Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 6/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 29. mars 2019 kærir Verkís hf. útboð Vatnajökulsþjóðgarðs (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 20888 auðkennt „Innheimtukerfi fyrir þjónustugjöld Vatnajökulsþjóðgarðs.“ Kærandi krefst þess að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað og að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila að taka tilboði Computer Vision ehf. í hinu kærða útboði. Þá er krafist álits á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda auk málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu varnaraðila um að aflétta sjálfkrafa stöðvun sem miða verður við að hafi komist á með kæru í þessu máli.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 2. maí 2019
í máli nr. 6/2019:
Verkís hf.
gegn
Vatnajökulsþjóðgarði,
Ríkiskaupum og
Computer Vision ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 29. mars 2019 kærir Verkís hf. útboð Vatnajökulsþjóðgarðs (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 20888 auðkennt „Innheimtukerfi fyrir þjónustugjöld Vatnajökulsþjóðgarðs.“ Kærandi krefst þess að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað og að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila að taka tilboði Computer Vision ehf. í hinu kærða útboði. Þá er krafist álits á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda auk málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu varnaraðila um að aflétta sjálfkrafa stöðvun sem miða verður við að hafi komist á með kæru í þessu máli.

Í janúar 2019 óskaði varnaraðili eftir tilboðum í uppsetningu og rekstur innheimtukerfis fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Var gert ráð fyrir því að kerfið yrði sérsmíðað að hluta eða öllu leyti og að það samanstæði m.a. af myndavélabúnaði og hugbúnaði sem gæti greint bílnúmer og innheimt gjöld af gestum þjóðgarðsins. Í útboðsgögnum kom fram að um opið útboð væri að ræða samkvæmt lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup. Í útboðsgögnum voru gerðar tilteknar kröfur til hæfis bjóðenda. Í grein 1.2.3 var gerð krafa um að eigið fé bjóðanda skyldi árið 2017 vera jákvætt um sem næmi 10% af efnahagsreikningi og þá skyldi ársvelta bjóðanda árið 2017 vera að lágmarki því sem næði tvöföldu boðnu verði. Í svörum varnaraðila við fyrirspurnum bjóðenda kom fram að árshlutauppgjör og/eða uppgjör vegna 2018 yrðu tekin jafngild. Í grein 1.2.4 kom fram að bjóðandi skyldi hafa reynslu í notkun á opnu gagnasafnskerfi og í þekktu umhverfi við hugbúnaðargerð og sýna fram á það með skrá yfir þrjú sambærileg verk sem hann hefði unnið á undanförnum þremur árum, en sambærileg verk töldust verkefni þar sem forritun og útfærsla næmi a.m.k. 500 klst. Þá skyldi bjóðandi hafa a.m.k. þrjá starfsmenn á launaskrá sem störfuðu alfarið við forritun og/eða hugbúnaðargerð, hefðu reynslu af því að starfa við ákveðin kerfi og hefðu háskólamenntun á sviði tölvunarfræði, verkfræði eða sambærilega menntun og hefðu starfað við hugbúnaðargerð í a.m.k. 24 mánuði. Skyldi bjóðandi sýna fram á þetta með því að leggja fram með tilboði sínu skrá yfir boðna starfsmenn sem störfuðu hjá bjóðanda ásamt upplýsingum um menntun og reynslu þeirra. Í svörum við fyrirspurnum bjóðenda kom fram að háskólamenntun á sviði viðskiptafræði og yfir 15 ára starfsreynsla við hugbúnaðargerð og kerfisstjórn fyrir viðurkennda viðskiptavini myndi fullnægja skilyrði um menntun. Í grein 1.3 kom fram að valið skyldi á milli boðinna tilboða á grundvelli verðs, sem gæti mest gefið 75 stig, og gæða, sem gætu mest gefið 25 stig. Við mat á gæðum skyldi horft til reynslu teymis, hvort starfsemi bjóðanda væri vottuð í heild eða hluta, þjónustugetu, þekkingu á Agile aðferðarfræði og afhendingar, en gefin yrðu 5 stig ef bjóðandi myndi skuldbinda sig til þess að afhenda fullbúna lausn fyrir 15. maí 2019. Í grein 1.5.2 kom fram að samningstími væri 60 mánuðir með heimild til framlengingar þrisvar sinnum um eitt ár í senn. Þá fylgdi útboðsgögnum jafnframt tæknilýsing vegna innheimtukerfisins, þar sem nánari lýsing á þörfum varnaraðila kom fram.

Tilboð voru opnuð 1. mars 2019 og buðu þrír aðilar í verkið. Hinn 21. mars 2019 tilkynnti varnaraðili að tilboð Computer Vision ehf. hefði verið valið þar sem tilboð fyrirtækisins hefði verið valið hagstæðast. Kom fram að tilboð Computer Vision ehf. hefði fengið 100 stig fyrir verð og 86 stig fyrir gæði, eða samtals 96,50 stig. Tilboð kæranda, sem var talið næsthagstæðast, hafði fengið 90,91 stig fyrir verð en 100 stig fyrir gæði, eða samtals 93,18 stig.

Þá er upplýst í málinu að varnaraðili hafi í júní 2017 framkvæmt verðkönnun þar sem óskað hafi verið eftir tilboðum í sjálfvirkt eftirlit og innheimtu bílastæðagjalda í Skaftafelli og við Dettifoss til loka árs 2017. Upplýst er að varnaraðili gekk til samninga við Computer Vision ehf. í kjölfar þeirrar verðfyrirspurnar.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á því að Computer Vision ehf. hafi ekki uppfyllt kröfur útboðsins um fjárhagslegt hæfi og um tæknilega og faglega getu. Þá hafi Computer Vision ehf. fengið of háa einkunn fyrir gæði, en fyrirtækið hafi í mesta lagi átt að fá 15 stig í stað 21,5. Þá er einnig byggt á því að Computer Vision ehf. hafi haft forskot við tilboðsgerðina á aðra bjóðendur í hinu kærða útboði vegna þess samnings sem gerður var við fyrirtækið í kjölfar verðfyrirspurnar um eftirlit og innheimtu bílastæðagjalda í Skaftafelli og við Dettifoss þannig að jafnræði bjóðenda í útboðinu hafi verið raskað.

Niðurstaða

Kæra í máli þessu, sem beinist að ákvörðun varnaraðila um val tilboðs í hinu kærða útboði, var móttekin 29. mars 2019 áður en biðtími samningsgerðar samkvæmt 86. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup var liðinn. Verður því að miða við að þá hafi komist á sjálfkrafa stöðvun samkvæmt 107. gr. laganna. Því beinist ákvörðun þessi að því hvort rétt sé að aflétta þeirri stöðvun í samræmi við kröfu varnaraðila þar um.

Kærunefnd útboðsmála hefur farið yfir þau gögn sem fylgdu tilboði Computer Vision ehf. og varða fjárhagslega og tæknilega getu fyrirtækisins. Af þeim gögnum verður ekki annað ráðið, eins og mál þetta liggur fyrir nú, en að Computer Vision ehf. hafi uppfyllt þær kröfur útboðsgagna um fjárhagslegt og tæknilegt hæfi sem kæra beinist að, eins og þær kröfur voru nánar skýrðar í svörum varnaraðila við fyrirspurnum bjóðenda á fyrirspurnartíma. Þá benda gögn málsins ekki til þess að varnaraðili hafi staðið ranglega að einkunnagjöf Computer Vision ehf. fyrir gæði eins og kærandi heldur fram.

Komið hefur fram í máli þessu að Computer Vision ehf. hafi gert samning við varnaraðila um eftirlit og innheimtu bílastæðagjalda í Skaftafelli og við Dettifoss á árinu 2017 sem skyldi gilda til loka þess árs, en samningur þessi var gerður í kjölfar verðfyrirspurnar sem varnaraðili framkvæmdi í júní 2017. Eins og mál þetta liggur fyrir á þessu stigi og með hliðsjón af þeim gögnum málsins sem nú liggja fyrir verður ekki talið að kærandi hafi leitt verulegar líkur að því að aðkoma Computer Vision ehf. að fyrrgreindu eftirliti og innheimtu bílastæðagjalda í Skaftafelli og við Dettifoss hafi veitt Computer Vision ehf. forskot við tilboðsgerðina í hinu kærða útboði þannig að jafnræði bjóðenda hafi verið raskað eða að varnaraðila hafi verið óheimilt að ganga að tilboði fyrirtækisins í hinu kærða útboði, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup. Í því sambandi athugast m.a. að kærandi fékk fullt hús stiga í mati varnaraðila á gæðum, þ.á m. fyrir afhendingu fullbúinnar lausnar fyrir 15. maí 2019. Verður samkvæmt framansögðu að aflétta sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar, sem komst á með kæru í þessu máli.

Ákvörðunarorð:

Stöðvun útboðs varnaraðila, Vatnajökulsþjóðgarðs, nr. 20888 auðkennt „Innheimtukerfi fyrir þjónustugjöld Vatnajökulsþjóðgarðs“ er aflétt.

Reykjavík, 2. maí 2019

Eiríkur Jónsson

Sandra BaldvinsdóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira