Hoppa yfir valmynd

Staðfesting ákvörðunar Matvælastofnunar um stöðvun innflutnings notaðrar dráttavélar.

Úrskurð

 

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [A] lögmanns f.h. [B ehf.], dags. 2. júlí 2018, þar sem kærð er ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 12. apríl 2018, um að stöðva innflutning notaðrar Deutz Fahr Argoplus 70 dráttarvélar.

 

Kæruheimild vegna ákvörðunarinnar er að finna í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Matvælastofnunar dags. 12. apríl 2018, um að stöðva innflutning notaðrar Deutz Fahr Argoplus 70 dráttarvélar verði felld úr gildi en til vara að lagt verði fyrir Matvælastofnun að taka málið fyrir að nýju til löglegrar meðferðar.

 

Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 24. júlí 2018, var óskað eftir umsögn Matvælastofnunar um ofangreinda kæru. Umsögn Matvælastofnunar barst með bréfi, dags. 10. ágúst 2018. Umsögn Matvælastofnunar var send forsvarsmanni kæranda og bárust athugasemdir frá honum við framangreinda umsögn Matvælastofnunar með bréfi, dags. 9. nóvember 2018.  Ekki þótti ástæða til að senda þá umsögn til Matvælastofnunar og er málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

Í júlí 2017 festi kærandi kaup á notaðri dráttarvél í Danmörku. Dráttarvélin var flutt hingað til lands 10. október 2017 og var henni skipað upp í Þorlákshöfn þar sem hún var ótollafgreidd.  Rúmum fjórum mánuðum síðar barst Matvælastofnun tilkynning frá flutningsaðila vélarinnar að komin væri til landsins dráttarvél af tegundinni Deutz Fahr Agroplus 70 í eigu kæranda og biði úttektar stofnunarinnar. Þetta voru fyrstu upplýsingar um vélina sem bárust Matvælastofnun.

 

Þann 19. febrúar 2018 fór dýralæknir frá Matvælastofnun til Þorlákshafnar til að taka út ástand dráttarvélarinnar. Sótthreinsivottorð vantaði og því ljóst að vélin þyrfti að fara í hreinsun. Nákvæm þrifaúttekt var því ekki framkvæmd á dráttarvélinni þar sem vitað var að hún þyrfti að fara í þrif og sótthreinsun. Í kjölfarið sendi Matvælastofnun kæranda bréf og tölvupóst, dags. 19. febrúar 2018, þar sem honum var gefinn kostur á að senda dráttarvélina í þrif og sótthreinsun. Sama dag fóru tölvupóstar milli Matvælastofnunar og kæranda. Þar kemur fram að vélinni hafi fylgt vottorð um að hún hafi verið notuð á fótboltavelli og það hefði farið til Samgöngustofu.

 

Þann 23. mars 2018 fór dýralæknir frá Matvælastofnun til Þorlákshafnar í úttekt á dráttarvélinni.  Dráttarvélin var þá nýlega komin úr þrifum. Við þá skoðun kom í ljós að hún var mjög ryðguð.

 

Kæranda var send tilkynning 23. mars 2018 þar sem boðað var að innflutningur  á dráttarvélinni yrði stöðvaður og fylgdi tilkynningunni rökstuðningur fyrir þeirri ákvörðun. Mat stofnunarinnar var að dráttarvélin væri ekki nægjanlega hrein þrátt fyrir að vera nýlega komin úr þrifum. Ákvörðun stofnunarinnar var því byggð á því að ógerlegt væri að þrífa og sótthreinsa svo illa farna vél með fullnægjandi hætti. Áður en endanlega ákvörðun um stöðvun innflutnings var tekin veitti stofnunin kæranda frest til 6. apríl 2018 til að koma á framfæri andmælum.

 

Andmæli bárust 6. apríl 2018 frá kæranda  þar sem rökum og sjónarmiðum Matvælastofnunar var hafnað.  Byggði kærandi á því að Matvælastofnun hefði ekki vald til að stöðva innflutninginn, þar sem dráttarvélin hefði ekki verið í landbúnaðarnotum í Danmörku, né stæði til að hún yrði það hér á landi og því væri ekki um landbúnaðartæki að ræða í skilningi reglugerðar nr. 448/2012. Þá benti kærandi á að engin rök stæðu til þess að ekki væri hægt að flytja inn ryðgað tæki, enda fjölmörg dæmi um innflutning ryðgaðra bíla, sem hafi svo verið lagaðir. Einnig bauðst kærandi til að endurtaka þrif dráttarvélarinnar, þar sem fulltrúi Matvælastofnunar gæti verið viðstaddur.

 

Þann 12. apríl 2018 var kæranda sent rökstutt ákvörðunarbréf þar sem innflutningur var endanlega stöðvaður. Í því bréfi er vísað í þrjár erlendar heimildir  um að ryð hamli notkun sótthreinsiefna og komi í veg fyrir að þau nái fullri virkni. Þá kom fram að vélin væri mjög illa farin af ryði eins og sjá mætti af myndum sem teknar hefðu verið af starfsmanni Matvælastofnunar og frekari sótthreinsun væri því tilgangslaus. Þá mótmælti Matvælastofnun því að henni þryti vald til að stöðva innflutninginn.

 

Málsástæður og lagarök kæranda

Kærð er ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 12. apríl 2018, um að stöðva innflutningi notaðrar Deutz Fahr Agroplus 70 dráttarvélar.

 

Á því er byggt af hálfu kæranda að hin kærða ákvörðun  sé reist á þeirri villu Matvælastofnunar að um sé að ræða tæki sem hafi verið notað í landbúnaði og vísað sé til laga nr. 25/1993 og reglugerðar nr. 448/2012 því til stuðnings. Því sé ekki svo farið heldur sé um að ræða dráttarvél sem hafi aldrei verið notuð til landbúnaðarnota og sé ekki til þess gerð.

 

Þá bendir kærandi á að í staflið d í 10. gr. laga nr. 25/1993 segi að til að hindra að dýrasjúkdómar berist til landsins sé óheimilt að flytja til landsins hvers konar notaðar umbúðir, reiðtygi, vélar, tæki, áhöld og annað sem hafi verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang. Dráttarvélin sem um ræði hafi aldrei verið  í snertingu við dýr, dýraafurðir eða dýraúrgang, né hafi hún verið notuð í nokkru sem geti talist til landbúnaðarnota.

 

Kærandi segir að svo virðist sem Matvælastofnun byggi niðurstöðu sína á því að þar sem um dráttarvél sé að ræða hljóti svo að vera að hún hafi verið notuð í landbúnaði. Því sé ekki þannig farið og hafi Matvælastofnun því ekki lögsögu í málinu, ekki frekar en þegar flutt séu inn ökutæki til landsins, sem ekki hafið verið notuð í landbúnaði. Í því felist skýring þess að ekki hafi verið fylgt ákvörðun  reglugerðar um sótthreinsun dráttarvélarinnar og tilkynningu til Matvælastofnunar áður en hún hafi verið flutt til landsins.

 

Þannig hafi engin rök staðið til þess að meðhöndla innflutning á dráttarvélinni með öðrum hætti, en þegar notaðir bílar séu fluttir til landsins. Matvælastofnun verði að skilja að þó að um dráttarvél sé að ræða, sem hægt sé að nota í landbúnaði, þá eigi það ekki við í þessu tilviki og hún hafi aldrei verið nýtt í þess háttar verkefni og því nái valdsvið Matvælastofnunar ekki til hennar.

 

Þá bendir kærandi á að í bréfi Matvælastofnunar sé vísað til reglugerðar nr. 448/2012 og að sú reglugerð hafi verið sett í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist hingað til lands. Samkvæmt 1. gr. hennar sé einkum horft til sláturafurða, eggja, mjólkurafurða og annarra vara sem reglugerðin taki til. Í j lið 3. gr. hennar segi að bannað sé að flytja inn notaðar landbúnaðarvélar og áhöld, sem notuð hafa verið í landbúnaði eða hafi verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang. Undanþágu sé þó hægt að veita í samræmi við 4. gr. Þá sé í 7. gr. fjallað um innflutning notaðra landbúnaðartækja. Þannig er það mat kæranda að það sé skilyrði þess að það ákvæði eigi við að um sé að ræða notaðar landbúnaðarvélar og áhöld, sem notuð hafi verið í landbúnaði eða hafi verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang.

 

Telur Kærandi að notkun á fótboltavelli og við íþróttamannvirki falli ekki undir landbúnaðarnot. Matvælastofnun þrjóti því allt vald til þess að taka hina kærðu ákvörðun, þar sem ekki sé um landbúnaðartæki í skilningi reglugerðarinnar eða laganna að ræða, þ.e. tæki sem hafi verið notað í landbúnaði, né standi til að nota tækið í landbúnaði.

 

Kærandi bendir á að fram komi í umsögn Matvælastofnunar að stofnunin byggi allan sinn málatilbúnað á lögum og reglugerðum sem varða vélar, tæki og tól sem hafi verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang. Bannið í því regluverki nái til véla sem notaðar hafi verið í landbúnaði en það eigi ekki við um þessa tilteknu dráttarvél.

 

Varðandi sönnun þess að dráttarvélin hafi ekki verið notuð í landbúnaði liggi fyrir staðfesting þess efnis að dráttarvélin hafi eingöngu verið notuð á fótboltavelli og innan sveitarfélagsins Borgundarhólms í Danmörku. Frekari staðfestingu sé ekki hægt að fara fram á.

 

Þá komi fram í hinni kærðu ákvörðun að þrif hafi verið gerð hér á landi án tilætlaðs árangurs. Í ákvörðuninni sé hins vegar ekki vikið að því hvað hafi verið gert og hver sé ástæða þess að ekki hafi verið um viðunandi árangur að ræða.

 

Jafnframt bendir kærandi á að í bréfi sínu frá 6. apríl 2018 hafi hann boðið umfram skyldu að láta endurtaka þrif dráttarvélarinnar, sem fulltrúi Matvælastofnunar gæti þá verið viðstaddur. Við því hafi ekki borist svar heldur einungis hin kærða ákvörðun.

 

Kærandi telur að Matvælastofnun hafi með hinni kærðu ákvörðun farið út fyrir valdsvið sitt. Því sé um valdþurrð að ræða, sem leiði skv. stjórnsýslurétti til þess að fella beri ákvörðun sem haldin sé slíkum annmarka úr gildi. Verði ekki fallist á það sé á því byggt að ekki hafi verið skilyrði til að taka svo íþyngjandi ákvörðun sem felist í því að synja innflutning á tækinu. Þannig hafi verið beitt harðasta mögulega úrræðinu í stað þess að endurtaka þrif og komast þá að rökstuddri niðurstöðu um að þau hafi ekki verið nægjanleg. Þannig er að mati kæranda um brot á meðalhófi að ræða.

 

Málsástæður og lagarök Matvæastofnunar

Í umsögn Matvælastofnunar segir að kærandi byggi mál sitt á valdþurrð Matvælastofnunar þ.e. að stofnunin hafi farið út fyrir valdsvið sitt með því að stöðva innflutning á dráttarvélinni, enda liggi fyrir yfirlýsing seljanda um að vélin hafi eingöngu verið notuð við slátt á fótboltavelli erlendis. Þá sé hún ekki gerð til notkunar í landbúnaði og hafi aldrei verið notuð við slíka starfsemi, né komist í snertingu við dýr, dýraafurðir eða dýraúrgang. Innflutningur á dráttarvélinni sé því frjáls og falli af þeim ástæðum ekki undir ákvæði laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, né reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins. Þannig byggi kærandi á því að innflutningur á dráttarvélinni sé frjáls og falli af framangreindum ástæðum ekki undir ákvæði laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, né reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins.

 

Í sambandi við ofangreint bendir Matvælastofnun á að ljóst sé af fyrrnefndu regluverki að tilgangur stjórnvalda með setningu þess sé að stuðla að góðu heilsufari dýra hérlendis og koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins. Smitleiðir nýrra dýrasjúkdóma til landsins séu fjölmargar og ein þeirra sé með innflutningi á notuðum landbúnaðarvélum og áhöldum eða öðrum tækjum sem notuð hafa verið í landbúnaði eða gætu hafa verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang. Af þessum sökum hafi Matvælastofnun verið gert að hafa eftirlit með slíkum innflutningi og heimila einungis slíkan innflutning ef öll skilyrði fyrir innflutningnum eru uppfyllt, þ.m.t. sótthreinsun á viðkomandi landbúnaðarvélum og áhöldum eða öðrum tækjum sem notuð hafa verið í landbúnaði eða gætu hafa verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang. Þá bendir stofnunin á að 10. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, um heimild Matvælastofnunar fyrir innflutningi sé bundin því skilyrði að sannað þyki að ekki berist smitefni með vélum, áhöldum og öðrum tækjum sem valda dýrasjúkdómum. Ef framangreint sé ekki uppfyllt, þ.e. að hreinsun sé ábótavant eða ekki möguleg, skuli stofnunin stöðva innflutninginn. Enda verði í slíkum tilvikum að álykta að ekki þyki sannað að smitefni sem valda dýrasjúkdómum geti ekki borist til landsins við innflutninginn.

 

Þá bendir Matvælastofnun á að í reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins sé nánari útfærsla á ákvæðum laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Af henni megi ráða að sótthreinsa þurfi notaðar landbúnaðarvélar áður en Matvælastofnun geti heimilað innflutning þeirra og eftir þörfum tekið út slík þrif. Að mati stofnunarinnar sé umrædd dráttarvél landbúnaðarvél og tryggja þurfi að innflutningur eigi sér ekki stað nema að hægt sé að sótthreinsa hana þannig að tryggt sé að með henni berist ekki smitefni. Stofnunin telur að hafa verði almennan málskilning til hliðsjónar þegar regluverkinu sé beitt og með notaðri landbúnaðarvél sé átt við vél sem kunni að hafa verið notuð við landbúnaðarstarfsemi, þ.e. vélar sem framleiddar séu  til að auðvelda bændum bústörf við hefðbundin störf þeirra, m.a. ræktun og viðhaldi túna. Ljóst sé að framleiðslu á umræddri módeli (Deutz Fahr Agroplus 70) hafi verið hætt en skv. heimasíðu framleiðanda séu hliðstæðar dráttarvélar Deutz Fahr Agrolux 45 l 50 l 55 l 60 l 70 m.a. markaðssettar til bænda, sbr. svohljóðandi texti „These extraordinarily agile, versatile and simple to use tractors with a very short wheelbase are conceived specifically for small farms approaching mechanisation for the first time, or as additional tractors to work alongside more powerful machines in a medium to large farm.“ Matvælastofnun mótmælir því þeirri fullyrðingu kæranda að vélin sé ekki til þess gerð að nota við landbúnað. Þvert á móti séu allar líkur á að dráttarvélar af þessari gerð Argoplus 70 kunni og hafi verið notaðar við landbúnaðarframleiðslu.

 

Jafnframt bendir Matvælastofnun á að í þessu máli liggi einungis fyrir einn ódagsettur tölvupóstur frá seljanda dráttarvélarinnar til hins íslenska kaupanda þar sem fram komi staðfesting á því að vélin hafi eingöngu verið notuð til sláttar á fótboltavelli (væntanlega grasvelli) á Borgundarhólmi og ekki verið notað við landbúnað.  Fram komi að sendandi sé Jorn Myhre, „driftsleder“ í áhaldahúsi Borgundarhólms. Ekki komi fram í tölvupóstinum hvenær umræddur seljandi keypti vélina, hvort hann hafi keypt hana nýja eða notaða, hversu lengi hún hafi verið í hans eigu o.s.frv.

 

Þá segir Matvælastofnun að af málsástæðum kæranda megi ráða að innflytjendur notaðra véla sem fyrst og fremst séu framleiddar til notkunar við landbúnaðarframleiðslu geti með yfirlýsingu þess efnis að viðkomandi vél hafi ekki verið notuð í landbúnaði eða komist í snertingu við dýra, dýraafurðir eða dýraúrgang komist hjá því að sæta innflutningsskilyrðum fyrrnefndra laga og reglugerðar. Kærandi haldi því þannig fram að framangreind yfirlýsing nægi til þess að kippa þessum innflutningi undan lögunum og reglugerðinni.

 

Þá bendir stofnunin á að hún geti ekki í störfum sínum við framkvæmd laganna og reglugerðarinnar byggt á yfirlýsingum sem þessum, til þess séu hagsmunirnir of miklir. Komi þá bæði til að regluverkið kveði á um að dráttarvélar að þessu tagi skuli sótthreinsaðar fyrir innflutning og ekki síður að stofnunin geti með engum hætti sannreynt að dráttarvélin hafi aldrei verið notuð við landbúnaðarstarfsemi. Ekki liggi fyrir nein sönnun um að dráttarvélin hafi ekki verið notuð í landbúnaðarstarfsemi og miðað við notagildi dráttarvélarinnar og markaðssetningu hennar sé ekki hægt að fullyrða að hún hafi aldrei komið í snertingu við dýr, dýraafurðir eða dýraúrgang. Eftirlit stofnunarinnar byggist á gildandi tollflokkum og sé gengið út frá því að innflutningur á notuðum tækjum sem falla undir þann tollflokk sem dráttarvélar tilheyra feli ætíð í sér innflutning á notuðum landbúnaðartækjum. Gerð sé krafa um að öllum slíkum tækjum fylgi sótthreinsivottorð undirritað af opinberum dýralækni í útflutningslandi og að tækin standist úttekt stofnunarinnar með tilliti til þrifa þegar þær komi til landsins. Standist tækin ekki þessar kröfur sé innflytjanda gefinn kostur á að láta þrífa og sótthreinsa tækið hér heima.  Eins og áður segi hafi slík þrif á dráttarvélinni farið fram nú þegar án tilætlaðs árangurs. Ef fallist verði á þessa málsástæðu kæranda þá sé grundvöllurinn fyrir markvissu og árangursríku eftirliti með vélum, áhöldum og tækjum sem notaðar hafi verið í landbúnaðarstarfsemi eða gætu hafa komist í snertingu við dýr, dýraafurðir eða dýraúrgang, í raun og veru brostinn. Matvælastofnun yrði í kjölfarið að treysta alfarið á yfirlýsingar seljenda/innflytjenda með slíkum innfluttum vélum, tækjum og áhöldum. Telur Matvælastofnun að slík niðurstaða væri ekki í samræmi við fyrrnefnd ákvæði þess efnis að slíkar vélar, tæki og áhöld sæti eftirliti vegna smitsjúkdóma og sannað sé (með sótthreinsun) að sjúkdómar geti ekki borist með innflutningnum. Þá sé ákvörðun stofnunarinnar í samræmi við sambærileg mál sem komið hafi upp á undanförnum árum.

 

Þá bendir Matvælastofnun á að kærandi byggi á því að ekki hafi verið skilyrði til að taka svo íþyngjandi ákvörðun sem felist í því að synja um innflutning á dráttarvélinni. Endurtaka hefði mátt þrifin og hugsanlega komast að því loknu að þeirri rökstuddri niðurstöðu að þau hafi ekki verið nægjanleg. Þá segir Matvælastofnun að kærandi greini frá því að ekki hafi verið vikið að því í ákvörðun stofnunarinnar hvað hafi verið gert og hver sé ástæða þess að ekki hafi verið um viðunandi árgangur að ræða. Í þessu sambandi bendir Matvælastofnun á að í bréfum hennar hafi ástandi dráttarvélarinnar verið lýst. Þannig liggi fyrir að þann 23. mars sl. hafi dráttarvélinni verið lýst með þeim hætti að hún væri mjög ryðguð og væri hún enn óhrein þrátt fyrir að vera nýkomin úr hreinsun. Ástæðan fyrir því að hún hafi enn verið óhrein hafi verið sú að ógerlegt var að þrífa og sótthreinsa hana með fullnægjandi hætti þar sem hún var svo illa farin. Í ákvörðunarbréfi dags. 12. apríl 2018 hafi stofnunin upplýst að hún hafi skoðað vel ýmsar heimildir varðandi tengsl ryðs og virkni sótthreinsiefna á bakteríur. Þar sé vísað til þriggja erlenda heimilda sem allar taki þetta fyrir og leiði líkur að því að sótthreinsun við þessar aðstæður sé illframkvæmanleg.  Kærandi hafi ekki fært nein rök fyrir því að hægt sé að sótthreinsa mikið ryðgaðar vélar á fullnægjandi hátt. Því mótmæli Matvælastofnun framangreindri málsástæðu kæranda sem rangri og telur ljóst miðað við gögn málsins að frekari sótthreinsun hafi verið óframkvæmanleg vegna ástands dráttarvélarinnar.

 

Að lokum tekur Matvælastofnun undir með kæranda varðandi það að synjun um innflutning á notuðu landbúnaðartæki sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og að Matvælastofnun beri skv. meðalhófsreglu stjórnsýslulaga að finna vægustu leiðina á hverjum tíma til þess að ná því takmarki sem að sé stefnt.  Þannig hefði undir eðlilegum kringumstæðum ekki staðið á Matvælastofnun að koma til móts við kæranda og heimila sótthreinsun hér innanlands á umræddri dráttarvél. Í þessu máli hafi það verið svo  að umrædd vél var ekki sótthreinsunarhæf vegna ryðs og var því hafi ekki verið annar valkostur í stöðunni en að synja innflutningnum.

 

Niðurstaða

I.Kærufrestur

Stjórnsýslukæra í máli þessu barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þann 2. júlí  2018 eða innan þriggja mánaða frá því að hin kærða ákvörðun var tilkynnt aðila, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærufrestur í málinu var því ekki liðinn þegar stjórnsýslsukæra barst ráðuneytinu. Kæran verður því tekin til efnismeðferðar.

 

II. Rökstuðningur 

Í gildi eru lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum. Tilgangur laganna er m.a. að stuðla að góðu heilsufari dýra í landinu og koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins og að fylgjast með og hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma og vinna að útrýmingu þeirra.  

 

Í d-lið 1. mgr.10.gr. laganna er að finna meginreglu um að óheimilt sé að flytja til landsins hvers konar vélar, tæki, áhöld og annað sem hefur verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang.  Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að þrátt fyrir bannið í 1. mgr. sé Matvælastofnun heimilt að leyfa innflutning á vörum þeim sem eru taldar upp í a-e lið enda þyki sannað að ekki berist smitefni með þeim er valda dýrasjúkdómum. 

 

Ráðherra hefur útfært nánar fyrirkomulag við innflutning á vélum, tækjum, áhöldum og öðru sem hefur komið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang, sbr. þágildandi reglugerð nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins, með síðari breytingum. Tilgangur reglugerðarinnar er að hindra að sjúkdómar berist til landsins með vörum sem reglugerðin tekur til, sbr. 1. gr., og tekur reglugerðin til innflutnings á vörum sem smitefni geta borist með er valda sjúkdómum í dýrum og mönnum, sbr. 2. gr.

 

Í 3. gr. segir að óheimilt sé að flytja til landsins notaðar landbúnaðarvélar og áhöld og önnur tæki sem notuð hafa verið í landbúnaði eða hafa verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang.

 

Í 7. gr. er fjallað sérstaklega um innflutning notaðra landbúnaðartækja. Þar kemur skýrt fram í 1. mgr. að innflytjandi notaðra landbúnaðarvéla skuli ávallt tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaðan innflutning tuttugu dögum fyrir áætlaðan innflutningsdag eða með styttri fyrirvara ef sérstök sérstaklega tilgreind skilyrði eru uppfyllt. Þá skal fyrir innflutning framkvæma sérstaka sótthreinsun. Skilyrði fyrir innflutningi eru listuð upp í a. til h. lið.

 

Í 2. mgr. 7. gr segir.: Óheimilt er að flytja notaðar landbúnaðarvélar og áhöld, þar með taldar hestakerrur og önnur tæki sem notuð hafa verið í landbúnaði eða gætu hafa verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang til landsins ef skilyrði 1. mgr. eru ekki uppfyllt. Telji Matvælastofnun hættu á því að smitefni berist til landsins með notaðri landbúnaðarvél eða tæki þrátt fyrir að uppfyllt séu skilyrði 1.mgr. fyrir innflutning eða hreinsun viðkomandi vélar eða tækis er ekki fullnægjandi við innflutning er Matvælastofnun heimilt að stöðva innflutning.

 

Í 8. gr. reglugerðarinnar er síðan fjallað um ábyrgð innflytjanda. Fram kemur að hann skuli sjá til þess að öll nauðsynleg vottorð fylgi vörunni við innflutning og beri allan kostnað sem kann að leiða af öflun vottorða og þeim sóttvarnarráðstöfunum sem uppfylla þurfi vegna innflutningsins.

 

Í kæru byggir kærandi á þeirri málsástæðu að innflutningur á umræddri dráttarvél falli ekki undir framangreind ákvæði laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, né framangreindrar reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins og því hafi Matvælastofnun með hinni kærðu ákvörðun farið út fyrir valdsvið sitt og sé því um valdþurrð að ræða. Þannig nái ofangreint regluverk  einungis til véla sem notaðar hafi verið í landbúnaði en það eigi ekki við um þessa tilteknu dráttarvél þar sem fyrir liggi yfirlýsing frá seljanda  um að vélin hafi eingöngu verið notuð við slátt á fótboltavelli erlendis, þá sé hún ekki gerð til notkunar í landbúnaði og hafi aldrei verið notuð við slíka starfsemi, né komist í snertingu við dýr, dýraafurðir eða dýraúrgang. Innflutningur á dráttarvélinni sé því frjáls.

 

Ráðuneytið fellst ekki á ofangreinda málsástæðu kæranda eða þá málsástæðu kæranda að um valdþurrð Matvælastofnunar sé að ræða í máli þessu. Varðandi rökstuðning er sérstaklega vísað til meginreglu 1. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993 um að óheimilt sé að flytja til landsins hvers konar vélar, tæki, áhöld og annað sem hefur verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang. Ráðuneytið telur að innflutningur á umræddri dráttarvél falli undir innflutningsbann ákvæðisins þar sem kærandi hafi ekki fært fram fullnægjandi sönnun þess að tækið hafi ekki verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang og telst yfirlýsing sú sem seljandi tækisins lagði fram ekki fullnægjandi sé litið til þeirra mikilsverðu hagsmuna sem ákvæðinu er ætlað að vernda. Þá hafi kærandi heldur ekki lagt fram fullgild gögn þannig að hægt sé að virkja undanþáguákvæði 2. mgr. 10. gr. sem kveður á um heimild Matvælastofnunar að leyfa innflutning enda þyki sannað að ekki berist smitefni með þeim er valda dýrasjúkdómum. Skilyrði er því að sannað þyki að ekki berist smitefni með þeim er valda dýrasjúkdómum. Eru því gerðar mjög strangar kröfur í þessum efnum.  Ekki dugar að ólíklegt sé að smitefni berist með umræddum hlutum. Hér er líka rétt að hafa í huga að um er að ræða undantekningu frá meginreglu sem skýra ber þröngt skv. almennum lögskýringasjónarmiðum. Því er það svo að ef framangreint skilyrði er ekki uppfyllt t.d. ef hreinsun er ábótavant eða ekki möguleg eins og í því tilviki sem hér um ræðir, skal stofnunin stöðva innflutninginn. Enda verður í slíkum tilvikum að álykta að ekki þyki sannað að smitefni sem valda dýrasjúkdómum geti ekki borist til landsins við influtninginn. 

 

Í reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins er nánari útfærsla á ákvæðum laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Þannig bar kæranda að uppfylla þau skilyrði fyrir innflutningi sem fram koma í 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar. Ljóst er að kærandi uppfyllti ekki þau skilyrði og var innflutningur dráttarvélarinnar þegar af þeirri ástæðu óheimill sbr. 2. mgr. 7.gr. reglugerðarinnar. Þrátt fyrir þá staðreynd, að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar, þ.á.m. skilyrði um að með öllum tækjum sem falla undir greinina fylgi sótthreinsivottorð undirritað af opinberum dýralækni í útflutningslandi og að tækin standist úttekt stofnunarinnar með tilliti til þrifa þegar þær komi til landsins, veitti Matvælastofnun kæranda tækifæri á að þrífa og sótthreinsa tækið hér heima. Ljóst er af úttekt Matvælastofnunar á þeim þrifum sem kærandi lét framkvæmda í kjölfarið á vélinni hér heima að sótthreinsun vélarinnar var ógerleg vegna slæms ástands vélarinnar og mikils ryðs. Því var enginn annar kostur í stöðunni fyrir Matvælastofnun en að synja kæranda innflutningnum.

 

Hvað varðar þá fullyrðingu kæranda að umrædd dáttarvél falli ekki undir landbúnaðartæki í skilningi reglugerðarinnar eða laganna er vísað til rökstuðnings í  umsögn Matvælastofnunar og fellst ráðuneytið á það mat stofnunarinnar að sú dráttarvél sem deilt sé um í þessu máli sé notuð landbúnaðarvél og að tryggja þurfi að innflutningur eigi sér ekki stað nema að hægt sé að sótthreinsa hana þannig að tryggt sé að með henni berist ekki smitefni. 

 

Í máli þessu hefur Matvælastofnun metið það svo að hún geti með engum hætti sannreynt að dráttarvélin hafi aldrei verið notuð við landbúnaðarstarfsemi. Þá telur Matvælastofnun miðað við notagildi dráttarvélarinnar og markaðssetningu hennar sé ekki hægt að fullyrða að hún hafi aldrei komið í snertingu við dýr, dýraafurðir eða dýraúrgang. Eftirlit stofnunarinnar verði því að byggjast á gildandi tollflokkum og sé gengið út frá því að innflutningur á notuðum tækjum sem falla undir þann tollflokk sem dráttarvélar tilheyra feli ætíð í sér innflutning á notuðum landbúnaðartækjum.  Í umsögn Matvælastofnunar segir jafnframt að stofnunin geti ekki í störfum sínum við framkvæmd laganna og reglugerðarinnar byggt á yfirlýsingum seljanda tækja þess efnis að viðkomandi vélar hafi ekki verið notaðar í landbúnaði eða aldrei komist í snertingu við dýr, dýraafurðir eða dýraúrgang, til þess séu hagsmunirnir of miklir. Þá bendir Matvælastofnun á að ef fallist væri á að slíkar yfirlýsingar seljenda væru fullnægjandi þá væri grundvelli fyrir markvissu og árangurríku eftirliti með vélum, áhöldum og tækjum sem notaðar hafi verið í landbúnaðarstarfsemi eða gætu hafa komist í snertingu við dýr, dýraafurðir eða dýraúrgang, í raun og veru brostinn. Matvælastofnun yrði í kjölfarið að treysta alfarið á yfirlýsingar seljenda/innflytjenda með slíkum innfluttum vélum, tækjum og áhöldum. Ráðuneytið fellst á ofangreint mat Matvælastofnunar enda er það byggt á málefnalegum sjónarmiðum og í samræmi við fyrrnefnd ákvæði þess efnis að slíkar vélar, tæki og áhöld sæti eftirliti vegna smitsjúkdóma og að sannað sé að sjúkdómar geti ekki borist með innflutningnum. 

 

Þá byggir kærandi á því að ekki hafi verið skilyrði til að taka svo íþyngjandi ákvörðun heldur hefði mátt endurtaka þrifin og hugsanlega komast að því loknu að þeirri rökstuddu niðurstöðu að þau hafi ekki verið nægjanleg. Þá bendir kærandi á að í hinni kærðu ákvörðun komi fram að þrif hafi verið gerð hér á landi án tilætlaðs árangurs. Í þessu sambandi gagnrýnir kærandi að ekki sé vikið að því hvað hafi verið gert og hver sé ástæða þess að ekki hafi verið um viðunandi árangur að ræða. Hvað varðar þessa  athugasemd kæranda vísast til bréfs Matvælastofnunar til kæranda dags. 23. mars 2018 þar sem dráttarvélinni var lýst með þeim hætti að hún væri mjög ryðguð og væri hún enn óhrein þrátt fyrir að vera nýkomin úr hreinsun. Ástæðan fyrir því að hún hafi enn verið óhrein hafi verið sú að ógerlegt var að þrífa og sótthreinsa hana með fullnægjandi hætti þar sem hún var svo illa farin. Í ákvörðunarbréfi Matvælastofnunar dags. 12. apríl 2018 var einnig upplýst að stofnunin hafi skoðað vel ýmsar heimildir varðandi tengsl ryðs og virkni sótthreinsiefna á bakteríur. Þar sé vísað til þriggja erlenda heimilda sem allar taki þetta fyrir og leiði líkur að því að sótthreinsun við þessar aðstæður sé illframkvæmanleg.  Kærandi hefur ekki fært nein rök fyrir því að hægt sé að sótthreinsa mikið ryðgaðar vélar á fullnægjandi hátt. Því mótmælir ráðuneytið framgreindri málsástæðu kæranda sem rangri og telur ljóst miðað við gögn málsins að frekari sótthreinsun hafi verið óframkvæmanleg vegna ástands dráttarvélarinnar.

 

Að lokum hafnar ráðuneytið þeirri másástæðu kæranda að Matvælastofnun hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga við töku hinnar kærðu ákvöðunar enda ómögulegt fyrir Matvælastofnun að beita vægari úrræðum þar sem sótthreinsun á umræddri dráttarvél hafi verið óframkvæmanleg vegna ryðs og því ekki verið annar valkostur í stöðunni en að synja innflutningnum.

 

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta skuli ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 12. apríl 2018, sem laut að stöðvun innflutnings notaðrar Deutz Fahr Agroplus 70 dráttarvélar.

 

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 12. apríl 2018, sem laut að stöðvun innflutnings notaðrar Deutz Fahr Agroplus 70 dráttarvélar, er staðfest. 

 

 

 

           

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira