Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun sýslumanns um niðurfellingu dráttarvaxta.

Málflutningsstofa Snæfellsness ehf
Pétur Kristinsson
Aðalgötu 2 II. hæð
Pósthólf 55
340

Reykjavík 30. september 2015
Tilv.: FJR15060027/16.2.3


Efni: Úrskurður ráðuneytisins í tilefni af stjórnsýslukæru Málflutningsstofu Snæfells ehf., f.h. þrotabús [X].

Hinn 10. júní 2015 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Málflutningsstofu Snæfellsness ehf., f.h. þrotabús [X], þar sem kærð er höfnun Sýslumannsins á […] á niðurfellingu dráttarvaxta, dags. 3. júní 2015.

Málavextir og málsástæður:

Þann 10. júní 2015 móttók ráðuneytið erindi Péturs Kristinssonar hdl. hjá Málflutningsstofu Snæfellsness ehf., f.h. þrotabús [X], þar sem kærð er ákvörðun Sýslumanns á […] um að hafna kröfu skiptastjóra um niðurfellingu dráttarvaxta.

Af gögnum málsins má ráða að með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands dags. 26. febrúar 2013 var þrotabú [X] tekið til gjaldþrotaskipta og Pétur Kristinsson hdl. skipaður skiptastjóri búsins. Í kjölfarið, þann 1. mars 2013, var sótt um og fengið virðisaukaskattsnúmer fyrir búið, sem var í árskilum, en eldra númeri lokað. Þrotabúið sjálft var skráð fyrir númerinu en upplýsingar skyldu berast til skiptastjóra.

Í árslok 2013 var ársvelta meiri en árskil heimila vegna misskilnings skiptastjóra og því reiknað álag vegna þess vegna tímabilið maí-júní 2013. Með úrskurði ríkisskattstjóra dags. 8. maí 2014 var álagið fellt niður með vísan til 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem kveður á um að fella megi niður álag ef aðili færir gildar ástæður fyrir þeirri niðurstöðu. Í gögnum sem skiptastjóra bárust komu hvergi fram upplýsingar um dráttarvexti. Hins vegar var þrotamanni sjálfum sendar upplýsingar um skuldastöðu hans þann 18. janúar 2015, þar sem fram kom skuld vegna virðisaukaskatts. Skiptastjóra var því alls ókunnugt um téða skuld að því er ráðið verður af gögnum málsins.

Skiptum búsins lauk á skiptafundi sem haldinn var 20. nóvember 2014 og í kjölfarið var virðisaukaskattskýrsla send skattstjóra. Þegar til endurgreiðslu á virðisaukaskatti kom var hluti hans tekinn og ráðstafað upp í dráttarvexti sem myndast höfðu vegna hinnar of háu veltu árið 2013. Ekki hafði verið gert ráð fyrir skuldinni við úthlutun úr búinu og situr því skiptastjóri uppi með samsvarandi tjón.

Skiptastjóri gerir ekki athugasemd við að dráttarvextir hafi verið reiknaðir enda sé það í samræmi við lög og reglur. Hins vegar telur skiptastjóri að þar sem hann var ekki krafinn um greiðslu þeirra og þar af leiðandi ókunnugt um tilvist skuldarinnar sé ósanngjarnt að halda kröfunni til streitu.

Niðurstaða:

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af gjaldfallinni virðisaukaskattskröfu. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna segir um 28. gr. að gert sé ráð fyrir svipuðum reglum um dráttarvexti og séu í þágildandi tekjuskattslögum.

Þar sem sérákvæðum skattalaga um dráttarvexti sleppir verður lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, beitt um skattkröfur að því marki sem beiting þeirra samrýmist ákvæðum skattalaga, líkt og fram kemur m.a. í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 1924/1996. Í 7. gr. þeirra laga kemur fram að ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram skuli ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum.

Með hliðsjón af 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, telur ráðuneytið einungis heimilt að fella niður dráttarvexti ef unnt er að sýna fram á að um mistök hafi verið að ræða af hálfu innheimtumanns eða ríkisskattstjóra sem leitt hafi til þess að dráttarvextir hafi fallið á skattkröfu.

Ekki verður annað séð en að meginorsök þess að dráttarvextir féllu á skuld þrotabús [X] séu mistök skattyfirvalda við upplýsingagjöf, þar sem þrotamaður sjálfur var upplýstur um skuldastöðu vegna virðisaukaskatts en ekki skiptastjóri, sem þó var skráður viðtakandi samkvæmt virðisaukaskattskráningu þrotabúsins.
Í því sambandi er horft til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, m.a. 7. gr. um leiðbeiningaskyldu stjórnvalda, sem leiðir til þeirrar niðurstöðu ráðuneytisins að skattaðila sé ekki skylt að greiða þá dráttarvexti sem hér um ræðir.


Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun Sýslumanns á[…], um að hafna kröfu skiptastjóra um niðurfellingu dráttarvaxta, er felld úr gildi.



Fyrir hönd ráðherra








Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta