Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 59/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 59/2022

Miðvikudaginn 27. apríl 2022

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, móttekinni 26. janúar 2022, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 30. nóvember 2021 á umsókn um styrk til kaupa á vinnustól.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 15. nóvember 2021, var sótt um styrk til kaupa á vinnustól. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. nóvember 2021, var umsókn kæranda synjað. Í bréfinu segir að ástæða synjunar sé sú að reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja heimili ekki greiðsluþátttöku.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. janúar 2022. Með bréfi, dags. 8. febrúar 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 6. mars 2022, og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. mars 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands á umsókn um vinnustól og vatnshelt sæti verði endurskoðuð.

Í rökstuðningi sem fylgdi kæru segir að kærandi hafi ítrekað fengið synjun á umsókn um vinnustól. Um sé að ræða hjálpartæki sem skipti kæranda miklu máli í daglegu lífi. Hann noti göngugrind og sé mjög óstöðugur á fótum. Hann geti ekki staðið í langan tíma og því sé mikilvægt fyrir hann að vera með þægilegan stól til að vinna í. Kærandi taki mikinn þátt í sinni eldamennsku, skeri allt niður og hræri í pottum í sitjandi stöðu. Þá sitji hann einnig og brjóti saman þvott, þurrki upp, þurrki af borðum og stólum og vinni önnur verkefni heimilishalds sem hægt sé að vinna sitjandi. Lagt hafi verið allt kapp á að halda kæranda á fótum og þessi vinnustóll sé þáttur í því ferli.

Stóllinn þurfi að vera í fastri stöðu á meðan hann vinni en mikilvægt sé að hann geti losað hann snögglega og rúllað sér undan vinnuborðinu. Það megi ekki fara mikið fyrir honum og hann verði að henta vel inn í umhverfið. Skrifborðsstóll geti ekki komið í stað vinnustóls fyrir kæranda. Erfitt sé að finna stól sem henti, skrifborðsstólar séu sjaldnast úr vatnsheldu efni og oft fyrirferðarmiklir og óviðeigandi í miðri stofu. Kærandi hafi oft átt svo erfitt með að koma venjulegum stólum undan borðinu að hann nái ekki á salernið í tíma sem hafi djúp áhrif á líðan hans og veki hjá honum skömm og dapurleika. Þá sé mjög erfitt að aðstoða hann við að toga stólinn undan borði og standa upp sem skapi hættu á bak-  og stoðverkjum hjá aðstoðarmönnum hans.

Í synjun sé vísað í reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja. Ekki komi fram í hvaða grein reglugerðarinnar verið sé að vísa en umboðsmaður kæranda sjái ekkert í reglugerðinni sem styðji synjunina. Kærandi búi á sínu eigin heimili. Hreyfihömlun hans hafi komið í kjölfar heilaskaða. Hann glími við máttleysi í hægri hlið líkamans. 

Lög og reglugerðir styðji rétt kæranda á þessu hjálpartæki sem nýtist honum einum til athafna daglegs lífs. Í 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar sé tekið fram að sjúkratryggingum beri að taka þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni, sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Fyrir þau sem vinni með kæranda væri ekki hægt að hugsa sér hjálpartæki sem væri nauðsynlegra eða hentugra við að auðvelda athafnir daglegs lífs þar sem kærandi sitji lengi við borð að vinna að sínum daglegu verkum. 

Í 3. gr. reglugerðar nr. 1155/2013 um styrki vegna hjálpartækja segi að Sjúkratryggingum Íslands beri að greiða styrki vegna hjálpartækja sem séu til lengri notkunar en þriggja mánaða og auðveldi einstaklingum að takast á við athafnir daglegs lífs. Einkum þegar um sé að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar eða meðferðar.

Að lokum komi fram í 20. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks varðandi ferlimál einstaklinga að aðildarríki skuli tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks, meðal annars með því að greiða fyrir aðgangi að hreyfibúnaði og tækjum.  

Loks segir að kærandi hafi gengið í gegnum ýmislegt á undanförnum árum og mikilvægt sé að einn stóll verði ekki til að skerða sjálfstæði hans og getu til að sinna athöfnum daglegs lífs.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að ákvæði 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar gildi um hjálpartæki. Ákvæði 1. mgr. 26. gr. laganna kveði á um að sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem séu til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setji.

Í 2. mgr. 26. gr. sé hjálpartæki, í skilningi laganna, skilgreint sem tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða halda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Einnig komi fram að hjálpartækið verði að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja sé sett með stoð í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Í 2. gr. reglugerðarinnar komi fram að hjálpartæki sé tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Hjálpartækið verði jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Þá segir að Sjúkratryggingum Íslands sé falið að gera einstaklingsbundið mat vegna hverrar umsóknar og taka ákvörðun á grundvelli gildandi  laga og reglugerða. Farið hafi verið yfir umsókn kæranda á sínum tíma og framkvæmt einstaklingsbundið mat vegna hennar. Í öllum tilvikum sé haft samband við þjálfara sem sæki um til að fá upplýsingar um aðstæður.

Komið hafi fjórar umsóknir til Sjúkratrygginga Íslands vegna vinnustóls fyrir kæranda. Rökstuðningur á þörf fyrir vinnustól sé misjafn á milli umsókna.

Í fyrstu umsókn frá 5. október 2020 hafi verið óskað eftir vinnustól því að kærandi eigi í erfiðleikum með að ganga langar vegalengdir innandyra og sótt sé um vinnustól til þess að auka sjálfstæði heima fyrir. Þar sem ekki sé heimild fyrir að samþykkja vinnustóla sem gönguhjálpartæki hafi umsókn um vinnustól verið synjað. Þjálfari kæranda hafi sent Sjúkratryggingum Íslands fyrirspurn um málið og fengið eftirfarandi rökstuðning:

„Sjúkratryggingar Íslands greiða að jafnaði fyrir vinnustólar/standstólar ef þeir leiða til aukinnar sjálfsbjargargetu og færni við athafnir daglegs lífs, en í gátlistanum kemur fram að „A á í erfiðleikum með að ganga langar vegalengdir innandyra, svo stóllinn mun hjálpa honum að auka sjálfstæði heima fyrir.“ Hann er með göngugrind sem auðveldar honum að ganga langar vegalengdir innandyra og ekki séð hvernig standstóll komi til með að auka sjálfsbjargargetu hans frekar.“

Í annarri umsókn, dags. 30. október 2020, hafi verið óskað eftir vinnustól þar sem kærandi ætti erfitt með að standa upp úr stólum, til dæmis við matarborð. Í þeirri umsókn komi fram að hann vilji ekki hjólastól en vinnustóll gæti hentað vel. Umsókninni hafi verið synjað því að ekki hafi verið talið að slíkur stóll myndi auka sjálfsbjargargetu kæranda.

Þriðja umsókn sé dagsett 10. nóvember 2020 og þá hafi umsókninni fylgt bréf frá forstöðumanni sambýlis. Þar komi fram að kærandi aðstoði við eldamennsku og geti ekki staðið lengi, þurfi vinnustól þegar hann standi við að hræra í pottum vegna eldamennsku. Það þurfi einnig stól sem auðvelt sé að ýta snögglega undan borði til að komast á salerni og sitja í, til dæmis við að brjóta saman þvott og fleira sem tengist heimilishaldi og hægt sé að vinna í sitjandi stöðu. Í bréfi forstöðumanns komi einnig fram að vinnustóll þurfi að henta vel inn í umhverfi og ekki megi fara mikið fyrir honum. Einnig hafi bréfinu fylgt ítarlegri umsókn þar sem fram komi meðal annars að kærandi eigi erfitt með að ganga langar vegalengdir og því muni vinnustóll nýtast vel til að komast á salerni. Hann eigi meðal annars erfitt með að standa upp af venjulegum stól. Umsókninn hafi verið hafnað. Að mati Sjúkratrygginga Íslands séu sömu rök og í umsókn dagsettri fyrr í sama mánuði, þ.e. að vinnustóll muni ekki auka sjálfsbjargargetu kæranda, til dæmis við að elda. Hann sé með aðstoðarmann allan sólarhringinn.

Í júlí 2021 hafi borist umsókn um hjólastól fyrir kæranda til Sjúkratrygginga Íslands og hún verið samþykkt 16. júní 2021.

Ný umsókn hafi borist 30. nóvember 2021 um vinnustól. Í rökstuðningi fyrir vinnustól hafi þá komið fram að kæranda hafi hrakað mikið síðastliðið ár en nú sé hann kominn með máttminnkun í hægri fót og hendi. Hann sé verkjaður og eigi mjög erfitt með gang í hárri göngugrind. Noti nú hjólastól til að komast á milli staða. Eigi erfitt með að standa upp og setjast niður í stól. Einnig sé talað um að kærandi þurfi að leggja allan sinn þunga á göngugrindina til að lyfta sér upp úr stól og tímaspursmál sé hvenær hann detti við þetta. Vegna þessa sé sótt um vinnustól með rafmagnspumpu, þ.e. til að draga úr byltuhættu, auka öryggi, sjálfstæði og virkni. Umsókn hafi verið hafnað og rök fyrir höfnun komi fram í svarbréfi.

Þegar farið sé yfir umsóknir kæranda um vinnustól sé ekki að sjá að umsóknir uppfylli þau skilyrði sem sett séu í reglugerð nr. 760/2021. Í kafla 1809 í fylgiskjali með þeirri reglugerð komi meðal annars fram:

„Sjúkratryggingar Íslands greiða að jafnaði fyrir stóla vegna þeirra sem eru með sjúkdóma sem valda alvarlegri lömun eða hrörnun, t.d. MS, MND og aðra vöðvarýrnunarsjúkdóma, helftarlömun, Parkinsonsjúkdóm, illvíga RA liðagigt og Spina bifida. Einnig geta einstaklingar með lungna- og/eða hjartasjúkdóm á háu stigi fengið greidda stóla, einkum standstóla. Metið er eftir færni hvort og hvenær viðkomandi eigi rétt á stól, t.d. göngufærni, úthaldi, stand- og/eða setjafnvægi. Greitt er fyrir stóla ef þeir leiða til aukinnar sjálfsbjargargetu og færni við athafnir daglegs lífs en ekki til að nota eingöngu í frístundum eða til afþreyingar.“

Að mati Sjúkratrygginga Íslands verði ekki séð af gögnum málsins að sjúkdómsgreining kæranda falli undir þær skilgreiningar sem gert sé skilyrði um samkvæmt reglugerðinni. Samkvæmt nýjustu umsókn kæranda hafi honum þó farið aftur og sé kominn með máttminnkun í hægri hlið. Ástæða þessa sé þó óljós og engin sjúkdómsgreining vegna þessara einkenna staðfest.

Aðalrökin fyrir því að sótt sé um vinnustól fyrir kæranda sé að hann noti hann til að sitja á við að skera grænmeti og aðstoða við ýmis húsverk sem hægt sé að gera sitjandi í stól. Kærandi sé með samþykki fyrir hjólastól og þau störf sem þarna séu talin upp fyrir utan að hræra í pottum sé auðvelt að gera sitjandi í hjólastól. Eitt skilyrði fyrir því að fá samþykki fyrir vinnustól sé að slíkur stóll leiði til aukinnar sjálfsbjargargetu og færni við athafnir daglegs lífs. Kærandi þurfi alla aðstoð við athafnir daglegs lífs og sjái ekki um eldamennsku þó svo að hann geti tekið þátt í undirbúningi með því að skera grænmeti. Því geti Sjúkratryggingar Íslands ekki samþykkt að vinnustóll sé nauðsynlegur við eldamennsku því að það að hræra í pottum undir eftirliti geti að mati Sjúkratrygginga Íslands ekki fallið undir að auka sjálfsbjargargetu.

Í umsóknum komi einnig fram að kærandi eigi mjög erfitt með að standa upp úr stól og setji það mikinn þunga á göngugrind að hætta sé á að hún sporðreisist þegar hann standi upp. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé byltuhætta ekki minni við að standa upp úr vinnustól en hjólastól og að mati stofnunarinnar sé vinnustóll ekki til þess fallinn að auka sjálfsbjargargetu fram yfir það sem hjólastóll geri. Lögð sé áhersla á það í kæru að stóll þurfi að vera á hjólum sem auðvelt sé að ýta undan borði til að komast á salerni. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að hjólastóll sem kærandi sé með uppfylli þessa kröfu.

Samkvæmt gögnum í umsóknum hafi kæranda hrakað líkamlega síðustu mánuði. Hann sé þó ekki með sjúkdómsgreiningu sem falli undir þau skilyrði sem sett séu fyrir því að fá samþykki fyrir vinnustól. Hann eigi orðið erfitt með gang en geti gengið stuttar vegalengdir í hárri göngugrind og þá sé hann einnig með hjólastól. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 760/2021 skuli hjálpartæki vera nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs. Að mati Sjúkratrygginga Íslands geri hjólastóll sama gagn fyrir kæranda og vinnustóll. Sé þörf á hærri stól, væri hægt að fá upphækkunarsessu í hjólastól svo að auðveldara væri fyrir kæranda að standa upp úr stólnum. Hægt sé að sinna flestum þeirra léttu heimilisstarfa sem kærandi sinni sitjandi í hjólastól. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að vinnustóll auki ekki sjálfsbjargargetu kæranda umfram það sem hjólastóll geri og sé því ekki nauðsynlegur í skilningi reglugerðar nr.760/2021.

Það er því mat Sjúkratrygginga Íslands að með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn kæranda um styrk til kaupa á vinnustól.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar taka sjúkratryggingar þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skal meðal annars kveðið á um hvaða hjálpartæki sjúkratryggingar taki þátt í að greiða og að hve miklu leyti.

Í 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar hefur hjálpartæki verið skilgreint þannig að um sé að ræða tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Einnig segir að hjálpartækið verði jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja, með síðari breytingum, hefur verið sett með stoð í framangreindu ákvæði. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar greiða Sjúkratryggingar Íslands styrki vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda einstaklingum að takast á við athafnir daglegs lífs. Einkum sé um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar eru styrkir eingöngu veittir til kaupa á þeim hjálpartækjum sem tilgreind eru í fylgiskjali með reglugerðinni, að uppfylltum öðrum skilyrðum hennar.

Í umsókn kæranda kemur fram að sótt sé um styrk til kaupa á vinnustól samkvæmt lið 180903 í fylgiskjali með reglugerð nr. 760/2021. Flokkur 18 í fylgiskjalinu fjallar um hjálpartæki til heimila og í flokki 1809 er fjallað um stóla. Þar segir:

„Sjúkratryggingar Íslands greiða að jafnaði fyrir stóla vegna þeirra sem eru með sjúkdóma sem valda alvarlegri lömun eða hrörnun, t.d. MS, MND og aðra vöðvarýrnunarsjúkdóma, helftarlömun, Parkinsonsjúkdóm, illvíga RA liðagigt og Spina bifida. Einnig geta einstaklingar með lungna- og/eða hjartasjúkdóm á háu stigi fengið greidda stóla, einkum standstóla. Metið er eftir færni hvort og hvenær viðkomandi eigi rétt á stól, t.d. göngufærni, úthaldi, stand- og/eða set-jafnvægi. Greitt er fyrir stóla ef þeir leiða til aukinnar sjálfsbjargargetu og færni við athafnir daglegs lífs en ekki til að nota eingöngu í frístundum eða til afþreyingar. Val á stól fer eftir þörf sem er metin eftir færni og sjúkdómi.“

Samkvæmt umsókn um vinnustól, dags. 15. nóvember 2021, útfylltri af C iðjuþjálfa, eru sjúkdómsgreiningar kæranda áverki á hjarta, ótilgreindur (e. injury of heart, unspecified) S26.9, súrefnisþurrðarheilaskaði (e. anoxic brain damage, not elsewhere classified) G93.1 og sykursýki, tegund 2 (e. type 2 diabetes mellitus) E11. Um sjúkrasögu segir í umsókninni:

„X árs gamall maður lenti í hjartastoppi fyrir um X árum og var hnoðaður í 45 mín. Hann fékk töluverðan heilaskaða í kjölfarið vegna súrefnisskorts til heila. Hann er búinn að þróa með sér sykursýki 2 í kjölfarið. Hann býr nú í vernduðu húsnæði er óvinnufær og nánast ógöngufær. Hann fær töluverða verki í líkamann sem hafa ágerst síðustu 2 ár og +hefur honum hrakað mikið líkamlega. Ekki hefur fengist samstarfsvilji lækna til þess að kanna hvað liggur að baki þessari miklu afturför. Hann er nú kominn með nýjan heimilislækni sem tengir hann við taugasérfræðing.“

Um rökstuðning fyrir hjálpartækinu segir svo:

„X árs gamall maður sem var nokkuð brattur líkamlega fyrir um 4 árum gekk þá án hjálpartækja þegar undirrituð var með hann í þjálfun. Nú er staðan allt önnur. Honum hefur hrakað mikið líkamlega gengur með herkjum við háa göngugrind dregur hægri fót á eftir sér. Hann finnur fyrir mikilli máttminnkun í hægri fót og hægri hendi. Hann er mjög verkjaður, svo verkjaður að hann gat gengið um 3 metra frá stofu og inn í herbergi en treysti sér ekki til þess að setjast á klósettið og standa upp aftur hann þurfti hvíld og fannst hann óöruggur. Hann er með sögur um byltur og því óöruggur við gang. Hann hefur ekki móttstöðu í fótum til þess að setjast mjúklega niður heldur pompar hann. Hann getur lítið hreyft hægri fót í sitjandi stöðu, hann getur lyft fót 2 cm frá gólfi við ökkla og hæl 5 cm frá gólfi við hné. Á vinstri getur hann lyft fót um ökkla 5 cm frá gólfi og hæl 15 cm frá hné. Hann var óvenju duglegur að ganga í dag að sögn forstöðumanns sambýlisins en þau eru að reyna ða hvetja hann til þess að viðhalda þeirri göngufærni sem hann hefur. Þau hafa þurft að nota hjólastól til þess að færa hann milli staða sl. 3 mánuði. Hann á mjög erfitt með að standa upp við matarborðið hjá sér að loknum máltíðum hann nær að mjaka stólnum frá borðinu hefur svo göngugrindina tiltæka þarf að leggja allan þunga sinn á göngugrindina til þess að lyfta sér upp. Það er tímaspursmál hvenær hann dettur við þetta þar sem göngugrindin byrjar að sporreisast þrátt fyrir að vera í bremsu. Þessvegna er sótt um vinnustól með rafmagnspumpu. Til þess að draga úr byltuhættu, auka öryggi, sjálfsstæði og virkni.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á það hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir styrk til kaupa á vinnustól. Við það mat lítur úrskurðarnefndin til allra fyrirliggjandi gagna um aðstæður kæranda og metur þær með einstaklingsbundnum og heildstæðum hætti. Fyrir liggur að kærandi hefur nú þegar til umráða hjólastól. Í rökstuðningi fyrir kæru kemur fram að þar sem kærandi geti ekki staðið í langan tíma sé mikilvægt fyrir hann að vera með þægilegan stól til að vinna í. Greint er frá því að kærandi taki mikinn þátt í sinni eldamennsku, brjóti saman þvott, þurrki upp, þurrki af borðum og stólum og vinni önnur verkefni heimilishalds sem hægt sé að vinna sitjandi. Tekið er fram að skrifborðsstóll geti ekki komið í stað vinnustóls og kærandi eigi erfitt með að koma venjulegum stólum undan borðinu. Í umsókn, dags. 15. nóvember 2021, segir að sótt sé um vinnustól með rafmagnspumpu til þess að draga úr byltuhættu, auka öryggi, sjálfstæði og virkni. Kæranda hafi hrakað mikið líkamlega, hann gangi með herkjum við háa göngugrind og dragi hægri fót á eftir sér. Hann finni fyrir mikilli máttminnkun í hægri fæti og hægri hendi, sé mjög verkjaður og hafi þurft að nota hjólastól til að komast á milli staða undanfarið. Hann eigi mjög erfitt með að standa upp við matarborðið með notkun göngugrindar og tímaspursmál hvenær hann detti við það.

Úrskurðarnefndin lítur til þess að skilyrði fyrir styrk til kaupa á hjálpartæki samkvæmt orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 er að hjálpartækið teljist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir dagslegs lífs. Við mat á því hvort framangreind skilyrði séu uppfyllt ber meðal annars að líta til markmiða laga nr. 112/2008, 1. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir við framkvæmd laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá metur nefndin hvort notkun hjálpartækisins nái þeim tilgangi að vernda andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði kæranda í víðtækum skilningi í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undirliggjandi.

Af framangreindri lýsingu á færni kæranda má ráða að kærandi sé nánast ógöngufær. Hann getur gengið stuttar vegalengdir með göngugrind en notast einnig við hjólastól. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi þarf aðstoð við athafnir daglegs lífs en vinnustóll er ætlaður til að hann geti tekið þátt í heimilisstörfum. Úrskurðarnefndin fær ekki ráðið að vinnustóll væri til þess fallinn að auka sjálfstæði kæranda, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, enda mögulegt fyrir hann að sinna flestum þeim verkum sem tilgreind eru í gögnum málsins sitjandi í hjólastól. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að vinnustóll sé kæranda nauðsynlegur til að bæta möguleika hans til að annast daglegar athafnir sínar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar. Úrskurðarnefndin telur því að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslu styrks til kaupa á vinnustól.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, um að synja umsókn kæranda um styrk til kaupa á vinnustól, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn A, um styrk til kaupa á vinnustól, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum