Hoppa yfir valmynd

Ákvörðunar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 26. október 2018 um að leggja 440.000 kr. stjórnvaldssekt á kæranda vegna óskráðrar gististarfsemi, kærð

Stjórnsýslukæra

Þann 11. desember 2018 bar [X] (hér eftir kærandi) fram kæru vegna ákvörðunar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir sýslumaður) frá 26. október 2018 um að leggja 440.000 kr. stjórnvaldssekt á kæranda vegna óskráðrar gististarfsemi að [Y].

Kröfur

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik

Sýslumanni barst ábending um að heimagisting væri stunduð án skráningar í fasteign kæranda að [Y]. Við frekari rannsókn sýslumanns virtist hluti fasteigninarinnar hafa verið auglýstur til útleigu undir heitinu „[Z]“ á bókunarvefnum Airbnb frá a.m.k. maí 2017 og höfðu ferðamenn þá ritað 80 umsagnir vegna seldrar gistiþjónustu. Á bókunarvefnum er [X] skráður gestgjafi.

Þann 8. október 2018 fór sýslumaður í vettvangsrannsókn að [Y] vegna gruns um að þar væri starfrækt óskráð heimagisting. Hittust þar fyrir tveir ferðamenn sem kváðust vera frá Bandaríkjunum sem sögðust hafa leigt eignina í sjö nætur í gegnum bókunarvefinn Airbnb. Aðspurðir kváðu ferðamennirnir að gestgjafinn héti [X]. Þá framvísuðu ferðamenn bókunarkvittunum þar sem m.a. komu fram upplýsingar um markaðsheiti hins leigða, „[Z]“, fjöldi seldra gistinátta og heildarverð sem ferðamennirnir greiddu fyrir gistinguna.

Með bréfi dags. 9. október 2018 tilkynnti sýslumaður kæranda að fyrirhugað væri að leggja á hann stjórnvaldssekt að upphæð 440.000 kr. vegna óskráðrar gististarfsemi. Var kæranda veittur 14 daga frestur til að koma á framfæri andmælum eða athugasemdum við fyrirhugaða ákvörðun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti dags. 19. október 2018. Í umræddum tölvupósti viðurkenndi kærandi að hafa starfrækt heimagistingu undir heitinu „[Z]“. Kærandi taldi hins vegar að umsagnir á bókunarsíðu gæfu ekki rétta mynd af umfangi starfseminnar þar sem allt að fjórar umsagnir gætu fylgt sömu gistinótt. Þá hafi kærandi sjaldnast fengið greitt, þar sem hann hafi oft þurft að endurgreiða ferðamönnum vegna kvartana. Þá kvaðst kærandi jafnframt vera hættur umræddri starfsemi.

Með tölvupósti dags. 19. október 2018 gaf sýslumaður kæranda færi á því að leggja fram gögn frá bókunarsíðu sem sýndu fram á raunverulegan fjölda útleigudaga og tekjur af umræddri starfsemi.

Frekari gögn bárust ekki.

Sýslumaður taldi sýnt að kærandi hafi stundað heimagistingu án skráningar sbr. 3. gr. og 13. gr. laga nr. 85/2007.

Með bréfi dags. 26. október 2018 lagði sýslumaður á grundvelli 22. gr. a. laga nr. 85/2007 stjórnvaldssekt á kæranda að upphæð 440.000 kr. Við ákvörðun sektarfjárhæðar leit sýslumaður fyrst og femst til umfangs starfseminnar við mat á alvarleika brots. Í því samhengi lagði sýslumaður til grundvallar að rannsókn málsins hafi leitt í ljós að kærandi hafi leigt út fasteign sína í skammtímaleigu í a.m.k. 80 skipti frá því að lög nr. 67/2016 tóku gildi þann 1. janúar 2017, skv. umsögnum gesta á bókunarsíðu. Þar að auki hafi ferðamenn framvísað bókunarkvittun á vettvangi sem sýndi fram á að fasteignin hafi verið leigð í sjö nætur til viðbótar. Samkvæmt bókunarkvittun greiddu ferðamenn tæplega 56 USD fyrir hverja nótt eða 393 USD í heildina.

Þann 13. desember 2018 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra vegna umræddrar ákvörðunar. Sama dag óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumanns ásamt gögnum máls.

Með bréfi dags 17. janúar 2019 veitti sýslumaður umsögn um umrædda ákvörðun.

Þann 11. febrúar 2019 voru kæranda send gögn máls og umsögn sýslumanns til athugasemda.

Með tölvupósti dags. 11. mars 2019, kom kærandi á framfæri frekari athugasemdum vegna málsins.

Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun.

Málið hefur hlotið umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og málið er tækt til úrskurðar.

Sjónarmið kæranda

 

Kærandi byggir kröfu sína á því að sýslumaður hafi ekki haft heimild til að leggja á hann umrædda sekt þar sem skammtímaleiga í umræddri fasteign hafi ekki farið fram úr 90 dögum á almanaksárinu, auk þess sem kærandi taldi sig ekki hafa farið fram úr 2 m.kr. tekjumarki skv. 3. gr. laga nr. 85/2007.

Í tölvupósti kæranda dags. 11. mars 2019 voru einnig gerðar athugasemdir við rannsókn sýslumanns. Kærandi vísar til þess að nafn hans komi ekki fram í bókunarkvittunum sem ferðamenn framvísuðu á vettvangi.

Kærandi bendir á að samkvæmt skjáskoti á bókunarsíðu sem finna megi í málsgögnum hafi lægsta mögulega verð fyrir selda gistinótt verið 33 USD en ekki 44 USD, líkt og haldið er fram í ákvörðun sýslumanns dags. 26. október 2018.

Kærandi bendir á að stofnun reiknings á bókunarsíðu þýði ekki að tiltekin eign hafi verið í útleigu frá sama tímamarki, enda geti gestgjafi allt eins hafa verið gestur. Af þeim sökum séu gögn málsins ekki marktæk.

Kærandi vísar til þess að einungis sé minnst á „[X]“ í tæplega 17 umsögnum af 80. Þá séu umræddar umsagnir ekki auðkenndar með nákvæmri dagsetningu heldur einungis með mánuði og ártali.

Kærandi bendir á að í vettvangsskýrslu sýslumanns komi fram að ferðamenn hafi komið út úr öðrum inngangi að [Y]. Af þeim sökum telur kærandi vafa leika á því að umræddir ferðamenn hafi verið á hans vegum.

Kærandi telur að upplýsingar hafi verið fengnar frá ferðamönnum með ólögmætum hætti.

Þá bendir kærandi á að umræddum aðgangi að Airbnb virðist hafa verið lokað áður en honum var sent bréf um fyrirhugaða sekt.

 

Sjónarmið sýslumanns

Sýslumaður vísar til þess að skv. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007, sbr. einnig 1. mgr. 38. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um sama efni, skal hver sá sem hyggst bjóða upp á heimagistingu skrá starfsemi sína á vefsíðu sýslumanna. Heimagisting er gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og eru í hans eigu. Fjöldi útleigðra daga í báðum eignum skal samanlagt ekki fara yfir 90 daga á hverju almanaksári og samanlagðar tekjur af leigu eignanna mega ekki fara fram úr 2 m.kr.

Þá geti sýslumaður skv. 22. gr. a. sömu laga lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem rekur heimagistingu án skráningar og er sýslumanni heimilt að beita stjórnvaldssektum óháð því hvort lögbrot hafi verið framin af ásetningi eða gáleysi, sbr. 5. mgr. 22. gr. a. þágildandi laga. Geta stjórnvaldssektir numið frá 10 þús kr. til 1 m.kr. fyrir hvert brot. Við ákvörðun sekta skal sýslumaður líta til alvarleika brots.

Því telur sýslumaður að það hafi ekki sérstaka þýðingu í málinu að kærandi hafi ekki leigt íbúð sína umfram 90 daga á almanaksárinu 2018 eða farið fram úr tekjuviðmiðinu um 2 m.kr. Kæranda hafi eftir sem áður borið að skrá starfsemina í samræmi við 13. gr. laga nr. 85/2007.

Forsendur og niðurstaða

 

Stjórnsýslukæran sem hér er til meðferðar barst ráðuneytinu innan kærufrests, gagnaöflun er lokið og málið telst nægjanlega upplýst og er því tekið til úrskurðar.

Eins og að framan greinir krefst kærandi þess að ákvörðun sýslumanns um að leggja á hann stjórnvaldssekt að upphæð 440.000 kr. verði felld úr gildi.

Þann 1. janúar 2017 tóku gildi lög nr. 67/2016, um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Umræddar breytingar fólu m.a. í sér að tekin var upp skráningarskylda í stað rekstrarleyfisskyldu vegna heimagistingar. Markmið lagabreytinganna var einföldun regluverks í því skyni að auðvelda einstaklingum að stunda skammtímaleigu. Breytingum var einnig ætlað að að mæta nýjum áskorunum sem fylgdu aukinni fjölgun erlendra ferðamanna. Í aðdraganda lagasetningarinnar var skortur á virku eftirliti ásamt fjölda óskráðra og leyfislausra gististaða talin ein stærsta áskorun íslenskrar gistiþjónustu.

Samhliða einföldun regluverks voru lögfestar stjórnvaldssektir vegna brota á lögunum. Var það m.a. gert í því skyni að að stemma stigu við miklum fjölda óskráðra og leyfislausra gististaða hér á landi, sem og að tryggja aukna fylgni við ákvæði laganna. Í 1. mgr. 22. gr. a. núgildandi laga nr. 85/2007 segir að sýslumaður geti lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem rekur heimagistingu án skráningar skv. 13. gr. laganna. Þá segir í 4. mgr. 13. gr. sömu laga að stjórnvaldssektir geti numið frá 10 þús. kr. til 1 m.kr. fyrir hvert brot.

Í málinu liggur fyrir að ferðamenn hittust fyrir í íbúð kæranda þann 8. október 2018. Á vettvangi framvísuðu ferðamenn bókunarkvittunum sem tengjast bókunarsíðu kæranda sem auglýst var undir markaðsheitinu „(Z)

“. Á umræddri bókunarsíðu höfðu þá verið ritaðar 80 umsagnir ferðamanna vegna kaupa á gistiþjónustu.

Með vísan til alls framangreinds og fyrirliggjandi gagna telur ráðuneytið hafið yfir vafa að kærandi hafi stundað heimagistingu á almanaksárunum 2017 og 2018. Í því samhengi telur ráðuneytið að kærandi hafi gerst brotlegur við 13. gr. laga nr. 85/2007 með því að vanrækja að skrá starfsemi sína.

Við ákvörðun stjórnvaldssektar hefur sýslumaður litið til umfangs brots við mat á alvarleika þess sbr. 4. mgr. 22. gr. a. laga nr. 85/2007. Við mat á umfangi starfseminnar hefur sýslumaður lagt til grundvallar 80 umsagnir á bókunarsíðu kæranda auk sjö seldra gistinátta skv. bókunarkvittun sem ferðamenn framvísuðu á vettvangi.

Ráðuneytið telur ekki tilefni til að hrófla við mati sýslumanns á fjölda seldra gistinótta. Í því samhengi verði einnig að líta til þess að kæranda var veitt færi á að leggja fram gögn frá bókunarsíðu, en engin slík gögn hafi verið lögð fram.

Þá hefur sýslumaður lagt til grundvallar að lægsta verð fyrir selda gistiþjónustu hafi verið 44 USD (u.þ.b. 5.050 kr.), sem er lægri upphæð en fram kemur í bókunarkvittun sem ferðamenn framvísuðu á vettvangi.

Kærandi hefur hins vegar bent á að samkvæmt skjáskoti af bókunarsíðu sem finna megi í gögnum máls, hafi lægsta mögulega verð fyrir selda gistinótt verið 33 USD (u.þ.b. 4.040 kr.).

Eins og málum er háttað telur ráðuneytið að skýra verði þennan vafa kæranda í vil.

Við mat á alvarleika brots telur ráðuneytið einnig rétt að líta til þess og meta það kæranda til hagsbóta að kærandi leigði einungis út stakt herbergi í fasteign sinni og hefur þar skráð lögheimili, án þess að sýslumaður hafi litið til þess við ákvörðun sektar.

Þá vekur ráðuneytið athygli á því að hin óskráða gististarfsemi var starfrækt fyrir 6. júlí 2019, áður en lög nr. 83/2019 um breytingu á lögum nr. 85/2007 tóku gildi. Með breytingalögum nr. 83/2019 var tekinn af allur vafi um að hver seld gistinótt umfram það sem heimilt er samkvæmt lögunum teldist sjálfstætt brot. Það er því mat ráðuneytisins að líta beri á heildstætt á starfsemi kæranda sem sjálfstætt brot í skilningi 1. mgr. 22. gr. a. þágildandi laga nr. 85/2007.

Að öllu framangreindu virtu, umfangi brots og alvarleika telur ráðuneytið að stjórnsýslusekt sé hæfilega ákvörðuð 250.000 kr.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð þennan og beðist er velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð

Stjórnvaldssekt sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði á kæranda þann 26. október 2018 er lækkuð. Stjórnvaldssekt er hæfilega ákvörðuð 250.000 kr.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira