Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 360/2021 - Úrskurður-Beiðni um endurupptöku

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 360/2021

Miðvikudaginn 10. nóvember 2021

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með erindi, dags. 29. október 2021, óskaði A eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 360/2021 þar sem staðfest var ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 31. maí 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 12. maí 2021, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 31. maí 2021. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun þjónustumiðstöðvar, dags. 27. maí 2021, með vísan til 12. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Ákvörðunin var staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 30. júní 2021. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 6. júlí 2021.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 14. júlí 2021 og undirritað eintak 4. ágúst 2021. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 28. október 2021. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 31. maí 2021.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni um endurupptöku kemur fram að það sé rangt að kærandi hafi ekki sýnt fram á að húsnæði hennar að B sé enn óíbúðarhæft og engin gögn um að barn hennar eigi landskikann. Kærandi hafi sent úrskurðarnefndinni margar myndir af ástandi húsnæðisins þar sem nýbúið hafi verið að rífa allt myglað gifs á neðri hæð. Þær myndir hafi verið teknar í ágúst 2021. Þess vegna hafi húsnæðið enn verið óíbúðarhæft í ágúst. Þá hafi átt eftir að hreinsa út myglugróin sem hafi verið um allt hús og ljúka við einangrun sem ekki hafi verið hægt vegna leka. Aftur hafi þurft að leggja allt rafmagn í húsnæðinu ásamt öðru sem teljist nauðsynlegt til að húsnæði teljist íbúðarhæft.

Það hafi greinilega ekki verið tekið tillit til myndanna og gagnanna sem kærandi hafi sent, sem sannanlega sýni stöðuna. Auk þess hafi kærandi sannað að ekki hafi verið hægt að búa í húsnæðinu, það sé sannanlega ekki í útleigu og því geti hún ekki notað húsnæðið sér til framfærslu. Þá hafi kærandi sent úrskurðarnefndinni tölvupóst sem hún hafi fengið frá fasteignasala sem sanni að það hafi átt að skrá landskikann á barn hennar. Ekki sé hægt að sanna það með öðrum hætti en mistökin hafi sannanlega verið fyrir hendi. Því óski kærandi eftir endurskoðun málsins þar sem hún telji að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra gagna og mynda sem hún hafi sent.

III.  Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 28. október 2021. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 31. maí 2021.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngum lagagrundvelli og/eða rangri túlkun lagaákvæða.

Beiðni kæranda um endurupptöku er byggð á því að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra mynda og gagna sem kærandi hafi lagt fram. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið úrskurð nefndarinnar með tilliti til framangreindra athugasemda. Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993, enda lágu þau gögn sem kærandi vísar til í endurupptökubeiðni fyrir við uppkvaðningu úrskurðar. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 360/2021 synjað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 360/2021 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira