Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 040/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 40/2021

Föstudaginn 27. ágúst 2021

 

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Aðalsteinn Sigfússon sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. janúar 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 21. desember 2020 vegna umgengni við D, og E.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul og drengurinn E er X ára gamall. Kynforeldrar barnanna voru svipt forsjá þeirra með dómi Hæstaréttar Íslands 10. mars 2020 og lúta bæði börnin forsjá Barnaverndarnefndar B. Bæði börnin eru í varanlegu fóstri. Kærandi er móðir barnanna.

Í dómi Hæstaréttar Íslands eru atvik málsins rekin. Fram kemur að upphaf málsins sé að rekja til tilkynningar til Barnaverndarnefndar B þann 26. október 2015 þess efnis að grunur væri um að faðir D hefði haft í frammi háttsemi gagnvart henni sem svaraði til kynferðislegrar misnotkunar. Í kjölfar tilkynningar til lögreglu og skýrslutöku hafi faðirinn verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hann hefur ávallt neitað að hafa framið kynferðisbrot. Við skýrslutöku af börnum kæranda 29. október 2015 í Barnahúsi höfnuðu þau bæði því að faðir hefði beitt þau kynferðislegu ofbeldi. Við upphaf málsins hafi könnun starfsmanns Barnaverndarnefndar B leitt í ljós að á heimili fjölskyldunnar hafi verið mikil óreiða og börnin illa hirt. Stúlkan gaf á ný skýrslu í Barnahúsi 8. desember 2015 og lýsti því þá að faðir hennar hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Með samþykki móður barnanna hafi verið ákveðið að vista börnin tímabundið utan heimilis á vegum barnaverndarnefndarinnar og stóð sú vistun til 9. desember 2015. Er börnin fóru aftur í umsjón móður var faðirinn fluttur af heimilinu.

Þann 21. desember 2015 var gerð áætlun um frekari meðferð málsins samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Í kjölfar þess að börnin komu aftur til móður fóru starfsmenn Barnaverndarnefndar B að hafa áhyggjur af högum þeirra þar sem talið væri að D væri í samskiptum við föður sinn og að hún fengi ekki stuðning móður sinnar. Þá hafi móðir lýst þeirri afstöðu sinni í samtali við tilsjónaraðila og á fundi með kennurum 11. janúar 2016 að tilkynning um kynferðisofbeldi væri byggð á misskilningi, barnið hefði ruglast í frásögn sinni og faðirinn ekki gert það sem hann hafi verið sakaður um. Með úrskurði barnaverndarnefndarinnar 3. febrúar 2016 var stúlkan vistuð utan heimilis foreldra í sex mánuði á grundvelli 26. gr. bvl., sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. bvl., og var sú niðurstaða staðfest með úrskurði héraðsdóms 16. mars 2016. Með úrskurði héraðsdóms 26. apríl 2016 var fallist á kröfu barnaverndarnefndarinnar um frekari vistun stúlkunnar utan heimilis. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 19. maí 2016. Stúlkan gaf aftur skýrslu í Barnahúsi 23. ágúst 2016 þar sem hún lýsti kynferðisbrotum föður og upplýsti að hún hefði áhyggjur af bróður sínum. Tók hún fram að hún vildi að hann byggi hjá sér svo að hann væri öruggur gagnvart föður.

Í ágúst 2016 flutti móðir lögheimili til F og tók drenginn úr leikskóla í G. Vegna upplýsinga um að drengurinn væri í miklum samvistum við föður úrskurðaði barnaverndarnefndin 1. september 2016 á grundvelli 31. gr. bvl. að drengurinn skyldi vistaður á sama heimili og stúlkan. Þann 5. september 2016 barst barnaverndarnefnd tilkynning frá fósturmóður að drengurinn hefði upplýst um kynferðisofbeldi föður. Barnaverndarnefndin lagði fram kæru til lögreglu og tók málefni drengsins fyrir á fundi 13. september 2016. Þann 14. september 2016 var rætt við drenginn í Barnahúsi þar sem hann lýsti kynferðisofbeldi föður. Þann 15. september 2016 úrskurðaði barnaverndarnefndin um vistun drengsins utan heimilis í tvo mánuði. Krafa um áframhaldandi vistun drengsins kom ekki fram í tæka tíð og ákvað barnaverndarnefndin þess í stað 22. nóvember 2016 að drengurinn skyldi fara í neyðarvistun samkvæmt 31. gr. bvl. og úrskurðaði að drengurinn skyldi kyrrsettur á fósturheimili í allt að sex mánuði. Með úrskurði héraðsdóms 22. september 2016 var fallist á að drengurinn skyldi vistaður áfram utan heimilis í allt að sex mánuði. Með úrskurði héraðsdóms 13. mars 2017 var ákveðið að stúlkan skyldi áfram vistuð utan heimilis í allt að sex mánuði. Þann 8. júní 2017 kom fram í greinargerð tveggja félagsráðgjafa barnaverndarnefndar það mat þeirra að hvorugt foreldranna væri til þess fallið að sjá um börnin og sinna þörfum þeirra. Gerðu þeir þá tillögu að foreldrar yrðu svipt forsjá með dómi og börnin vistuð á vegum barnaverndarnefndarinnar til 18 ára aldurs. Þann 28. júní 2017 tók talsmaður barnanna viðtöl við þau í því skyni að fá fram afstöðu þeirra til umgengni við kæranda. Fram kom í viðtölum talsmanns við börnin að stúlkan vildi hitta kæranda einu sinni á hálfs mánaðar fresti og þá með bróður sínum, en hún treysti ekki kæranda að vera einni með honum. Drengurinn hefði verið fámáll og sagt aðspurður að erfitt væri að tala um þessa hluti. Hann sagðist vilja hitta móður sína oftar en hann gerði, en þá með systur sinni og þau vilja búa áfram hjá fósturforeldrum.

Þann 15. mars 2017 var faðir barnanna ákærður og honum gefið að sök kynferðisbrot gegn börnunum. Með héraðsdómi 22. nóvember 2017 var hann sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og var dómnum ekki áfrýjað. Þann 4. júlí 2017 bókaði barnaverndarnefndin að foreldrar væru ekki hæf til að fara með forsjá barna sinna og að krafist yrði sviptingar forsjár fyrir dómi með vísan til a-, c- og d-liða 1. mgr. 29. gr. bvl. Með héraðsdómi 16. júlí 2018 var fallist á kröfu barnaverndarnefndar um að foreldrar skyldu svipt forsjá barna sinna. Dóminum var áfrýjað til Landsréttar sem með dómi 1. mars 2019 ómerkti héraðsdóm og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar. Þann 16. ágúst 2018 úrskurðaði barnaverndarnefndin um umgengni barnanna við kæranda á grundvelli 4. mgr. 74. gr. bvl. Var það niðurstaða barnaverndarnefndarinnar að umgengni barnanna við kæranda skyldi vera einu sinni í mánuði, tvo tíma í senn, undir eftirliti þar til Landsréttur kvæði upp sinn dóm. Þann 10. maí 2019 úrskurðaði barnaverndarnefndin aftur um óbreytta umgengni kæranda við börnin. Með dómi héraðsdóms þann 6. júní 2019 var fallist á kröfu barnaverndarnefndarinnar um sviptingu forsjár. Með dómi Landsréttar 1. nóvember 2019 voru foreldranir sýknaðir af kröfu barnaverndarnefndar um sviptingu forsjár barna sinna.. Hæstiréttur veitti áfrýjunarleyfi 17. desember 2019 á þeim grunni að málið hefði verulegt almennt gildi í barnarétti, einkum að því er varðaði hversu mikið vilji barna ætti að vega í málum er snertu þau með tilliti til aðstæðna allra. Með dómi Hæstaréttar Íslands 10. mars 2020 í máli nr. 58/2019 var fallist kröfu barnaverndarnefndarinnar um forsjársviptingu með vísan til d-liðar 1. mgr. 29. gr. bvl.

Krafa foreldra um umgengni við börnin í varanlegu fóstri var tekin fyrir á fundum Barnaverndarnefndar B 21. júlí 2020 og 8. september 2020 og samþykkt bókun um umgengni foreldra við börnin. Þrátt fyrir tilraunir starfsmanna hafi foreldrar ekki brugðist við bókun barnaverndarnefndarinnar um umgengni og því hafi ekki verið gerður samningur við foreldra um umgengni við börnin. Málið var tekið til úrskurðar á fundi barnaverndarnefndarinnar 21. september 2020.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Umgengni systkinanna, D, og E, við móður sína, A verði fjórum sinnum á ári í sex klst. í senn, laugardaginn fyrir afmæli stúlkunnar, laugardaginn fyrir afmæli drengsins, á skírdag og annan í jólum. Auk þess verði umgengni drengsins við móður síðasta laugardag í júní ár hvert í sex klst. að því tilskyldu að hann sé fús til að fara án systur sinnar. Eftirlit verði í upphafi umgengni eða fyrsta klukkutímann þetta árið, en ef vel gengur falli eftirlit niður. Móðurömmu verði heimilt að koma í umgengni með móður í samráði við hana.

Engin umgengni verði við föður.“

Lögmaður kæranda lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 19. janúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 28. janúar 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 26. febrúar 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. mars 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar og veittur frestur til að gera athugasemdir. Viðbótarathugasemdir lögmanns bárust með bréfi, dags. 12. júlí 2021, og voru þær sendar barnaverndarnefndinni með bréfi, dags. 16. júlí 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þann veg að ákveðið verði að umgengni hennar við börnin verði aukin þannig að umgengni hennar við börnin fari fram tvisvar sinnum í mánuði, í að minnsta kosti fjórar klukkustundir í senn þar sem bæði börnin komi í umgengni á sama tíma og því til viðbótar að fram fari mánaðarleg umgengni við stúlkuna með kæranda í fjóra tíma í senn og sambærileg umgengni kæranda við drenginn tvisvar í mánuði. Þá sé jafnframt gerð krafa um að kærandi fái að njóta umgengni við börnin einu sinni í mánuði eða á tveggja mánaða fresti þannig að þau gisti hjá henni eina nótt, svo sem frá hádegi á laugardegi til hádegis á sunnudegi. Jafnframt verði ákveðin umgengni í jólaleyfi, í tvo sólarhringa frá hádegi á jóladag. Að lokum er þess krafist að ákveðið verði með úrskurði að börnin megi hafa síma- og netsamskipti við móður að eigin vild og eigi sjaldnar en vikulega.

Krafa kæranda sé byggð á því að hún og börn hennar eigi rétt á samvistum við hvert annað.  Börnin séu ung að árum, eða aðeins X og X ára gömul, hafa verið höfð í vistun meira eða minna síðan 2015 og þannig verið haldið frá kæranda þó að hún hafi í engu brotið gegn þeim. Þá hafi því ítrekað verið beitt gegn kæranda að hún hafi ekki lagt nægilegan trúnað á að börnin hafi orðið fyrir brotum af hálfu föður sem hann hafi þó verið sýknaður af í nóvember 2017.

Um málsatvik og ítarlegar athugasemdir kæranda við málsmeðferð barnaverndarnefndar sé aðallega vísað til fyrri kæru hennar til úrskurðarnefndar varðandi umgengni hennar við börnin, dags. 28. september 2018. Það sem mestu máli skiptir þar sé að endanleg niðurstaða málsins fyrir dómi hafi verið látin ráðast af því að börn hennar vildu eigi lengur fara aftur heim til hennar og að þau óttist hana og föður sinn, og rekur kærandi það fyrst og fremst til þess hvernig börnunum hafi verið haldið frá henni með lítilli sem engri umgengni allt frá byrjun málsins.

Mál kæranda og barna hennar sé að mörgu leyti einstætt vegna langs málsmeðferðartíma, en upphaf málsins var í október 2015 og því lauk með dómi Hæstaréttar í mars 2020. Málið fór í tvígang í héraðsdóm, í tvígang í Landsrétt og í öllum þeim dómum voru gerðar alvarlegar athugasemdir við meðferð málsins hjá Barnaverndarnefnd B, til dæmis hafi verið tekið undir athugasemdir Barnaverndarstofu varðandi leyfi til vistunar barnanna á núverandi vistheimili, átalin ófagleg nálgun starfsmanna hvað varðar meint kynferðisbrot, að kærandi hafi ekki notið sannmælis hjá starfsmönnum barnaverndar og að allt of lítið hafi verið aðhafst af hálfu nefndarinnar til þess að styrkja tengslamyndun hennar við börn sín fyrr í ferlinu eða til að auka traust hennar í garð barnaverndar og ekki síst að takmörkuð hafi verið verulega umgengni barnanna við móður allan málsmeðferðartíman. Skort hafi á samvinnu og samráð varðandi málefni stúlkunnar og margt fleira. Í kjölfarið á þessum alvarlegu athugasemdum brást barnaverndarnefndin hins vegar ekki við með því að bæta úr vegna athugasemda sem gerðar voru við störf hennar, heldur gekk lengra í því að rjúfa tengsl kæranda og barnanna. Byggir kærandi á því að í því hafi falist brot á meginreglum stjórnsýsluréttar um vandaða stjórnsýsluhætti og brot gegn ákvæðum stjórnsýslulaga um meðalhóf, sbr. einnig 7. mgr. 4. gr. bvl.

Með dómi Landsréttar, uppkveðnum þann 1. nóvember 2019, hafi kærandi og faðir barnanna verið sýknuð af kröfu barnaverndarnefndar um sviptingu forsjár en þann 23. desember sama ár gaf Hæstiréttur Íslands út áfrýjunarleyfi vegna þess dóms og með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 10. mars 2020, voru foreldrarnir svipt forsjá beggja barnanna. Fram að dómi Hæstaréttar hafi verið  unnið að því að byggja aftur upp tengsl barnanna við kæranda, eftir ítrekaðar kröfur þess efnis af hálfu kæranda, og hafi verið hafin framkvæmd á áætlun í því skyni í janúar 2020. Fyrir það hafði umgengni þó verið aukin og gekk vel, auk þess sem eftirlit með henni hafi verið fellt niður. Fenginn hafi verið sérfræðingur til aðstoðar við að vinna að aðlögun barnanna aftur heim og til stóð að drengurinn fengi loks að gista hjá kæranda miðvikudaginn 11. mars 2020, sem hann var mjög tilbúinn til að gera. Daginn áður kvað Hæstiréttur Íslands upp sinn dóm og stöðvaði barnavernd þá skyndilega og án fyrirvara alla umgengni barnanna við kæranda þannig að hún komst ekki á aftur fyrr en í september 2020 og hafi þá aftur orðið mun minni en fyrir síðari dóm Landsréttar. Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur af hálfu kæranda bárust engin svör eða ákvarðanir, hvað þá að yrði af framkvæmd umgengni fyrr en í septembermánuði. Þá gekk umgengni barnanna við kæranda vel, en hún hafi einu sinni fengið að hitta þau síðan, á annan í jólum. 

Hvað varðar málsmeðferðina sé tekið fram að kærandi fékk eftir ítrekaðar ítrekanir tillögur starfsmanna um umgengni í lok maí 2020, með greinargerð, dags. 13. maí 2020, þar sem gerð hafi verið tillaga um óverulega umgengni, eða í fjóra daga á ári og einn auka dagpart fyrir drenginn.  Málið hélt svo áfram allt sumarið 2020 í einhverri málsmeðferð án ákvörðunar, en óskað hafi verið eftir nákvæmum tillögum frá kæranda í júlímánuði og voru þær sendar barnavernd með bréfi, dags. 20. júlí 2020. Með bréfi barnaverndarnefndar, dags. 10. september 2020, barst loks bókun nefndarinnar um umgengni, sbr. meðfylgjandi bréf.

Kærandi sendi kæru vegna málsins til Mannréttindadómstóls Evrópu í maí 2020 og með bréfi dómstólsins, dags. 27. ágúst 2020, var málinu gefið málsnúmer og tilkynnt um formsatriði varðandi málsmeðferðina, en ekki liggur enn fyrir hvort málið verður tekið til efnismeðferðar.  Þá hafi kærandi ákveðið að undirbúa málshöfðun gegn barnaverndarnefnd með kröfu um að henni verði veitt forsjá barna sinna að nýju, með heimild í 2. mgr. 34. gr. bvl., en ekki hafi verið unnt að þingfesta það mál fyrr en 10. mars 2021.

Af hálfu kæranda sé byggt á því að hún og börn hennar eigi rétt á samvistum við hvert annað og að úrskurður umgengni sé allt of lítil með tilliti til atvika málsins, aldurs og þroska barnanna og núverandi stöðu, ekki síst með tilliti til þess tengslarofs sem hafi myndast, einkum vegna óréttmætra ákvarðana. Þá byggi kærandi á því að ekkert hafi réttlætt minnkaða umgengni kæranda við börnin undir rekstri málsins eða eftir að því lauk, enda hafi slík skerðing auk þess verið þvert á tilmæli í uppkveðnum dómum og hefði því þurft að færa sértaklega rök fyrir skerðingunni, en það hafi ekki verið gert.

Kærandi byggi á því að það liggi ekkert fyrir í málinu um að samvistir barnanna við hana séu skaðleg fyrir þau eða þjóni ekki þeirra hagsmunum. Þar skipti ekki síst máli að börnin séu á vistheimili þar sem vistforeldrar séu að nálgast X og hafa það að aðalatvinnu að vista börn fyrir barnaverndaryfirvöld. Ekki séu því líkur á börnin eigi þar framtíðarheimili eða stuðning þegar þau verða fullorðin, eða á aldursbilinu 20-30, en þá þurfa íslensk ungmenni alla jafna að geta sótt félagslegan og ekki síst fjárhagslegan stuðning til foreldra sinna. Börnin séu nú komin á unglingsár og þurfa að geta treyst á fjölskylduna sína þegar þau eldast, að geta átt tengsl við hana og bakland, en sú umgengni sem ákveðin hafi verið er ekki til þess fallin að treysta og byggja upp þau tengsl.  

Þá komi ítrekað fram í gögnum málsins að umgengni barnanna við kæranda hafi alltaf gengið vel, ekki síst undanfarin ár og eftir að hún var aukin þegar Landréttur sýknaði kæranda af kröfu um sviptingu forsjár. Skýrsla þess sérfræðings sem fenginn hafi verið að málinu, H, sýni þetta, enda taldi hún ekkert því til fyrirstöðu að börnin færu í gistingu hjá kæranda um tveimur mánuðum eftir að hún kom að málinu. Þá sýni skýrslur eftirlitsaðila að þeim komi vel saman og njóti samvistanna, ekki síst fyrst eftir að þau voru vistuð gegn vilja kæranda. 

Réttur foreldris til að sinna börnum sínum og njóta samvista við þau séu grundvallarréttindi sem njóta bæði verndar í landsrétti og samkvæmt alþjóðlegum mannréttindareglum. Í því sambandi sé sérstaklega bent á að kærandi hafi aldrei verið sökuð um að brjóta á nokkurn hátt gegn börnum sínum, og var eftirliti upphaflega komið á til að tryggja rannsóknarhagsmuni og svo virðist bara hafa gleymst að taka það aftur. Hefur barnaverndarnefnd byggt á því að eftirlitið sé vegna ótta barnanna og sé til að bæta líðan þeirra. Kærandi mótmæli því, ekkert í fari barnanna í umgengni bendir til þess að þau séu hrædd í umgengni við hana. Þá væri mun mikilvægara að vinna með þann ástæðulausa ótta ef hann væri til staðar en ekkert hafi verið unnið í þeim þætti hjá barnaverndinni.

Af hálfu kæranda sé sérstaklega vísað til forsendna í dómi Landsréttar þar sem tekið var vel á því hvaða afleiðingar vanræksla barnaverndar á að sinna umgengni barnanna við móður gætu hafa haft, sem dregur fram aðalatriðin í málinu, bæði varðandi forsjá og umgengni. Það er að börnunum hafi verið haldið frá kæranda, umgengni verið sett undir eftirlit og þetta ástand hafi varað í nærfellt fjögur ár sem hafi mótað mjög og stýrt síðan afstöðu barnanna. Um þetta segir á bls. 14 í dóminum:

,,Við mat á því hversu mikið vægi meintum vilja barnanna verði gefið í málinu þarf að hafa í huga að börnin hafa verið vistuð lengi utan heimilis. Umgengni þeirra við móður hefur verið afar takmörkuð og við föður nánast engin. Þá verður að meta hvort þau hafi aldur og þroska til að skilja langvarandi og víðtækar afleiðingar þess að verða varanlega tekin úr forsjá foreldra sinna. Enn fremur þarf að huga að því hvernig meintur vilji barnanna hafi myndast. Ætla má að hann hafi mótast að einhverju marki af því að umgengni hefur lengst af farið fram undir eftirliti sem kann að hafa átt þátt í að móta þann skilning þeirra að þeim sé ekki óhætt í umsjá móður sinnar án þess að utanaðkomandi aðili sé viðstaddur. Að framangreindu virtu getur vilji barnanna ekki ráðið úrslitum í málinu.“

Hinn kærði úrskurður byggi meðal annars á því að fram hafi komið fram hjá dóttur kæranda að hún vilji ekki hitta móður oftar. Ekkert sé hins vegar fjallað um það að stúlkan hafi í hvert sinn er hún hefur verið spurð viljað hafa umgengni eins og hún er á því tímamarki og engu viljað breyta. Þannig vildi hún engu breyta þegar umgengni hafi verið tvisvar í mánuði, en samt sem áður hafi umgengin verið minnkuð. Byggir kærandi á því að miðað við frásögn barnsins virðist hún sætta sig við ástandið á hverjum tíma og ekki vilja breytingar. Þó sé ekkert sem gefi til kynna að hún vilji ekki áfram sterk tengsl og ríkulega umgengni við kæranda. Þá er sá verulegi annmarki á því hvernig afstöðu barnanna hafi verið aflað að í öllum tilvikum hefur aðeins verið rætt við börnin á heimili vistforeldra, aldrei utan heimilis, svo sem í skóla eða á öðrum hlutlausum stað. Því sé skiljanlegt að stúlkan tjái sig ekki um vilja til breytinga á umgengni þannig að hún verði aukin. Hafa börnin bæði lýst vilja sínum til aukinnar og breyttrar umgengni, í umgengni sinni hjá móður. Þrátt fyrir þessa annmarka á rannsókn á afstöðu barnanna hefur það komið afdráttarlaust fram hjá drengnum að hann vill hitta móður sína á hverjum fimmtudegi, þ.e. vikulega. Byggir kærandi á því að ekkert tilefni sé til annars en að fara að þessum vilja barnsins og úrskurða um umgengni hans við kæranda vikulega og þannig að hann fái að gista hjá henni.

Þá byggi kærandi á því að ekkert tilefni sé til þess að úrskurða um að móðuramma barnanna eigi umgengni við þau samtímis því sem að kærandi eigi við þau umgengni. Umgengnisréttur kæranda sé sjálfstæður réttur hennar, rétt eins og umgengnisréttur ættingja er sjálfstæður réttur þeirra og engin lagaskilyrði fyrir því að úrskurða um að ömmur geti gengið inn í umgengnisrétt kæranda í tiltekin skipti.

Að endingu sé jafnframt vísað til þeirra sjónarmiða sem fram komu vegna úrskurðar Barnaverndarnefndar B um umgengni hennar og barnanna svo og forsendur og rökstuðning í dómi Landsréttar.

Í athugasemdum kæranda, dags. 12. júlí 2021, við greinargerð Barnaverndarnefndar B er áréttað að sú umgengni sem ákveðin hafi verið af barnaverndarnefnd sé alltof líti með tilliti til tengsla barna við kæranda, aldurs þeirra og hagsmuna yfirleitt, enda þurfi börnin að geta haldið eðlilegum tengslum við móður og móðurfjölskyldu til að geta horfið aftur til hennar að afloknu fóstri. Ekki síst þar sem fósturforeldrar séu komin á áttræðisaldur og því fyrirséð að þau verði ekki til staðar til að styðja börnin til lengri tíma eftir að fóstri þeirra er lokið, auk þess sem fósturforeldrar virðast hafa fóstur að atvinnu og því um stóran hóp barna að ræða sem þau hafa annast fyrir barnaverndaryfirvöld. Þá sé fullt tilefni til þess að auka umgengni barnanna við hana, enda vilji þau verja meiri tíma með henni og fá svigrúm til að eiga skemmtilegar stundir með henni í lengri tíma, svo sem með gistingu hjá henni og hefur sá vilji komið skýrt fram, ekki síst hjá syni kæranda.

Mál kæranda vegna barnanna sé nú komið til meðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu og með tilliti til þess að málið hafi mætt kröfum dómstólsins um mikilvægi máls og ágalla á málsmeðferð ætti það enn frekar að leiða til frekari umgengni kæranda við börnin.

Í greinargerð barnaverndarnefndarinnar sé vísað til þess að þær ákvarðanir, sem teknar voru um umgengni, hafi verið teknar með tilliti til vilja og hagsmuna barnanna. Fyrir liggi skýr vilji barnanna um að eyða meiri tíma með móður sinni, þá sérstaklega drengsins, og sé litið fram hjá vilja hans í þessum efnum. Auk þess byggi greinargerðin á því að ítrekað eigi að hafa komið fram hjá dóttur kæranda að hún vilji ekki hitta hana oftar. Ekkert sé hins vegar fjallað um að það að stúlkan hafi í hvert sinn sem hún hafi verið spurð viljað hafa umgengni eins og hún sé á því tímamarki og engu breyta. Þannig vildi hún engu breyta þegar umgengni hafi verið tvisvar á mánuði, en samt hafi umgengni verið minnkuð. Kærandi byggi á því að miðað við frásögn barnsins virðist hún sætta sig við ástandið á hverjum tíma og ekki vilja breytingar.

Þá sé verulegur annmarki á því hvernig afstöðu barnanna hafi verið aflað að í öllum tilvikum hafi aðeins verið rætt við börnin á heimili vistforeldra, aldrei utan heimilis, svo sem í skóla eða á öðrum hlutlausum stað og að auki séu engin ný gögn fyrirliggjandi um þetta atriði. Þrátt fyrir þessa annmarka á rannsókn á afstöðu barnanna hafi það komið afdráttarlaust fram hjá drengnum að hann vill hitta kæranda á hverjum fimmtudegi, þ.e. vikulega. Kærandi byggi á því að ekkert tilefni sé til annars en að fara að þessum vilja barnsins og úrskurða um umgengni hans við kæranda vikulega.

Einnig sé byggt á því í greinargerð barnaverndarnefndar að börnin sýni af sér mikla vanlíðan í kringum umgengni. Það sé hins vegar í hróplegu ósamræmi við ágæta líðan barnanna í umgengni, sem hafi gengið vel, og það sé heldur ekki í samræmi við vilja drengsins eins og hann lýsir fyrir talsmanni fyrir dómurum málsins.

Ekkert hafi komið fram í greinargerðinni um hvernig fyrirvaralaus taka barnanna á unga aldri af heimili foreldra sinna geti leitt til áfalls, svo og afleiðinga af því, og þá ekki heldur hvernig þessar ítrekuðu fósturráðstafanir geti haft áhrif á meinta viljaafstöðu barnanna og leitt til tengslarofs við kæranda. Þvert á móti sé það staðfest með ítarlegum hætti í niðurstöðu dóms héraðsdóms hvernig barnaverndarnefnd hafi ítrekað brotið gegn kæranda í málsmeðferðinni, en í engu svo tekið tillit til þess við ákvörðun um sviptingu forsjár.

Kærandi byggi á því að það liggi ekkert fyrir í málinu frá hlutlausum aðila um að samvistir barnanna við hana séu skaðleg fyrir þau. Þvert á móti sýni skýrslur eftirlitsaðila að þeim komi vel saman og njóti samvistanna, svo sem skýrsla H um það frá júlí 2020. Þegar vistunin haldi svo áfram í allan þann langa tíma sem raun ber vitni, hafi það eðlilega áhrif á tengslin, en á meðan ekki liggi fyrir hvar börnin eigi að vera til frambúðar, beri að verja og vernda tengsl þeirra við kæranda. Það skipti líka máli að kærandi hafi þegar gert kröfu til barnaverndarnefndar, dags. 21. júní 2021, um henni verði veitt forsjá að nýju og verður því máli stefnt fyrir dóm í september 2021, verði ekki orðið við þeirri kröfu. Þannig sé nauðsynlegt að hafa umgengnina eðlilega og rýmri þar til fyrir liggur endaleg niðurstaða um hvar börnin verði.

Réttur foreldris til að sinna börnum sínum og njóta samvista við þau séu grundvallarréttindi sem njóta bæði verndar í landsrétti og alþjóðlegum mannréttindareglum. Þá skipti einnig verulegu máli að það séu aðeins sex ár þar til eldra barnið sé orðið fullorðið og þarf að geta átt tengsl við sína fjölskyldu á fullorðinsárum, hvort sem börnin séu í vistun eða ekki fram til þess. Slík tengsl verða aðeins varin með umgengni sem sé nægjanlega mikil til að fjölskyldan geti átt eðlilegar samverustundir.

Vegna framangreindra krafna kæranda sé jafnframt bent á ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, einkum 3., 6. og 9. gr.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B, dags. 25. febrúar 2021, kemur fram að mál systkinanna hafi verið til meðferðar hjá Barnaverndarnefnd B frá hausti 2015. Börnin hafi verið tekin af heimili sínu fljótlega eftir að málið kom til kasta nefndarinnar og hafa þau verið á fósturheimili lengst af síðan, fyrst í tímabundnu fóstri en undanfarna mánuði í varanlegu fóstri.

Héraðsdómur I hafi kveðið upp dóm þann 16. júlí 2018 um að foreldrar skyldu sviptir forsjá barnanna, dóminum hafi verið áfrýjað til Landsréttar sem ómerkti hann og vísaði heim í hérað og Héraðsdómur I hafi kveðið upp dóm á ný, dags. 6. júní 2019, og niðurstaðan verið sú sama og í fyrra sinnið, þ.e. foreldrar hafi verið sviptir forsjá barnanna. Málinu hafi verið áfrýjað til Landsréttar sem kvað upp dóm þann 1. nóvember 2019 um að foreldrar skyldu sýknaðir af kröfum barnaverndarnefndar um forsjársviptingu, en svo fór að lokum að foreldrar voru sviptir forsjá barnanna með dómi Hæstaréttar þann 10. mars 2020, og hafa börnin verið í varanlegu fóstri síðan.

Mál systkinanna hafi verið lagt fyrir barnaverndarnefnd B þann 8. september 2020 þar sem svohljóðandi bókun var samþykkt:

„Barnaverndarnefnd B samþykkir að umgengni systkinanna D og E við móður sína, A verði með þeim hætti sem lagt er til í fyrirliggjandi greinargerð starfsmanns nefndarinnar. Umgengni verði fjórum sinnum á ári í sex klst. í senn, laugardaginn fyrir afmæli stúlkunnar, laugardaginn fyrir afmæli drengsins, á skírdag og annan í jólum. Auk þess verði umgengni drengsins við móður síðasta laugardag í júní ár hvert í sex klst. að því tilskildu að hann sé fús til að fara án systur sinnar. Eftirlit verði í upphafi umgengni eða fyrsta klukkutímann þetta árið, en ef vel gengur falli eftirlit niður.

Í ljósi afstöðu barnanna til föður síns samþykkir barnaverndarnefnd að engin umgengni verði við hann.“

Áður hafði málið verið lagt fyrir nefndina þann 21. júlí þar sem lögmenn aðila lögðu fram greinargerðir og komu sjónarmiðum skjólstæðinga sinna á framfæri.

Af þeim gögnum sem lögð hafi verið fyrir barnaverndarnefnd, svo og úrskurðarnefndina í fyrri umfjöllunum um málið, meðal annars umsögnum kennara, hafi mátt ráða að líðan barnanna og hegðun hafi verið markvert verri í kringum umgengnisdaga á meðan á tímabundnu fóstri stóð og haft hafi verið eftir kennurum barnanna að þau hafi bæði sýnt óöryggi í kringum þau tímabil. Frá upphafi málsins hafi legið fyrir að stúlkan ætti við mikla kvíðaröskun að stríða og ýmis konar vanlíðan. Eftir því sem á leið hafi hún orðið öruggari með sig og tók að treysta fólki. Vorið 2019 hafi hún verið búin að jafna sig talsvert, farin að fara út með vinum sínum og sækja tómstundir, en eftir dóm Landsréttar hafi henni farið mikið aftur. Hún hafi þá farið að fá kvíðaköst á ný og dregið sig út úr félagslegum samskiptum við jafnaldra. Drengurinn hafi líka átt við vanlíðan að stríða, en samkvæmt upplýsingum frá skóla hans gengur honum nú betur í skóla, virðist vera í meira jafnvægi og vera glaðari.

Eftir að Landsréttur sýknaði foreldra af kröfum barnaverndarnefndar um sviptingu forsjár var hafin aðlögun þeirra að flutningi á heimili móður, eða í janúar 2020. Í fyrstu fóru systkinin tvisvar í viku saman til kæranda í þrjár til fjórar klukkustundir í senn og einu sinni í viku hvort um sig í tvær til þrjár klukkustundir og var umgengnin undir eftirliti. Þetta reyndist stúlkunni mjög erfitt og nokkrum sinnum hafi það komið fyrir að hún neitaði alfarið að fara til kæranda og fór svo að þann 20. febrúar varð að fara með hana á bráðamóttöku Landspítala vegna andlegrar vanlíðanar hennar. Þann 10. mars kvað Hæstiréttur upp dóm sinn um sviptingu forsjár og féll þar með aðlögun niður. Það kom glögglega fram að þær miklu tafir sem urðu á rekstri málsins fyrir dómstólum höfðu slæm áhrif á líðan barnanna og skapaði mikið óöryggi og vanlíðan sem tekið hafi verið eftir, bæði heima og í skóla. Börnin séu nú orðin rólegri og öruggari þar sem öllum málarekstri sé lokið. Talsmaður hafi rætt við börnin í apríl 2020 og þar hafi stúlkan greint frá því að það hefði verið mikill léttir þegar niðurstaða komst í mál þeirra fyrir dómstólum og ljóst varð að þau fengju að vera áfram á fósturheimilinu.

Lögð sé mikil áhersla á það í barnaverndarstarfi að taka tillit til vilja barnanna sjálfra. Systkinin, og einkum stúlkan, séu nú komin á þann aldur að þau geta tjáð vilja sinn umbúðalaust og það hafa þau gert endurtekið, bæði fyrir starfsmönnum barnaverndar, dómurum og talsmönnum. Margoft hafi komið fram hjá stúlkunni að hún vilji ekki hafa meiri umgengni en verið hefur og í nýjustu skýrslu talsmanns hennar, dags. 20. apríl 2020, sé haft eftir henni að hún vilji hitta móður sína um páska, á afmælisdögum, um jól og á þannig dögum. Þá hafi einnig margoft komið fram að þó að drengurinn hafi viljað hitta móður sína oftar, voru á því þeir annmarkar að hann vildi alltaf hafa systur sína með sér til halds og trausts, en hún afsagði að hitta móður þeirra oftar. Lengst af var haft eftirlit með umgengni vegna þess að börnin treystu ekki kæranda og það hafi verið eindreginn vilji þeirra að hafa eftirlitsaðila með. Eftirlit hafi nú verið fellt niður.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir. Með sama hætti eiga kynforeldrar rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Barnaverndarnefnd hafi úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldri og aðra nákomna, samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar.

Systkinin séu nú í varanlegu fóstri sem ætlað sé að vari þar til þau verða 18 ára og hafa þau verið á sama fósturheimili frá hausti 2015. Markmið varanlegs fósturs sé að börn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigið barn sé að ræða. Markmið með umgengni barna í varanlegu fóstri við upprunafjölskyldu sína sé að þau þekki uppruna sinn en ekki að byggja upp eða viðhalda tengslum við þá fjölskyldu. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að því markmiði sé náð með þeirri umgengni sem ákveðin hafi verið í hinum kærða úrskurði. Bent sé á að umgengni við kynmóður samkvæmt úrskurðinum sé talsvert ríflegri en venja standi til þegar um varanlegt fóstur sé að ræða. Að áliti Barnaverndarnefndar B sé nú tími til kominn að friður ríki um börnin á fósturheimilinu, nú þegar langþráð niðurstaða sé loks komin í mál þeirra fyrir dómstólum. Telur nefndin það ganga gegn hagsmunum þeirra að ýfa málið upp enn á ný eða gefa þeim misvísandi skilaboð um hugsanlegar breytingar á högum þeirra eins og fyrirhugað sé af hálfu kæranda. Þá sé það álit nefndarinnar að sú gagnrýni sem kærandi setur fram á fósturforeldra sé í hæsta máta ósanngjörn og ósmekklegt að kastað sé rýrð á þau vegna aldurs þeirra, en heimili þeirra hefur verið systkinunum griðastaður á erfiðri vegferð þeirra undir rekstri dómsmálsins, og þar leið þeim og líður vel og vilja hafa framtíðarheimili sitt. Mikilvægast sé nú fyrir börnin að þau fái frið til að búa í öryggi á fósturheimili sínu, og fái tækifæri til að lifa venjulegu fjöskyldulífi með fósturfjölskyldu sinni. Að mati Barnaverndarnefndar B sé mjög brýnt að friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi þeirra eftir allt sem á undan er gengið og telur nefndin að hagsmunir þeirra krefjist þess að umgengni við upprunafjölskyldu verði ekki meiri en kveðið sé á um í hinum kærða úrskurði.

Fósturforeldrar systkinanna, sem hafa hvað best tekið eftir breytingum á líðan barnanna og hegðun í sambandi við umgengni við kæranda, séu því mótfallin að umgengni verði aukin.

Barnaverndarnefnd hafi tekið margar ákvarðanir og kveðið upp nokkra úrskurði um umgengni systkinanna við foreldra sína og aðra ættingja á meðan þau voru í tímabundnu fóstri, síðast hafi verið kveðinn upp úrskurður þann 10. maí 2019. Hann hafi verið kærður til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti hann með úrskurði sínum, dags. 7. október 2019. Mikilvægt sé að ákvörðun um umgengni sé tekin með hagsmuni barnanna í huga og að teknu tilliti til vilja þeirra, en ekki vilja eða hagsmuna foreldra. Hefur nefndin ætíð kappkostað að hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi og hefur tekið tillit til óska þeirra og vilja eftir því sem framast hefur verið unnt. Hinn kærði úrskurður Barnaverndarnefndar B um umgengni barnanna við móður sína hafi verið kveðinn upp með hagsmuni barnanna að leiðarljósi og með hliðsjón af þeirri grundvallarreglu barnaverndar sem fram kemur í 2. mgr. 4. gr. bvl. að barnaverndaryfirvöld skuli í störfum sínum taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til.

Í ljósi alls  framanritaðs og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar sé gerð krafa um að úrskurðurinn verði staðfestur.

IV.  Sjónarmið fósturforeldra barnanna

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra með símtali við fósturmóður 7. maí 2021. Fram kom í símtalinu að fósturmóður teldi vonlaust að auka umgengni. Tók hún fram að stúlkan ætti í erfiðleikum með sálarlíf sitt vegna ásakana í garð föður. Eftir umgengni við kæranda komi börnin rosalega tætt til baka. Stúlkan tali ekki í tvo daga á eftir og drengurinn sé mikið pirraður, ólíkur sjálfum sér, fáist ekki til að læra eða lesa og sé þungur. Svona séu börnin eftir umgengni með kæranda í hvert einasta skipti. Það eina sem börnin vilji gera með móður sé að fara í búðina Nexus en þau geri það einnig með fósturforeldrum. Fósturmóðir tekur fram að hún viti ekki hvaða áhrif það mundi hafa á sálarlíf barnanna ef þau ættu að hitta móður oftar. Hún bendir á að þau pissi undir þegar þau eigi að fara til hennar og þegar þau komi frá henni. Fósturmóður telji því að fjögur skipti á ári sé það allra mesta sem hægt sé, sérstaklega í ljósi þess hvernig börnin komi frá móður. Fósturmóðir bendir á að stúlkan fari eingöngu til móður því að hún vilji ekki að henni líði illa, en ekki vegna þess að hana langi til að fara. Almennt sé líðan hjá börnunum mjög slæm og beri þess merki að illa hafi verið farið með þau. Fósturforeldrar kveðast gera allt sem þau geti til þess að halda utan um börnin og gefa þeim gott líf.


 

V. Sjónarmið drengsins

Í gögnum málsins liggur fyrir skýrsla talsmanns drengsins, dags. 20. mars 2020. Við meðferð málsins hjá Barnavernd B var þess óskað að talsmaður myndi ræða við hann, meðal annars um afstöðu hans til umgengni við kæranda. Í skýrslu talsmanns kemur fram að drengurinn eigi erfitt með að tjá líðan sína. Hvað varðar afstöðu hans til umgengni við kæranda kemur fram að hann væri leiður yfir því að hafa ekki hitt móður sína frá því í desember eða janúar. Hann hafi heldur ekkert heyrt í henni í gegnum síma. Aðspurður sagðist drengurinn sakna móður sinnar. Greindi hann frá því að hann vildi hitta hana einu sinni í viku með systur sinni og honum væri sama hvar umgengni færi fram.

VI. Sjónarmið stúlkunnar

Í gögnum málsins liggur fyrir skýrsla talsmanns stúlkunnar, dags. 20. mars 2020. Við meðferð málsins hjá Barnavernd B var þess óskað að talsmaður myndi ræða við hana, meðal annars um afstöðu hennar til umgengni við kæranda. Í skýrslu talsmanns kemur fram að stúlkan hafi hitt kæranda í febrúar 2020. Aðspurð um hvernig hún vildi hafa umgengni við kæranda sagði stúlkan að hún vildi hitta móður á heimili hennar um páska, á afmælisdögum, um jól og á þannig dögum. Sagðist hún ekki viss um hversu lengi umgengni ætti að vera hverju sinni.

VII. Niðurstaða

Drengurinn E er fæddur X og stúlkan D er fædd X. Þau eru í varanlegu fóstri hjá Í og J. Kynforeldrar voru svipt forsjá barnanna með dómi Hæstaréttar Íslands 10. mars 2020 og lúta bæði börnin forsjá Barnaverndarnefndar B.

Með hinum kærða úrskurði frá 21. desember 2020 var ákveðið að umgengni barnanna við kæranda yrði fjórum sinnum á ári í sex tíma í senn, laugardaginn fyrir afmæli stúlkunnar, laugardaginn fyrir afmæli drengsins, á skírdag og annan í jólum. Auk þess verði umgengni drengsins við kæranda síðasta laugardag í júní ár hvert í sex klukkustundir að því tilskildu að hann sé fús til að fara án systur sinnar. Eftirlit skuli vera í upphafi umgengni eða fyrsta klukkutímann þetta árið, en ef vel gangi falli eftirlit niður. Þá verði móðurömmu heimilt að koma í umgengni með móður í samráði við hana. Engin umgengni sé við föður.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að börnin hafi verið á fósturheimili lengst af frá árinu 2015. Frá því í mars 2020 hafa þau verið í varanlegu fóstri og stefnt er að því að þau alist upp á núverandi heimili til 18 ára aldurs. Á tímabili þegar Landsréttur hafði kveðið upp dóm um að forsjársvipting skyldi ekki ganga í gegn og Hæstiréttur hafði ekki fjallað um málið, hafi verið byrjað að vinna að aðlögun barnanna heim til móður. Það tímabil hafi reynst stúlkunni mjög erfitt og nokkrum sinnum hafi hún neitað að fara umgengni. Málið hafi dregist í meðförum dómstóla og hafi óvissan um lyktir málsins haft mikil áhrif á börnin, einkum stúlkuna sem sýndi áberandi kvíðaeinkenni á meðan beðið hafi verið eftir niðurstöðu. Með vísan til vanlíðanar barnanna og þarfar þeirra fyrir aukinn stuðning í kringum umgengni svo og eindreginn vilja stúlkunnar til að hafa umgengni með sama hætti og verið hefur, hafi barnaverndarnefndin talið það þjóna hagsmunum barnanna best við núverandi aðstæður að takmarka umgengni þeirra við móður við fjórum sinnum á ári, sex klukkustundir í senn og undir eftirliti.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þann veg að ákveðið verði að umgengni hennar við börnin verði tvisvar sinnum í mánuði, í að minnsta kosti fjórar klukkustundir í senn þar sem bæði börnin komi í umgengni á sama tíma og því til viðbótar að fram fari mánaðarleg umgengni við stúlkuna með kæranda í fjóra tíma í senn og sambærileg umgengni kæranda við drenginn tvisvar í mánuði. Þá sé jafnframt gerð krafa um að kærandi fái að njóta umgengni við börnin einu sinni í mánuði eða á tveggja mánaða fresti þannig að þau gisti hjá henni eina nótt, svo sem frá hádegi á laugardegi til hádegis á sunnudegi. Jafnframt verði ákveðin umgengni í jólaleyfi, í tvo sólarhringa frá hádegi á jóladag. Að lokum er þess krafist að ákveðið verði með úrskurði að börnin megi hafa síma- og netsamskipti við móður að eigin vild og eigi sjaldnar en vikulega.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki ráðið að í hinum kærða úrskurði hafi verið tekið bein efnisleg afstaða til þeirrar kröfu sem fram kom af hálfu kæranda fyrir nefndinni um að umgengni yrði einnig í formi símtala og rafrænna samskipta. Eðlilegt hefði verið að barnaverndarnefnd hefði tekið afstöðu til þessarar kröfu með formlegum hætti og er mælst til þess að barnaverndarnefndin taki það til afgreiðslu komi fram ósk um slíkt til nefndarinnar af hálfu kæranda. Þrátt fyrir framangreinda ágalla er þó ekki tilefni til þess að vísa málinu til nýrra meðferðar barnaverndarnefndar. 

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem börnin eru í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni þeirra við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum barnanna best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnanna best með tilliti til stöðu þeirra. Forsenda hinnar kærðu ákvörðunar var sú að ekki væri stefnt að því að börnin færu aftur í umsjá kæranda. Umgengni kæranda við börnin þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun þeirra í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi barnanna í fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja þeim uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum þeirra, sbr. 3. mgr. 65. gr. bvl. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum barnanna best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála ber fyrst og fremst að líta til þess hvað þjónar hagsmunum barnanna best þegar tekin er ákvörðun um umgengni þeirra við kæranda. Í því sambandi verður að horfa til þess að börn kæranda eru nú í varanlegu fóstri og þurfa frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni. Markmiðið með því er að tryggja umönnun barnanna til frambúðar, öryggi þeirra og þroskamöguleika. Í ljósi forsögu málsins er enn mikilvægara en ella að friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi barnanna. Þá er til þess að líta að með umgengni kæranda við börnin er ekki verið að reyna styrkja tengsl þeirra við kæranda, heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að börnin þekki uppruna sinn. Þá verður einnig ekki horft fram hjá vilja barnanna og afstöðu fósturforeldra til umgengni við kæranda.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni barnanna við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra og nákomna er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 21. desember 2021 varðandi umgengni D, og E, við A, er staðfestur. 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira