Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

nr. 363/2019 - Úrskurður

Kærufrestur. Kæru vísað frá þar sem kærufrestur var liðinn.

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 363/2019

Föstudaginn 27. september 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. september 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. mars 2018 um að hafna umsókn hennar um atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2018, var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur synjað á grundvelli 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, vegna þess að vinna kæranda á ávinnslutímabili bótaréttar náði ekki lágmarksrétti til atvinnuleysistrygginga.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur meðal annars fram að kærandi óski eftir því að gerð verði undanþága við hana svo að hún fái greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi flutt til Íslands frá B og sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun sem hafi verið hafnað þar sem kærandi hafi búið erlendis í meira en fimm ár. Kærandi hafi haldið áfram atvinnuleit sinni án árangurs. Í dag sé komið eitt og hálft ár þar sem kærandi hafi verið tekjulaus.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2018.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2018, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 3. september 2019. Samkvæmt framangreindu barst kæran úrskurðarnefndinni að liðnum lögboðnum kærufresti.

Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess. Ákvæði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga mælir þannig fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn. Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga segir að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Með vísan til þess að kæra í máli þessu barst tæplega einu og hálfu ári eftir að ákvörðun var tilkynnt kæranda er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira