Hoppa yfir valmynd

Nr. 440/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 14. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 440/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21060070

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. júní 2021 kærði […], kt. […], ríkisborgari Filippseyja (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. júní 2021, um að hafna umsókn hennar um dvalarleyfi, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar hennar við íslenskan ríkisborgara.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli vistráðningar hinn 6. október 2019 með gildistíma til 6. október 2020. Vegna Covid-19 faraldursins var kæranda veitt sérstök heimild til þess að dveljast áfram í landinu til 10. nóvember 2020 og yfirgaf hún landið samkvæmt gögnum málsins hinn 1. nóvember 2020. Kærandi kom aftur til Íslands hinn 18. desember 2020 og lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, hinn 27. janúar 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. júní 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 29. júní 2021 en meðfylgjandi kæru voru greinargerð ásamt fylgigögnum.

Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 10. ágúst 2021 féllst kærunefndin á þá beiðni.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni vísar Útlendingastofnun til og fjallar um ákvæði 51. gr. laga um útlendinga. Að mati Útlendingastofnunar hafði kærandi ekki heimild til dvalar þegar hún lagði dvalarleyfisumsókn sína fram, hvorki á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar né dvalar án áritunar og uppfyllti hún því ekki skilyrði 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Að mati stofnunarinnar væru aðstæður kæranda ekki þess eðlis að beiting undantekningarheimildar 3. mgr. 51. gr. ætti við. Var umsókn kæranda því hafnað á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hún hafi komið til Íslands hinn 18. desember 2020 eftir að hafa fengið tímabundið dvalarleyfi í Noregi á grundvelli vistráðningar. Með hinu útgefna dvalarleyfi hafi henni verið heimilt að ferðast innan Schengen-svæðisins í allt að 90 daga á 180 daga tímabili en umrætt dvalarleyfi hafi verið í gildi til 8. nóvember 2022. Við komuna til Íslands hafi kærandi framvísað dvalarleyfiskorti sínu frá Noregi ásamt vegabréfi og hafi engar athugasemdir verið gerðar. Þá hafi þáverandi unnusti og núverandi eiginmaður kæranda sent fyrirspurn til Útlendingastofnunar um það hvað þyrfti til að gera svo kærandi gæti komið til Íslands þar sem þau hygðust ganga í hjúskap. Svör Útlendingastofnunar hafi snúið að ferðatakmörkunum vegna Covid-19 en að öðru leyti hafi fyrirspurninni ekki verið svarað um það hvort gera þyrfti sérstakar ráðstafanir vegna komu kæranda til landsins. Byggir kærandi á því að leiðbeiningum Útlendingastofnunar hafi verið ábótavant.

Kærandi byggir á því að hún hafi haft heimild til dvalar hér á landi í allt að 90 daga án sérstakrar áritunar, sbr. dvalarleyfiskort hennar frá Noregi og upplýsingar frá norskum stjórnvöldum sem hún hafði í fórum sínum. Hafi hún og maki gengið í hjúskap hinn 14. janúar 2021 og lagt inn dvalarleyfisumsókn á grundvelli þess hjúskapar hinn 27. janúar 2021. Vísar kærandi til þess að á umsóknardegi hafði hún dvalið hér á landi í 32 daga og því verið innan þess tímaramma sem greinir í 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir jafnframt á því að hún uppfylli skilyrði 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi verið í hjúskap með íslenskum ríkisborgara þegar umþrætt umsókn var lögð fram og því séu fyrir hendi ríkar sanngirnisástæður í málinu. Kærandi telur að skilyrði um að tryggja samvistir fjölskyldu falli undir sjónarmið um sanngirnisástæður enda séu eiginmaður hennar og fjölskylda hans, fjölskylda hennar í skilningi laga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 51. gr. er heimilt að víkja frá því skilyrði ef umsækjandi er staddur hér á landi og er maki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis Er þessi undantekning háð því að umsækjandi hafi heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á grundvelli dvalar án áritunar. Eins og að framan er rakið er á því byggt í hinni kærðu ákvörðun að kærandi hafi ekki haft heimild til dvalar hér á landi þegar hún lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara þann 27. janúar 2021. 

Kærandi var með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli vistráðningar á tímabilinu 6. október 2019 til 6. október 2020. Þá fékk hún samkvæmt gögnum málsins sérstaka heimild til að vera áfram á landinu til 10. nóvember 2020 vegna Covid-19 faraldursins, sbr. bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 830/2020 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Því næst fékk kærandi útgefið dvalarleyfi í Noregi á grundvelli vistráðningar með gildistíma frá 24. nóvember 2020 til 8. nóvember 2022. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að það dvalarleyfi hafi enn verið í gildi þegar kærandi kom hingað til lands hinn 18. desember 2020. Þar sem kærandi er með dvalarleyfi í Noregi, sem er aðili að Schengen-samstarfinu, hafði hún heimild til þess að koma til Íslands án sérstakrar áritunar, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga. Kemur því til skoðunar hvort fyrri dvöl kæranda hér á á landi, á grundvelli dvalarleyfis vegna vistráðningar, gat staðið í vegi fyrir að hún kæmi aftur hingað til lands að fengnu sams konar dvalarleyfi í Noregi.

Í 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að útlendingum sem ekki þurfi vegabréfsáritun til landgöngu sé óheimilt án sérstaks leyfis að dvelja hér lengur en 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru landi, sem taki þátt í Schengen-samstarfinu teljist jafngilda dvöl hér á landi. Í 2. mgr. 20. gr. laganna segir að útlendingur sem hefur dvalarleyfi gefið út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu sé undanþeginn áritunarskyldu. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að ákvæðið markist af því að útlendingur sem sé með dvalarleyfi útgefið af öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu geti ferðast frjálst um yfirráðasvæði hinna Schengen-ríkjanna í allt að 90 daga, sbr. 1. mgr. 21. gr. Schengen-samningsins og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 526/2006, um för yfir landamæri. Schengen-samstarfið byggir m.a. á þeim grundvelli að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna með afnámi vegabréfaskoðunar og gildir það jafnt um einstaklinga sem eru ríkisborgarar samstarfsríkjanna, þriðja ríkis borgara sem undanþegnir eru skyldu til að hafa vegabréfsáritun á Schengen-svæðið sem og þriðja ríkis borgara sem annað hvort hafa útgefna vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið eða dvalarleyfi í einu samstarfsríkjanna.

Í 3. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um hvernig reikna skuli dvalartíma. Í 8. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum, koma fram nánari reglur þar að lútandi. Þar segir í 1. mgr. að útlendingur, sem þurfi vegabréfsáritun til landgöngu, megi ekki dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum sé óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu teljist jafngilda dvöl hér á landi. Samanlögð dvöl á Schengen-svæðinu megi ekki fara yfir 90 daga á 180 daga tímabili. Þá segir í 2. mgr. 8. gr. að dvalartími útlendings sem er undanþeginn áritunarskyldu reiknist frá þeim degi er hann kom inn á Schengen-svæðið. Ef útlendingurinn hefur dvalarleyfi í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu reiknist dvalartíminn frá þeim degi er hann fór yfir innri landamæri Schengen-svæðisins. Í 3. mgr. ákvæðisins kemur fram að hafi útlendingur dvalarleyfi í öðru norrænu ríki og sé hann ríkisborgari ríkis sem undanþegið er áritunarskyldu við komu til landsins reiknast dvalartíminn frá því að hann kom til landsins. Skal þá einungis taka mið af dvöl í landinu síðustu 180 daga þegar dvalartími er reiknaður, sbr. 2. og 4. mgr. 5. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins.

Samkvæmt framangreindu er 8. gr. reglugerðar um útlendinga ekki alls kostar skýr um það hvernig reikna skuli dvalartíma í tilvikum þar sem útlendingur hefur dvalarleyfi í öðru Schengen-ríki en Íslandi og hefur áður dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis útgefnu af íslenskum yfirvöldum. Ljóst er af 2. málslið 1. mgr. 8. gr. að kæranda var óheimilt að dveljast hér lengur en 90 daga frá komu til landsins og að samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 8. gr. átti að reikna dvalartíma kæranda frá þeim degi er hún fór yfir innri landamæri Schengen-svæðisins. Á hinn bóginn er alls óljóst hvernig beita skal þeim reglum er fram koma í 3. og 4. málslið 1. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar er mæla fyrir um að við útreikning dvalartíma skuli dvöl í ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu teljast jafngilda dvöl hér á landi og að samanlögð dvöl á Schengen-svæðinu megi ekki fara yfir 90 daga á 180 daga tímabili.

Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2016/399 um för yfir landamæri koma fram nánari reglur um för svokallaðra þriðja ríkis borgara til og innan Schengen-svæðisins. Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar koma fram skilyrði þess að slíkur borgari geti fengið að dvelja 90 daga í aðildarríki Schengen samstarfsins á 180 tímabili. Í 2. gr. 6. gr. segir síðan að við útreikning dvalartímans skuli ekki taka tillit til dvalar á grundvelli dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar sem gefin hefur verið út til lengri tíma.

Af framangreindu verður að teljast ljóst að samkvæmt reglugerð 2016/399 um för yfir landamæri átti, við útreikning dvalartíma kæranda hér á landi, hvorki að taka mið af fyrri dvöl kæranda hér á landi á grundvelli dvalarleyfis né þeim tíma sem hún hafði dvalið á grundvelli slíks leyfis í Noregi. Kærandi átti því samkvæmt 1. og 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar rétt á að dvelja hér á landi í 90 daga frá og með 18. desember 2020 þegar hún kom aftur hingað til lands eftir að hafa fengið dvalarleyfi í Noregi. Var sá tími ekki liðinn þegar kærandi sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara þann 27. janúar 2021.

Í samræmi við þá meginreglu að skýra verður íslenskan rétt í samræmi við þær þjóðréttarskuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist og þá afstöðu sem lesa má úr frumvarpi til laga um útlendinga um að með lögunum séu innleiddar skuldbindingar Íslands á grundvelli Schengen-samstarfsins, lítur kærunefnd svo á að eftir því sem kostur sé verði að ljá ákvæðum laga um útlendinga og reglugerðar um útlendinga þá merkingu sem felst í skýrum ákvæðum reglugerðar 2016/399. Með vísan til þessa var röng sú niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar að kærandi hefði ekki haft heimild til dvalar hér á landi í skilningi 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar á ný.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira