Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 653/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 653/2020

Miðvikudaginn 24. mars 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 9. desember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. desember 2020 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 23. nóvember 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. desember 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. desember 2020. Með bréfi, dags. 10. desember 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 26. janúar 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. janúar 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn hennar um örorkulífeyri verði endurskoðuð.

Í kæru greinir kærandi frá því að vegna langrar sögu um andleg veikindi hafi endurhæfing árið 2018 ekki gert neitt fyrir hennar heilsu. Kærandi hafi tekið sér smá hlé og hafi sótt aftur um endurhæfingu sem hafi verið synjað vegna andlegra veikinda þar sem ekki hafi verið séð fram á að hún myndi fara á vinnumarkaðinn á næstunni. Kærandi hafi sótt um örorku með heimilislækni sínum þar sem seinasta árið hafi líðan hennar farið mjög versnandi og auk þess hafi hún verið tekjulaus í rúma sex mánuði. Þar af leiðandi hafi hún ekki einu sinni getað gengið til sálfræðings. Kærandi spyr hvað sé nú ætlast til að hún geri þar sem Tryggingastofnun hafi hafnað öllu því sem hún hafi sótt um. Með vísan til bréfs frá VIRK starfsendurhæfingu þar sem fram komi að hún sé ekki hæf í endurhæfingu, hafi hún engin önnur úrræði en að sækja um örorkubætur.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkulífeyri.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Þá sé í 37. gr. laganna meðal annars kveðið á um það að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn, dags. 23. nóvember 2020. Með örorkumati, dags. 5. desember 2020, hafi kæranda verið synjað um örorkumat á grundvelli þess að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Kærandi hafði áður sótt um örorkumat með umsókn, dags. 11. desember 2019, ásamt staðfestingu frá Starfendurhæfingu C, dags. 3. desember, þar sem segi að kærandi hafi hætt endurhæfingu í þeim tilgangi að sækja um örorku. Með örorkumati, dags. 7. janúar 2020, hafi kæranda verið synjað um örorkumat á grundvelli þess að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Einnig hafði borist umsókn um örorkumat, dags. 2. júlí 2020, en engin gögn hafi fylgt með þeirri umsókn.

Kærandi hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í 18 mánuði fyrir tímabilið 1. janúar 2019 til 31. maí 2020. Með ákvörðun, dags. 13. maí 2020, hafi 18. mánuður endurhæfingarlífeyris verið samþykktur en áframhaldi endurhæfingarlífeyris hafi verið synjað á þeim grundvelli að við skoðun málsins hafi ekki þótt rök fyrir því að meta endurhæfingartímabil fram yfir fyrstu 18 mánuðina, vegna sérstakra ástæðna, þar sem fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun hafi ekki verið talin nógu ítarleg í ljósi vanda kæranda og óljóst hvernig endurhæfingin kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað.

Kærandi hafi einnig sótt um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 28. maí 2020, sem hafi verið synjað með ákvörðun, dags. 16. júní 2020, og með umsókn, dags. 6. júlí 2020, sem hafi verið synjað með ákvörðun, dags. 10. ágúst 2020. Ástæða þessara synjana hafi verið sú sama og í ákvörðun, dags. 13. maí 2020.

Í gögnum, sem hafi borist um endurhæfingu kæranda með umsóknum frá 13. og 28. maí og 6. júlí 2020, hafi ekki verið aðrar upplýsingar um endurhæfingu en þær að hún hafi mætt fjórum sinnum til sálfræðings frá janúar 2020, þ.e. 21. janúar, 4. febrúar, 12. mars og 5. maí en viðtali sem hafi verið bókað 24. mars hafi verið frestað vegna Covid-19 þar sem sálfræðistofunni hafi verið lokað um tíma. Öðrum bókuðum viðtölum, þ.e. 29. janúar, 19. febrúar, 25. febrúar, 19. maí, 9. júní, 7. júlí, 29. júlí og 4. ágúst hafi verið frestað.

Við örorkumat lífeyristrygginga þann 5. desember 2020 hafi legið fyrir umsókn, dags. 23. nóvember 2020, spurningalisti, móttekinn 23. nóvember 2020, læknisvottorð [ C], dags. 20. nóvember 2020, og bréf frá VIRK, dags. 23. nóvember 2020.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er gerð grein fyrir því sem fram kemur í læknisvottorði, dags. 20. nóvember 2020, staðfestingu frá VIRK, dags. 23. nóvember 2020, og svörum kæranda við spurningalista, mótteknum 23. nóvember 2020.

Tryggingastofnun telji að afgreiðsla umsóknar kæranda, þ.e. að synja örorkumati á grundvelli þess að endurhæfing sé ekki fullreynd, hafi verið rétt í þessu máli.

Í læknisvottorði, dags. 23. nóvember 2020, komi fram upplýsingar um að búast megi við að færni kæranda muni aukast og í staðfestingu VIRK komi fram upplýsingar um að þó að þverfaglegt inntökuteymi VIRK hafi vísað frá beiðni kæranda um starfsendurhæfingu á þessum tímapunkti og hafi vísað á heilbrigðiskerfið, komi þar einnig fram að ekki sé um endanlega frávísun að ræða. Inntökuteymið sjái ýmsa möguleika sem vert sé að reyna og VIRK mæli með að kærandi sæki aftur um hjá VIRK í nóvember 2020 með starfsendurhæfingu frá áramótum að leiðarljósi.

Nokkur fordæmi séu fyrir því í úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem tekið sé undir heimild Tryggingastofnunar samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð til þess að fara fram á það við umsækjendur um örorkubætur að þeir gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Sjá meðal annars í þessu samhengi úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í málum nr. 57/2018, 234/2018, 299/2018, 338/2018, 235/2019, 260/2019, 350/2019, 375/2019, 380/2019, 383/2019 og 24/2020 ásamt fleiri sambærilegum úrskurðum.

Tekið skuli fram að mat á því hvort endurhæfing sé fullreynd sé miðað við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu, búsetu eða aðrar félagslegar aðstæður kæranda eða það hvort viðkomandi uppfylli ekki einhver önnur skilyrði endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni. Það sjónarmið hafi einnig verið staðfest í mýmörgum úrskurðum úrskurðarnefndarinnar eins og til dæmis úrskurðum í málum nr. 20/2013, 33/2016, 352/2017 og 261/2018.

Að lokum sé ítrekað að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat hjá stofnuninni gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Stofnunin telji ljóst að endurhæfing sé ekki fullreynd í tilfelli kæranda, auk þess sem óvinnufærni ein og sér eigi ekki endilega að leiða til örorkulífeyris hjá Tryggingastofnun. Jafnframt skuli áréttað að kærð ákvörðun hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. desember 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd, þrátt fyrir að kærandi hafi fullnýtt endurhæfingarlífeyri samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Í læknisvottorði C, dags. 20. nóvember 2020, segir að sjúkdómsgreining kæranda sé þunglyndi. Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir í vottorðinu:

„A er með sögu um endurteknar geðlægðarlotur frá unglingsárum. Þunglyndislota síðast veturinn 2018/2019 og leitaði læknishjálpar í apríl 2019 og sett á Wellbutrin Retard. Hafði verið á Fluoxetin. Jafnframt var sótt um þjónustu hjá VIRK og hefur verið í starfsendurhæfingu hjá Starfsendurhæfingu C. Gekk nokkuð vel þar til kom að vinnuprófun og var þá var ekki talið að frekari starfsendurhæfing skilaði henni á vinnumarkað. Sótt hafði verið um Janus endurhæfingu og var hún bjartsýn á að það gæti dugað til að ná upp starfsþreki.

Hún segist í jafnvægi flesta daga og gengið nokkuð vel á Wellbutrin Retard 300mg. Fengið ýmis konar sálfræðiaðstoð í endurhæfingunni.

Er nú hjá D sálfr. ( E) í reglulegum viðtölum tvisvar í mánuði. Byrjaði þar 21. jan 2020 sem liður í endurhæfingu.

Hún eignaðist barn [...].

Í samráði við sálfræðing hennar var ráðlagt að sækja um tímabundna örorku því nú er hún að hætta í fæðingarorlofi í X og hún sér ekki fram á að fara að vinna og heldur ekki endurhæfingateymið hjá VIRK.“

Um lýsingu læknisskoðunar segir:

„Síðasta koma var 13.11.2020:

" Er hætt að sofa og grætur allan sólarhringinn. Ekki upplifað svona mikinn kvíða. Hætt að gera allt, talar ekki við neinn og fer ekki úr húsi. Getur ekki gert húsverkir. Treystir engum nema sér fyrir barninu. Fæðingin erfið. Hætt með hann á brjósti. Fær góða hjálp heima.

Þarf að geta hvílst / sofið."

Símtal í dag. Fékk hjálp heima og náði að hvílast / sofa.“

Samkvæmt vottorðinu hefur kærandi verið óvinnufær en fram kemur að búast megi við að færni hennar aukist eftir læknismeðferð, endurhæfingu eða með tímanum.

Einnig liggur fyrir læknisvottorð C, dags. 5. ágúst 2020, sem kærandi lagði fram með umsókn um endurhæfingarlífeyri sem er að mestu samhljóða vottorði hans frá 20. nóvember 2020. Í samantekt segir:

„Núverandi vinnufærni: Óvinnufær

Framtíðar vinnufærni: Samkv. nótu frá VIRK 01.07.2020 er þjónusta VIRK ekki talin líkleg til árangurs á þessum tímapunkti. Þverfaglegt inntökuteymi VIRK vísar frá beiðni um starfsendurhæfingu á þessum tímapunkti. Fram kemur í svörum A á spurningalista VIRK og í símtali við fulltrúa inntökuteymis að hún sjái sig hvorki í námi né vinnu á næstu misserum. Inntökuteymi sér hins vegar ýmsa möguleika, sem vert er að reyna. Þar sem A segist fá afar góða og áhrifaríka þjónustu hjá D sálfræðingi, er mælt með að svo verði áfram. Þá er einnig mælt með að svo verði áfram. Þá er einnig mælt með reglulegri hreyfingu með Hreyfiseðli, til að auka andlegt úthald og líkamlegt þrek. Þá má skoða námskeið í Hringsjá , sem hefjast í lok ágúst t.d. Úr frestun í framkvæmd og Í fókus. Ef þetta gengur allt eftir og A nær að sinna námskeiðum, hreyfingu og mætingu hjá sálfræðingi er mælt með að sækja aftur um hjá VIRK í nóvember 2020 með starfsendurhæfingu frá áramótum að leiðarljósi til dæmis með fullu námi í Hringsjá. Þar sem sótt er um til að A fái áfram endurhæfingarlífeyri, er heilsugæslan hvött til þess að gera aðra endurhæfingaráætlun, þar sem ofangreindir liðir séu settir saman. Þá þarf að koma fram að unnið verði að endurkomu í vinnu, eftir t.d. nám í Hringsjá. Vegna þungunar og væntanlegrar fæðingar [...] tel ég ekki fært fyrir hana að sækja fyrrgreind námskeið en Hreyfiseðill verður þó á prógramminu.

Samantekt: X ára X barna móðir með sögu um endurteknar þunglyndislotur og nú síðasta árið með þunglyndi sem hefur valdið óvinnufærni. Verið í starfsendurhæfingu VIRK en stóðst ekki vinnuprófun. Er í sálfræðimeðferð sem gengur vel og metið til endurhæfingar. Fær áframhaldandi sálfr.meðferð og Hreyfiseðil. Væntir fæðingar í [...], sem gæti frestað einhverjum atriðum.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í stuttri lýsingu á heilsuvanda kæranda greinir hún frá félagsfælni, kvíða, ofsakvíða og miklu þunglyndi. Í svörum kæranda varðandi líkamlega færni kemur fram að hún eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir vegna verkja. Einnig greinir kærandi frá vandamálum með hljóðhimnu í hægra eyra og varðandi stjórn á þvaglátum greinir kærandi frá því að hún að hún hafi átt erfitt með að halda í sér. Kærandi svaraði spurningu um það hvort hún hafi átt við geðræn vandamál að stríða játandi og greinir þar frá mjög mikilli félagsfælni, þunglyndi og kvíða, auk ofsakvíða frá því að hún var ung.

Í bréfi VIRK, dags. 23. nóvember 2020, segir:

„Beiðnin hefur verið afgreidd og er niðurstaða inntökuteymis VIRK að starfsendurhæfing sé ekki tímabær/viðeigandi eða að einstaklingur uppfyllir ekki skilyrði fyrir þjónustu VIRK þar sem:

Þjónusta VIRK er ekki talin líkleg til árangurs á þessum tímapunkti

Niðurstaða VIRK er að einstaklingur hafi líklega þörf fyrir þjónustu á vegum: Heilbrigðiskerfisins.

Þverfaglegt inntökuteymi VIRK vísar frá beiðni um starfsendurhæfingu á þessum tímapunkti. Fram kemur í svörum A á spurningalista VIRK og í símtali við fulltrúa inntökuteymis að hún sjái sig hvorki í námi né vinnu á næstu misserum. Inntökuteymi sér hins vegar ýmsa möguleika sem vert er að reyna. Þar sem A segist fá afar góða og áhrifaríka þjónustu hjá D, sálfræðingi heilsugæslunnar, er mælt með að svo verði áfram. Þá er einnig mælt með reglulegri hreyfingu, með hreyfiseðli, til að auka andlegt úthald og líkamlegt þrek. Þá má skoða námskeið í Hringsjá sem hefjast í lok ágúst t.d. Úr frestun í framkvæmd og Í fókus. Ef þetta gengur allt eftir og A nær að sinna námskeiðum, hreyfingu og mætingu hjá sálfræðingi er mælt með að sækja aftur um hjá VIRK í nóvember 2020 með starfsendurhæfingu frá áramótum að leiðarljósi, til dæmis með fullu námi í Hringsjá. Þar sem sótt er um til að A fái áfram endurhæfingarlífeyri, er heilsugæslan hvött til þess að gera aðra endurhæfingaráætlun, þar sem ofangreindir liðir séu settir saman. Þá þarf að koma fram að unnið verði að endurkomu í vinnu, eftir t.d. nám í Hringsjá.“

Meðal gagna málsins liggur fyrir greinargerð Starfsendurhæfingar C við lok þjónustutímabils, dags. 3. desember 2019. Þar er greint frá markmiði í upphafi endurhæfingar:

„Draga úr þunglyndi og Kvíða og vinna með félagsfælni. Á X ung börn og hefur því verið heimavinnandi lengi, vill komast á vinnumarkaðinn, koma á dagsskipulagi og rútínu. Bæta þrek, þol og styrk.“

Um um heilsubrest / vanda kæranda segir:

„A hefur verið þunglynd og með kvíða frá því að hún var unglingur og hefur verið á lyfjum vegna þess. Hún á X börn sem hún eignaðist á X árum og hefur því verið heima að hugsa um börnin og heimilið. A segir sjálf að hún vilji vera virkari, fá rútínu í sitt líf, mæta einhversstaðar og vill geta staðið við skuldbindinguna að mæta. Hún hefur fundið fyrir orkuleysi og dofa í langan tíma og finnst hún vera félagsfælin.“

Um heildarástund kæranda segir:

„A var með43% raunmætingu frá upphafi, 32% veikindi (eigin og barna) og 15% óútskýrðar fjarvistir. Hún var dugleg að hringja og láta vita ef hún komst ekki og þegar hún var heima að jafna sig eftir veikindi þá hringdi hún til að láta vita hvernig gengi.“

Um stöðu kæranda segir:

„A ákvað að hætta í starfsendurhæfingunni og ætlar að sækja um örorku.“

Einnig liggja fyrir bréf D sálfræðings til Tryggingastofnunar, dags. 15. apríl og 2. júní 2020. Í bréfinu frá 2. júní 2020 segir:

„Vegna umsóknar A um endurhæfingalífeyri skal tekið fram að hún áformar að vera í viðtölum hjá undirritaðri þar til hún kemst að í starfsendurhæfingu..

Viðtöl: 21.1.20 (1), bókað viðtal 29.1.20 frestað, 4.2.20 (2), átti bókað viðtal 19.2. en var veik, hún átti aftur bókað viðtal 26.2, en var tilkynnt veik. Hún kom í viðtal 12. mars 2020 (3) og átti bókað viðtal 24. mars sem frestað var vegna covid19 þar sem sálfræðistofunni var lokað um tíma. Fjórði tíminn var 5.5.20 (4), bókað viðtal 19.5.20 frestað vegna veikinda. Næsti bókaði tími er 9.6.20.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.

Fyrir liggur að kærandi býr við vandamál af geðrænum toga og hefur verið í töluverðri endurhæfingu. Í læknisvottorði C, dags. 20. nóvember 2020, kemur fram að kærandi sé óvinnufær en að búast megi við að færni hennar aukist eftir læknismeðferð, endurhæfingu eða með tímanum. Í bréfi VIRK, dags. 23. nóvember 2020, er greint frá því að þverfaglegt inntökuteymi VIRK hafi vísað beiðni um starfsendurhæfingu frá á þessum tímapunkti en að inntökuteymið sjái hins vegar ýmsa möguleika sem vert sé að reyna. Þá er greint frá því í bréfi VIRK að kærandi sjái sig hvorki í námi né vinnu á næstu misserum en að heilsugæslan sé hvött til að útbúa endurhæfingaráætlun þar sem tekið sé á ákveðnum þáttum. Úrskurðarnefndin telur ljóst af framangreindu að starfsendurhæfing hjá VIRK sé fullreynd að svo stöddu en ekki verður dregin sú ályktun að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi. Þá verður hvorki ráðið af fyrirliggjandi læknisvottorðum C né af eðli veikinda kæranda að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í 18 mánuði en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu er fallist á að Tryggingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um örorkumat á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd í tilviki kæranda

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn . A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira