Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 28/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 28/2023

Fimmtudaginn 9. mars 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. janúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. desember 2022, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 13. nóvember 2022. Í vottorði fyrrverandi vinnuveitanda kæranda kemur fram að hún hafi sagt upp starfi sínu. Með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 24. nóvember 2022, var kæranda boðið að veita skýringar á starfslokum sínum. Skýringar bárust stofnuninni 30. desember 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. desember 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hennar hjá fyrrum vinnuveitanda væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. janúar 2023. Með bréfi, dags. 16. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 7. febrúar 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun og fengið viðurlög. Kærandi hafi ekki getað sinnt fyrra starfi sínu þar sem hún þurfi að annast son sinn á vinnutíma starfsins og sé með barnið á brjósti. Hún búi á Íslandi með eiginmanni sínum sem vinni fulla vinnu. Kærandi hafi gefið fyrrum vinnuveitanda þær skýringar á uppsögninni.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 13. nóvember 2022. Áður hafi kærandi verið í fæðingarorlofi sem hafi lokið í nóvember 2022.

Meðal gagna málsins sé staðfesting á starfstímabili frá fyrrum vinnuveitanda kæranda, B ehf. Þar komi fram að kærandi hafi starfað þar við þrif en sagt upp starfi sínu. Starfstímabil kæranda hafi verið tilgreint frá 13. mars 2020 til 31. desember 2021. Meðfylgjandi staðfestingu á starfstímabili frá B ehf. hafi verið skýringar kæranda á ástæðum þess að hún hafi sagt upp starfi sínu. Kærandi hafi greint frá því að hún gæti ekki unnið því að hún hefði engan til að passa ungan son sinn. Jafnframt óttaðist hún að bera með sér sýkla og sjúkdóma sem kynnu að smita son hennar. Þá hafi kærandi sagst glíma við vandamál í hrygg og mjöðmum í kjölfar meðgöngu sinnar og líkamleg vinna væri henni því erfið. Kærandi hafi greint frá því að hún leiti starfa sem séu ekki eins líkamlega krefjandi.

Með erindi, dags. 24. nóvember 2022, hafi verið óskað eftir frekari upplýsingum vegna starfsloka kæranda hjá B ehf. Í ljósi þess að kærandi hafi greint frá því að hún glímdi við líkamlega bresti hafi verið óskað eftir því að hún afhenti stofnuninni vottorð frá lækni um vinnufærni þar sem fram kæmi hvaða störfum hún gæti ekki sinnt, ef einhver væru. Kæranda hafi auk þess verið tjáð að ef hún hefði leitað til stéttarfélags, yfirmanns eða Vinnueftirlitsins með umkvörtunarefni fyrir starfslokum sínum væri óskað eftir staðfestingu þess efnis. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að ef ástæða starfsloka væri eigin uppsögn gæti hún þurft að sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga, sbr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi verið veittur sjö virkra daga frestur til að koma að frekari athugasemdum áður en ákvörðun yrði tekin í máli hennar. Engar frekari athugasemdir né gögn hafi borist Vinnumálastofnun innan tilgreinds frests og því hafi kæranda verið tilkynnt með erindi, dags. 12. desember 2022, að umsókn hennar hefði verið hafnað þar sem ekki væri ljóst hvort hún uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta.

Þann 14. desember 2022 hafi kærandi sent Vinnumálastofnun tölvupóst og óskað upplýsinga um ástæður þess að umsókn hennar hefði verið hafnað. Starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi greint kæranda frá því að stofnuninni þyrfti að berast vottorð um vinnufærni. Kærandi hafi átt í samskiptum við starfsmann Vinnumálastofnunar þann 19. desember 2022 þar sem hún hafi greint frekar frá aðstæðum sínum. Þá hafi kærandi greint frá því að hún þjáðist ekki af neinum langvarandi sjúkdómum og að hún gæti unnið við hvaða starf sem er. Hún hafi sagt upp fyrra starfi sínu því að hún þyrfti að sjá um ungan son sinn en hann væri á brjósti. Fyrri vinnustaður kæranda hafi ekki boðið upp á aðstæður fyrir brjóstagjöf. Starfsmaður stofnunarinnar hafi greint kæranda frá því að þar sem hún hefði áður tiltekið í skýringum sínum að hún ætti við vandamál að stríða í hrygg og mjöðmum þyrfti stofnuninni að berast vottorð frá lækni. Á vottorðinu þyrfti að taka fram hver vinnufærni kæranda væri. Þann 30. desember 2022 hafi Vinnumálastofnun borist vottorð um vinnufærni kæranda. Þar komi fram að kærandi sé andlega og líkamlega heilbrigð.

Með erindi, dags. 30. desember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur væri samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Með vísan til starfsloka hennar hjá B ehf. væri réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Lög nr. 54/2006 gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Í 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á. Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.“

Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og fá tilvik hafi fallið þar undir. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að með ákvæðinu sé verið að undirstrika það markmið vinnumarkaðskerfisins að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í ljósi þess sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þar sem annað starf sé ekki í boði. Þar sé jafnframt sérstaklega tekið fram að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður sem liggi að baki uppsögn séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Þó sé í athugasemdum sérstaklega fjallað um tvenns konar tilvik sem talin séu heyra til gildra ástæðna fyrir starfslokum. Annars vegar sé það þegar um ræði þau tilvik þegar maki hins tryggða hafi hafið störf í öðrum landshluta og fjölskyldan hafi af þeim sökum þurft að flytja búferlum. Hins vegar séu það þau tilvik þegar uppsögn megi rekja til þess að atvinnuleitandi hafi sagt upp störfum af heilsufarsástæðum en sé að öðru leyti vinnufær. Í athugasemdum sé þó sérstaklega áréttað að við þær aðstæður sé gert að skilyrði að vinnuveitanda hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en launamaðurinn hafi látið af störfum. Í ljósi þess að um matskennda ákvörðun sé að ræða sé Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður hvers máls falli að umræddri reglu. Vinnumálastofnun beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Ljóst sé að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu hjá B ehf. Ágreiningur snúi að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögn í starfi teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi í fyrri úrskurðum sínum talið að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið sé hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laganna.

Þær skýringar sem kærandi hafi gefið sem ástæðu fyrir uppsögn sinni lúti einkum að því að hún eigi ungan son á brjósti sem henni beri að annast. Hún og eiginmaður hennar eigi enga aðstandendur á Íslandi og því þurfi hún að annast son sinn en maður hennar vinni fullt starf.

Í a. lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum sé að vera í virkri atvinnuleit. Í 1. mgr. 14. gr. laganna komi fram að í virkri atvinnuleit felist meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi og vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða, sbr. c. til f. liðar 1. mgr. 14. gr. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. Í athugasemdum með 14. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega fjallað um tilvik foreldra með ung börn. Þar segi að gert sé ráð fyrir því að foreldrar í virkri atvinnuleit með ung börn hafi barnapössun. Þrátt fyrir meginreglu 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun heimilt samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laganna að veita undanþágu frá skilyrðum um að hinn tryggði hafi frumkvæði að starfsleit og sé reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða eða vaktavinnu. Í 4. mgr. 14. gr. sé kveðið á um undanþágu þegar atvinnuleitandi beri umönnunarskyldu vegna ungra barna. Í athugasemdum með 14. gr. sé þó sérstaklega áréttað að með umönnunarskyldu vegna ungra barna sé ekki átt við þau tilvik þegar hinir tryggðu beri fyrir sig að hafa ekki barnapössun fyrir ung börn á dagvinnutíma. Í þessu sambandi megi einnig benda á að í athugasemdum með 57. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega ítrekað að það að hafa ekki barnapössun fyrir ung börn á dagvinnutíma teljist ekki réttlæta höfnun á starfi samkvæmt ákvæði 57. gr.

Samkvæmt umsókn kæranda um atvinnuleysistryggingar hafi kærandi óskað eftir 100% starfi. Kærandi hafi greint frá því í skýringum sínum að hún hafi sagt upp starfi sínu því að hún eigi ungan son á brjósti og hafi enga barnapössun. Maður hennar vinni fullt starf og því beri henni að annast son sinn. Vinnumálastofnun hafi ekki upplýsingar um tilhögun vinnu kæranda hjá B ehf., þ.e. hvort um hafi verið að ræða starf á dagvinnutíma. Aftur á móti gefi skýringar kæranda skýrt til kynna að fjölskylduaðstæður hennar séu ekki þess eðlis að hún geti tekið starfi á dagvinnutíma. Í því samhengi vísi stofnunin til þess að í samskiptum sínum við atvinnurekanda hafi kærandi greint frá því að sonur hennar væri á brjósti og því gæti eiginmaður kæranda ekki séð um drenginn. Vinnumálastofnun þyki því ljóst að undanþáguheimild 4. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki við um aðstæður kæranda.

Kærandi hafi jafnframt greint frá því í skýringum sínum til Vinnumálastofnunar að hún hafi glímt við óþægindi í hrygg og mjöðmum í kjölfar meðgöngu. Hún leiti því að störfum sem ekki krefjist mikillar líkamlegrar áreynslu. Samkvæmt vottorði um vinnufærni, sem hafi borist Vinnumálastofnun þann 30. desember 2022, sé kærandi þó fær til allra starfa. Kærandi hafi því ekki framvísað vottorði þess efnis að hún glími við líkamlega bresti sem hafi orðið til þess að hún hafi þurft að segja upp starfi sínu. Þá verði ekki ráðið af gögnum máls að hún hafi greint atvinnurekanda sínum frá slíku eða að honum hafi verið kunnugt um þær aðstæður, eins og gert sé að skilyrði þegar uppsögn megi rekja til heilsufarsástæðna, sbr. áðurnefndar athugasemdir með 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Eins og áður segi beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum án þess að hafa tryggt sér annað starf að hafa til þess gildar ástæður. Með vísan til alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda á ástæðum þess að hún hafi sagt upp starfi sínu hjá B ehf. séu ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Sú niðurstaða leiði af 54. gr., 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með vísan til starfsloka hennar hjá B ehf.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kærandi sagði upp starfi sínu hjá B ehf. en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður hennar fyrir uppsögninni hafi verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða.

Kærandi hefur gefið þær skýringar að hún hafi sagt upp starfi sínu þar sem hún hafi ekki haft neinn til að passa ungan son sinn.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 54/2006 segir meðal annars svo:

„Enn fremur þykir ástæða til að taka fram að umsækjandi teljist vera í virkri atvinnuleit þegar hann, frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur barst, hefur bæði vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara. Að öðrum kosti verður ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. Felur þetta til dæmis í sér að gert er ráð fyrir að foreldrar í virkri atvinnuleit með ung börn hafi barnapössun en reynslan í núverandi kerfi er að ungt fólk ber oft fyrir sig að það geti hvorki mætt í atvinnuviðtöl né tekið þátt í vinnumarkaðsúrræðum þar sem það hefur ekki gæslu fyrir börn sín.“

Í 4. mgr. 14. gr. kemur fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum c-, e- og f-liða 1. mgr. þannig að hinn tryggði, sem vegna aldurs, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima óskar eftir hlutastarfi eða starfi innan tiltekins svæðis, geti talist vera í virkri atvinnuleit. Enn fremur sé heimilt að taka tillit til aðstæðna hins tryggða sem geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis. Um þetta er tekið fram í athugasemdum með ákvæðinu að með umönnunarskyldu vegna ungra barna sé ekki átt við þau tilvik er hinir tryggðu beri fyrir sig að hafa ekki barnapössun fyrir ung börn á dagvinnutíma.

Ljóst er að kærandi sagði upp starfi sínu vegna þess að hún var ekki með dagvistun fyrir barn sitt á dagvinnutíma. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru það ekki gildar ástæður fyrir uppsögn í skilningi 54. gr. laga nr. 54/2006. Að því virtu átti kærandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. desember 2022, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum