Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 366/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 366/2016

Fimmtudaginn 12. janúar 2017

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. október 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, synjun Kópavogsbæjar frá 8. ágúst 2016 á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð aftur í tímann.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 19. maí 2016, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð frá Kópavogsbæ afturvirkt frá 1. febrúar 2016. Umsókn kæranda var synjað með bréfi velferðarsviðs, dags. 8. júní 2016, á þeirri forsendu að skilyrði 10. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð væri ekki uppfyllt. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til félagsmálaráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 8. ágúst 2016 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. október 2016. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Kópavogsbæjar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 10. október 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. október 2016, var bréf Kópavogsbæjar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 26. október 2016 og voru þær sendar Kópavogsbæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. október 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að á tímabilinu febrúar til apríl 2016 hafi hún verið skráð í endurhæfingu hjá VIRK en Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki samþykkt að greiða henni endurhæfingarlífeyri þar sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði þess. Á því tímabili hafi hún lifað á umönnunar- og meðlagsgreiðslum og þurft að fá fjárhagsaðstoð frá vinkonu sinni þar sem hún hafi slæma reynslu af láni frá félagsþjónustu sveitarfélagsins. Að mati kæranda séu framangreindar greiðslur ætlaðar til að tryggja þörf barna hennar og því sé ekki siðferðislega rétt að nýta þær fyrir húsaleigu og uppihald.

Kærandi tekur fram að hún hafi búið erlendis hjá foreldrum sínum á þeirra kostnað yfir sumarið 2016 vegna peningaleysis og húsaleiguskuldar.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð þann 19. maí 2016 afturvirkt frá 1. febrúar 2016 á móti mæðralaunum. Vísað er til 10. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð þar sem fram komi að ekki sé skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn sé lögð fram og að rökstuddar ástæður verði að réttlæta slíka aðstoð. Að mati starfsmanna sveitarfélagsins hafi ekki verið um slíkt að ræða í máli kæranda.

Kópavogsbær tekur fram að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sé neyðarúrræði þegar umsækjandi sé ekki fær um að framfæra sjálfan sig, maka sinn eða börn. Það hafi legið fyrir að kærandi hafi framfleytt sér og börnum sínum á umdeildu tímabili líkt og henni beri skylda til, sbr. 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, án þess að þurfa aðstoð sveitarfélagsins. Kærandi hafi útskrifast úr VIRK 9. maí 2016 sem atvinnuleitandi og samþykkt hafi verið að veita henni fjárhagsaðstoð frá maí 2016 fram til júní 2016.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um synjun Kópavogsbæjar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð aftur í tímann fyrir tímabilið 1. febrúar 2016 til 30. apríl 2016.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð frá Kópavogsbæ þann 19. maí 2016 afturvirkt frá 1. febrúar 2016. Í 3. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að fjárhagsaðstoð sé aldrei skylt veita lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram. Í 10. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð er samhljóða ákvæði, auk þess sem þar er einnig gert að skilyrði að rökstuddar ástæður verði að réttlæta aðstoð aftur í tímann og verði skilyrðum fjárhagsaðstoðar að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að á tímabilinu febrúar til apríl 2016 hafi hún framfært sig á umönnunar- og meðlagsgreiðslum og þurft að fá fjárhagsaðstoð frá vinkonu sinni. Kærandi hafi ekki óskað eftir láni frá félagsþjónustu sveitarfélagsins þar sem hún hafi slæma reynslu af því. Af hálfu Kópavogsbæjar hefur komið fram að kærandi hafi fyrst haft samband við sveitarfélagið þann 19. maí 2016 en ekkert í beiðni hennar hafi rökstutt afturvirka fjárhagsaðstoð.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við það mat Kópavogsbæjar að ekki séu til staðar rökstuddar ástæður sem réttlæti fjárhagsaðstoð aftur í tímann til handa kæranda. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 40/1991 er hverjum manni skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn sín yngri en 18 ára. Í 2. mgr. 1. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð kemur fram að markmið fjárhagsaðstoðar sveitarfélagsins sé að tryggja að íbúar bæjarins geti séð fyrir sér og sínum með því að veita þeim þá fjárhagslegu aðstoð sem nauðsyn krefji. Þá kemur meðal annars fram í 1. mgr. 2. gr. reglnanna að fjárhagsaðstoð sé veitt þegar einstaklingar hafi ónógar tekjur sér til framfærslu og geti ekki séð sér og sínum farborða, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991. Ljóst er að kærandi framfleytti sér og börnum sínum á umdeildu tímabili. Þær ástæður sem kærandi hefur gefið fyrir því að sækja ekki fyrr um fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu eru að mati úrskurðarnefndarinnar ekki fullnægjandi rökstuðningur fyrir því að ekki var sótt um fyrr. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 10. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 8. ágúst 2016, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð aftur í tímann er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira