Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Kæra vegna ákvörðunar tollstjóra um að hafna endurskoðun bindandi álits um tollflokkun vöru

Þormóður Skorri Steingrímsson
Nethyl 2
110 Reykjavík

Reykjavík 5. febrúar 2014
Tilv.: FJR13100054/16.2.2


Efni: Kæra [X] vegna ákvörðunar tollstjóra, dags. 20. september 2013 um að hafna endurskoðun bindandi álits um tollflokkun vöru.

Kærandi fer fram á að tollstjóra verði gert að endurskoða ákvarðanir um bindandi álit nr. 2012-46 og 2012-47. Þá fer kærandi ennfremur fram á að umræddar vörur verði felldar í tollflokk sem ber 7% virðisaukaskatt.
Í kæru fór kærandi einnig fram á endurskoðun ákvörðunar um bindandi álit nr. 2012-45 en með því voru stevía dropar flokkaðir í tollskrárnúmer 2106.9079 sem ber 7% virðisaukaskatt líkt og kærandi fer fram á. Af þeim sökum er ákvörðun um bindandi álit nr. 2012-45 ekki tekin til umfjöllunar.

Málavextir og málsástæður

Þann 18. desember 2012 tók Tollstjóri ákvörðun um bindandi álit vegna vara sem innihéldu efnið stevíu. Vörurnar voru stevía töflur og stevía pokar. Með þessum bindandi álitum ákvað embætti tollstjóra að vörurnar skyldu flokkaðar í 38. kafla tollskrárinnar sem ber heitið ýmsar kemískar vörur. Vörur í 38. kafla bera 25,5% virðisaukaskatt.
Í kjölfar bindandi álitanna kom fram beiðni um endurskoðun þeirra frá kæranda þann 3. júlí 2013 til embættis tollstjóra. Þá var kærufrestur til ríkistollanefndar vegna bindandi álits liðinn og var því litið á erindið sem ósk um endurupptöku stjórnsýslumáls á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Taldi tollstjóri skilyrði endurupptöku ekki fyrir hendi og hafnaði því beiðninni.
Þann 14. október 2013 kærði kærandi ákvörðun tollstjóra um höfnun endurupptöku málsins til fjármála og efnahagsráðuneytisins . Þá fór kærandi ennfremur fram á að áðurnefndar vörur sem innihéldu stevíu yrðu flokkaðar í 21. kafla sem ber heitið ýmis matvælaframleiðsla en vörur í þeim kafla bera 7% virðisaukaskatt.
Máli sínu til stuðnings lagði kærandi fram þrjár greiðslukvittanir úr verslunum þar sem vörur sem innihéldu stevía báru 7% virðisaukaskatt. Kærandi segir í kæru sinni til ráðuneytisins að vörur sem innihalda sætuefnið stevíu séu matvörur sem ætlaðar séu til manneldis. Því telur kærandi að ákvörðun tollstjóra hljóti að hafa byggst á röngum upplýsingum eða misskilningi.
Umsögn tollstjóra til ráðuneytisins vegna kærunnar barst þann 15. nóvember 2013. Í henni kemur fram að tollstjóri telji að ákvörðun í málinu hafi hvorki byggst á röngum upplýsingum né misskilningi og því hafi erindinu verið hafnað. Þegar embætti tollstjóra hafi tekið ákvörðun um hin bindandi álit þá hafi verið farið eftir tollflokkunarreglum tollskráarinnar.
Ýmis atriði koma til skoðunar þegar vara er tollflokkuð. Vörur sem innihalda stevíu geta verið flokkaðar í mismunandi tollflokka vegna breytilegs eðlis og samsetningar varanna. Þurrkuð lauf plöntunnar flokkast í vörulið 1212 í 12. kafla. Sætuefni sem einangruð hafa verið úr plöntunni flokkast í vörulið 2938 í 29. kafla séu þau ekki blönduð með öðrum óskyldum efnum eða matvælum. Sætuefnin flokkast hins vegar í 38. kafla séu þau blönduð með öðrum kemískum sætuefnum eða öðrum efnum sem flokkast í 29. kafla. Hin síðastnefnda flokkkun á við um þær vörur sem áðurnefnd bindandi álit vörðuðu. Að lokum flokkast vara í 21. kafla. ef stevíu er blandað með matvælum á borð við sykri, fitu eða nátturulegum bragðefnum.

Forsendur
Í 21. gr. tollalaga nr. 88/2005 kemur fram að unnt er að óska ákvörðunar um bindandi álit um tollflokkun vöru sem er bindandi gagnvart fyrirspyrjanda og tollyfirvöldum nema hún sé afturkölluð af tollstjóra eða henni breytt eftir kæru til ríkistollanefndar sbr. 118. gr
Samkvæmt 118 gr. tollalaga getur tollskyldur aðili skotið ákvörðun tollstjóra skv. 21. gr. til ríkistollanefndar innan 60 daga frá póstlagningardegi úrskurðar eða ákvörðunar.
Í 24. gr. stjórnssýslulaga nr. 37/1993 koma fram skilyrði þess að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný. Er það í fyrsta lagi þegar ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og í öðru lagi þegar íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Niðurstaða
Kærufrestur til ríkistollanefndar sem getið er um í 118. gr. tollalaga er 60 dagar frá póstlagningardegi ákvörðunar og var því liðinn þegar beiðni um endurskoðun barst tollstjóra þann 3. júlí 2013 enda var ákvörðunin um bindandi álitin tekin þann 18. desember 2012. Því varð tollstjóri að líta á erindi kæranda sem beiðni um endurupptöku máls skv. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá kemur til álita hvort ákvörðun tollstjóra hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik skv. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. en 2. tl. 1. mgr. 24. gr. á ekki við í þessu máli enda engin atvik sem breyst hafa verulega síðan ákvörðun var tekin. Þær upplýsingar sem aðili telur ófullnægjandi eða rangar þurfa að hafa verið upplýsingar sem ákvörðunin var byggð á og miklu máli skipt.
Ákvörðun um bindandi álit tollstjóra var tekin með hliðsjón af túlkunarreglum tollskrárinnar og að auki stuðst við skýringabækur World Customs Organization. Vörur sem innihalda stevíu flokkast í mismunandi tollflokka eftir því hvernig hún er unnin og með hverju hún er blönduð. Það er ekki hægt að ganga að því vísu að þó einhverjar vörur sem innihaldi stevíu beri 7% virðisaukaskatt, eins og þær vörur sem kærandi vísar til í greiðslukvittunum sem fylgdu kæru, þá beri allar slíkar vörur 7% virðisaukaskatt. Þær upplýsingar sem tollstjóri byggði ákvörðun sína á koma fram í álitunum sjálfum auk leiðbeininga tollskrárinnar. Þessar upplýsingar eru ekki taldar ófullnægjandi eða rangar og skilyrði 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga til endurupptöku málsins því ekki uppfyllt. Kærandi lét undir höfuð leggjast að kæra ákvörðunina til ríkistollanefndar innan kærufrests og skilyrði til endurupptöku eru ekki talin vera fyrir hendi.

Úrskurðarorð

Ákvörðun tollstjóra frá 20. september 2013 um að hafna endurupptöku ákvörðunar um bindandi álit nr. 2012-46 og 2012-47 er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra





Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta