Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 303/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 303/2017

Fimmtudaginn 19. október 2017

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. ágúst 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurbogar, dags. 9. ágúst 2017, á beiðni hans um greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 28. apríl 2015. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 3. nóvember 2015, með þeim rökum að hann uppfyllti ekki skilyrði b-, c- og d-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Kærandi sótti aftur um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 21. júní 2016. Umsókn kæranda var synjað með bréfum þjónustumiðstöðvar, dags. 7. og 12. júlí 2016, þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði b-, c- og d-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Með bréfi, dags. 10. febrúar 2017, gerði kærandi kröfu um greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann fyrir tímabilið 15. desember 2014 til 31. desember 2016. Kröfu kæranda var hafnað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 29. mars 2017, þar sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði b- og c liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum 9. ágúst 2017 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 28. ágúst 2017. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 21. september 2017, og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. september 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar tekur kærandi fram að hann telji ekki réttlátt að honum sé synjað um sérstakar húsaleigubætur aftur í tímann fyrir tímabilið 15. desember 2014 til 31. desember 2016. Skilja verður kæruna þannig að kærandi krefjist þess að synjun Reykjavíkurborgar um greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann verði felld úr gildi.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Vísað er til þess að í 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur séu sett fram tiltekin skilyrði sem umsækjandi þurfi að uppfylla til að umsóknin taki gildi. Í b-lið 4. gr. reglnanna komi fram að umsækjandi þurfi að eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt sé um og að minnsta kosti síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn hafi borist. Í c-lið 4. gr. reglnanna sé kveðið á um tekju- og eignamörk og miðað sé við meðaltal tekna síðustu þrjú árin. Reykjavíkurborg bendir á að synjunin hafi ekki verið byggð á d-lið 4. gr. reglnanna og því sé sá liður ekki til umfjöllunar í máli kæranda.

Samkvæmt upplýsingum sem hafi legið fyrir við meðferð máls kæranda hjá velferðarráði hafi kærandi lengst af búið í B og flutt til Reykjavíkur í desember 2014. Kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 4. gr. framangreindra reglna. Þá hafi tekjur kæranda að meðaltali síðastliðin þrjú ár verið 5% yfir tekjumörkum vegna umsóknar 2016 og 12% yfir tekjumörkum vegna umsóknar frá 2015. Ljóst sé að kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði c-liðar 4. gr. reglnanna. Í 5. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík sé kveðið á um undanþágu frá skilyrðum b- og c-liðar 4. gr. reglnanna en kærandi hafi ekki óskað eftir slíkri undanþágu vegna umsókna árið 2015 og 2016.

Með hliðsjón af framangreindu hafi það verið mat velferðarráðs að hafna bæri kröfu kæranda um sérstakar húsaleigubætur aftur í tímann þar sem skilyrði b- og c-liðar 4. gr. reglnanna hafi ekki verið uppfyllt á því tímabili sem krafa kæranda tæki til. Þá verði einnig að telja ljóst að ákvörðun velferðarráðs hafi hvorki brotið gegn ákvæðum laga nr. 40/1991 né reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja beiðni kæranda um greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann fyrir tímabilið 15. desember 2014 til 31. desember 2016.

Í 3. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík kemur fram að sérstakar húsaleigubætur séu ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum 1. mgr. ákvæðisins. Í b-lið 4. gr. reglnanna er gert að skilyrði að umsækjandi eigi lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um og að minnsta kosti þrjú árin samfleytt áður en umsókn berst. Samkvæmt gögnum málsins átti kærandi ekki lögheimili í Reykjavík síðustu þrjú ár samfleytt áður en umsókn hans barst Reykjavíkurborg. Í c-lið 4. gr. reglnanna er kveðið á um tekju- og eignamörk, en tekjumörk eru miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Samkvæmt gögnum málsins voru tekjur kæranda 5% yfir tilgreindum tekjumörkum vegna umsóknar hans árið 2016 og 12% yfir tekjumörkum vegna umsóknar frá árinu 2015.

Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um undanþágur frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili og tekjuviðmið. Þar kemur fram að heimilt sé að veita undanþágu við eftirfarandi aðstæður:

Frá lögheimili:

a) Umsækjandi hefur búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu.

Frá lögheimili og/eða tekjuviðmiði:

b) Umsækjandi er samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum, sbr. liður 5 c í matsviðmiði sbr. fylgiskjal 1.

Þá segir í 2. mgr. 5. gr. reglnanna að umsóknir um undanþágur skuli vera skriflegar þar sem gerð sé grein fyrir ástæðu undanþágubeiðni. Umsóknir um undanþágu skuli afgreiddar á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði b- og c-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur á þeim tíma sem lagt var mat á umsóknir hans á árunum 2015 og 2016. Þá er ljóst að kærandi óskaði ekki eftir undanþágu frá skilyrðum b- og c-liðar 4. gr. reglnanna á grundvelli 5. gr. reglnanna vegna þeirra umsókna, en í synjunarbréfum vegna þeirra liða var kæranda leiðbeint um þann möguleika. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að Reykjavíkurborg hafi verið rétt að synja beiðni kæranda um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann fyrir tímabilið 15. desember 2014 til 31. desember 2016. Hin kærða ákvörðun er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 9. ágúst 2017, um synjun á beiðni A, um greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira