 1.6.2 laut að vörum í hluta 2. Á meðal fylgigagna útboðslýsingar voru tilboðsblöð fyrir hluta 1 og 2 og kom þar fram nánari lýsing á tæknilegum eiginleikum þeirra vara sem óskað var eftir tilboðum í.
Samkvæmt grein 1.6.1, eins og henni var breytt af varnaraðila 28. janúar 2025, skyldu allar boðnar vörur í vörukörfu í hluta 1 vera með umhverfisvottun (Svanurinn, Blái engillinn, Evrópublómið eða Bra miljöval). Til staðfestingar á að boðnar vörur væru umhverfisvottaðar skyldi bjóðandi setja hlekk að vörulýsingum á vörunum í tilboðsblað eða vista vörulýsingar í tiltekinni skilareit. Þá kom fram í greininni að ef ein vara í tilteknum hluta uppfyllti ekki tæknikröfur væri allt tilboðið í viðkomandi hluta metið ógilt. Á tilboðsblaði vegna hluta 1 var ein af vörunum sem bjóðendur áttu að gera tilboð í lýst með svofelldum hætti: „Handþurrkur á rúllum, breidd ca. 20 cm, hvítar óbleiktar, 100-200 m á rúllur“.
Í grein 1.6.2 kom fram að allir boðnir plastpokar í körfunni í hluta 2 væru glærir eða gegnsæir og úr endurunnu og endurvinnanlegu plasti, þ.e. úr endurunnu plasti sem einnig væri hægt að endurvinna. Til staðfestingar á þessu bar bjóðendum að setja hlekk að vörulýsingum á vörunum í tilboðsblað eða vista vörulýsingar í tiltekinni skilareit. Þá kom fram, með sama hætti og í grein 1.6.1, að ef ein vara í tilteknum hluta uppfyllti ekki tæknikröfur væri allt tilboðið í viðkomandi hluta metið ógilt. Á tilboðsblaði vegna hluta 2 var mælt fyrir um stærðir og þykkt plast- og bréfpoka með ákveðnum vikmörkum.
Tilboð voru opnuð 21. febrúar 2025 og bárust tilboð frá kæranda og hagsmunaaðilum í báðum hlutum útboðsins. Varnaraðili og kærandi áttu í nokkrum samskiptum eftir opnun tilboða þar sem varnaraðili óskaði meðal annars eftir frekari útskýringum og gögnum varðandi tilboð kæranda í báðum hlutum útboðsins.
Varnaraðili hafnaði tilboðum kæranda í báðum hlutum útboðsins með ákvörðun 20. mars 2025.
Ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda í hluta 1 byggðist í meginatriðum á að tilteknar vörur kæranda fullnægðu ekki kröfum útboðsgagna um að vera umhverfisvottaðar auk þess sem við yfirferð tilboðs hefði komið í ljós að framboðnar handþurrkur kæranda uppfylltu ekki kröfu um stærð. Ef tiltekin boðin vara uppfyllti ekki fyrir fram settu kröfurnar væri ekki heimilt að bjóðandi breytti boðnu vörunni eftir opnun tilboða í aðra vöru sem uppfyllti kröfurnar.
Ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda í hluta 2 byggðist í meginatriðum á að upplýsingar vantaði um þykkt tiltekinna plastpoka. Þá vantaði staðfestingu á að plast allra tegunda plastpoka væri endurunnið og endurvinnanlegt.
Sama dag tilkynnti varnaraðila um val á tilboðum hagsmunaaðila.
II
Kærandi byggir í meginatriðum á að ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði hafi verið ólögmæt. Kærandi hafi átt lægsta verðtilboð í útboðinu og lagt fram fullnægjandi gögn sem hafi sýnt fram á áskilda eiginleika varanna.
Hvað varðar höfnun á tilboði kæranda í hluta 1 rekur hann fyrirmæli greinar 1.6.1 varðandi staðfestingu á umhverfisvottunum. Sé smellt á hlekk sem fylgdi tilboðsblaði megi sjá að í vörulýsingu komi glögglega fram að allar umræddar vörur séu umhverfisvottaðar. Enginn áskilnaður hafi verið um að bjóðendur legðu fram frekari gögn en vörulýsingu, þó að önnur gögn hafi einnig geta komið til. Á því sé byggt að fyrirliggjandi upplýsingar í vörulýsingu á heimasíðu hafi með fullnægjandi hætti uppfyllt áskilnað útboðsgagna og að óheimilt hafi verið að gera frekari kröfur til hans. Kærandi hafi þó aflað og lagt fram gögn sem sýni fram á að pappírinn sem kærandi noti við framleiðslu sína sé umhverfisvottaður. Sé því fulljóst að vörur kæranda uppfylli allar kröfur útboðsskilmála og að fullnægjandi staðfestingum hafi verið komið til varnaraðila í kjölfar athugasemda.
Kærandi rekur að við yfirferð tilboðs hafi komið í ljós að handþurrkur kæranda hafi ekki uppfyllt kröfu um stærð en hin boðna vara hafi verið 300 m í stað þeirra 100-200 m sem hafi verið farið fram á. Kærandi hafi upplýst að um mistök hafi verið að ræða og sent inn leiðréttingu enda hafi um smávægilegt atriði verið að ræða. Leiðréttingin hafi ekki falið í sér neina breytingu á tilboðsverði kæranda og ekki raskað að neinu leyti jafnræði bjóðenda. Samkvæmt útboðsgögnum séu boðin verð reiknuð út frá tilboðsverðum per metra/lítra/100 stykki en ekki út frá tilboðsverðum á boðnum vörum. Lengd breyti engu um eðli vörunnar, enda sé um sama pappír að ræða og því allir eiginleikar vörunnar óbreyttir, þar með talið efni og umhverfisvottun hennar.
Síðbúin athugasemd hafi borist frá varnaraðila þar sem staðfest hafi verið að vottorð hafi legið fyrir um að pappír kæranda hafi verið vottaður en ekki lægi fyrir staðfesting á að umræddur pappír hafi verið notaður í vörur kæranda. Þá hafi varnaraðili áskilið að kærandi legði fram tækniblað eða upplýsingablað um vottun og að endavaran sé unnin úr þessum vottaða pappír. Kærandi hafni þessum sjónarmiðum enda færi hann í fyrsta lagi ekki að leggja fram tilhæfulaus skjöl sem ekki vörðuðu þær vörur sem um hafi verið að ræða. Í annan stað hafi þetta ekki verið á meðal þeirra röksemda sem varnaraðili hafi tilgreint sem höfnunarástæðu og í þriðja lagi séu hér settar fram ríkari kröfur en komi fram í útboðsgögnum enda segi þar að vörulýsing sé fullnægjandi. Kærandi hafi þannig í raun gengið lengra en skilmálar útboðsins hafi kveðið á um.
Hvað varðar höfnun á tilboði kæranda í hluta 2 segir kærandi að röksemdir varnaraðila fyrir höfnun tilboðsins hafi verið tvíþættar, annars vegar hafi vantað upplýsingar um þykkt plastpoka 50 * 65 cm (10 my) og staðfestingu á að plastið sé endurunnið og endurvinnanlegt í þeim pokum sem tilboð kæranda hafi tekið til. Fyrirsvarsmaður kæranda hafi staðfest að þykkt pokana sé 20 my sem sé í samræmi við áskilnað útboðsgagna. Þá hafi kærandi staðfest í tölvupósti að pokarnir séu úr endurunnu og endurvinnanlegu plast og hafi lagt fram vottorð framleiðanda því til staðfestingar. Enn fremur hafi kærandi sent varnaraðila tölvupóst sem hafi innihaldið staðfestingu framleiðanda á að varan hafi verið úr endurunnu plasti og hafi Blue Angel umhverfisvottun fylgt því til staðfestingar. Í ljósi þessa séu ofangreindar skýringar á höfnun ekki á rökum reistar. Ákvörðun varnaraðila um höfnun tilboðs kæranda sé því ekki reist á réttum grunni og því ólögmæt, hvort sem horft sé til hluta 1 eða 2.
Að endingu byggir kærandi á að SRX hf. hafi ekki fullnægt áskilnaði útboðsskilmála um að bjóðendur hafi þriggja ára reynslu af sölu og þjónustu þess vöruflokks sem útboðið taki til, hið minnsta ekki í öllum vöruflokkum. Félagið hafi fyrst og fremst verið í innflutningi og sölu raftækja. Samkvæmt skráningu á vef Fyrirtækjaskrár starfi félagið í atvinnugreinaflokki 64.20.0, sem sé starfsemi eignarhaldsfélaga. Þá bendir kærandi einnig á ársreikninga félagsins fyrir árin 2020-2023 því til stuðnings að félagið hafi ekki áskilda reynslu.
SRX hf. hafi ekki opnað heimasíðu um hreinlætisvörur fyrr en eftir að útboðið hafi verið kynnt með opnun útboðsgagna 17. janúar 2025 en lén félagsins hafi ekki verið skráð fyrr en 19. febrúar sama ár. Við skoðun á vefsíðu félagsins megi sjá að tæpur helmingur af vörum félagsins séu til á lager félagsins en þar sé að miklu leyti um að ræða vörur sem útboðið taki til. Þar sé aðeins að finna undir 100 vörutegundir en vöruframboð kæranda skipti þúsundum eins og almennt gangi hjá þeim sem séu með raunverulegan rekstur á þessu sviði. Verði því ekki séð að félagið sé með virka heimasíðu og netverslun með upplýsingum um boðnar vörur í samræmi við áskilnað útboðsgagna.
III
Varnaraðili byggir í meginatriðum á því að aflétta skuli stöðvun samningsgerðar þar sem kærandi hafi hvorki sýnt fram á né leitt líkur að því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 120/2016 eða reglum settum samkvæmt lögunum við umrædd innkaup og að brotin séu þess eðlis að þau geti leitt til ógildingar á ákvörðunum varnaraðila í útboði nr. 22136.
Í samhengi við tilboð kæranda í hluta 1 bendir varnaraðili á að hvorki af tilboðsgögnum kæranda né öðrum gögnum sem hann hafi lagt fram hafi verið unnt að sannreyna að tilteknar framboðnar vörur uppfylltu þær kröfur sem hafi verið gerðar til umhverfisvottana. Þá hafi kærandi auk þess boðið fram handþurrkur sem hafi verið í ósamræmi við útboðsgögn. Samkvæmt útboðsgögnum skyldu boðnar rúllur vera 100-200 m en rúllur kæranda hafi verið 300 m. Eftir opnun tilboða hafi kærandi óskað eftir að breyta tilboði sínu þannig að hann byði rúllu sem væri 200 m. Um hafi verið að ræða breytingu í andstöðu við 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016. Með þessari breytingu hafi kærandi stefnt að því að breyta tilboði sem hafi verið ógilt á þann veg að það yrði gilt. Breytingin hafi með beinum hætti varðað grundvallarþátt tilboðsins og ef á hana hefði verið fallist hefði jafnræði aðila í útboðsferlinu verið raskað með óásættanlegum hætti.
Hvað varðar tilboð kæranda í hluta 2 bendir varnaraðili á að tilboðinu hafi verið hafnað þar sem staðfestingu hafi vantað um að allar tegundir plastpoka væru gerðar úr endurunnum og endurvinnanlegum efnum. Að auki hafi vantað upplýsingar um þykkt fyrir plastpoka í stærð 50*60 sentimetra. Varnaraðili felst á að nægilegt hafi verið að kærandi staðfesti í tölvupósti þykkt plastpoka þar sem ekki hafi verið sérstaklega kveðið á um það í skilmálum útboðsgagna með hvaða hætti kæranda hafi borið að staðfesta þykktina.
Á hinn bóginn hafi engar upplýsingar komið fram á tilboðsblaði kæranda hvort framboðnir plastpokar hans séu endurunnir eða endurvinnanlegir. Þá hafi kærandi sent tvær vottanir frá tilteknum framleiðanda en hvorug þeirra staðfesti að um sé að ræða boðnar vörur kæranda. Þannig hafi með engu móti verið unnt að tengja vottanirnar saman við þær vörur sem kærandi hafi boðið. Varnaraðili hafi boðið kæranda að leiðrétta tilboð sitt með því að skila inn þeim gögnum sem upp á vantaði en honum hafi ekki borist fullnægjandi gögn. Var tilboði kæranda því hafnað.
Auk framangreinds mótmæli varnaraðili þeim fullyrðingum kæranda að SRX hf. hafi ekki getað sýnt fram á fullnægjandi reynslu. Hið rétta sé að varnaraðili hafi staðfestingu frá endurskoðanda fyrirtækisins um að fyrirtækið hafi reynslu frá 2021 af sölu á hreinlætisvörum. Varnaraðila hafi ekki verið skylt að afla þessara upplýsinga en þar sem hann þekkti ekki til bjóðanda þótti honum það í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að sannreyna kröfur um tæknilega og faglega getu, sbr. áskilnað í kafla 1.3.7. Varnaraðili hafni því að skráning félagsins í fyrirtækjaskrá hafi nokkuð með reynslu bjóðanda að gera enda sé engin krafa í útboðsgögnum um tiltekna skráningu félagsins þar. Þá hafi verið krafa um að bjóðendur skyldu vera með virka heimasíðu en engin krafa hversu lengi sú heimasíða hafi þurft að vera uppi. Varnaraðila þyki sýnt fram á með öruggum hætti að SRX hf. uppfylli vissulega kröfur útboðsgagna um tæknilega og faglega getu.
IV
Rekstrarvörur ehf. byggja í meginatriðum á að af kæru málsins megi ráða að vörur kæranda hafi í reynd ekki fullnægt kröfum útboðsgagna og telja megi að varnaraðili hafi því réttilega tekið ákvörðun um að hafna tilboði kæranda í útboðinu. Í ljósi atvika sé þó nær útilokað að SRX hf. hafi fullnægt kröfum útboðsgagna um starfsrækslu virkrar heimasíðu og netverslunar með upplýsingar um allar boðnar vörur þegar tilboðum hafi verið skilað auk þess sem heimasíðu SRX hf. hafi raunar ekki verið hleypt af stokkunum fyrr en 24. mars 2025. Rekstrarvörur ehf. taki því undir með kæranda að varnaraðila hafi verið rétt að hafna tilboði SRX hf. þar sem fyrirtækið hafi ekki fullnægt lágmarkskröfum útboðsgagna um reynslu og þjónustu. Á hinn bóginn geti þessi ágalli á innkaupaferlinu ekki orðið grundvöllur þess að varnaraðila verði gert að auglýsa útboðið á nýjan leik enda hafi verið staðið réttilega að framkvæmd útboðsins og vali tilboða að öðru leyti.
SRX hf. byggir í meginatriðum á að félagið uppfylli öll skilyrði útboðsins, þar á meðal þau sem lúti að reynslu, og að sjónarmið kæranda um hið gagnstæða séu alfarið röng. Sjónarmið kæranda um ætlaðan skort á reynslu hafi enga tengingu við kröfur og málsástæður hans að öðru leyti en af 2. mgr. 103. gr. laga nr. 120/2016 og lögskýringargögnum með nýlegum breytingum á ákvæðinu sé ljóst að málsforræði sé á ábyrgð aðila og kröfur þurfi að tengjast við málsástæður og gögn. Því sé ekki haldið fram að ákvörðun varnaraðila að hafna tilboði kæranda hafi nokkuð með reynslu SRX hf. að gera og því sé ekki heldur haldið fram að ákvörðun um að ganga til samninga samkvæmt tilkynningu 20. mars 2025 verði ógild á grundvelli sjónarmiða kæranda að þessu leyti. Verði því vart annað séð en að röksemdir kæranda að þessu leyti séu þýðingarlausar fyrir kæruna eins og hún sé sett fram. Þá sé SRX hf. ekki tilgreint sem varnaraðili í kærunni og engum kröfum beint sérstaklega gegn félaginu. Loks sé tekið undir mat varnaraðila á tilboðsgögnum kæranda.
Tandur hf. byggir í meginatriðum á því að af þeim gögnum sem félagið hafi undir höndum á þessu stigi málsins virðist sem kærandi hafi ekki getað aflað gagna til að sýna með fullnægjandi hætti að boðnar vörur í tilboði hans hafi staðist nánar tilteknar kröfur útboðsgagna. Kærandi hafi borið alla ábyrgð á framsetningu tilboðs síns og þeim fylgigögnum sem hann hafi ákveðið að afhenda með því. Varnaraðila hafi ekki staðið annar kostur til boða en að meta tilboð kæranda ógilt og hefði það raskað jafnræði bjóðenda ef varnaraðili hefði farið að eltast enn frekar við skýringar frá kæranda eftir að tilboðsfresti lauk og umfram lagaskyldu. Slíkt hafi jafnframt verið til þess fallið að breyta grundvallarþáttum tilboðs kæranda, raska samkeppni og ýta undir mismunun enda hafi skýringar kæranda getað varðað stigagjöf bjóðenda, sbr. 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 og til hliðsjónar úrskurð nefndarinnar í máli nr. 4/2024.
V
Kæra málsins hafði í för með sér sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laga nr. 120/2016. Í 1. mgr. 107. gr. laganna kemur fram að ef ákvörðun um val tilboðs er kærð innan lögboðins biðtíma samkvæmt 86. gr. laganna sé gerð samnings óheimil þar til kærunefnd útboðsmála hefur endanlega leyst úr kærunni. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar getur kærunefnd, hvort heldur að kröfu varnaraðila eða að eigin frumkvæði, ákveðið að aflétta banni við samningsgerð, en við slíka ákvörðun gilda ákvæði 110. gr. laganna eftir því sem við á. Í því felst að einungis á að viðhalda stöðvun hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögum um opinber innkaup eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila.
Hinu kærða útboði var skipt í tvo hluta. Í hluta 1 var óskað eftir tilboðum í hreinlætispappír, húðvörur, spritt og hreinlætisefni en í hluta 2 í umbúðir og poka. Bjóðendum var heimilt að bjóða í báða hluta eða hvorn hluta fyrir sig. Ef ein vara í tilteknum hluta uppfyllti ekki tæknikröfur væri allt tilboðið í viðkomandi hluta metið ógilt, sbr. greinar 1.6.1 og 1.6.2.
Varnaraðili hafnaði tilboðum kæranda í báðum hlutum útboðsins sem ógildum og valdi tilboð hagsmunaaðila. Málatilbúnaður kæranda er í meginatriðum á því reistur að hann hafi fullnægt öllum skilyrðum útboðsins og varnaraðila hafi því verið óheimilt að hafna tilboðum hans. Þá byggir kærandi á að SRX hf. hafi skort tæknilega og faglega getu til að taka þátt í útboðinu.
Að mati kærunefndar útboðsmála má draga í efa að tilboð kæranda í hluta 1 hafi verið gilt þar sem svo virðist að framboðnar handþurrkur hans í þeim hluta hafi ekki staðist stærðarkröfur útboðsins, sbr. vörulýsing þar sem fram kemur að handþurrkurnar væru „300 metrar á rúllu“. Auk þess þykir mega miða við að varnaraðila hafi á grundvelli 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 verið óheimilt að taka tillit til leiðréttingar kæranda á umræddu tilboði sem fólst í því að kærandi skipti út umræddum handþurrkum fyrir aðra vöru. Á hinn bóginn bendir skoðun á tilboðsgögnum kæranda og annarra bjóðenda auk samskipta varnaraðila við bjóðendur til þess að ekki hafi verið gætt jafnræðis við mat á tilboðum þeirra í hluta 1. Af gögnum málsins virðist þannig mega ráða að varnaraðili hafi tekið til greina leiðréttingu SRX hf. á tilboði sínu sem var sambærileg þeirri leiðréttingu kæranda sem varnaraðili taldi að væri óheimil, sbr. samskipti varnaraðila og SRX hf. frá 26. febrúar 2025 varðandi „bréfpoka 45L“.
Svo sem fyrr segir hafnaði varnaraðili einnig tilboði kæranda í hluta 2. Ákvörðun varnaraðila var meðal annars á því reist að kærandi hafi ekki sýnt fram á að plastpokar félagsins væru úr endurunnu og endurvinnanlegu plasti, sbr. grein 1.6.2 í útboðslýsingu. Sami skortur á jafnræði virðist hafa verið til staðar varðandi mat á tilboði kæranda í hluta 2. Af fyrirliggjandi gögnum virðist þannig mega ráða að varnaraðili hafi tekið gilt vottorð Tandur hf. um framboðna plastpoka sem virðist sambærilegt því sem kærandi lagði fram í útboðinu um sína plastpoka.
Til viðbótar framangreindu var meðal annars gerð sú krafa til tæknilegrar og faglegrar getu bjóðanda að hann skyldi að minnsta kosti hafa þriggja ára reynslu af sölu og þjónustu þess vöruflokks sem hann byði í, sbr. grein 1.3.7 í útboðsgögnum. Af tilboðsgögnum SRX hf. virðist mega ráða að félagið hafi ekki fullnægt þessari kröfu enda virðist yfirlýsing endurskoðanda sem SRX hf. lagði fram ekki hafa tekið til allra þeirra þátta sem þriggja ára reynsla var áskilin um samkvæmt útboðsgögnum.
Samkvæmt framangreindu verður að telja, eins og mál þetta liggur fyrir á þessu stigi, að verulegar líkur hafi verið leiddar að broti gegn lögum nr. 120/2016 sem leitt geti til ógildingar á ákvörðunum varnaraðila í báðum hlutum útboðsins, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016. Kröfum varnaraðila og Tandur hf. um afléttingu sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar, sem komst á með kæru í máli þessu, er því hafnað.
Ákvörðunarorð:
Kröfum varnaraðila, Fjársýslu ríkisins, og Tandur hf., um afléttingu sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar vegna útboðs nr. 22136 auðkennt „FA Cleaning supplies“, er hafnað.
Reykjavík, 2. júní 2025.
Reimar Pétursson
Kristín Haraldsdóttir
Auður Finnbogadóttir