Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta (frávísun)

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [A] f.h. [B ehf.], dags. 8. apríl 2020, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, vegna ákvörðunar Fiskistofu, dags. 30. mars 2020 um úthlutun byggðakvóta í Sandgerði í Suðurnesjabæ fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til bátsins [C].

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi úthlutun Fiskistofu á byggðakvóta fyrir Sandgerði í Suðurnesjabæ fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta til annarra báta í byggðarlaginu í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukærunni.

 

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 10. mars 2020, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu og á vef Fiskistofu, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 í Sandgerði í Suðurnesjabæ en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 685/2018, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2018/2019. Umsóknarfrestur var til og með 24. mars 2019. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 133 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Suðurnesjabæjar sem skiptust á byggðarlögin Garð, 146 þorskígildistonn og Sandgerði, 87 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Suðurnesjabæ með bréfi ráðuneytisins, dags. 31. desember 2019.

[B ehf] sótti um úthlutun byggðakvóta fyrir bátinn [D] með umsókn, dags. 23. mars 2020 og [E ehf. ] sótti um byggðakvóta fyrir bátinn [D] með umsókn, dags. 23. mars 2020.

Einnig sótti [K ehf.] um úthlutun byggðakvóta fyrir bátinn [G], með umsókn dags. 18. mars 2020.

Með bréfum, dags. 30. mars 2020, tilkynnti Fiskistofa kæranda og öðrum útgerðaraðilum í Sandgerði í Suðurnesjabæ ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun sem sendar voru á grundvelli framangreindra auglýsinga stofnunarinnar, dags. 10. mars 2020. Bátum [B ehf.], [E ehf.] og [K ehf.] var öllum úthlutað tilteknu magni af byggðakvóta. Ákvarðanir Fiskistofu var byggð á 10. gr. laga nr. 116/2006 og reglugerð nr. 676/2019.

Þá kom fram í ákvörðun Fiskistofu að þær væru kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta.

Með tölvubréfi til ráðuneytisins, dags. 28. maí 2020, tilkynnti Fiskistofa að með nýrri ákvörðun, dags. 26. maí 2020, hefði verið afturkölluð eldri ákvörðun um úthlutun byggðakvóta til bátsins. Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því eiganda og útgerðaraðila skipsins varð kunnugt um ákvörðunina, sbr. 1. mgr. 26.  gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Með stjórnsýslukæru, dags. 3. júlí 2020, var umrædd ákvörðun um afturköllun kærð til ráðuneytisins og þess krafist að hún yrði felld úr gildi. Með úrskurði, dags. 30. október 2020, staðfesti ráðuneytið framangreinda ákvörðun Fiskistofu um afturköllun úthlutunar til bátsins [G].

Með bréfum, Fiskistofu, dags. 2. nóvember 2020, var endurákvörðuð úthlutun til allra báta í Sandgerði í Suðurnesjabæ sem rétt áttu til úthlutunar byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020.

Bátum [B ehf.], [E ehf.]. voru samkvæmt því sendar nýjar ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun tiltekins magns af byggðakvóta til þeirra en jafnframt voru eldri ákvarðanir stofnunarinnar, dags. 30. mars 2020 felldar úr gildi.

 

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 8. apríl 2020, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærði [A] f.h. [B ehf.] ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. mars 2020, um úthlutun byggðakvóta til bátsins [G].

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að kærendur fari fram á að skoðað verði hvort löglegt hafi verið að úthluta byggðakvóta á bát/skip sem skráður sé í byggðarlaginu eftir 1. júlí 2019. Skipið sem um ræði sé [G] sem sé skráð í Sandgerði 6. janúar 2020. Veiðireynsla þess skips sem miðað sé við sé [I] en hann hafi verið skráður í Sandgerði 28. júní 2019. Endurnýjaður [Í] sé skráður í Garði 28. júní 2019 og allar aflahlutdeildir hafi verið færðar af gamla [I] yfir á nýja [Í]. Það komi fram í 1. gr. reglugerðar nr. 676/2019, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2019/2020 að grundvöllur fyrir úthlutun sé að uppfylla skilyrði a- og b-liða 1. gr. reglugerðarinnar. Einnig komi fram í 4. gr. reglugerðarinnar að hafi skip verið endurnýjað sé hægt að taka tillit til aflahlutdeildar sem færð hafi verið á milli skipanna, þess eldra sem veiðireynslan byggðist á og skipsins sem eigi að úthlutatil en engar aflahlutdeildir hafi verið færðar á milli þessara skipa. Allar aflahlutdeildir hafi verið færðar á endurnýjað skip með sama nafn og eldra skipið og sé það skráð í byggðarlaginu Garði. Með tilliti til þessara greina telji kærendur ekki grundvöll fyrir úthlutun byggðakvóta til bátsins [G] í Sandgerði í Suðurnesjabæ.

Með tölvubréfi, dags. 20. apríl 2020, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Með tölvubréfi, dags. 28. maí 2020, tilkynnti Fiskistofa ráðuneytinu að stofnunin hafi afturkallað eldri ákvörðun sína um úthlutun byggðakvóta til [G] og myndi því ekki skila umsögn í málinu.

       

 

Rökstuðningur

I. Stjórnsýslukæra í máli þessu er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, en þar kemur fram að ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt greininni sé heimilt að kæra til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Að mati ráðuneytisins verður að skýra ákvæðið með hliðsjón af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem einnig gilda um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum nr. 116/2006. Í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er hugtakið aðili máls ekki skilgreint en í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur hins vegar fram að það eigi ekki einungis við um þá sem eigi beina aðild að máli heldur geti einnig fallið undir aðila máls samkvæmt lögunum þeir sem hafi óbeinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls. Þá kemur þar einnig fram að það sem ráði úrslitum um það efni sé hvort viðkomandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta af stjórnvaldsákvörðun, sbr. Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3282.

Kæruheimild í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 byggir samkvæmt framanrituðu á því að kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta sem beinlínis reynir á við úrlausn tiltekins máls sem kært er til ráðuneytisins.

Bátur kæranda,[C] hefur samkvæmt ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. mars 2020, fengið úthlutað af þeim 87 þorskígildistonnum af byggðakvóta sem úthlutað var til Sandgerðis í Suðurnesjabæ, sbr. bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til Suðurnesjabæjar, dags. 31. desember 2019. Úthlutun af byggðakvóta í Sandgerði í Suðurnesjabæ til bátsins [G] samkvæmt ákvörðun Fiskistofu, dags. 30. mars 2020, hefur því áhrif á úthlutun byggðakvóta til báts kæranda þar sem hún fer einnig fram af framangreindum byggðakvóta sem úthlutað hefur verið til byggðarlagsins.

Að teknu tilliti til þessa er það mat ráðuneytisins að kærandi hafi haft lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þess máls sem hér er til umfjöllunar þegar kæran barst ráðuneytinu.

 

II. Eins og gerð er grein fyrir hér að framan hefur Fiskistofa með nýrri ákvörðun, dags. 26. maí 2020, afturkallað ákvörðun um úthlutun byggðakvóta til bátsins [G]. Umrædd ákvörðun Fiskistofu um afturköllun eldri ákvörðunar var staðfest með úrskurði ráðuneytisins, dags. 30. október 2020. Jafnframt hefur Fiskistofa í samræmi við það með bréfi, dags. 25. nóvember 2020, leiðrétt úthlutun til báts kæranda, [C] og með því fellt úr gildi eldri ákvörðun stofnunarinnar, dags. 30. mars 2020.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að kærandi hafi ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þessa máls en samkvæmt því verður stjórnsýslukæru í máli þessu vísað frá.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

 

Úrskurður

Stjórnsýslukæru [B ehf.], dags. 8. apríl 2020, er vísað frá.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira