Nr. 316/2025 Úrskurður
Hinn 23. apríl 2025 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 316/2025
í stjórnsýslumáli nr. KNU25030061
Kæra [...]
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 17. mars 2025 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. mars 2025, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í þrjú ár, sbr. d-lið 1. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að endurkomubann hans verði fellt niður og til þrautavara að endurkomubanninu verði markaður skemmri tími. Samhliða kæru krafðist kærandi þess að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, ásamt síðari breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi hefur ekki haft dvalarleyfi á Íslandi. Hinn 15. janúar 2024 tók Útlendingastofnun ákvörðun um brottvísun kæranda og endurkomubann til fimm ára á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 503/2024, dags. 18. júlí 2024, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-3245/2023, dags. 22. janúar 2024 var kærandi sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og gert að greiða 264.000 kr. sekt til ríkissjóðs, ellegar sæta fangelsi í 18 daga.
Hinn 25. nóvember 2024 var kæranda birt tilkynning um hugsanlega brottvísun þar sem fram kæmi að Útlendingastofnun hefði til skoðunar að gera honum að sæta brottvísun á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga vegna fyrri refsidóms. Kæranda var veittur þriggja daga frestur til þess að leggja fram andmæli vegna málsins. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun yfirgaf kærandi landið 26. nóvember 2024. Kærandi kom til landsins að nýju í mars 2025 og hinn 6. mars 2025 var honum birt tilkynning um hugsanlega brottvísun en í tilkynningunni kom m.a. fram að kærandi hafi hlotið dóm fyrir brot sem geti varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði. Fram kom að kæranda væri veitt færi á að leggja fram munnleg andmæli í samræmi við 12. gr. laga um útlendinga og 13. gr. stjórnsýslulaga.
Hinn 6. mars 2025 tók Útlendingastofnun ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda til þriggja ára. Í ákvörðuninni vísaði Útlendingastofnun til helstu efnistaka refsidóms kæranda og heimfærði til d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Þá komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að 102. gr. laga um útlendinga stæði ekki í vegi fyrir ákvörðuninni. Með vísan til e-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga var frestur kæranda til sjálfviljugrar heimfarar felldur niður, enda lagagrundvöllur ákvörðunarinnar d-liður 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 6. mars 2025. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 17. mars 2025, en greinargerð var lögð fram 31. mars 2025.
Samkvæmt upplýsingum Útlendingastofnunar var kærandi fluttur til heimaríkis 7. mars 2025. Samhliða stjórnsýslukæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í ljósi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar hefur verið framkvæmd af lögreglu er ekki ástæða til þess að taka afstöðu til réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til atvika málsins þegar hann kom til landsins ásamt félaga sínum þar sem þeir hafi verið teknir í sérstakt landamæraeftirlit. Þá hafi honum verið birt ákvörðun um tilkynningarskyldu, og í kjölfarið birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Samkvæmt kæranda hafi hann lagt fram munnleg andmæli ásamt gögnum, en ber fyrir sig að andmælin hafi ekki verið rituð niður af lögreglu. Því geti kærandi ekki lagt fram andmæli sín á kærustigi. Í framhaldinu hafi honum síðan verið brottvísað á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og gert að sæta endurkomubanni til þriggja ára, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Þá hafi Útlendingastofnun beitt e-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og því hafi kæranda ekki verið heimiluð sjálfviljug heimför. Fram kemur að kærandi hafi leitað til dómstóla varðandi ákvörðun lögreglu um tilkynningarskyldu en þar sem hann hafi yfirgefið landið á eigin vegum hafi beiðnin verið dregin til baka því lögvarðir hagsmunir hafi ekki lengur verið til staðar.
Kærandi vísar til lagagrundvallar hinnar kærðu ákvörðunar ásamt 106. gr. laga um útlendinga og telur að Útlendingastofnun hafi gengið inn á verksvið lögreglu þar sem stofnunin hafi heimild til þess að vísa einstaklingum frá landinu eftir að sjö dagar eru liðnir frá komu, en fyrir það tímamark sé vald til frávísunar hjá lögreglu. Telur kærandi að valdþurrð Útlendingastofnunar feli í sér verulegan annmarka á málinu sem leiða eigi til ógildingar á ákvörðuninni. Verði ekki fallist á það byggir kærandi málatilbúnað sinn á verulegum annmörkum á meðferð og efni málsins. Kærandi vísar til hugtaksins refsingar í skilningi d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga sem tilvísun til fangelsisrefsingar. Styður slík túlkun þau almennu sjónarmið við lögskýringu að skýra eigi ákvæði sem takmarka réttindi borgaranna þeim í hag. Að sögn kæranda verði ákvæði d-liðar 1. mgr. 98. gr. ekki skilið á annan veg en að aðila hafi verið dæmd fangelsisrefsing, og því nægi ekki að honum hafi verið gert að sæta öðrum viðurlögum, svo sem sektum. Telur kærandi að eins og ákvæðið sé túlkað í framkvæmd falli þar undir allt frá hraðasektum og til manndráps, en að himinn og haf sé þar á milli.
Kærandi áréttar að hann sé með heimild til dvalar í Póllandi og því hafi Útlendingastofnun borið skylda til þess að skora á hann að fara þangað án tafar í samræmi við 3. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Það hafi stofnunin hins vegar ekki gert. Telur kærandi því að ákvörðunina skorti lagastoð og því hafi Útlendingastofnun brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. einnig 2. málsl. 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar. Byggir kærandi á því að hafa ekki notið þeirra réttinda sem honum séu tryggð samkvæmt a-lið 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga þegar í upphafi máls og vísar til samskipta umboðsmanns kæranda við lögreglu sem lýst er með hroka, og óljósum eða alls engum svörum. Kærandi lýsir framangreindu sem verulegum annmarka á meðferð málsins og vísar til nýlegra úrskurða kærunefndar þar að lútandi.
Enn fremur byggir kærandi á því að óskýrt sé hvort ákvörðunin hafi áhrif á ferðafrelsi hans til annarra ríkja innan Schengen-svæðisins með vísan til umfjöllunar um Schengen-upplýsingakerfið samanborið við ákvörðunarorð hinnar kærðu ákvörðunar. Telur kærandi að ákvörðunin uppfylli ekki skýrleikakröfur stjórnsýsluréttarins en af henni leiði að ákvörðun sé nægilega ákveðin og skýr að efninu til, að málsaðili geti skilið hana og metið réttarstöðu sína. Þá ber kærandi fyrir sig að eftir því sem ákvörðun verði meira íþyngjandi aukast kröfur til skýrleika hennar. Að framangreindu virtu telur kærandi að hin kærða ákvörðun sé háð verulegum annmörkum, sem leiða beri til ógildingar hennar. Þá hafi málsmeðferð Útlendingastofnunar brotið gegn markmiði og tilgangi laga um útlendinga sem miði að því að tryggja réttaröryggi þeirra sem komi til landsins og mannúðlega meðferð stjórnvalda í málefnum þeirra.
Varakröfu sína byggir kærandi á því að ákvörðunin sé ósanngjörn, einkum í ljósi fyrrgreindra annmarka auk þess sem að ekki hafi verið skorað á hann að yfirgefa landið fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar. Þrautavarakröfu sína byggir kærandi á 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Kærandi telur að þriggja ára endurkomubann sé úr hófi miðað við að almennt skuli endurkomubann ekki gilda skemur en tvö ár.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða oftar en einu sinni verið dæmdur til fangelsisrefsingar á síðustu þremur árum. Í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að það sé refsirammi samkvæmt lögum sem skipti máli. Samkvæmt framangreindu beri stjórnvöldum að líta til refsinga samkvæmt lögum við beitingu ákvæðisins, en ekki dæmdrar refsingar í hverju tilfelli.
Samkvæmt fyrrnefndum dómi Héraðsdóms var kærandi dæmdur til refsingar fyrir brot gegn 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni. Fíkniefnalagabrot kæranda lutu að vörslu fíkniefna, þar af í annað skiptið ætluðum til söludreifingar í ágóðaskyni. Brot kæranda geta varðað sektum eða fangelsi allt að sex árum. Að framangreindu virtu er skilyrðum brottvísunar á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga fullnægt.
Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Ekkert í gögnum málsins eða málatilbúnaði kæranda bendir til þess að 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga standi í vegi fyrir brottvísun kæranda.
Í málatilbúnaði sínum ber kærandi m.a. fyrir sig að Útlendingastofnun hafi skort valdbærni til þess að taka hina kærðu ákvörðun með vísan til 1. mgr. 106. gr. a laga um útlendinga. Ljóst er að hin kærða ákvörðun var tekin á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, og því í samræmi við 2. málsl. 1. mgr. 106. gr. a laga um útlendinga. Ákvæði 3. mgr. 98. gr. laga um útlendinga lýtur að brottvísunarmálum sem varða ólöglega dvöl í landinu, sbr. upphafsorð ákvæðisins og athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um landamæri nr. 136/2022. Hin kærða ákvörðun laut ekki að ólögmætri dvöl og kemur 3. mgr. 98. gr. laga um útlendinga því ekki til skoðunar. Enn fremur er ljóst að kæranda var leiðbeint um réttindi sín í samræmi við 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga, en um það vísast til tveggja tilkynninga sem birtar voru fyrir kæranda 25. nóvember 2024 og 6. mars 2025. Þá bera fyrirliggjandi tölvubréf umboðsmanns kæranda til lögreglu ekki annað með sér en að þau hafi fjallað um h-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga sem kemur ekki til skoðunar í máli þessu.
Í málatilbúnaði sínum vísaði kærandi til þess að ákvörðun hafi verið óskýr um það hvort honum sé óheimil koma til Íslands og alls Schengen-svæðisins. Ljóst er af hinni kærðu ákvörðun að kæranda var ákvarðað endurkomubann til þriggja ára, en með vísan til 20. gr. laga um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi nr. 51/2021, kunna upplýsingar um endurkomubannið að vera skráðar í kerfið. Íslensk stjórnvöld koma ekki að landamæravörslu annarra ríkja innan Schengen-samstarfsins og geta ekki slegið því föstu hvaða áhrif ákvörðunin hefur á ferðafrelsi kæranda. Eru upplýsingar sem koma fram í hinni kærðu ákvörðun þess efnis að einstök ríki geti sérstaklega heimilað komu kæranda til viðkomandi ríkis í þessu samhengi áréttaðar. Innkoma inn á Schengen-svæðið án heimildar getur þó varðað refsingum eða öðrum stjórnsýsluviðurlögum, sbr. til hliðsjónar XII. og XIII. kafla laga um útlendinga.
Að öllu framangreindu virtu er staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar að brottvísa kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga.
Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Í ákvæðinu kemur fram að endurkomubann skuli að jafnaði ekki vara lengur en fimm ár og eigi skemur en tvö ár. Þó geti endurkomubann varað lengur en fimm ár þegar útlendingur telst ógn við öryggi ríkisins, almannaöryggi eða allsherjarreglu. Við ákvörðun um lengd endurkomubanns skuli litið til einstaklingsbundinna aðstæðna hverju sinni. Í hinni kærðu ákvörðun var kæranda gert að sæta endurkomubanni til þriggja ára en til vara krefst kærandi þess að endurkomubann verði fellt niður eða stytt. Að teknu tilliti til málsatvika er endurkomubann kæranda hófstillt. Samkvæmt gögnum hefur kærandi komið til landsins á grundvelli áritunarfrelsis. Hér á landi hafi kærandi orðið uppvís af refsiverðri háttsemi. Að framangreindu virtu er því ekki tilefni til þess að fella niður eða stytta endurkomubann kæranda, og verður þriggja ára endurkomubann hans því staðfest.
Samkvæmt 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga skal að jafnaði veita útlendingi frest í 7-30 daga til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Samkvæmt e-lið ákvæðisins er m.a. heimilt að veita styttri frest eða fella hann niður í tilvikum þegar útlendingi er vísað úr landi á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Að teknu tilliti til lagagrundvallar málsins verður einnig staðfest sú niðurstaða Útlendingastofnunar að fella niður frest kæranda til sjálfviljugrar heimfarar með vísan til e-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Er einkum litið til þess að endurkomubanni er m.a. bæði ætlað að hafa almenn og sérstök varnaðaráhrif gagnvart einstaklingum sem hafa gerst brotlegir við íslensk lög.
Að teknu tilliti til 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga hefst endurkomubann til landsins þann dag sem útlendingur er færður úr landi. Athygli kæranda er jafnframt vakin á því að samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga er heimilt, samkvæmt umsókn þar um, að fella endurkomubann úr gildi hafi aðstæður breyst frá því ákvörðun um brottvísun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Valgerður María SigurðardóttirVera Dögg Guðmundsdóttir