Hoppa yfir valmynd

Mál 141/2016 - Endurupptaka

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekið mál nr. 141/2016

Fimmtudaginn 26. janúar 2017

A

gegn

Velferðarþjónustu Árnesþings

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. apríl 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, afgreiðslu Velferðarþjónustu Árnesþings á umsókn hans um búsetuþjónustu.

Úrskurðað var í málinu þann 26. maí 2016 og var kærunni vísað frá á þeirri forsendu að ekki hafi verið tekin stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda. Í kjölfarið kvartaði kærandi til umboðsmanns Alþingis. Með bréfi, dags. 13. október 2016, óskaði umboðsmaður Alþingis eftir upplýsingum frá nefndinni um tiltekið álitaefni. Úrskurðarnefnd velferðarmála fór yfir gögnin í máli kæranda í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns og ákvað að endurupptaka málið.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um búsetuþjónustu á Suðurlandi með umsókn sem móttekin var þann 14. október 2014 hjá Velferðarþjónustu Árnesþings. Með bréfi Velferðarþjónustunnar, dags. 17. febrúar 2016, var kæranda tilkynnt að ekki hefði verið hægt að verða við umsókninni vegna skorts á lausum íbúðum sem hentuðu hans þjónustuþörf. Þá kemur fram að unnið sé að lausn á búsetuvanda kæranda en litið sé á úthlutun þjónustu í skammtímavistun sem tímabundna lausn.

Með bréfi, dags. 14. nóvember 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Velferðarþjónustu Árnesþings þar sem meðal annars kæmu fram upplýsingar um stöðu umsóknar kæranda um búsetuþjónustu á Suðurlandi. Greinargerð Velferðarþjónustunnar barst með bréfi, dags. 5. desember 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. desember 2016, var bréf Velferðarþjónustunnar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann þurfi töluverða þjónustu við daglegar þarfir vegna fötlunar sinnar. Sveitarfélagið hafi í raun ekki neitað honum um þjónustu en hann fái ekki viðeigandi húsnæði sökum þess að ekkert slíkt húsnæði sé laust. Því líti kærandi svo á, vegna þess tíma sem liðinn sé frá því að umsókn hafi verið send, að umsókn hans hafi verið hafnað. Kærandi telur að sveitarfélagið hafi brotið gegn málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar komi fram að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Með vísan til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga kærir kærandi til úrskurðarnefndarinnar drátt á afgreiðslu máls hans og tekur fram að hann hafi brýna hagsmuni af því að ákvörðun verði tekin í máli hans.

Kærandi tekur fram að það sé ósk hans að flytja af heimili foreldra sinna og lifa sjálfstæðu lífi en hann fái ekki þjónustu frá sveitarfélaginu sem sé ásættanleg. Kærandi fer fram á að úrskurðarnefndin taki ákvörðun í málinu og geri sveitarfélaginu að veita þá þjónustu sem hann þurfi og eigi rétt á lögum samkvæmt.

III. Sjónarmið Velferðarþjónustu Árnesþings

Í greinargerð Velferðarþjónustu Árnesþings er greint frá því að kærandi hafi sótt um búsetuþjónustu þann 14. október 2014. Umsókn og þörf hans fyrir þjónustu hafi verið metin og niðurstaðan sú að hann ætti rétt á sólarhringsþjónustu í búsetu vegna fötlunar sinnar. Tekið er fram að kærandi og aðstandendur hans hafi verið upplýst um stöðuna og jafnframt að þar sem ekki væru til lausar íbúðir yrði umsóknin sett á biðlista. Þá hafi þau jafnframt verið upplýst um aðra þjónustu sem hægt væri að sækja um á meðan umsókn hans væri á biðlista ásamt því að leitað yrði allra mögulegra leiða til þess að leysa húsnæðismál kæranda eins fljótt og kostur væri.

Sveitarfélagið tekur fram að til þess að koma að einhverju leyti til móts við þarfir kæranda á meðan ekki væri til hentugt húsnæði fengi hann skammtímavistun í þrjá sólarhringa á þriggja vikna fresti ásamt því að fá félagslega heimaþjónustu vikulega í einn og hálfan tíma. Auk þess sé kærandi í verndaðri vinnu á B, þrjá daga í viku í þrjár klukkustundir í senn. Að mati sveitarfélagsins sé ekki um að ræða óhæfilegan drátt í ákvarðanatöku málsins þar sem umsókn hafi í raun ekki verið afgreidd heldur sett á biðlista og kærandi hafi verið upplýstur strax um stöðu húsnæðismála á svæðinu. Því miður hafi engin húsnæðisúrræði losnað frá því að kærandi hafi sótt um og ekki hafi verið til fjármagn til uppbyggingar á nýju húsnæði.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um meðferð Velferðarþjónustu Árnesþings á umsókn kæranda frá 14. október 2014 um búsetuþjónustu. Kærandi hefur enn ekki fengið húsnæði sem hentar hans þjónustuþörf og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 7. gr. laganna skal fatlað fólk eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skuli leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögunum. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar, samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Í VI. kafla laga um málefni fatlaðs fólks er fjallað um búsetu en þar segir í 1. mgr. 10. gr. að fatlað fólk skuli eiga kost á félagslegri þjónustu sem geri því kleift að búa á eigin heimili og húsnæðisúrræðum í samræmi við þarfir þess og óskir eftir því sem kostur er. Þá kemur einnig fram í 2. mgr. 10. gr. að sveitarfélag eða sveitarfélög sem standa saman að þjónustusvæði skuli tryggja að framboð á húsnæðisúrræðum samkvæmt 1. mgr. sé til staðar jafnframt því að veita þjónustu samkvæmt 1. mgr. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar er ráðherra heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um húsnæðisúrræði samkvæmt ákvæðinu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, þar á meðal hvernig ákveða skuli fjárhæð húsaleigu í húsnæðisúrræðum og breytingar á þeirri fjárhæð, um rekstur heimilissjóða og greiðslur til þeirra og nánar um skipulag húsnæðisúrræða. Reglugerðir nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu og 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk hafa verið settar með stoð í ákvæðinu.

Í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að sveitarfélög skuli starfrækja teymi fagfólks sem metur heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu og hvernig koma megi til móts við óskir hans. Teymin skuli hafa samráð við einstaklinginn við matið og skuli það byggt á viðurkenndum matsaðferðum. Enn fremur skuli hafa samráð við fatlaðan einstakling og væntanlegt sambýlisfólk hans, ef við á, áður en tekin sé ákvörðun um þjónustu á grundvelli 10. gr. laganna. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu var þörf kæranda metin og niðurstaðan sú að hann ætti rétt á sólarhringsþjónustu í búsetu vegna fötlunar sinnar.

Í lögum nr. 59/1992 er ekki kveðið á um lögbundinn frest fyrir sveitarfélög til að úthluta fötluðu fólki húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir. Þá er í reglugerðum nr. 1054/2010 og 370/2016 ekki að finna slíkt ákvæði að frátöldum ákvæðum 4. og 5. gr. reglugerðarinnar nr. 1054/2010 um að mat á þjónustuþörf skuli gert innan tveggja mánaða frá því að umsókn berst og að niðurstaða teymis um mat á þörf og úrræði skuli liggja fyrir eigi síðar en þremur mánuðum eftir að umsókn berst. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við mat á því hvort afgreiðsla á máli kæranda hefur dregist. Þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei megi vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Ljóst er að kærandi hefur ekki enn fengið húsnæði sem hentar hans þjónustuþörf, rúmum tveimur árum eftir að umsókn þar að lútandi barst sveitarfélaginu. Af hálfu sveitarfélagsins er sú skýring lögð fram að ekkert húsnæðisúrræði hafi losnað frá því að umsókn kæranda barst og ekki hafi verið til fjármagn til uppbyggingar á nýju húsnæði. Úrskurðarnefndin getur að einhverju leyti fallist á að slíkar aðstæður valdi töf á úthlutun viðeigandi húsnæðis fyrir kæranda en að mati nefndarinnar getur það ekki réttlætt bið um ókomna tíð án þess að fyrir liggi einhver áætlun í þeim efnum. Verður þannig að gera þá kröfu til sveitarfélagsins að verið sé að vinna markvisst í máli kæranda og gerðar séu ráðstafanir til að hann fái viðeigandi búsetuúrræði eins fljótt og unnt er. Í málinu liggur ekkert fyrir um að sveitarfélagið hafi gert áætlun sem miðar að því að útvega kæranda viðeigandi húsnæði.

Á grundvelli þess að sveitarfélagið hefur ekki áætlað hvernig og hvenær leyst verði úr máli kæranda verður að líta svo á að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Verður því að leggja fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og taka ákvörðun um búsetuúrræði svo fljótt sem auðið er. Ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna auk þess hvenær ákvörðunar um búsetuúrræði sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Lagt er fyrir Velferðarþjónustu Árnesþings að hraða afgreiðslu máls A, og taka ákvörðun um búsetuúrræði svo fljótt sem auðið er.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira