Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 502/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 502/2021

Fimmtudaginn 28. október 2021

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, dags. 9. september 2021, um að synja umsókn hennar um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. til 31. ágúst 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 26. september 2021 vegna ákvörðunar þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness frá 9. september 2021 um að synja umsókn hennar um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. til 31. ágúst 2021.

Með erindi til kæranda, dags. 29. september 2021, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir upplýsingum um hvort fyrir lægi ákvörðun frá áfrýjunarnefnd velferðarráðs í máli hennar. Svar barst frá kæranda daginn eftir þess efnis að hún vissi ekki til þess, málið væri í ferli. Með erindi til Reykjavíkurborgar, dags. 19. október 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort kærandi hefði skotið ákvörðun þjónustumiðstöðvar til áfrýjunarnefndar velferðarráðs. Svar barst samdægurs þess efnis að málið hefði ekki verið borið undir áfrýjunarnefndina.

II.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, dags. 9. september 2021, um synjun á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. til 31. ágúst 2021.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Um fjárhagsaðstoð er fjallað í 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í 3. mgr. 6. gr. er þó tekið fram að sveitarstjórn geti ákveðið í samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins að áður en hægt sé að kæra stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 1. mgr., skuli máli fyrst skotið til félagsmálanefndar eða annars tiltekins aðila innan stjórnsýslu sveitarfélaga. Nýti sveitarstjórn þessa heimild skal málsaðila leiðbeint bæði um málskot og kæruleið þegar ákvörðun í máli er kynnt honum og skal niðurstaða liggja fyrir innan 30 daga.

Í athugasemdum við 3. gr. í frumvarpi til laga nr. 37/2018 um breytingu á lögum nr. 40/1991 er vísað til þess að breytingin komi til vegna orðalags í þágildandi lögum um að endanleg afstaða félagsmálanefndar þurfi að liggja fyrir áður en ákvörðun verði kærð. Það hafi valdið vafa um heimildir starfsmanna og hvaða réttaráhrif verði bundin við afgreiðslu starfsmanna á umsóknum um þjónustu. Þá sé einnig mismunandi hvernig framkvæmdin sé á milli sveitarfélaga og mismunandi hversu mikið félagsmálanefndir í raun komi að ákvarðanatöku í einstaka málum. Í stærri sveitarfélögum sé þessi innri endurskoðun eða endurupptaka mála mjög virk, til dæmis í Reykjavík þar sem starfandi sé sérstök áfrýjunarnefnd innan velferðarsviðs og hafi það fyrirkomulag reynst vel. Í öðrum sveitarfélögum hafi verið farin sú leið að líta á afgreiðslu starfsmanna sem fullnaðarafgreiðslu mála þar sem félagsmálanefnd setji reglur og marki stefnu en komi minna að einstaklingsmálum. Það þætti því rétt að fela sveitarstjórnum að taka afstöðu til þess hvernig þessu yrði háttað og gerð var sú krafa að það lægi skýrt fyrir hvort afgreiðslu starfsmanna mætti kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála eða hvort fyrst þyrfti að skjóta henni til félagsmálanefndar. Slík innri endurskoðun þurfi að vera skjótvirk og megi ekki leiða til óþarfa tafa á málinu. Þá kemur fram í almennum athugasemdum um meginefni frumvarpsins að lagðar séu til breytingar á skipulagi félagsþjónustu innan sveitarfélaga til samræmis við endurskoðuð sveitarstjórnarlög frá árinu 2011. Breytingarnar lúti líka að því að skýra feril ágreiningsmála og kæra innan stjórnkerfisins.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. samþykktar fyrir velferðarráð Reykjavíkurborgar fer velferðarsvið Reykjavíkurborgar með framkvæmd félagsþjónustu á grundvelli laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 4. gr. samþykktarinnar kemur fram að starfsmenn velferðarsviðs og þjónustumiðstöðva leysi úr málum einstaklinga á verksviði velferðarráðs á grundvelli þeirra reglna sem gildi á velferðarsviði Reykjavíkurborgar á hverjum tíma. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samþykktarinnar verður ákvörðun starfsmanna samkvæmt 2. mgr. þó ætíð skotið til áfrýjunarnefndar velferðarráðs til endanlegrar afgreiðslu, sbr. 13. gr. Þar segir að ákvörðunum starfsmanna velferðarsviðs og þjónustumiðstöðva í einstaklingsmálum, sbr. 4. gr., sé unnt að skjóta til áfrýjunarnefndar velferðarráðs til endanlegrar ákvörðunar. Endanleg ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs sé skilyrði fyrir því að unnt sé að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. heimild í 6. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Af framangreindu er ljóst að það er nauðsynlegur undanfari kæru málsins, sem hér um ræðir til úrskurðarnefndarinnar, að það hljóti fyrst afgreiðslu áfrýjunarnefndar velferðarráðs. Óumdeilt er að kærandi bar hina kærðu ákvörðun ekki undir áfrýjunarnefnd velferðarráðs og er málið því ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira