Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

845/2019. Úrskurður frá 15. nóvember 2019

Kærð var synjun Isavia ohf. á beiðni kæranda um upplýsingar vegna bílastæða við Keflavíkurflugvöll. Beiðnin sneri að tekjum og kostnaði af rekstri bílastæða, fjölda starfsmanna við bílastæðin, kostnaði við uppbyggingu bílastæða á tilteknu tímabili, hvort tekjur af rekstri bílastæða væru nýttar til að fjármagna aðra starfsemi, hver hlunnindi starfsmanna Isavia væru varðandi bílastæði og hve mikið fjármagn Isavia hefði fengið frá Bílastæðasjóði Sandgerðisbæjar á tilteknu tímabili. Beiðninni var synjað með vísan í viðskipta- og samkeppnishagsmuni Isavia, sbr. 9. gr. og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin taldi Isavia skylt að veita upplýsingar um tekjur vegna reksturs bílastæðanna. Beiðni um aðgang að upplýsingum um kostnað vegna reksturs bílastæðanna, hversu miklu fjármagni hafi verið varið í uppbyggingu þeirra og hversu mikið fjármagn hafi komið frá Bílastæðasjóði Sandgerðisbæjar, var vísað til Isavia ohf. til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Kæru var að öðru leyti vísað frá.

Úrskurður

Hinn 15. nóvember 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 845/2019 í máli ÚNU 18100007. 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 19. október 2018, kærði Heiðar Ásberg Atlason lögmaður, f.h. Base Parking (Base Capital ehf.), synjun Isavia ohf. á beiðni Gísla Freys Valdórssonar um aðgang að tilteknum upplýsingum um rekstur Isavia.

Með erindi til Isavia, dags. 10. september 2018, óskaði kærandi eftir upplýsingum um eftirtalin atriði:

1. Hverjar tekjur félagsins væru af rekstri bílastæða.
2. Hver kostnaður félagsins væri við rekstur bílastæða.
3. Hversu margir starfsmenn störfuðu í beinum eða óbeinum störfum við bílastæðin.
4. Hversu miklu fjármagni hefði verið varið í uppbyggingu bílastæða síðastliðin þrjú ár, þ.m.t. í tæknibúnað, myndavélar og öryggiskerfi.
5. Hvort tekjur af rekstri bílastæða væru nýttar til að fjármagna uppbyggingu eða aðra starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
6. Hver væru hlunnindi starfsmanna Isavia varðandi bílastæði, þegar þeir væru ekki við vinnu.
7. Hve mikið fjármagn Isavia hefði fengið frá Bílastæðasjóði Sandgerðisbæjar síðastliðin þrjú ár, flokkað eftir árum.

Í svari Isavia, dags. 19. september 2018, fékk kærandi svör við spurningum undir liðum þrjú og sex. Varðandi fyrstu tvo liðina tók Isavia fram að ekki væru gefnar frekari upplýsingar úr bókhaldi félagsins en kæmu fram í ársskýrslu félagsins, enda væri um að ræða upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni sem gætu verið til þess fallnar að raska samkeppni, yrði þeim miðlað. Upplýsingarnar væru því undanþegnar aðgangi kæranda á grundvelli 9. gr. upp¬lýsingalaga. 

Fjórðu spurningunni var svarað á þá leið að umbeðnar upplýsingar væru ekki fyrirliggjandi samanteknar hjá félaginu og félli beiðnin því utan gildissviðs upplýsingalaga. Svar við fimmtu spurningunni var á þá leið að engin gögn sem svöruðu spurningunni sérstaklega væru fyrirliggjandi hjá félaginu; tekjur af bílastæðum væru þó nýttar í starfsemina eins og aðrar óflugtengdar tekjur. Sjöundu spurningunni var svarað þannig að umbeðnar upplýsingar væru ekki fyrirliggjandi samanteknar hjá félaginu og félli beiðnin því utan gildissviðs upplýsingalaga. Isavia sæi um eftirlit og rukkun vegna stöðubrota á bílastæðum við Keflavíkurflugvöll samkvæmt samningi við Bílastæðasjóð Sandgerðisbæjar. Andvirði greiddra sekta rynni til Isavia upp í kostnað við eftirlit og rukkun. Þessar tölur lægju fyrir í bókhaldinu en hefðu ekki verið teknar saman sérstaklega.

Kærandi mótmælir því að upplýsingar um tekjur og kostnað Isavia ohf. vegna reksturs bílastæða verði felldar undir 9. gr. upplýsingalaga. Engin rök hafi komið fram af hálfu Isavia af hverju upplýsingarnar feli í sér mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni. Opinbert hlutafélag geti ekki synjað aðila um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda tjóni heldur verði að leggja mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig. Hvað varði spurningar 4, 5 og 7 þá er það dregið í efa að upplýsingarnar séu ekki fyrirliggjandi. Félagið hljóti að hafa tækt ítarlegt niðurbrot á kostnaðarliðum haldtækt úr sínu bókhaldi. Annað væri ótæk skýring og væri það í raun staðfesting á því að bókhaldslög kunni að vera brotin og mikil óreiða væri á fjárreiðum félagsins. 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Isavia ohf. með bréfi, dags. 22. október 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Isavia, dags. 6. nóvember 2018, er þess krafist að málinu verði vísað frá nefndinni vegna aðildarskorts en kærandi sé ekki sá sami og sá sem beiddist gagnanna. Upplýsingabeiðnir hafi borist frá Gísla Frey Valdórssyni og hvergi komi fram að beiðnin sé tengd Base Parking eða Logos lögmannsstofu. Í samskiptum beiðanda og Isavia vegna beiðninnar hafi heldur ekki verið minnst á á Base Parking eða Logos. Ekki sé hægt að bera fyrir sig eftir á að upplýsingabeiðni hafi í reynd verið fyrir hönd annars aðila. 

Í umsögninni hafnar Isavia því að afgreiðsla félagsins á beiðni kæranda hafi ekki verið með fullnægjandi hætti. Öllum spurningum hans hafi verið svarað skriflega og rök færð fyrir niðurstöðunni. Vegna fyrstu tveggja spurninga kæranda, hverjar tekjur félagsins séu af rekstri bílastæða og hver sé kostnaður félagsins við rekstur þeirra, tekur Isavia ohf. fram að félagið sé í samkeppni við aðra aðila sem einnig reki bílastæði við Keflavíkurflugvöll. Upplýsingarnar varði viðkvæma fjárhags- og viðaskiptahagsmuni Isavia sem félaginu sé óheimilt að veita aðgang að, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Rekstur Isavia á bílastæðum við Keflavíkurflugvöll sé á samkeppnismarkaði, miðlun upplýsinga um tekjur og kostnað geti því raskað samkeppni því að samkeppnisaðilar gætu nýtt slíkar upplýsingar til að hafa áhrif á verðákvarðanir, sbr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Isavia hafnar því að hagsmunir kæranda af aðgengi að gögnunum séu svo ríkir að þeir víki til hliðar ríkum hagsmunum Isavia eða almennum samkeppnishagsmunum. Upplýsingarnar lýsi núverandi stöðu og séu þess eðlis að vegna aldurs þeirra hafi þær mikla þýðingu fyrir rekstur bílastæðanna. Isavia vísar til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 709/2017 þar sem fram komi að upplýsingar um veltu og sölu geti talist viðkvæmar upplýsingar sem heimilt sé að synja almenningi aðgangi samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga.

Isavia vísar jafnframt til 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, þar sem fram komi að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess, enda hafi þau að geyma upplýsingar um viðskipti stofnana eða fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau séu í samkeppni við aðra. Vísað er til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. A-344/2010 en Isavia telur að ákvæðið eiga við í þessu tilfelli þar sem Isavia sé opinbert hlutafélag og starfi í samkeppnisrekstri. Í athugasemdum við 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga komi fram að óheftur réttur til upplýsinga geti skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu opinberra stofnana og fyrirtækja í þeim tilvikum þegar hið opinbera þurfi að keppa á markaði við einkaaðila sem ekki séu skyldugir til að gefa upplýsingar um stöðu sína. Ef fallist yrði á rétt kæranda til aðgangs að upplýsingunum væri Isavia í þeirri stöðu að þurfa að afhenda viðkvæmar viðskipta- og samkeppnisupplýsingar sem samkeppnisaðilar félagsins þurfi ekki að afhenda. 

Varðandi spurningar 4, 5 og 7 segir að upplýsingarnar séu ekki fyrirliggjandi samanteknar hjá félaginu, sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Um sé að ræða bókhaldsupplýsingar sem krefjist þess að þær séu sérstaklega teknar saman og það sé Isavia ekki skylt að gera, en vísað er í úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 748/2018. Í upplýsingabeiðnum hafi hvorki verið vísað í tiltekin gögn né ákveðin mál og ekki séu fyrirliggjandi hjá Isavia gögn sem innihaldi svör við þeim spurningum sem kærandi hafi lagt fram. 

Umsögn Isavia var kynnt kæranda með bréfi, dags. 12. nóvember 2018, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 27. nóvember 2018, er því mótmælt að Base Parking eigi ekki aðild að málinu. Gísli Freyr hafi starfað fyrir Base Parking þegar hann beiddist upplýsinganna og það hafi mátt vera Isavia ljóst, enda hafi hann ítrekað og um langt skeið átt í miklum samskiptum við Isavia fyrir hönd Base Parking. Samskiptin hafi verið með tölvupóstum auk þess sem Gísli Freyr hafi komið fram fyrir hönd Base Parking á fundum með Isavia. 

Með tölvupósti, dags. 6. nóvember 2019, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afriti af gögnum varðandi kostnað Isavia af rekstri bílastæða. Í svari Isavia, dags. 11. nóvember 2019, segir að fyrirliggjandi gögn samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga hafi verið afhent nefndinni þann 11. september 2019. Þau gögn er varði þennan lið gagnabeiðni kæranda séu ekki fyrirliggjandi hjá félaginu. Rekstrarkostnaður bílastæða sé nokkuð víðtækur og skiptist hann á milli sviða innan félagsins. Nær ómögulegt sé að sjá raunkostnað nema farið sé ítarlega í kostnaðargreiningu á bílastæðum. Þá er ítrekuð krafa um að kærunni verði vísað frá vegna aðildarskorts en hvorki Base Parking né Logos hafi verið aðilar að máli vegna upplýsingarbeiðninnar. Með tölvupósti, dags. 12. nóvember 2019, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir upplýsingum um hvort gagnabeiðandi hafi verið starfsmaður Base Parking þegar beiðnin var sett fram. Samdægurs var því svarað að Gísli Freyr hafi ekki verið fastráðinn starfsmaður Base Parking en að hann hafi starfað sem ráðgjafi fyrir Base Parking. Það dyljist engum hjá Isavia að Gísli hafi starfað mikið með Base Parking í deilum þeirra við Isavia og hafi hann setið marga fundi með félaginu vegna starfa hans fyrir Base Parking.

Niðurstaða
1.

Í málinu er deilt um afgreiðslu Isavia ohf. á beiðni Gísla Freys Valdórssonar um aðgang að gögnum á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en samkvæmt ákvæðinu er þeim sem falla undir lögin skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr.

Isavia ohf. krefst þess að kæru verði vísað frá þar sem kærandi og gagnabeiðandi sé ekki sami aðilinn en hvergi hafi það komið fram í gagnabeiðninni að beiðnin væri sett fram fyrir hönd Base Parking eða lögmannsstofunnar Logos. Kærandi segir Isavia hafa mátt vera það ljóst að Gísli Freyr Valdórsson hafi beiðst gagnanna fyrir hönd félagsins enda hafi hann verið i miklum samskiptum við Isavia vegna starfa sinna hjá félaginu. 

Um sönnun aðildar að kærumálinu fer eftir almennum reglum um sönnun í stjórnsýslumálum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur með vísan til skýringa Base Parking nægilega sýnt fram á að Gísli Freyr Valdórsson hafi beiðst gagnanna í umboði félagsins og gerir því ekki athugasemd við að kæra sé sett fram í nafni félagsins sjálfs. Þá er það alþekkt að lögmenn setji fram kærur fyrir hönd umbjóðenda sinna og kemur það skýrlega fram í kæru að Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður á Logos lögmannsstofu, kæri í umboði Base Parking. Með vísan til framangreinds er ekki fallist á kröfu Isavia um að kærunni verði vísað frá á þeim grundvelli að kærandi sé ekki réttur aðili kærumálsins. Úrskurðarnefndin tekur einnig fram að gagnabeiðni kæranda sé sett fram á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings en réttur til aðgangs samkvæmt ákvæðinu er ótengdur því hvort upplýsingar varði hagsmuni gagnabeiðanda.

2.

Kærandi setti fram beiðni um aðgang að gögnum í sjö liðum en Isavia hefur veitt honum aðgang að gögnum samkvæmt tveimur þeirra. Fyrir úrskurðarnefndinni liggur því að taka afstöðu til afgreiðslu Isavia ohf. á fimm liðum gagnabeiðni kæranda, nánar tiltekið: 

1. Hverjar tekjur félagsins séu af rekstri bílastæða.
2. Hver kostnaður félagsins sé við rekstur bílastæða.
3. Hversu miklu fjármagni hafi verið varið í uppbyggingu bílastæða síðastliðin þrjú ár, frá því að Isavia barst gagnabeiðni kæranda, þ.m.t. í tæknibúnað, myndavélar og öryggiskerfi.
4. Hvort tekjur af rekstri bílastæða séu nýttar til að fjármagna uppbyggingu eða aðra starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
5. Hve mikið fjármagn Isavia hafi fengið frá Bílastæðasjóði Sandgerðisbæjar síðastliðin þrjú ár frá því að Isavia barst gagnabeiðni kæranda, flokkað eftir árum.

Isavia ohf. synjaði kæranda um aðgang að gögnum um tekjur félagsins af rekstri bílastæða með vísan til 4. tölul. 10. gr. og upplýsingalaga. Vísað er til þess að um sé að ræða upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni sem gætu verið til þess fallnar að raska samkeppni yrði þeim miðlað. Rekstur Isavia á bílastæðum við Keflavíkurflugvöll sé á samkeppnismarkaði og geti miðlun upplýsinga um tekjur og kostnað því raskað samkeppni því að samkeppnisaðilar gætu nýtt slíkar upplýsingar til að hafa áhrif á verðákvarðanir, sbr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Upplýsingarnar lýsi núverandi stöðu og séu þess eðlis að vegna aldurs þeirra hafi þær mikla þýðingu fyrir rekstur bílastæðanna.

Í 4. tölul. 10. gr. er að finna heimild til að takmarka aðgang almennings að upplýsingum um viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir eftirfarandi:

„Markmiðið með þessu frumvarpi er m.a. að gefa almenningi og fjölmiðlum tækifæri á að fá vitneskju um það hvernig opinberum fjármunum er varið. Óheftur réttur til upplýsinga getur á hinn bóginn skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu opinberra stofnana og fyrirtækja í þeim tilvikum þegar hið opinbera þarf að keppa á markaði við einkaaðila sem ekki eru skyldugir til að gefa upplýsingar um stöðu sína. Af þessum sökum er lagt til að takmarkaður verði aðgangur að upplýsingum um viðskipti hins opinbera þegar svona háttar til. Meginsjónarmiðið að baki þessu ákvæði er að opinber aðili eigi að standa jafnfætis öðrum samkeppnisaðilum í viðskiptum, hvorki betur né verr. Athuga verður þó í þessu sambandi að í sumum tilvikum eru fyrir hendi skýrar reglur um skyldu stjórnvalda til þess að veita upplýsingar í tengslum við viðskipti, sbr. lög nr. 65/1993, um framkvæmd útboða. Ákvæðið er sem fyrr segir einskorðað við þá stöðu þegar opinberir aðilar eru í samkeppni við aðra aðila. Ákvæðinu verður því ekki beitt þegar hið opinbera starfar í skjóli einkaréttar eða ef opinber aðili er einn um rekstur þótt einkaréttar njóti ekki við.“

Ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum og ber því að skýra það þröngri lögskýringu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur talið að til þess að stjórnvöld geti byggt takmörkun á aðgangsrétti á 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þurfi a.m.k. þremur skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi skal starfsemi þess aðila sem upplýsingabeiðni beinist að, eða upplýsingar tengjast að öðru leyti, í heild eða að hluta, vera í samkeppni við aðra aðila. Í öðru lagi þurfa þær upplýsingar sem beðið er um að tengjast þeirri starfsemi viðkomandi aðila sem telst til samkeppnisrekstrar hans. Í þriðja lagi að sú afstaða hafi verið tekin á grundvelli ígrundaðs mats á því að þeir samkeppnishagsmunir hinnar opinberu stofnunar eða fyrirtækis sem um ræðir séu það verulegir að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar hagsmunum og rétti almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga til aðgangs að umbeðnum upplýsingum. Um þetta má m.a. vísa til úrskurða nr. 823/2019, 813/2019, 764/2018 og 762/2018 auk úrskurða í málum nr. A-492/2013, A-379/2011, A-378/2011 og A-344/2010 sem kveðnir voru upp í gildistíð eldri upplýsingalaga. 

Isavia ohf. ber því við að miðlun umbeðinna upplýsinga kunni að brjóta í bága við ákvæði 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að þótt vissulega kunni að vera rétt við skýringu 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga að líta til sjónarmiða um beitingu 10. gr. samkeppnislaga þá eru lagaákvæðin um margt ólík og verndarandlag ákvæðanna er ólíkt. Verður af þessum sökum ekki fullyrt að í öllum tilvikum verði talið heimilt að takmarka aðgang að gögnum á grundvelli 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þótt þau geti talist vera „mikilvæg og viðkvæm“ þegar 10. gr. samkeppnislaga er beitt.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur sig ekki geta fullyrt hvort rekstur bílastæðanna teljist til samkeppnisrekstrar Isavia ohf. eða til rekstrar sem fyrirtækið sé „eitt um“ svo notað sé orðalag greinargerðarinnar. Hvað sem því líður er ljóst að til þess að njóta verndar 4. tölul. 10. gr. þurfa viðkomandi upplýsingar að uppfylla öll framangreind skilyrði.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að jafnvel þótt framangreindar upplýsingar teljist varða samkeppnisrekstur Isavia þá varði þær ekki svo verulega samkeppnishagsmuni að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar upplýsingarétti almennings samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Er þá litið til þess að Isavia ohf. hefur ekki fært fyrir því sannfærandi rök að veiting upplýsinganna geti haft neikvæð áhrif á rekstur Isavia ohf. á bílastæðunum og valdið félaginu tjóni. Í því skjali sem úrskurðarnefndinni var látið í té er ekki að finna upplýsingar um fjöldra leigðra bílastæða eða rekstur þeirra heldur koma þar aðeins fram mánaðarlegar heildartekjur af rekstri bílastæðanna. Að auki er til þess að líta að almenningur hefur hagsmuni af því að geta kynnt sér upplýsingarnar, m.a. til þess að geta veitt Isavia ohf. aðhald, sbr. 3. tölul. 1. gr. upplýsingalaga. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Isavia ohf. sé ekki heimilt að undanþiggja upplýsingarnar upplýsingarétti almennings með vísan til 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Þá er ekki um að ræða upplýsingar um viðskipti eða fjárhag þriðja aðila sem heimilt er að takmarka á grundvelli 9. gr. laganna. Verður félaginu því gert að veita kæranda aðgang að upplýsingum um tekjur félagsins af rekstri bílastæða við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

3.

Í málinu er einnig deilt um afgreiðslu Isavia ohf. á beiðni kæranda um upplýsingar um kostnað vegna reksturs bílastæðanna, hvort tekjur af rekstri bílastæða séu nýttar til að fjármagna uppbyggingu eða aðra starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, hversu miklu fjármagni hafi verið varið í uppbyggingu bílastæða síðastliðin þrjú ár, þ.m.t. í tæknibúnað, myndavélar og öryggiskerfi og hversu mikið fjármagn Isavia hafi fengið frá Bílastæðasjóði Sandgerðisbæjar síðastliðin þrjú ár, flokkað eftir árum. Isavia segir gögn með upplýsingunum ekki vera fyrirliggjandi samanteknar hjá félaginu. Um sé að ræða bókhaldsupplýsingar sem krefjist þess að þær séu sérstaklega teknar saman og það sé Isavia ekki skylt að gera. 

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í athugasemdum við fyrrnefnda ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að þegar aðilum, sem falla undir gildissvið upplýsingalaga, berst beiðni um aðgang að upplýsingum ber þeim að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. laganna, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að gögnunum með rökstuddri ákvörðun. 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja fullyrðingu Isavia um að gögn séu ekki fyrirliggjandi um það hvort tekjur af rekstri bílastæða séu nýttar í aðra starfsemi félagsins og að félagið þurfi að taka þær upplýsingar saman fyrir kæranda til að svara beiðni hans. Úrskurðarnefndin fellst á það með Isavia að félaginu sé það ekki skylt, sbr. 3. málsl. 5. gr. upplýsingalaga. 

Hvað varðar beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um kostnað vegna reksturs bílastæðanna, hversu miklu fjármagni hafi verið varið í uppbyggingu bílastæða síðastliðinn þrjú ár og hversu mikið fjármagn Isavia hafi fengið frá Bílastæðasjóði Sandgerðisbæjar á sama tímabili, dregur úrskurðarnefnd um upplýsingamál það hins vegar í efa að engin gögn með upplýsingum sem falli undir gagnabeiðni kæranda séu fyrirliggjandi í bókhaldi Isavia. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að rengja þá staðhæfingu félagsins að samanteknar upplýsingar liggi ekki fyrir en aftur á móti má ljóst vera að einhverjir reikningar vegna kaupa á tækjum eða þjónustu vegna bílastæðanna hljóti að liggja fyrir hjá félaginu. Þá telur úrskurðarnefndin jafnframt ólíklegt að ekki liggi fyrir gögn um færslur vegna greiðslna Bílastæðasjóðs Sandgerðisbæjar til Isavia. 

Í þessu sambandi bendir úrskurðarnefndin á að þegar svo háttar til að beiðnin nær samkvæmt efni sínu til upplýsinga sem nauðsynlegt er að vinna upp úr fyrirliggjandi gögnum er ekki sjálfgefið að unnt sé að synja beiðninni á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. heldur ber stjórnvaldi að kanna hvort beiðandi óski aðgangs að gögnunum þar sem umbeðnar upplýsingar séu að finna svo hann geti tekið afstöðu til þess hvort hann vilji fá þau afhent, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 833/2019, 804/2019 og 738/2018. Isavia bar því að kanna hvort fyrirliggjandi væru reikningar eða önnur gögn í bókhaldi félagsins sem falla undir beiðni kæranda og taka í kjölfarið afstöðu til þess á grundvelli upplýsingalaga hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að þeim. Vegna þessa annmarka á afgreiðslu Isavia verður ekki hjá því komist að vísa beiðninni aftur til félagsins til nýrrar og lögmætrar meðferðar að þessu leyti.

Úrskurðarorð:

Isavia ohf. er skylt að veita kæranda, Base Parking, aðgang að upplýsingum um tekjur vegna reksturs félagsins á bílastæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. 

Beiðni kæranda ,Base Parking, um aðgang að upplýsingum um kostnað vegna reksturs bílastæða við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, hversu miklu fjármagni hafi verið varið í uppbyggingu bílastæðanna síðastliðin þrjú ár, þ.m.t. í tæknibúnað, myndavélar og öryggiskerfi og hversu mikið fjármagn Isavia ohf. hafi fengið frá Bílastæðasjóði Sandgerðisbæjar síðastliðin þrjú ár, er vísað til Isavia ohf. til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. 

Kæru er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Sigurveig Jónsdóttir 
Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira