Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/2022. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 4. mars 2022
í máli nr. 5/2022:
Beki ehf.
gegn
Öryggisfjarskiptum ehf. og
Límtré Vírneti ehf.

Lykilorð
Hæfisskilyrði. Útboðsgögn. Kröfu um afléttingu stöðvunar samningsgerðar hafnað.

Útdráttur
Hafnað var kröfu varnaraðila um að aflétta stöðvun samningsgerðar, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni af kærunefnd útboðsmála 26. janúar 2022 kærði Beki ehf. útboð Öryggisfjarskipta ehf. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) auðkennt „Flugskýli Landhelgisgæslan. Hönnun og framleiðsla krosslímdra timbureininga og klæðningar ásamt uppsetningu“. Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila 17. janúar 2022 um að velja tilboð Límtré Vírnet ehf. í hinu kærða útboði. Þá krefst kærandi þess að hið kærða útboð verði ógilt í heild sinni og lagt fyrir varnaraðila að auglýsa útboðið að nýju. Jafnframt er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti í té álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Þá krefst kærandi málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Með greinargerð 8. febrúar 2022 krefst varnaraðili þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað og að „ákvörðun hans um val tilboðs verði metin gild“. Þá krefst varnaraðili þess að stöðvun samningsgerðar verði aflétt hið fyrsta og að kæranda verði að gert að greiða „kostnað varnaraðila við að taka til varna vegna kærunnar samkvæmt mati kærunefndar útboðsmála“. Með greinargerð sama dag krefst Límtré Vírnet ehf. að öllum kröfum kæranda verði hafnað og að ákvörðun varnaraðila um val tilboðs „verði metin gild“. Þá er krafist málskostnaðar „úr hendi kæranda vegna kærumáls þessa“.

Kærunefnd útboðsmála beindi fyrirspurn til varnaraðila 10. febrúar 2022 og óskaði eftir að tilboðsgögn bjóðenda yrðu afhent nefndinni. Varnaraðili svaraði samdægurs og afhenti tilboðsblöð og tilboðsskrár bjóðenda. Kærunefnd útboðsmála beindi annarri fyrirspurn til varnaraðila 14. febrúar 2022 og óskaði eftir að varnaraðili afhenti nefndinni önnur gögn sem bjóðendur kynnu að hafa lagt fram með tilboðum sínum eða við meðferð útboðsins. Varnaraðili svaraði samdægurs og afhenti umbeðin gögn.

Kærunefnd útboðsmála beindi fyrirspurn til varnaraðila 16. febrúar 2022 og óskaði eftir því hvort og þá hvernig mat hefði farið fram af hálfu varnaraðila á því hvort bjóðendur uppfylltu þær kröfur sem kæmu fram í grein 0.1.3 í útboðsgögnum, svo sem um hæfni og reynslu og kröfur um eigið fé. Varnaraðili svaraði fyrirspurninni degi síðar. Kærunefnd útboðsmála beindi annarri fyrirspurn til varnaraðila 17. febrúar 2022 og óskaði eftir upplýsingum um hvort að mat hefði verið lagt á hæfi lægstbjóðanda varðandi reynslu af sambærilegum verkum áður en tekin var ákvörðun um val tilboðs og nákvæmlega hvaða gögn hefðu legið til grundvallar því mati. Varnaraðili svaraði fyrirspurninni samdægurs.

Í þessum hluta málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar verði aflétt en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

I

Í desember 2021 óskaði Efla hf. fyrir hönd varnaraðila eftir tilboðum í hinu kærða útboði og var um að ræða opið útboð. Í grein 0.1.4 í útboðsgögnum kemur fram að verkið felist í „hönnun, framleiðslu og reisingu” á tengibyggingu milli núverandi og nýs flugskýlis Landhelgisgæslu Íslands við Nauthólsveg á jaðri Reykjavíkurflugvallar. Í grein 1.1 er tekið fram að útboðið nái til útvegunar á efni í burðavirki skrifstofutengibyggingarinnar, klæðningar, glugga, hurðir ásamt uppsetningu. Þá segir í greininni að innifalið í verkinu sé meðal annars krosslímt timburburðavirki í tengibyggingu, krosslímdar timbureiningar í millihæðir og veggi innan í enda flugskýlis og einangrun og klæðningar á þak og útveggi tengibyggingar. Jafnframt kemur fram í greininni að hönnun á súlum, burðarbitum og festingum sé í höndum bjóðenda. Í grein 0.1.3 eru settar fram kröfur til tæknilegrar og faglegrar getu bjóðenda og fjárhagslegrar stöðu þeirra. Samkvæmt A-lið greinarinnar er gerð krafa um að bjóðandi hafi haldgóða reynslu á sviðinu og hafi á „síðustu fimm árum unnið a.m.k. eitt sambærilegt verk þar sem upphæð samnings hefur verið a.m.k. 70% af tilboði bjóðanda í þetta verk (…)“. Þá kemur fram að við mat á hæfni og reynslu bjóðanda sé varnaraðila heimilt að taka tillit til hæfni og reynslu eigenda, stjórnenda, lykilstarfsmanna, undirverktaka og sérstakra ráðgjafa bjóðanda af verklegum framkvæmdum og leggja slíka hæfni og reynslu að jöfnu við hæfni og reynslu bjóðandans sjálfs. Í B-lið greinar 0.1.3 segir að gerð sé krafa um að eigið fé bjóðanda skuli vera jákvætt sem nemi að lágmarki 5% af tilboðsfjárhæð. Þá kemur fram í greininni að varnaraðila sé heimilt, ef ársreikningur bjóðanda sýnir ekki jákvætt eigið fé, að taka til greina upplýsingar í formi árshlutareiknings árituðum af löggiltum endurskoðanda eða yfirlýsingu löggilts endurskoðanda um að eigið fé bjóðanda sé jákvætt á tilboðsdegi sem nemi að lágmarki 5% af tilboðsfjárhæð. Í c-lið sömu greinar segir að gerð sé krafa um að bjóðandi skuli vera í skilum um öll opinber gjöld og lífeyrissjóðsiðgjöld starfsmanna sinna. Með E-lið greinar 0.1.3 áskildi varnaraðili sér rétt til að óska eftir nánar tilteknum upplýsingum og gögnum frá bjóðendum sem kæmu til álita sem viðsemjendur eftir opnun og yfirferð tilboða, s.s. skrá yfir helstu verk og lýsingu á reynslu bjóðanda í sambærilegum verkum, síðast gerðum endurskoðuðum eða árituðum ársreikningi, sem skyldi vera áritaður án fyrirvara um rekstrarhæfi félags af löggiltum endurskoðanda, og staðfestingar frá lífeyrissjóðum og viðkomandi yfirvöldum um að bjóðandi sé í skilum með iðgjöld starfsmanna og opinber gjöld. Í grein 0.4.6 er gerð grein fyrir valforsendum útboðsins og kemur þar fram að varnaraðili muni velja fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið á grundvelli verðs (80%) og gæða (20%). Samkvæmt ákvæðinu eru stig fyrir verð gefin í hlutfalli við frávik frá lægsta tilboði og stig fyrir gæði gefin á grundvelli fimm nánar tilgreindra þátta. Samkvæmt grein 0.1.2 var gert ráð fyrir tilboð yrðu opnuð 22. desember 2021.

Með minnisblaði 14. desember 2021 var bjóðendum tilkynnt að sú breyting hefði verið gerð að varnaraðili myndi sjá um burðarþolshönnun og skyldi hún því ekki vera innifalin í tilboði bjóðanda. Með minnisblaðinu var einnig gerð grein fyrir öðrum nánar tilgreindum breytingum og sett fram svör við fyrirspurnum bjóðenda. Degi síðar sendi Efla hf. tölvupóst og upplýsti að vegna breytinga á gögnum hefði verið ákveðið að fresta opnun tilboða til 10. janúar 2022. Tilboð voru opnuð á framangreindum degi og samkvæmt fundargerð opnunarfundar bárust tilboð frá tveimur fyrirtækjum. Tilboð Límtrés Vírnets ehf. var lægst að fjárhæð 254.314.027 krónum en tilboð kæranda nam 279.290.296 krónum. Með tölvupósti 10. janúar 2022 óskaði Efla hf. eftir að kærandi legði fram gögn með lýsingu á framboðnum vörum. Kærandi svaraði fyrirspurninni með minnisblaði 14. janúar 2022 og gerði þar einnig athugasemdir við framkvæmd útboðsins. Varnaraðili tilkynnti kæranda 17. janúar 2022 að ákveðið hefði verið að ganga til samninga við Límtré Vírnet ehf. og gerði nánar grein fyrir stigagjöf útboðsins. Með tölvupósti 21. janúar 2022 óskaði kærandi eftir upplýsingum um nákvæman biðtíma samningsgerðar, rökstuðningi fyrir ákvörðun kaupanda og afriti af öllum tilboðsgögnum bjóðenda. Varnaraðili svaraði samdægurs og tók fram láðst hefði að tilgreina biðtíma samningsgerðar og til þess að bæta úr þeim annmarka væri biðtími samningsgerðar fimm dagar frá 22. janúar 2022 að telja. Þá veitti varnaraðili umbeðinn rökstuðning en hafnaði því að afhenda umbeðin tilboðsgögn.

II

Kærandi byggir að meginstefnu til á því að lægstbjóðandi uppfylli ekki kröfur A-liðar greinar 0.1.3 í útboðsgögnum um reynslu af sambærilegum verki og varnaraðila hafi því verið óheimilt að ganga til samninga við fyrirtækið. Í ákvæðinu felist að bjóðendur þurfi að hafa reynslu af efnisútvegun, uppsetningu og frágangi á sambærilegum byggingum úr krosslímdum timbureiningum (CLT). Kærandi telji að lægstbjóðandi hafi enga reynslu af efnisútvegun, uppsetningu á frágangi á sambærilegum byggingum úr krosslímdum timbureiningum og liggi ekki fyrir neinar upplýsingar sem sýni fram á að aðilar á vegum fyrirtækisins uppfylli hæfniskröfur útboðsgagna. Þá vísar kærandi til þess að varnaraðili hafi ákveðið eftir afhendingu útboðsgagna að undanskilja burðarþolshönnun frá útboðsskilmálum útboðsins og um hafi verið að ræða breytingu á grundvallarforsendum útboðsins. Varnaraðila hafi verið óheimilt að breyta útboðinu með þessum hætti og hafi breytingin falið í sér slíka forsendubreytingu frá upphaflegu útboði að hætta hafi átt við útboðið og hefja að nýju með nýjum útboðsskilmálum. Eftir þessa breytingu hafi bjóðandi ekki lengur getað byggt tilboð í verkið á eigin forsendum burðarþolshönnunar en slíkar forsendur séu grunnforsendur við þá tilboðsgerð sem óskað sé eftir með útboðinu. Þá hafi framangreindar breytingar leitt til þess að ómögulegt hafi verið fyrir varnaraðila að bera tilboðin saman, meðal annars þar sem óvíst sé hvort bjóðendur hafi lagt sömu hönnunarforsendur til grundvallar. Kærandi byggir ennfremur á að með framangreindri forsendubreytingu hafi varnaraðili brotið gegn meginreglum laga um opinber innkaup um jafnræði enda hafi breytingarnar verið gerðar til að koma til móts við lægstbjóðanda sem hafi enga reynslu af hönnun byggingar úr krosslímdum timbureiningum.

Varnaraðili byggir að meginstefnu til á því að með A-lið greinar 0.1.3 sé ekki gerð krafa um að bjóðandi hafi reynslu af efnisútvegun og uppsetningu á sambærilegum byggingum úr CLT, Heldur eingöngu að viðkomandi hafi reynslu af sambærilegu verki en verk geti talist sambærilegt í skilningi greinarinnar þó það sé ekki vegna bygginga úr CLT timbureiningum. Lægstbjóðandi hafi afhent varnaraðila gögn til staðfestingar á hæfi og reynslu og hafi meðal annars bent á tvö sambærileg verkefni sem hann hafi unnið á síðastliðnum fimm árum þar sem upphæð samnings hafi verið meira en 70% af tilboði hans í útboðinu. Auk þess byggi hæfi lægstbjóðanda á hæfi samstarfsaðila fyrirtækisins í uppsetningu og framleiðslu en heimilt sé að byggja á reynslu þessara aðila samkvæmt 76. gr. laga nr. 120/2016. Varnaraðili vísar til þess að ákvörðun um að færa burðarþolshönnunina til hans hafi verið tekin til þess að flýta fyrir, skapa hagræði og jafna stöðu bjóðenda. Hafi breytingarnar því verið gerðar með hagkvæmi að leiðarljósi en ekki til þess að raska stöðu bjóðenda í útboðinu. Varnaraðila hafi verið heimilt að gera þessar breytingar á grundvelli 4. mgr. 57. gr. laga nr. 120/2016 enda hafi tilboðsfrestur verið framlengdur samhliða. Þá hafi allir bjóðendur fengið í hendurnar sömu gögn, forsendur og tækifæri til að óska eftir frekari skýringum eða gögnum á fyrirspurnartímanum. Kærandi hafi ekki gert neinar athugasemdir við útboðsgögnin á fyrirspurnartíma eða áður en tilboðsfresti lauk. Þannig hafi kærandi ekki gert athugasemdir við útboðsgögnin og þá ákvörðun varnaraðila að taka burðarþolshönnun út úr útboðinu fyrr en eftir opnun tilboða og þegar fyrir lá að kærandi hafi ekki átt lægsta verðtilboðið.

Límtré Vírnet ehf. byggir að meginstefnu til á því að fyrirtækið uppfylli allar kröfur útboðsins. Fyrirtækið sé með áratugalanga reynslu meðal annars á sviði framleiðslu, efnisöflunar, bygginga og verkstýringar og hafi verið leiðandi á þessu sviði hér á landi. Stjórnendur og lykilstarfsmenn fyrirtækisins hafi þannig víðtæka þekkingu og reynslu af stjórnun og umsjón verkefna í fjölmörgum byggingarverkefnum hérlendis. Þá sé samkvæmt útboðsgögnum og 76. gr. laga nr. 120/2016 heimilt að byggja á hæfni og reynslu samstarfsaðila en samstarfsaðilar Límtrés Vírnets ehf. hafi víðtæka reynslu af framleiðslu og uppsetningu CLT. Þá mótmælir fyrirtækið þeirri staðhæfingu kæranda að óheimilt hafi verið að breyta útboðsskilmálum og tekur meðal annars fram að sérstaklega sé gert ráð fyrir að útboðsgögnum kunni að vera breytt samkvæmt 4. mgr. 57. gr. laga nr. 120/2016, og byggir jafnframt á að jafnræðis, meðalhófs og gagnsæi hafi verið gætt við útboðið.

III

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er varnaraðili að fullu í eigu Ríkissjóðs og Neyðarlínunnar ohf. Að þessu gættu og eins og mál þetta liggur fyrir verður að miða við að um hið kærða útboð hafi gilt ákvæði laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og leggja aðilar málsins það til grundvallar.

Upphafleg tilkynning varnaraðila 17. janúar 2022 um val á tilboði lægstbjóðanda hafði ekki að geyma yfirlýsingu um nákvæman biðtíma samningsgerðar líkt og er áskilið samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laga nr. 120/2016. Með tölvupósti 21. janúar 2022 bætti varnaraðili úr þessum annmarka og upplýsti kæranda um að biðtími samningsgerðar væri fimm dagar talið frá 22. sama mánaðar. Kæra málsins var móttekin 26. janúar 2022 og hafði því í för með sér sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laga nr. 120/2016. Í 1. mgr. 107. gr. laganna kemur fram að ef ákvörðun um val tilboðs er kærð innan lögboðins biðtíma samkvæmt 86. gr. laganna sé gerð samnings óheimil þar til kærunefnd útboðsmála hefur endanlega leyst úr kærunni. Samkvæmt 2. mgr. getur kærunefnd, hvort heldur er að kröfu varnaraðila eða að eigin frumkvæði, ákveðið að aflétta banni við samningsgerð, en við slíka ákvörðun gilda ákvæði 110. gr. eftir því sem við á. Í því felst að einungis á að viðhalda stöðvun hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögum um opinber innkaup eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila.

Í 1. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 kemur fram að ákvörðun um gerð samnings skuli tekin á grundvelli forsendna sem fram koma í 79.-81. gr. laganna enda sé fullnægt skilyrðum sem koma fram í a. til c. lið ákvæðisins. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 66. gr. skal tilboð uppfylla kröfur, skilyrði og viðmiðanir sem koma fram í útboðsgögnum og samkvæmt c-lið sömu greinar skal tilboð uppfylla hæfiskröfur samkvæmt 69.-72. gr. laganna. Þá kemur fram í 4. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 að í almennu útboði sé kaupanda heimilt að meta tilboð áður en kannað sé hvort bjóðandi uppfylli kröfur um hæfi samkvæmt 68.-77. gr. laganna. Fullnægjandi mat á hæfiskröfum skuli þó fara fram áður en samningur sé gerður við bjóðanda.

Ákvæði 69. gr. laga nr. 120/2016 heimilar kaupanda að setja skilyrði fyrir þátttöku fyrirtækja meðal annars á grundvelli tæknilegrar og faglegrar getu og fjárhagsstöðu. Í 1. mgr. 71. gr. laga nr. 120/2016 kemur fram að fjárhagsstaða fyrirtækis skuli vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Í því skyni sé kaupanda meðal annars heimilt að krefjast ársreiknings fyrirtækis sem sýni til dæmis hlutfall milli eigna og skulda og er kaupanda heimilt að taka tillit til slíks hlutfalls að gættum nánari fyrirmælum 3. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 2. mgr. 72. gr. laganna getur kaupandi krafist þess að fyrirtæki hafi nægilega reynslu og sýni fram á það með viðeigandi gögnum í tengslum við samninga sem fyrirtækið hefur áður framkvæmt. Varnaraðili ákvað að nýta sér framangreindar heimildir og gerði kröfu um að bjóðandi hefði á síðustu fimm árum unnið að minnsta kosti eitt sambærilegt verk þar sem upphæð samnings hefði verið að minnsta kosti 70% af tilboði bjóðanda í útboðinu, sbr. A-lið greinar 0.1.3 í útboðsgögnum. Þá var þess krafist í B-lið sömu greinar að eigið fé bjóðanda skyldi vera jákvætt sem næmi að lágmarki 5% af tilboðsfjárhæð. Í E-lið sömu greinar kom fram að bjóðendur sem eftir opnun og yfirferð tilboða kæmu til álita sem viðsemjendur skyldu láta í té upplýsingar að beiðni varnaraðila. Á meðal upplýsinga sem varnaraðili áskildi sér rétt til að kalla eftir var „skrá yfir helstu verk og lýsing á reynslu bjóðanda í sambærilegum verkum“ og „síðast gerðum endurskoðuðum / árituðum ársreikningi árituðum án fyrirvara um rekstrarhæfi félags af löggiltum endurskoðanda”. Af þessum fyrirmælum útboðsgagnanna og framangreindum ákvæðum laga nr. 120/2016 um opinber innkaup leiðir að varnaraðila bar meðal annars að framkvæma fullnægjandi mat á því hvort lægstbjóðandi uppfyllti kröfur A-liðar greinar 0.1.3 í útboðsgögnum um reynslu af sambærilegu verki og kröfur B-liðar sömu greinar um eigið fé áður en tekin var ákvörðun um velja tilboð fyrirtækisins. Þá bar varnaraðila að einnig kanna hvort að lægstbjóðandi væri í skilum með opinber gjöld og lífeyrissjóðsiðgjöld starfsmanna sinna í samræmi við kröfur c-liðar greinar 0.1.3, sbr. einnig 4. mgr. 68. gr. og 4. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016.

Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér þau gögn sem bjóðendur skiluðu við meðferð útboðsins. Verður hvorki séð að lægstbjóðandi hafi skilað inn gögnum til að sýna fram á að kröfur greinar 0.1.3 í útboðsgögnum um tæknilega og faglega getu og fjárhagsstöðu hafi verið uppfylltar né að varnaraðili hafi kallað eftir slíkum gögnum. Eins og áður hefur verið rakið beindi kærunefnd útboðsmála fyrirspurn til varnaraðila 16. febrúar 2022 og óskaði meðal annars eftir upplýsingum um hvort og þá hvernig mat hefði farið fram af hálfu varnaraðila á því hvort bjóðendur uppfylltu kröfur greinar 0.1.3 í útboðsgögnum um hæfni og reynslu og kröfur um eigið fé. Varnaraðili svaraði fyrirspurninni degi síðar og tók meðal annars fram að þau gögn sem hann hefði fengið frá bjóðendum hefðu verið fullnægjandi til að leggja mat á reynslu þeirra og að kærunefnd útboðsmála hefði þau gögn undir höndum. Að því er varðar kröfur um eigið fé tók varnaraðili fram að hann hefði ekki kallað eftir slíkum gögnum frá bjóðendum. Varnaraðili útskýrði að hann hefði flett bjóðendum upp á Creditinfo og hefði auk þess haft undir höndum fjárhagsgögn frá lægstbjóðanda vegna aðkomu hans að fyrra útboði og að þessi gögn staðfestu fjárhagslegt hæfi fyrirtækisins. Með fyrirspurn kærunefndar útboðsmála 17. febrúar 2022 beindi nefndin því til varnaraðila að upplýsa um hvort mat hefði verið lagt á hæfi lægstbjóðanda varðandi reynslu af sambærilegum verkum áður en tekin var ákvörðun um val tilboðs og nákvæmlega hvaða gögn hefðu legið til grundvallar því mati. Í svari varnaraðila við þessari fyrirspurn nefndarinnar var meðal annars tekið fram að hann hefði nýlega kynnt sér lægstbjóðanda með ítarlegum hætti vegna aðkomu fyrirtækisins að hönnun og efnisútvegun í öðrum verkþætti fyrir byggingu flugskýlisins. Varnaraðila hefði því þegar verið „kunnugt um fjölda verkefna sem lægstbjóðandi hefur unnið sem að mati varnaraðila teljast sambærileg að umfangi tæknilega og fjárhagslega“ og að varnaraðili hefði einnig fengið „upplýsingar um samstarfsaðila lægstbjóðanda og kynnti sér þá sjálfur á grundvelli opinberra gagna“. Varnaraðili lagði ekki fram frekari gögn eða upplýsingar með svörum sínum við framangreindum fyrirspurnum kærunefndar útboðsmála.

Svo sem fyrr segir verður ekki séð að gögn um sambærileg verk lægstbjóðanda eða samstarfsaðila hans eða gögn um fjárhagsstöðu fyrirtækisins hafi verið á meðal tilboðsgagna fyrirtækisins. Þessu til viðbótar verður ekki séð að staðfestingar frá viðeigandi aðilum um að lægstbjóðandi hafi verið í skilum með opinber gjöld eða lífeyrissjóðsiðgjöld hafi verið á meðal tilboðsgagna fyrirtækisins. Varnaraðili hefur ekki lagt fram önnur gögn sem hann kann að hafa aflað eða fengið afhent í tengslum við mat á hæfi lægstbjóðanda við meðferð útboðsins eða gögn sem hann kann að hafa haft í fórum sínum vegna aðkomu lægstbjóðanda að öðrum verkþáttum við byggingu flugskýlisins. Þykir rétt að varnaraðili beri hallann af skorti á gögnum og upplýsingum á þessu frumstigi málsins. Með greinargerðum sínum lögðu bæði varnaraðili og lægstbjóðandi fram gögn um sambærileg verk þess síðarnefnda og annarra fyrirtækja sem munu koma að verkinu af hans hálfu. Þrátt fyrir að þau gögn kunni að sýna fram á að uppfylltar séu hæfniskröfur A-liðar greinar 0.1.3 þykir ekki verða framhjá því litið að gögnin bera með sér að hafa verið útbúin sérstaklega eftir að kæra málsins var móttekin af hálfu nefndarinnar. Verður þannig ekki séð að umrædd gögn hafi legið til grundvallar mati varnaraðila á hæfni fyrirtækisins við meðferð útboðsins.

Á þessu stigi málsins og að virtum fyrirliggjandi gögnum liggur ekkert haldbært fyrir í málinu um að varnaraðili hafi framkvæmt fullnægjandi mat á því hvort að lægstbjóðandi hafi uppfyllt skilyrði greinar 0.1.3 í útboðsgögnum áður en tekin var ákvörðun um val á tilboði hans. Þegar af þessari ástæðu verður að leggja til grundvallar að verulegar líkur hafi verið leiddar að broti gegn lögum nr. 120/2016 við hið kærða útboð og að þetta brot geti leitt til ógildingar á ákvörðunum eða öðrum athöfnum varnaraðila. Verður kröfu varnaraðila um afléttingu þeirrar sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar sem komst á með kæru í málinu því hafnað, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016.

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Öryggisfjarskipta ehf., um að aflétt verði banni við samningsgerð milli varnaraðila og Límtré Vírnets ehf. í kjölfar útboðsins „Flugskýli Landhelgisgæslan. Hönnun og framleiðsla krosslímdra timbureininga og klæðningar ásamt uppsetningu“.


Reykjavík, 4. mars 2022


Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir

Dóra Sif Tynes


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira