Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - kvörtun vegna dráttar á endurgreiðslu virðisaukaskatts og krafa um greiðslu dráttarvaxta
[…]
[…]
[…]
[…]
Reykjavík 13. janúar 2014
Tilv.: FJR12060029/16.2.3
Efni: Kvörtun vegna dráttar á endurgreiðslu virðisaukaskatts og krafa um greiðslu dráttarvaxta.
Ráðuneytið vísar til bréfs yðar, dags. 11. júní 2012, þar sem kvartað er yfir drætti á innskattsgreiðslum vegna ársins 2009 og krafist dráttarvaxta vegna greiðslnanna.
Málavextir
Erindi [X]
Í bréfi yðar kemur fram að [X] hafi fengið sérstaka skráningu í grunnskrá virðisaukaskatts vegna byggingar stálgrindarhúss að [Y] Hafnarfirði. Félagið hafi öðlast innskattsrétt með þeirri skráningu er hafi tekið til virðisaukaskatts af efni og aðkeyptri þjónustu til byggingarinnar. Með hruninu á árinu 2008 hafi rekstur þeirra félaga sem ætluðu að vera í húsinu brostið sem hafi neytt félagið til að selja húsið. Það hafi haft þær afleiðingar að 25. nóvember 2009 hafi skattstjóri synjað félaginu um frekari innskattsgreiðslur á grundvelli sérstakrar skráningar. Þá hafi félagið reynt að koma öllu húsinu í virðisaukaskattskylda starfsemi. Með því að stilla verði í hóf hafi tekist að selja eða leigja alla eignina til aðila í virðisaukaskattskyldri starfsemi. Þrátt fyrir að skilað hafi verið inn öllum gögnum sem farið hafi verið fram á hafi skattstjóri neitað að samþykkja kröfu félagsins um greiðslu innskatts á þeim grundvelli að einn af kaupendum hússins væri ekki bær til að taka yfir virðisaukaskattskvöð. Það hafi svo reynst rangt samkvæmt seinni úrskurði skattstjóra um málið.
Um áramótin 2009-2010 hafi innskattseign [X] verið rúmar 13 millj. kr. Það hafi félagið fjármagnað með yfirdrætti hjá Landsbanka Íslands en vaxtakostnaður hafi verið um 150.000 kr. á mánuði í tuttugu mánuði eða fram til 25. ágúst 2011 þegar félagið hafi fengið innskattinn að lokum greiddan vaxtalaust. Beinn vaxtakostnaður [X] vegna þessa hafi því verið nálægt þremur milljónum króna sem hafi í raun runnið beint til ríkisins í gegnum eignarhald á Landsbankanum. Félagið hafi svo þurft ráðgjöf lögfræðinga og endurskoðenda til að ná fram kröfum sínum sem kostaði líka verulega fjármuni. Eftir kvartanir hafi tekist að fá reiknaða vexti og þann 7. september hafi fengist greiddir inneignarvextir samkvæmt viðmiðun skattstjóra kr. 1.031.762. Tjón [X] vegna þessa sé því ekki minna en 2 millj. kr.
Í bréfinu kemur einnig fram að [X] hafi farið fram á að það við Fjársýslu ríkisins með tölvubréfi, dags. 8. september 2011 að greiddir yrðu vextir í samræmi við 4. mgr. 28. gr. og 6. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Því hafi verið synjað 18. janúar 2012 og vísað í að skýrslum hafi ekki verið skilað á réttum tíma. Með þröngri túlkun laganna megi eflaust færa rök fyrir því en það sé augljóslega í andstöðu við 4. mgr. 28. gr. laganna. Á það beri að líta að í þessu tilfelli hafi greiðsluskylda ríkissjóðs ekki myndast við skýrsluskil heldur við að aðilar uppfylltu skilyrði um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem þeir sannanlega gerðu við áramótin 2009/2010.
[X] hafi því lagt fram kvörtun til Umboðsmanns Alþingis varðandi málið 13. mars 2012 en umboðsmaður virðist líta svo á að ekki sé fullreynt með að niðurstaða fáist í málinu hjá skattyfirvöldum. Því sé óskað eftir því við ráðuneytið að komið verði til móts við sanngjarna kröfu félagsins um að greiddir verði dráttarvextir að minnsta kosti frá áramótum 2009/2010. Þá hafi skattstjóri sannanlega haft undir höndum öll þau sömu gögn og leiddu til úrskurðar hans 20 mánuðum seinna eða 15. ágúst 2011.
Boðun skattstjóra Reykjanesumdæmis (nú ríkisskattstjóra)
Með bréfi, dags. 25. nóvember 2009, boðaði skattstjóri Reykjanesumdæmis (nú ríkisskattstjóri) að hann hefði í hyggju að hafna viðbótarinnskattskröfu [X] að fjárhæð kr. 2.246.047 nema bankaábyrgð yrði lögð fram fyrir upphæðinni þar sem húsnæðið að [Y] væri ekki að öllu leyti komið í virðisaukaskattskylda starfsemi og fullnægði því ekki skilyrðum um að vera með sérstaka skráningu. Í tölvupósti, dags. 27. apríl 2010, staðfesti skattstjóri að hann hafi hafnað endurgreiðslu að upphæð kr. 13.025.821 þar sem kaupendur að hluta húsnæðisis hafi ekki efnt skyldur varðandi virðisaukaskattskylda starfsemi í húsi félagsins að [Y].
Úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 15. ágúst 2011
Með bréfi, dags. 15. ágúst 2011, féllst ríkisskattstjóri á að endurgreiða [X]. virðisaukaskatt að fjárhæð kr. 15.013.036 þar sem ríkisskattstjóri taldi þá að húsnæðið að [Y] uppfyllti skilyrði 1. gr. reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign, og 15. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.
Tölvupóstar í september 2011 bera með sér að félagið hafi krafist dráttarvaxta á endurgreiðslu virðisaukaskattsins og að ríkisskattstjóri hafi farið yfir allar dagsetningar og komið þeim upplýsingum til Fjársýslu ríkisins.
Bréf Fjársýslu ríkisins, dags. 18. janúar 2012
Í bréfi Fjársýslu ríkisins, dags. 18. janúar 2012, kemur fram að fjársýslan hafi komist að þeirri niðurstöðu að forsendur vaxtaútreiknings séu réttar eins og ríkisskattstjóri hafi verið búin að úrskurða. Virðisaukaskattsskýrslum hafi ekki verið skilað á tilsettum tíma sem leiði til þess að ekki hafi verið hægt að reikna vexti miðað við upphaflegan gildisdag. Fjársýslan vísar í þessu sambandi til 2. og 3. mgr. 24. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og að samkvæmt lögunum séu inneignarvextir reiknaðir frá þeim degi er skýrsla berist ríkisskattstjóra, þ.e. móttökudegi skýrslunnar og því hafi ríkissjóði ekki borið skylda til að greiða félaginu dráttarvexti miðað við upphaflegan gildisdag.
Bréf umboðsmanns Alþingis, 8. maí 2012
Í bréfi Umboðsmanns Alþingis, dags. 8. maí 2012, kemur fram að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í máli. Að því er varði kvörtun [X] sem lúti að bréfi Fjársýslu ríkisins, dags. 18. janúar 2012, telur umboðsmaður því rétt að [X] freisti þess að bera kvörtunaratriðin undir fjármálaráðuneytið.
Umsagnir
Með bréfum, dags. 6. júlí 2012, óskaði ráðuneytið eftir umsögn ríkisskattstjóra og Fjársýslu ríkisins vegna málsins og var sú ósk ítrekuð með bréfum, dags. 30. nóvember 2012, þar sem umsagnir höfðu ekki borist ráðuneytinu.
Umsögn Fjársýslu ríkisins, 5. desember 2012
Í bréfi Fjársýslu ríkisins, dags. 5. desember 2012, er ítrekað að Fjársýsla ríkisins hafi komist að þeirri niðurstöðu að forsendur vaxtaútreiknings séu réttar eins og ríkisskattstjóri hafi þegar verið búin að úrskurða. Úrskurðað hafi verið í málinu 15. ágúst 2011 og tekið hafi verið tillit til leiðréttingarskýrslna sem hafi verið meðfylgjandi framtölum aðila. Á umræddum tímabilum, að undanskildu tímabili 2009-48 sé gildisdagur álagningar móttökudagur skýrslna og þrír mánuðir til viðbótar sem ríkisskattstjóri hafi til endurákvörðunar samkvæmt 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Á tímabili 2009-48 sé gildisdagur móttökudagur og að auki einn mánuður þar sem um kæruskýrslu sé að ræða.
Í bréfinu kemur einnig fram að samkvæmt 28. gr. virðisaukaskattslaga sé kveðið á um að ef aðili eigi rétt á endurgreiðslu samkvæmt 25. gr. og hún sé ekki innt af hendi innan mánaðar frá lokum frests samkvæmt sömu grein skuli ríkissjóður greiða aðila dráttarvexti af þeirri fjárhæð sem endurgreiða skuli. Þar sem ríkisskattstjóri fari ekki fram yfir tilskilinn frest beri ríkissjóði ekki skylda til að greiða [X] dráttarvexti miðað við upphaflega gildisdag.
Með umsögninni fylgdu tölvupóstar frá kæranda, tölvupóstar frá ríkisskattstjóra og hreyfingalistar úr tekjubókhaldskerfi ríkisins.
Umsögn ríkisskattstjóra, 11. desember 2012
Í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 11. desember 2012, kemur fram að ákvörðun um vexti sé í höndum innheimtumanns ríkissjóðs en ekki ríkisskattstjóra. Forsendur um upphafsdag vaxta byggi þó á þeim gildisdegi sem ríkisskattstjóri ákvarði. Ekki verði séð að gerður sé ágreiningur um ákvörðun gildisdagsetninga í málinu.
Einnig kemur fram í bréfinu að ekki verði betur séð en að í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 15. ágúst 2011, hafi láðst að leiðbeina kvartanda um kærurétt til yfirskattanefndar, en kæruheimild hafi verið í þrjá mánuði frá dagsetningu úrskurðarins, sbr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Að mati ríkisskattstjóra beri að taka kröfu gjaldanda um að víkja frá framangreindu ákvæði 5. gr. til greina ef beiðni þar að lútandi kemur fram. Þess beri þó að gæta að yfirskattanefnd hafi ekki úrskurðarvald um vexti, sbr. 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
Með bréfi, dags. 6. febrúar 2013, óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum frá ríkiskattstjóra. Í bréfinu kemur fram að skv. 4. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, komi fram að hafi skýrslu verið skilað á tilskildum tíma skuli endurgreiðsla fara fram innan tuttugu og eins dags frá lokum skilafrests. Berist skýrsla eftir lok skilafrests skuli endurgreiðsla fara fram innan tuttugu og eins dags frá því að ríkisskattstjóri kveði upp úrskurð skv. 29. gr. Geti ríkisskattstjóri ekki vegna aðstæðna aðila gert nauðsynlegar athuganir á gögnum þeim er skýrslugjöfin byggist á framlengist framangreindur frestur um þann tíma sem slíkar aðstæður ríkja. Samkvæmt 4. mgr. 28. gr. skuli greiða aðila dráttarvexti skv. 1. mgr. af þeirri fjárhæð sem endurgreiða skal sé endurgreiðslan ekki innt af hendi innan mánaðar frá lokum frests skv. 25. gr. Gögn málsins beri með sér að inneignarvextir hafi verið lagðir á þegar [X] var greidd sú inneign sem ákvörðuð var með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 15. ágúst 2011. Með vísan til framangreindra ákvæða óskaði ráðuneytið eftir umsögn ríkisskattstjóra um hvort embættið telji að útgreiðsla framangreindrar inneignar hafi átt að bera dráttarvexti og þá frá hvaða tíma. Ráðuneytið ítrekaði beiðni um umsögn, með bréfi, dags. 11. apríl 2013.
Umsögn ríkisskattstjóra, dags. 19. apríl 2013
Í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 19. apríl kemur fram að hann ítreki það að ákvörðun um vexti sé í höndum innheimtumanns ríkissjóðs. Forsendur um upphafsdag vaxta byggi þó á þeim gildisdegi sem ríkisskattstjóri ákvarði en ekki verði séð að gerður sé ágreiningur um ákvörðun gildisdagsetninga í þessu máli. Í umsögninni kemur fram hvenær skýrslur félagsins voru mótteknar og hvenær þær voru afgreiddar. Þá kemur fram að sérstök skráning félagsins hafi verið felld úr gildi með úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 9. júlí 2010. Í umsögninni er úrskurðurinn ranglega dagsettur, 19. mars 2010. Ríkisskattstjóri hafi svo fallist á kröfu félagsins um endurgreiðslu innskatts með úrskurði 15. ágúst 2011 að fjárhæð kr. 15.013.036. Það sé samtala þess innskatts sem endurákvarðaður var með úrskurðum, dags. 14. apríl og 9. júlí 2010. Þá kemur fram að leiðréttingarskýrsla vegna ársins 2008 hafi verið móttekin hjá ríkisskattstjóra 19. maí 2009 og skýrsla vegna ársins 2009 hafi verið móttekin 8. júní 2010. Samtals fjárhæð þess innskatts sem fram komi á framangreindum leiðréttingarskýrslum, en hafi ekki komið fram áður hafi verið kr. 6.110.763.
Síðan er í umsögninni bent á dóm Hæstaréttar nr. 213/2010 þar sem fram kom að skv. 4. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988 beri inneign dráttarvexti ef greiðsla sé ekki innt af hendi innan mánaðar frá þeim degi sem endurgreiðsla ætti að fara fram skv. 3. málslið 4. mgr. 25. gr. sömu laga (nú 4. málsliður sömu málsgreinar). Tilgreint er í umsögninni að fram komi í dómnum að þessi sérregla um dráttarvexti af inneign gjaldanda vegna virðisaukaskatts gangi framar almennum reglum laga nr. 29/1995, sbr. 3. mgr. 1. gr. þeirra og að í málinu hafi þótt þurfa að líta til þess tjóns sem áfrýjandi hafi orðið fyrir vegna málsmeðferðar skattstjóra með því að fara á mis við rétt skil á inneign sinni eftir reglum þar um.
Ráðuneytið óskaði eftir frekari skýringum frá ríkisskattstjóra með tölvupóstum, dags. 23. apríl 2013, 2. maí 2013 og 10. maí 2013. Svör ríkisskattstjóra bárumst með tölvupóstum, dags. 24. apríl 2013, 6. maí 2013 og 19. júní 2013. Með tölvupóstunum voru ráðuneytinu sendar ákvarðanir, dags. 14. apríl og 9. júlí 2010 og excel skjöl með færslum ríkisskattstjóra. Í síðasta tölvupóstinum kom fram að vankantar hefðu verið á málsmeðferð og að ríkisskattstjóri hyggðist leiðrétta frekar skráningar í málinu. Með tölvupósti, dags. 1. nóvember 2013, óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá ríksskattstjóra um stöðu málsins hjá þeim. Svar barst frá ríkisskattstjóra með tölvupósti, dags. 4. desember 2013, þar sem fram kom að ríkisskattstjóri myndi ekki að senda ráðuneytinu meira um málið.
Umsögn ríkisskattstjóra, dags. 3. janúar 2014
Með bréfi, dags. 6. desember 2013, óskaði ráðuneytið eftir frekari umsögn frá ríkisskattstjóra. Óskað var eftir að farið yrði yfir málsmeðferð hjá ríkisskattstjóra og hvernig ákvörðunum um gildisdagsetningar var háttað á þeim tímabilum sem málið fjallar um. Ríkisskattstjóri sendi umsögn sína með bréfi, dags. 3. janúar 2014. Í umsögninni kemur fram að í framhaldi af umsagnarbeiðni ráðuneytisins hafi ríkisskattstjóri nú farið yfir málið í heild sinni með hliðsjón af málsmeðferð þess allt frá því að félagið var skráð á virðisaukaskattskrá 19. júní 2008 til úrskurðar ríkisskattstjóra 15. ágúst 2011. Jafnframt liggi fyrir endurskoðað mat á ákvörðunum um gildisdagsetningar vegna endurákvörðunar virðisaukaskatts félagsins fyrir þau uppgjörstímabil sem um ræðir í málinu samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra 15. ágúst 2011.
Í umsögninni kemur fram að sérstakar reglur um gildisdagsetningar hafi verið settar í september 2009 til að sporna við því að aðilar gætu skilað inneignarskýrslum seint og illa og áunnið sér inneignarvexti. Samkvæmt reglunum ákvarði ríkisskattstjóri gildisdagsetningar með hliðsjón af gjalddaga tímabils, móttöku virðisaukaskattsskýrslu og svo því hvenær ákvörðun hans um afgreiðslu skýrslunnar liggi fyrir eða átti að liggja fyrir með hliðsjón af málshraðareglum laga nr. 50/1988 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á grundvelli þessara upplýsinga ákvarði innheimtumaður ríkissjóðs aðila vexti, inneignarvexti eða skuldavexti. Slík ákvörðun sé ekki á verksviði ríkisskattstjóra.
Skoðun ríksskattstjóra á málinu hafi leitt í ljós að í fyrri umsögnum hans hafi komið fram misvísandi upplýsingar og ályktanir sem helgist annars vegar af rangri málsmeðferð á fyrri stigum máls þessa og hins vegar af því að ekki var lesið rétt úr færslum í álagningarkerfi virðisaukasktts, VSK-2000, eða þær bornar saman við færslur í tekjubókhaldskerfi ríkisins, TBR, eins og rakið verði. Hvort tveggja hafi orðið til þess að villa þeim sýn er að umsögnunum unnu og er beðist velvirðingar á því hve málið hefur dregist af þeim sökum.
Í umsögninni kemur ennfremur fram að málið hófst fyrir sameiningu embætta ríkisskattstjóra og embætta skattstjóra í eitt embætti ríkisskattstjóra 1. janúar 2010 en fram til þess hafi málið verið rekið af hálfu embætttis þáverandi skattstjóra Reykjanesumdæmis. Frá því að félagið var skráð á virðisaukaskattsskrá og fram að endurákvörðun ríkisskattstjóra 15. ágúst 2011 hafi verið rekin sjö mál gagnvart félaginu á árunum 2008 til og með 2010. Eitt mál varðaði frjálsa og sérstaka skráningu og sex mál vörðuðu ákvörðun um álagningu virðisaukaskatts félagsins og málsmeðferð þeirra hafi í mörgu verið ábótavant eftir því sem ráðið verður af málsgögnum.
Auk framangreinds hafi komið í ljós ýmsir aðrir annmarkar á málsmeðferð skattstjóra og síðar ríkisskattstjóra gagnvart félaginu s.s. bréf send á röng heimilisföng. Fram kemur í umsögninni að ríkisskattstjóri telur að fyrst og fremst beri að telja að ekki hafi verið rétt af skattstjóra að skrá félagið almennri skráningu á virðisaukaskattsskrá í júní 2008 með hliðsjón af tilgreindri starfsemi þess heldur hefði borið að beina skráningunni þá þegar í farveg frjálsrar og sérstakrar skráningar eins og tilkynning félagsins hafi gefið tilefni til. Það var ekki gert fyrr en í febrúar 2009 og félagið virðist hafa verið skráð hvort tveggja frjálsri og sérstakri skráningu.
Þá kemur fram í umsögninni að af þeim sex málum sem vörðuðu álagningu virðisaukaskatts félagsins hafi eitt varðað innsenda virðisaukaskattsskýrslu félagsins fyrir uppgjörstímabilið júlí-ágúst 2008 sem móttekin var 6. október 2008 og kvað á um verulega inneign. Skýrslan hafi ekki verið afgreidd fyrr en 2. mars 2009 eða um það leyti sem verið var að ákvarða um frjálsa og sérstaka skráningu félagsins og finnist engin skýring á þeim drætti meðal fyrirliggjandi málsgagna. Í öðrum málum af sama toga virðist sem innsendum virðisaukaskattsskýrslum félagsins þ.e. inneignarskýrslum fyrir fimm uppgjörstímabil ársins 2009 og fyrir eitt uppgjörstímabil ársins 2010 hafi verið synjað á þeirri forsendu að félagið hefði ekki uppfyllt tryggingu samkvæmt ákvæðum 3. gr. reglugerðar nr. 577/1989. Hafi þó þá þegar verið búið að taka ákvörðun um hina sérstöku skráningu.
Þá segir í umsögninni að auk framangreinds verði ekki séð að skattstjóri og síðar ríkisskattstjóri hafi tekið afstöðu til innsendra leiðréttingarskýrslna félagsins sem voru meðfylgjandi skattframtölum þess framtalsárin 2009-2010 eftir að þeim var skilað.
Ríkisskattstjóri segir í umsögninni að í framhaldi af erindi umboðsmanns félagsins sem dagsett er 14. júní 2011 hafi virðisaukaskattur félagsins fyrir árin 2008 og 2009 verið endurákvarðaður þann 15. ágúst 2011 og tilkynntur félaginu með sérstökum úrskurði þess efnis sem póstlagður var sama dag. Í úrskurðinum hafi láðst að geta um kærufrest til yfirskattanefndar en það kemur þó fram á þeim skattbreytingarseðlum sem fylgdu úrskurðinum. Fallist hafi verið á erindið, þar sem við endurákvörðun sýndu sig að hafa verið til staðar þær forsendur sem hefðu almennt átt að liggja fyrir við ákvörðun um sérstaka skráningu félagsins. Við endurákvörðunina lá þannig fyrir að öll skilyrði slíkrar skráningar höfðu verið uppfyllt.
Þá segir að við endurákvörðunina hafi verið reynt að gæta að réttum gildisdögum og virðist það hafa tekist í flestum tilvikum. Aftur á móti hafi það villt mönnum sýn í þessu sambandi að virðisaukaskattsskýrslur fyrir uppgjörstímabilin mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst og sept.-okt. 2009, sem bárust rafrænt, höfðu aldrei verið afgreiddar og heldur ekki bakfærðar sem þó hefði verið í samræmi við framangreindar ákvarðanir skattstjóra og síðar ríkisskattstjóra. Slíkt blasir þó ekki við í álagninarkerfinu VSK-2000 og því hefði þurft að bera allar færslur saman við tekjubókhald ríkisins, TBR, til að leiða það í ljós.
Ríkisskattstjóri tiltekur að eins og mál þess sé vaxið verði að telja að rangt hafi verið staðið að því frá upphafi, þ.e.a.s. þegar frá því félagið tilkynnti um starfsemi sína í júní 2008. Komast hefði mátt hjá þeim málum er varða álagningu virðisaukaskatts félagsins hefði þess verið gætt að kanna betur forsendur skráningar félagsins á virðisaukaskattsskrá en leiða má að því líkur að við slíka skoðun hefði þá þegar verið unnt að leiðbeina félaginu í réttan farveg sérstakrar og/eða frjálsrar skráningar á virðisaukaskattsskrá samkvæmt ákvæðum nefndrar reglugerðar nr. 577/1989.
Í ljósi þess að félagið var skráð frjálsri og sérstakri skráningu að því er virðist hinn 27. febrúar 2009, þar af afturvirkt vegna sérstakrar skráningar, má gera ráð fyrir að forsvarsmenn félagsins hafi staðið í góðri trú um að þeir hafi uppfyllt allar forsendur slíkrar skráningar og hagað gerðum sínum og skilum á virðisaukaskattsskýrslum í samræmi við það.
Með vísan til framanritaðs telur ríkisskattstjóri að forsendur þeirra mála sem rekin voru af hálfu þáverandi embættis skattstjóra Reykjanessumdæmis og síðar ríkisskattstjóra á árunum 2009-2010 hafi verið rangar og málsmeðferðin í heild leitt til þess að dráttur varð á þeirri efnisúrlausn sem félög í þessari stöðu eiga almennt rétt á. Af þeim ástæðum verði vart annað séð en að við ákvörðun gildisdagsetninga vegna álagningar virðisaukaskatts félagsins og endurálagningar hans fyrir árin 2008-2010 verði tekið mið af annars vegar móttökudegi innsendra virðisaukaskattsskýrslna og leiðréttingarskýrslna og hins vegar því hvenær hefði borið að taka afstöðu til þeirra skýrslna með hliðsjón af málshraðareglum nefndra laga nr. 50/1988 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt því verði gildisdagsetningar hvers uppgjörstímabils eins og í töflu sem fylgdi með umsögninni og fylgir hér með.
Að lokum kemur fram í umsögninni að ríkisskattstjóri ákvarði gildisdagsetningar. Með setningu reglna um gildisdagsetningar hafi ríkisskattstjóri fengið ákvörðunarvald um upphafsdags vaxtareiknings að meira eða minna leyti. Innheimtumaður ríkissjóðs reikni svo aðila vexti á grundvelli gildisdagsetninga.
Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu er þess krafist að [X] fái greidda dráttarvexti vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts sem ríkisskattstjóri féllst á með bréfi, dags. 15. ágúst 2011. Um var að ræða inneign vegna leiðréttingarskýrslna á virðisaukaskatti vegna rekstraráranna 2008, 2009 og 2010.
Varðandi skil á virðisaukaskattsskýrslum kemur fram í 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að virðisaukaskatti skuli skila eigi síðar en á fimmta degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna viðskipta á því tímabili. Í 3. mgr. kemur fram að sé innskattur á einhverju uppgjörstímabili hærri en útskattur skuli senda skýrslu til ríkisskattstjóra innan sömu tímamarka. Í 3. mgr. 25. gr. laganna kemur fram að hafi skýrslu verið skilað á tilskildum tíma skuli endurgreiðsla fara fram innan tuttugu og eins frá lokum skilafrests. Berist skýrsla eftir lok skilafrests skuli endurgreiðsla fara fram innan tuttugu og eins dags frá því að ríkisskattstjóri kveði upp úrskurð skv. 29. gr.
Í 4. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, segir að eigi aðili rétt á endurgreiðslu skv. 25. gr. og hún sé ekki innt af hendi innan mánaðar frá lokum frests samkvæmt sömu grein skuli ríkissjóður greiða aðila dráttarvexti sbr. 1. mgr. af þeirri fjárhæð sem endurgreiða skuli.
Ríkisskattsstjóri ákvarðar gildisdagsetningar með hliðsjón af gjalddaga tímabils, móttöku virðisaukaskattsskýrslu ásamt því hvenær ákvörðun liggur fyrir um afgreiðslu skýrslunnar eða átti að liggja fyrir með hliðsjón af málshraðareglum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á grundvelli þessara upplýsinga ákvarðar innheimtumaður ríkissjóðs aðila vexti.
Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 3. janúar 2014, kemur fram að ríkisskattstjóri hafi farið yfir skráningar og upphafsdag vaxta hjá félaginu og að nú liggi fyrir endurskoðað mat á ákvörðunum um gildisdagsetningar vegna endurákvörðunar ríkisskattstjóra fyrir félagið fyrir þau tímabil sem um ræðir í málinu samkvæmt úrskurði 15. ágúst 2011.
Endurskoðun ríkisskattstjóra leiddi í ljós ýmsa annmarka á málsmeðferð skattstjóra og síðar ríkisskattstjóra gagnvart félaginu og kemur fram hjá ríkisskattstjóra að hann telur að rangt hafi verið staðið að virðisaukaskattsskáningu félagsins frá því að það tilkynnti um starfsemi sína. Af þessum sökum telur ríkisskattstjóri að forsendur hafi verið rangar og málsmeðferðin í heild hafi leitt til þess að dráttur varð á efnisúrlausn þeirra mála sem voru til meðferðar hjá embættunum. Af þeim sökum telur ríkisskattstjóri að ákvörðun gildisdagsetninga verði að taka mið af móttökudegi innsendra virðisaukaskattskýrslna og leiðréttingarskýrslna og því hvenær hefði borið að taka afstöðu til þeirra skýrslna með hliðsjón af málshraðareglum laga nr. 50/1988 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þær gildisdagsetningar fylgja með í töflu frá ríkisskattstjóra.
Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að inneignir [X] á grundvelli úrskurðar skattstjóra Reykjanesumdæmis, dags. 15. ágúst 2011 skuli bera dráttarvexti samkvæmt 4. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Ráðuneytið mun beina þeim fyrirmælum til Fjársýslu ríkisins að reikna dráttarvextina.
Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á svari við erindi yðar.
Fyrir hönd ráðherra