Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 100/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 100/2022

Föstudaginn 22. apríl 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. febrúar 2022, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. janúar 2022, um að synja umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 27. desember 2021, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna væntanlegrar fæðingar barns síns. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. janúar 2022, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Kærandi óskaði eftir endurupptöku þann 18. janúar 2022 og með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 2. febrúar 2022, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 11. febrúar 2022. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 7. mars 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. mars 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 31. mars 2022 og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar samdægurs með bréfi úrskurðarnefndar. Frekari athugasemdir bárust ekki.


 

II. Sjónarmið kærenda

Í kæru er greint frá því að kærð sé ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs frá 17. janúar 2022 um að synja kæranda um fæðingarstyrk námsmanna samkvæmt 27. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof. Um kæruheimild sé vísað til 7. gr. laga nr. 144/2020.

Í kæru sé þess krafist að hinni kærðu ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs verði hnekkt og að fallist verði á að kæranda beri réttur til fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt 27. gr. laga nr. 144/2020 frá og með mars 2022.

Kærandi sé X ára nemandi við C. Í fjölbrautaskólanum sé svokallað þriggja anna kerfi sem feli í sér að nemendur taki færri áfanga í einu og þar af leiðandi verði kennslutímar í hverri viku fleiri í hverjum áfanga. Vísað sé til frekari upplýsinga um þriggja anna kerfið á vefsíðu skólans.

Þegar í ljós hafi komið síðastliðið sumar að kærandi ætti von á barni með unnusta sínum hafi hún farið á fund námsráðgjafa við C og hafi vali námsgreina veturinn 2021 til 2022 verið hagað í samráði við ráðgjafann með tilliti til óléttunnar. Áætlaður fæðingardagur barns hafi verið 27. febrúar 2022. Í byrjun árs 2022 hafi kærandi sótt um fæðingarstyrk námsmanna hjá Fæðingarorlofssjóði. Með hinni kærðu ákvörðun 17. janúar 2022 hafi umsókninni verið hafnað á þeim forsendum að lagaskilyrði um fullt nám, sbr. 27. gr. laga nr. 144/2020, væri ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Frekari skýringar hafi verið gefnar á þessari ákvörðun í tölvupósti fulltrúa Fæðingarorlofssjóðs 24. janúar 2022 í þá veru að nám kæranda við C á haustönn og miðönn veturinn 2021 til 2022 næði því ekki að teljast fullt nám (75 til 100%) í skilningi laga um fæðingarorlof. Í tölvupóstinum var tekið fram að líti kærandi svo á að hún hefði verið í fullu námi þyrfti að koma staðfesting frá fjölbrautaskólanum með nánari skýringum á því hvað teljist til fulls náms við skólann. Af þessu tilefni hafi kærandi sent Fæðingarorlofssjóði bréf frá skólameistara C, dags. 24. janúar 2022, þar sem staðfest sé að af hálfu skólans sé litið svo á að kærandi hafi stundað fullt nám (83%) veturinn 2021 til 2022. Viðbrögð hafi borist frá Fæðingarorlofssjóði með bréfi, dags. 2. febrúar 2022, þar sem fram komi að viðbótargögnin breyti ekki fyrri afgreiðslu, án frekari umfjöllunar.

Tilgangur með kæru sé meðal annars sá að fá leyst úr því hvað teljist fullt framhaldsskólanám í slíku þriggja anna kerfi sem notast sé við í C. Þar sem áætlaður fæðingardagur barns kæranda sé 27. febrúar 2022 sé tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 144/2020 að óbreyttu 27. febrúar 2021. Þá hafi kærandi verið við nám á miðönn veturinn 2020 til 2021 og lokið 15 einingum. Eins og fram komi í bréfi skólameistara C, dags. 24. janúar 2022, hafi kærandi þreytt nám veturinn 2021 til 2022 á haustönn í 20 einingum og á miðönn í 13 einingum. Val áfanga á miðönn hafi tekið tillit til þess að nær hafi dregið að fæðingu barnsins og hafi verið gert í samráði við námsráðgjafa skólans. Þar sem heildareiningafjöldi á ári sé sá sami í þriggja anna kerfi og í tveggja anna kerfi. eða 60 einingar í 100% námi, séu 20 einingar á önn fullt nám í þriggja anna kerfi. Til samanburðar sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 368/2018 þar sem fram komi að almennt teljist 60 framhaldsskólaeiningar á ári vera 100% nám við framhaldsskóla. Það geri 30 einingar á önn í tveggja anna kerfi og 20 einingar á önn í þriggja anna kerfi. Í úrskurðinum komi fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingarorlof sé 22 til 30 einingar á önn í tveggja anna kerfi sem geri 15 til 20 einingar í þriggja anna kerfi, sbr. skilgreiningu á „fullu námi“ í 1. tölul. 4. gr. laga nr. 144/2020. Þess sé að geta að 23. febrúar 2022 hefjist kennsla á vorönn 2022 við C og miði kærandi við að ljúka 20 einingum á þeirri önn. Veturinn 2021 til 2022 í heild, þ.e. haustönn, miðönn og vorönn, teljist kærandi því vera í 88% námi og því í fullu námi þar sem hún ljúki 53 einingum af 60. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 144/2020 sé raunar heimilað að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs þá skólaönn sem barn fæðist. Rétt sé að taka fram að kærandi stundi enga vinnu með námi veturinn 2021 til 2022.

Í athugasemdum kæranda, dags. 31. mars 2022, bendir kærandi á að svo virðist sem synjun Fæðingarorlofssjóðs sé meðal annars byggð á því að kærandi uppfylli ekki kröfur um námsframvindu á haustönn 2021. Það hafi ekki borið á góma á fyrri stigum málsins með skýrum hætti. Kærandi vísi í þessu sambandi til bréfs C, dags. 24. janúar 2022, þar sem fram komi að kærandi hafi þreytt nám í 20 einingum á haustönn 2021. Kærandi ítreki að val áfanga á miðönn hafi verið í samráði við námsráðgjafa skólans. Barn kæranda hafi fæðst 7. mars síðastliðinn.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé synjun á greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.

Með umsókn, dags. 27. desember 2021, hafi kærandi sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi vegna væntanlegrar fæðingar barns 27. febrúar 2022. Auk umsóknar kæranda hafi legið fyrir vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, staðfesting á skólavist og námsframvindu frá C, bréf frá sama skóla, dags. 24. janúar 2022, og beiðni um endurupptöku, dags. 18. janúar 2022.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 17. janúar 2022, hafi henni verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi og með bréfi, dags. 2. febrúar 2022, í kjölfar beiðni um endurupptöku, hafi henni verið tilkynnt um að viðbótargögn í málinu breyttu ekki fyrri ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eigi foreldrar sem hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og standist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs þá skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. ffl. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75 til 100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, við viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem vari í að minnsta kosti sex mánuði og geti því verið um að ræða tímabil sem afmarkist ekki af heilum almanaksmánuðum. Enn fremur sé átt við 75 til 100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda sé ekki enn fætt. Við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum sé því miðað við tímabil fyrir væntanlegan fæðingardag barns, það er tímabilið 27. febrúar 2021 fram að væntanlegum fæðingardegi.

Samkvæmt staðfestingu á skólavist frá C hafi kærandi stundað 20 eininga nám á haustönn 2021. Af þessum 20 einingum hafi kærandi einungis lokið 10 einingum, auk þess að fá eina einingu metna fyrir skólasókn, eða alls 11 einingar. Kærandi hafi fallið í 10 einingum. Á miðönn 2021 til 2022 hafi kærandi síðan verið skráð í 13 einingar fram að áætluðum fæðingardegi barns.

Þegar um sé að ræða nám við framhaldsskóla sé meginreglan sú að 60 einingar á skólaári teljist vera 100% nám, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Í tveggja anna kerfi teljist 22,5-30 einingar á önn því vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 144/2020. Fyrir liggi að í C sé þriggja anna kerfi og því teljist 20 einingar á önn vera 100% nám, sbr. meðal annars upplýsingar á heimasíðu skólans og bréf frá skólanum, dags. 24. janúar 2022. Í þriggja anna kerfi teljist því 15-20 einingar á önn vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 144/2020.

Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda líti Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir væntanlegan fæðingardag barns þar sem kærandi hafi hvorki staðist kröfur um námsframvindu á haustönn 2021 með 11 einingum né verið skráð í fullt nám á miðönn 2021 til 2022, eða aðeins 13 einingar.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað. Kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 26. gr. ffl.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar,  sem hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að sex mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Þrátt fyrir framangreint er foreldri heimilt að framselja sex vikur af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs þá skólaönn sem barn fæðist. Réttur til fæðingarstyrks vegna fæðingar barns stofnast við fæðingu barnsins og fellur niður er barnið nær 24 mánaða aldri.

Í 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. ffl. segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75 til 100% samfellt nám við viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem varir í að minnsta kosti sex mánuði og geti því verið um að ræða tímabil sem afmarkist ekki af heilum almanaksmánuðum. Í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla veitir eitt námsár 60 einingar. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 144/2020, segir meðal annars:

„Við framhaldsskóla teljast aftur á móti 30 framhaldsskólaeiningar (feiningar) á önn vera 100% nám og því teljast 22–30 feiningar á önn almennt fullt nám í skilningi frumvarpsins. Þá þarf námið að hafa verið við viðurkennda menntastofnun en með því er átt við að námið hafi verið hluti af og samþykkt sem námsleið hjá viðkomandi menntastofnun. Þá þarf námið að hafa varað í a.m.k. sex mánuði og er þá ekki heimilt að leggja saman meðaltal tveggja anna til að uppfylla kröfuna um fullt nám á einni önn heldur þurfa báðar annir að uppfylla kröfuna um fullt nám í a.m.k. sex mánuði.“

Af framangreindu leiðir að fullt nám í þriggja anna kerfi telst vera 15 til 20 einingar á önn. Enn fremur er ekki unnt að leggja saman einingafjölda á milli skólaanna og ætla að með því hafi foreldri samtals náð einingafjölda á tveimur önnum sem nemur fullu námi á einni önn við hlutaðeigandi skóla.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 27. febrúar 2022. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 144/2020 er því frá 27. febrúar 2021 og fram að fæðingardegi barnsins. Kærandi stundaði nám við C á viðmiðunartímabilinu. Í fjölbrautaskólanum er þriggja anna kerfi og taka því nemendur færri einingar á önn en í skólum sem hafa tveggja anna kerfi. Heildarfjöldi eininga á ári er þó hinn sami í báðum kerfum. Samkvæmt gögnum málsins þreytti kærandi nám á haustönn 2021, eða frá 16. ágúst 2021 til 9. nóvember 2021, í 20 einingum og á miðönn 2021 til 2022, eða frá 9. nóvember 2021 til 25. febrúar 2022, í 13 einingum. Samkvæmt yfirliti frá C var kærandi ekki skráð í nám frá 27. febrúar 2021 til 16. ágúst 2021.

Af framangreindu er ljóst að tvær einingar vantar upp á til að kærandi geti talist uppfylla viðmið um fullt nám á miðönn 2021 til 2022 eins og það er skilgreint í 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. ffl. Að mati úrskurðarnefndarinnar er því ljóst að kærandi fullnægir ekki fyrrgreindu skilyrði 1. mgr. 27. gr. laga. nr. 144/2020 um rétt til fæðingarstyrks námsmanna.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. janúar 2022, um synjun á umsókn A, um fæðingarstyrk námsmanna, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira