Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 192/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 192/2021

Fimmtudaginn 26. ágúst 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. apríl 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Vinnumálastofnunar um að kærandi hafi fullnýtt bótatímabil sitt og að hún uppfylli ekki skilyrði ráðningarstyrks.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysistrygginga í nóvember 2019. Umsókn kæranda var samþykkt og bótaréttur metinn 100%. Þann 12. janúar 2021 óskaði kærandi eftir upplýsingum um bótatímabil sitt og þann 18. janúar 2021 var kæranda greint frá því að hún væri búin að nýta 35,44 mánuði af 36 mánaða bótatímabili sínu. Þann 29. janúar 2021 voru greiðslur til kæranda stöðvaðar þar sem hún hafði fullnýtt bótatímabil sitt. Með símtali 13. apríl 2021 óskaði kærandi eftir aðstoð við að nýta sér úrræðið „Hefjum störf“ til þess að sækja um tiltekið starf. Kærandi fékk þær upplýsingar að úrræðið stæði henni ekki til boða þar sem hún væri ekki lengur á skrá hjá Vinnumálastofnun. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála sama dag. Í kjölfarið var kærandi í samskiptum við Vinnumálastofnun vegna stöðu sinnar og með tölvupósti 10. maí 2021 var henni greint frá því að samkvæmt bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 291/2021, um breytingu á reglugerð nr. 918/2020, gætu opinberir aðilar, stofnanir og sveitarfélög ráðið til sín einstaklinga sem hafi lokið bótarétti eftir 1. október 2020 og að kærandi gæti nýtt sér það úrræði. Hins vegar gæti kærandi ekki nýtt það úrræði til að starfa hjá fyrirtækjum og frjálsum félagasamtökum þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði reglugerðarinnar.

Með bréfi, dags. 25. maí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 8. júní 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. júní 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust 10. júní 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. júní 2021, voru þær sendar til Vinnumálastofnunar til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að henni sé óheimilt að sækja um vinnumarkaðsátak stjórnvalda „Hefjum störf“ vegna þess að samkvæmt túlkun Vinnumálastofnunar sé hún dottin út af atvinnuleysisbótum. Kærandi tekur fram að hún hafi starfað hjá B frá því í desember 2017 til 24. júní 2019 eftir að hafa verið á atvinnuleysisskrá samfleytt í 12 mánuði á árinu 2017. Kæranda hafi verið sagt upp störfum þar 24. júní 2019 en fengið greiddan uppsagnarfrest og sumarfrí til loka október 2019. Hún hafi því verið starfsmaður á launum hjá fyrirtækinu samfellt í tæplega 23 mánuði. Í raun hafi hún tekið til viðbótar út sumarfrí sem hún hafi átt inni frá árinu 2020 og því megi það til sanns vegar færa að mánuðirnir séu 24. Þessu tímabili lítur Vinnumálastofnun fram hjá og líti svo á að hún ávinni sér engan rétt hjá þeim með þessu starfstímabili. Kærandi hafi fyrst farið á atvinnuleysisbætur 1. október 2014 í einn mánuð og svo aftur í tíu mánuði árið 2015 þegar kærandi hafi farið í nám á Bifröst og lokið BS gráðu frá skólanum og hafi verið á námslánum á meðan.

Í janúar 2021 hafi kærandi dottið út af atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun á þeirri forsendu að hún hafi fullnýtt tímabilið sem hafi hafist á árinu 2014 þegar kærandi hafi fyrst orðið atvinnulaus. Þessi rétt tæplega tvö ár sem kærandi hafi verið á launaskrá hjá B virðist því ekki hafa gert neitt. Kærandi sé fyrst og fremst óheppin að hafa lent á Covid-19 tímabili á sama tíma og hún hafi ætlað að setja verulegan kraft í atvinnuleit eftir að hafa misst starfið hjá B. Það segi sig sjálft að á tímum Covid-19 sé erfitt að vera kröftugur í atvinnuleit þótt sannarlega hafi hún sótt um mörg störf. Kæranda þyki það ansi hart ef henni, sem sannarlega sé atvinnulaus og búin að vera það lengi, sé gert ókleift að nýta sér þetta úrræði stjórnvalda sem hún hafi ætlað að gera.

Kærandi fari í fyrsta lagi þess á leit að úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurði um það hvort það sé rétt hjá Vinnumálastofnun að fella hana út af atvinnuleysisbótum í janúar 2021 á þeirri forsendu að hún hafi fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Í öðru lagi að úrskurðarnefndin úrskurði um réttmæti þess að henni sem atvinnuleitanda til lengri tíma standi ekki til boða úrræðið „Hefjum störf“. Tímabilið frá síðustu starfslokum og þar til kærandi hafi verið felld út af bótum sé samtals 15 mánuðir. Því telji kærandi tvímælalaust að henni sem atvinnuleitanda eigi að standa til boða þau úrræði sem ríkisvaldið bjóði nú upp á fyrir langtímaatvinnulausa. Vinnumálastofnun telji svo ekki vera en samkvæmt þeirra túlkun njóti hún engra þeirra úrræða sem standi til boða. Í þriðja lagi snúi kæra hennar að neitun Vinnumálastofnunar um að hún geti nýtt sér starfstilboð frá félagasamtökunum C. C hafi gert samning við Vinnumálastofnun á grundvelli þessara úrræða stjórnvalda „Hefjum störf“ og hafi farið þess á leit við vinnumiðlun stofnunarinnar að fá að ráða kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá vinnumiðluninni standi það ekki til boða. Kærandi fái ekki séð hvernig sá rökstuðningur standist, enda hafi hún verið atvinnulaus í meira en 12 mánuði sem sé einmitt skilyrði þess að koma til greina.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hún hafi hafið störf hjá B 19. desember 2017. Það þýði að hún hafi starfað þar í tvær vikur á því ári og hún hafi áunnið sér orlof samkvæmt því. Kærandi hafi starfað þar í 12 mánuði árið 2018 og í níu mánuði árið 2019 og hafi hún áunnið sér orlof á þeim tíma. Kærandi hafi starfað í sömu atvinnugrein í meira en fimm ár og hafi áunnið sér orlof samkvæmt því hjá VR, 25 orlofsdaga á ári eða 2,08 orlofsdaga á mánuði. Árið 2017 sé þetta 0,5 mánuður, 2018 12 mánuðir og 2019 níu mánuðir eða samtals 21,5 mánuður sinnum 2,08 sem geri 44,72 dagar. 44,72 dagar deilt með 21,67 sé 2,06368251 mánuðir í áunnið orlof fyrir þetta tímabil. Þetta geri 23,56368251 mánuði sem án aukastafa séu 24 mánuðir. Að mati kæranda hafi hún því áunnið sér að nýju fullan rétt til atvinnuleysisbóta í 24 mánuði með þessu starfstímabili sínu hjá B. 

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að meðal gagna málsins sé staðfesting á starfstímabili kæranda frá B sem hafi borist stofnuninni þann 7. nóvember 2019. Þar komi fram að kærandi hafi starfað þar í 100% starfshlutfalli á tímabilinu 19. desember 2017 til 30. september 2019. Þann 12. janúar 2021 hafi kærandi sent fyrirspurn til Vinnumálastofnunar og óskað eftir skýringum á því hvernig reiknað væri út það tímabil sem hún ætti rétt á bótum í ljósi þess að bótatímabil hennar væri við það að ljúka. Kvaðst kærandi hafa verið í 100% starfi frá 19. desember 2017 til 30. september 2019. Í kjölfar uppsagnar hafi hún sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga að nýju, en áður hafi hún þegið greiðslu atvinnuleysistrygginga árið 2017. Ráðgjafi stofnunarinnar hafi svarað fyrirspurn kæranda þann 18. janúar 2021. Kæranda hafi verið greint frá því að bótatímabil hennar hafi hafist með umsókn, dags. 1. október 2014. Kæranda hafi jafnframt verið gefnar nákvæmar útskýringar á því hvernig bótatímabil hennar hefði verið reiknað. Þann 29. janúar 2021 hafi kærandi fullnýtt rétt sinn til greiðslu atvinnuleysistrygginga og því hafi greiðslur til hennar verið stöðvaðar.

Þann 21. apríl 2021 hafi kærandi sent erindi til Vinnumálastofnunar og skýrt frá því að hún hygðist sækja um starf hjá félagasamtökunum C í gegnum úrræði stjórnvalda, svokallaðan ráðningarstyrk. Aftur á móti hefði kærandi lokið því tímabili sem hún ætti rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga og því stæði umrætt úrræði henni ekki til boða. Erindi kæranda hafi verið svarað þann 10. maí 2021. Kæranda hafi verið greint frá því að samkvæmt bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 291/2021 um breytingu á reglugerð nr. 918/2020 gætu opinberir aðilar, stofnanir og sveitarfélög ráðið til sín einstaklinga sem hafi lokið bótarétti eftir 1. október 2020. Kærandi gæti því nýtt sér það úrræði. Aftur á móti gæti hún ekki fengið ráðningarstyrk til að starfa hjá fyrirtækjum og frjálsum félagsamtökum þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði reglugerðarinnar.

Vinnumálastofnun vísar til þess að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi hafi fullnýtt rétt sinn til greiðslu atvinnuleysistrygginga og þá ákvörðun stofnunarinnar að kærandi uppfylli ekki skilyrði ráðningarstyrks til frjálsra félagasamtaka.

Í VI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar. Í 1. mgr. 29. gr. laganna segi að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í tilfelli kæranda hafi hún átt rétt á 36 mánaða bótatímabili. Tímabil samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laganna haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 4. mgr. 29. gr. laganna.

Í 30. og 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um þau tilvik sem leiði til þess að bótatímabil endurnýist. Annars vegar endurnýjun á tímabili eftir að atvinnuleitandi hafi fullnýtt bótarétt sinn og hins vegar endurnýjun á bótarétti áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Ákvæði 31. gr. laganna komi til álita í máli þessu þar sem kærandi hafi ekki fullnýtt bótarétt sinn þegar hún hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 21. nóvember 2019. Í 31. gr. segi að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gildi ákvæði III. og IV. kafla laganna um skilyrði atvinnuleysistrygginga hins tryggða eftir því sem við geti átt. Í 31. gr. sé það þannig sett sem skilyrði fyrir því að nýtt bótatímabil samkvæmt 29. gr. geti hafist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu að viðkomandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur.

Frá því að bótatímabil kæranda samkvæmt 29. gr. hafi hafist með umsókn, dags. 1. október 2014, hafi hún þegið atvinnuleysisbætur á tímabilunum 1. október 2014 til 30. október 2014, 16. mars 2015 til 31. desember 2015, 2. janúar 2017 til 18. desember 2017 og 1. nóvember 2019 þar til hún hafi lokið bótatímabili sínu þann 29. janúar 2021. Kærandi hafi aðeins starfað í rúma 22 mánuði samfellt síðan bótatímabil hennar hafi hafist með umsókn, dags. 1. október 2014, þ.e. á tímabilinu 19. desember 2017 til 30. september 2019, hjá B, samkvæmt staðfestu starfstímabili. Skilyrði 31. gr. um samfellt starf á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði sé því ekki uppfyllt. Með vísan til framangreinds hafi kærandi því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils á grundvelli 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Eins og rakið hafi verið hafi kærandi óskað eftir því að gerður yrði samningur um ráðningarstyrk við félagasamtökin C. Vinnumálastofnun sé heimilt samkvæmt bráðabirgðaákvæði II. reglugerðar nr. 291/2021 um breytingu á reglugerð nr. 918/2020, um þátttöku atvinnuleitanda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði, að gera samning um ráðningu atvinnuleitanda sem teljist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í ljósi þess að kærandi hafi fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta þann 29. janúar 2021 teljist hún ekki tryggð innan atvinnuleysistryggingakerfisins og uppfylli því ekki skilyrði ráðningarstyrks samkvæmt bráðabirgðaákvæði II. reglugerðar nr. 291/2021 um breytingu á reglugerð nr. 918/2020. Hið sama gildi um heimild Vinnumálastofnunar til að gera samning við fyrirtæki um ráðningu atvinnuleitanda samkvæmt bráðabirgðaákvæði I. reglugerðar nr. 291/2021 um breytingu á reglugerð nr. 918/2020.

Vinnumálastofnun tekur fram að á grundvelli bráðabirgðaákvæðis IV. reglugerðar nr. 291/2021 um breytingu á reglugerð nr. 918/2020 sé stofnuninni heimilt að gera samning, en þó einungis við stofnanir, um ráðningu atvinnuleitanda sem fullnýtt hafi rétt sinn til atvinnuleysisbóta innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021. Kærandi uppfylli þannig skilyrði ráðningarstyrks samkvæmt bráðabirgðaákvæði IV. og hafi henni verið leiðbeint um þann rétt þann 10. maí 2021.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á nýju bótatímabili samkvæmt 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, með vísan til 31. gr. laganna. Jafnframt sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði ráðningarstyrks samkvæmt bráðabirgðaákvæði II. reglugerðar nr. 291/2021 um breytingu á reglugerð nr. 918/2020.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að bótatímabili kæranda og því hvort hún uppfylli skilyrði ráðningarstyrks samkvæmt bráðabirgðaákvæði II. reglugerðar nr. 291/2021, um breytingu á reglugerð nr. 918/2020, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði, áður 36 mánuðir, frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Í 30. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í 30 mánuði geti áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju að liðnum 24 mánuðum, enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í að minnsta kosti sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk og misst starf sitt af gildum ástæðum. Þá kemur fram í 31. gr. laganna að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun með hléum frá október 2014 en þá hófst 36 mánaða bótatímabil hennar. Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur í nóvember 2019 en hafði þar áður fengið greiddar bætur í desember 2017. Kærandi hóf störf hjá B 19. desember 2017 og starfaði þar til 30. september 2019, að meðtöldum uppsagnarfresti. Kærandi átti þá 29,5 ótekna orlofsdaga og var því skráð í orlof til 11. nóvember 2019. Samkvæmt framangreindu hafði kærandi ekki starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur og hafði því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi hafi fullnýtt bótarétt sinn 29. janúar 2021 er því staðfest.   

Kemur þá til skoðunar hvort kærandi uppfylli skilyrði ráðningarstyrks samkvæmt bráðabirgðaákvæði II. reglugerðar nr. 291/2021, um breytingu á reglugerð nr. 918/2020, en kærandi óskaði eftir að samningur um ráðningarstyrk yrði gerður við félagasamtökin C. Samkvæmt ákvæðinu er Vinnumálastofnun heimilt að gera samning við frjáls félagasamtök um ráðningu atvinnuleitanda sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Þar sem kærandi hafði fullnýtt bótarétt sinn þann 29. janúar 2021 var hún ekki tryggð samkvæmt lögum nr. 54/2006 eftir þann tíma. Að því virtu er framangreint skilyrði reglugerðar nr. 291/2021 ekki uppfyllt og er sá þáttur kærunnar einnig staðfestur.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um að A hafi fullnýtt bótatímabil sitt og að hún uppfylli ekki skilyrði ráðningarstyrks, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira