Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun ÁTVR um dreifingu freyðivíns
[…]
[…]
[…]
[…]
Reykjavík 11. febrúar 2014
Tilv.: FJR13120064/6.1
Efni: Úrskurður vegna kæru um dreifingu á freyðivíni í verslanir ÁTVR.
Ráðuneytið vísar til kæru sem dagsett er 16. desember 2013. Kærandi er […].
Kærandi fer fram á það að ráðuneytið útvegi þær reglur og upplýsi hvar þær hafi verið birtar í samræmi við lög sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) studdist við í ákvörðun um að freyðivíni sem kærandi selur til ÁTVR, Jaume Serra Semi Seco (vörunúmer: 17412) væri ekki dreift í allar verslanir ÁTVR þrátt fyrir að það hefði áunnið sér næga framlegð í sölu hjá ÁTVR til að vera dreift í verslanir merktar K100 þann 1. júní 2013. Þá fór kærandi fram á að ráðuneytið úrskurði að kærði hafi brotið lög og á rétti kæranda.
Jafnframt er ráðuneytið beðið um að úrskurða hvort ÁTVR taki fram fyrir hendur ráðherra með því að semja óbirtar reglur um vöruval og dreifingu áfengis sem löggjafinn hefur falið ráðherranum einum að birta og með því hafi ráðherra framselt vald sitt til ÁTVR.
Málavextir og málsástæður
Í kæru er málsatvikum þannig lýst að kærandi sé áfengisinnflytjandi sem selur m.a. freyðivín til ÁTVR. Þann 27. maí 2013 hafi kærandi sent ÁTVR tölvupóst og óskað eftir því að fá svör við því, hvers vegna freyðivínið Jaume Serra Semi Secoværi ekki dreift í allar verslanir ÁTVR þrátt fyrir að það hefði áunnið sér næga framlegð í sölu hjá ÁTVR til að vera dreift í allar verslanir ÁTVR. Umræddar verslanir eru merktar K100 í framlegðarskrá sem kærandi gefur út mánaðarlega og eru samkvæmt framlegarskránni sem ÁTVR notast við, fjórar tegundir freyðivíns sem á að dreifa í allar verslanir eftir framlegð. Freyðivínið Jaume Serra Semi Secoer þriðja söluhæsta freyðivínið skv. framlegðartöflu.
Þann 29. maí 2013 barst svar frá ÁTVR um að málið væri í skoðun. Þann 30. maí 2013 berst svo tölvupóstur frá innkaupastjóra ÁTVR þar sem gerð er grein fyrir því að valið sé í kvíar eftir vöruvalsdeildum. Þá kemur fram að val í vöruvalsdeildir fari eftir framlegð og fjölda tegunda í hverri vöruvalsdeild. Það komast 69 tegundir í K100 og í vöruvali, sem tekur gildi 1. júní 2013, er þar aðeins ein tegund freiðivíns: Santero Prosecco Craze (vörunúmer: 11508)
Sama dag óskaði kærandi eftir að honum væri leiðbeint frekar þar sem hann fann hvorki lög né reglur sem byggja á svari ÁTVR né hafði hann upplýsingar um það hvar þær hafi verið birtar.
Þann 5. júní 2013 barst svar frá ÁTVR um að fyrirspurninni varðandi lög og reglur og birtingar yrði svarað eins fljótt og auðið er.
Þann 2. ágúst 2013 barst svar frá ÁTVR og er vísað til þeirra reglna og upplýsinga sem kærandi óskaði eftir.Þar segir að vöruúrval verslana ÁTVR ráðist af framlegð, eftirspurn og stærðarflokkun vínbúða skv. ákvæðum IV. og V. kafla reglugerðar nr. 755/2011, um vöruval og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja. Samkvæmt kvíaskjali vínbúða sem birt er á heimasíðu ÁTVR í samræmi við 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar og viðauka 1 við hana skiptast vínbúðir í flokka sem ýmist hafa á boðstólnum a.m.k. 100 framlegðarhæstu sölutegundirnar, 200, 300, 600 eða 800. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. reglugerðar veljast vörur í verslanir ÁTVR í fyrsta lagi á grundvelli söluárangurs eins og hann er mældur í framlegðarskrá. Þannig fá 69 mest seldu sölutegundirnar í vöruvalsdeildaklasanum A, B, D, E1, F, H, J, K, og P dreifingu í K100 vínbúðir, tvöfalt fleiri í K200. Í öðru lagi fá vörur dreifingu á grundvelli svokallaðra vörudeilda, sakvæmt vörudeildaskjali sem birt er á birgjavef ÁTVR í samræmi við 5. mgr. 15. gr. reglugerðar. Vörudeildir eru ákveðnar skv. tilvitnuðu ákvæði sem og 17. gr. reglugerðar til að styðja vöruvalsstefnu og tryggja heilsteypt úrval í öllum vínbúðum.
Þann 17. september barst kæranda tölvupóstur frá ÁTVR þar sem upplýst var að reglugerð nr. 755/2011 hefði verið birt í B-deild stjórnartíðinda hinn 26. júlí 2011.
Í umsögn ÁTVR um kæruna til ráðuneytisins dags. 17. janúar 2014, kemur fram að ÁTVR telur kröfugerð kæranda, að frátöldum kröfuliðum um meint ólögmæti ákvörðunar ÁTVR um dreifingarfyrirkomulag freyðivíns frá 1. júní 2013, ekki stjórnvaldsákvörðun sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 15. gr. laga nr. 86/2011 um verslun ríkisins með áfengi og tóbak.
Í umsögn ÁTVR kemur fram að nýtt vöruúrval ÁTVR hafi komið til framkvæmda í júní 2013. Samkvæmt endurskoðuðu vöruvali fengu fjórar tegundir af freyðivíni dreifingu í K100 vínbúðir. Þær fjórar tegundir af freyðivíni sem fengu dreifingu í K100 vínbúðir voru: Santero Prosecco Craze (vnr.11508), Codorniu Clasico Semi-Seco (vnr. 00514), Veuve Clicquot Ponsardin Brut (vnr.00479) og Gancia Asti (vnr. 00498).
Forsendur
Í lögum nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, er fjallað um hlutverk ÁTVR. Í 4 .gr. laganna segir að stofnunin sé starfrækt í því skyni að sinna smásölu á áfengi og heildsölu á tóbaki undir stjórn ráðherra. Í b. lið 6. gr. laganna kemur fram að stofnunin sinnir birgðahaldi og dreifingu á áfengi til áfengisverslana. Á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laganna hefur ráðherra birt reglugerð um vöruval og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja nr. 755/2011, með síðari breytingum. Í 2. mgr. 11. gr. laganna segir að reglur um vöruval skuli miða að því að tryggja vöruúrval með hliðsjón af eftirspurn kaupenda, jafnframt því að tryggja framleiðendum og birgjum áfengis möguleika á að koma vörum í sölu í áfengisverslunum.
Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 755/2011 kemur fram að ÁTVR skal stefna að fjölbreytni og gæðum í vöruúrvali og skal ákveða vöruúrval vínbúða með hliðsjón af eftirspurn og væntingum viðskiptavina.
Í 2. mgr 15 gr. reglugerðarinnar kemur fram að ÁTVR skal halda utan um, og birta með sannanlegum hætti á heimasíðu ÁTVR eða öðrum hætti til birgja, vöruvalsdeildartöflu og framlegðarviðmið kjarna og reynslu.
Í 3. mgr. 15 gr. reglugerðarinnar kemur fram að vöruvalstaflan skuli endurskoðuð í janúar og júlí á ári hverju. ÁTVR er þó heimilt að breyta vöruvalsdeild á milli tímabila séu sérstakar ástæður fyrir því. Allar breytingar skulu þó birtar með tveggja mánaða fyrirvara.
Í 2. mgr. 16 gr. reglugerðarinnar kemur fram að vöruúrval vínbúðar skuli ráðast af stærðarflokki viðkomandi vínbúðar. Skilgreindir eru tilteknir vöruhópar, svokallaðar kvíar, sem fylgjast að varðandi dreifingu í vínbúðir. Vörur veljast í kví í fyrsta lagi á grundvelli söluárangurs, eins og hann er mældur í framlegðarskrá og í öðru lagi á grundvelli vörudeilda sbr. 2. mgr. 16 gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt vörudeildaskjali sem gilti frá 1. júní 2013 og birt var á birgjavef ÁTVR í samræmi við reglugerðina, áttu vöruval K100 vínbúða m.a. að samanstanda af þremur tegundum freyðivíns, þ.e. Champagne, Cava og Asti.
Í 3. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar kemur fram að vöruúrval vínbúða skuli endurmetið í janúar, maí og september ár hvert og skal nýtt vöruval koma til framkvæmda í febrúar, júní og október. Til grundvallar endurmats vöruúrvals skal nota framlegðarskrár undangengis janúar-, maí- og septembermánaðar. Fylla skal í vöruvalsdeildar kjarna samkvæmt töflu vöruvalsdeilda og skal velja framlegðarhæstu tegundir eftir röð á framlegðarskrá.
Niðurstöður
Með lögum nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, er ÁTVR m.a. falið það verkefni að sinna smásölu áfengis. Meðal lögbundinna verkefna ÁTVR er að sinna birgðahaldi og dreifingu á áfengi til áfengisverslana, sbr. b. lið 6. gr. laga nr. 86/2011. Í 1. mgr. 11. gr. sömu laga er ráðherra svo falið að setja reglugerð um vöruval og innkaup ÁTVR á áfengi. Með hliðsjón af framangreindu er það meðal lögbundinna verkefna ÁTVR að sinna dreifingu á áfengi til áfengisverslana.
Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 86/2011 skulu reglur um vöruval og innkaup ÁTVR miða að því að tryggja vöruúrval með hliðsjón af eftirspurn kaupenda, jafnframt því að tryggja framleiðendum og birgjum áfengis möguleika á að koma vörum í sölu í áfengisverslunum. Við einstakar ákvarðanir um dreifingu ber ÁTVR því fyrst og fremst að taka mið af eftirspurn kaupenda, fjölbreyttu vöruvali og jafnræði framleiðenda.
Vöruúrval verslana ÁTVR ræðst af framlegð, eftirspurn og stærðarflokkun vínbúða skv. ákvæðum IV. og V. kafla reglugerðar nr. 755/2011, um vöruval og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja. Samkvæmt 2 mgr. 16 gr. reglugerðarinn veljast vörur í verslanir ÁTVR í fyrsta lagi á grundvelli söluárangurs eins og hann er mældur í framlagðarskrá. Vöruval vínbúða ÁTVR var endurmetið í maí 2013 og kom nýtt vöruval til framkvæmda í júní sama ár. Samkvæmt endurskoðuðu vöruvali uppfyllti freyðivínið Jaume Serra Semi Seco ekki skilyrði til dreifingar í K100 verslanir ÁTVR.
Í umsögn ÁTVR um kæruna í málinu kemur fram að skv. framlegðarskrá sem ÁTVR gefur út hafi söluárangur á freyðivíninu Jaume Serra Semi Seco (vnr. 17412) ekki verið í þeim flokki sem er dreift í verslanir K100. Samkvæmt vörudeildaskjali sem gilti frá 1. júní 2013 og birt var á birgjavef ÁTVR sem kærandi hefur aðgang að í samræmi við reglugerð nr. 755/2011, áttu vöruval K100 vínbúða m.a. að samanstanda af þremur tegundum freyðivíns, þ.e. Champagne, Cava og Asti. Fjórar söluhæstu tegundirnar í þessum flokkum fengu dreifingu í K100 vínbúðum en þær voru Santero Prosecco Craze (vnr.11508), Codorniu Clasico Semi-Seco (vnr. 00514), Veuve Clicquot Ponsardin Brut(vnr.00479) og Gancia Asti (nr. 00498). Þrátt fyrir að vín kæranda, Jaume Serra Semi-Seco (vnr. 17412) hafi verið þriðja söluhæsta freyðivínið náði það ekki að vera meðal þeirra fjögurra freyðivína sem dreift var í K100 verslanir ÁTVR þar sem tryggja bar að vöruúrvalið innihéldi freyðivín af tegundunum Cava, Asti og Champagne. Vín kæranda, Jaume Serra Semi-Seco, er Cava freyðivín og var annað slíkt freyðivín söluhærra en vín kæranda, þ.e. vínið Codorniu Clasico Semi-Seco.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, dags. 1. júní 2013 um dreifingu á freyðivíninu Jaume Serra Semi Seco (vnr. 17412) í valdar verslanir er staðfest.
Fyrir hönd ráðherra