Hoppa yfir valmynd

Nr. 263/2022 Úrskurður

                                                                                                                                                                                KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. júlí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 263/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22050033

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 18. maí 2022 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. apríl 2022, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í sjö ár.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið með skráð lögheimili hér á landi frá 4. október 2019. Á þeim tíma hefur kærandi ekki greitt staðgreiðslu af tekjum að undanskildum febrúarmánuði árið 2020. Kærandi hefur hlotið þrjá dóma hér á landi þ.e. dóm Héraðsdóms Vesturlands, dags. [...], og dóma Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. dagana [...] og [...]. Var það niðurstaða umræddra dóma að kærandi hefur gerst sekur um ýmiss konar brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940, laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og umferðarlaga nr. 77/2019. Brot hans hafa m.a. falist í því að aka undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna auk þess sem kærandi hefur gerst sekur um þjófnað í nokkur skipti. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var kærandi dæmdur í 75 daga fangelsi sem var skilorðsbundið til tveggja ára og sviptur ökuréttindum í 18 mánuði.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að stofnuninni hafi borist beiðni lögreglu, dags. 17. janúar 2022, um hvort heimilt væri að brottvísa kæranda frá Íslandi og ákvarða honum endurkomubann. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafi kærandi verið skráður sem sakborningur í 34 málum hjá lögreglu sem fólu í sér 52 brot gegn almennum hegningarlögum eða umferðarlögum. Með bréfi Útlendingastofnunar, sem birt var fyrir kæranda 3. mars 2022, var kæranda tilkynnt að til skoðunar væri hjá stofnuninni að brottvísa honum og ákvarða endurkomubann vegna framangreindra afbrota og ítrekaðra afskipta lögreglunnar af kæranda. Með vísan til 12. gr. laga um útlendinga og stjórnsýslulaga var kæranda veittur sjö daga frestur til þess að leggja fram skriflega greinargerð vegna hugsanlegrar brottvísunar og endurkomubanns. Með tölvubréfi til Útlendingastofnunar, dags. 4. mars 2022, greindi kærandi frá því að hann vildi dvelja áfram á Íslandi þar sem hann ætti konu og barn hér á landi. Með tölvubréfi til kæranda, dags. 28. mars 2022, óskaði Útlendingastofnun eftir því að fá kennitölur konu og barns kæranda. Kærandi hafi ekki svarað umræddri upplýsingabeiðni Útlendingastofnunar.

Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi með brotum sínum ógnað lífi og heilsu annarra borgara. Með vísan til þeirra hættueiginleika sem stafi af dvöl kæranda á Íslandi þá ógni kærandi allsherjarreglu hér á landi sem myndi raunverulega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Þá var það mat Útlendingastofnunar að kærandi muni halda áfram að brjóta af sér hér á landi verði honum ekki brottvísað og ákvarðað endurkomubann. Vegna þessa var það niðurstaða Útlendingastofnunar að skilyrði 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga fyrir brottvísun væru uppfyllt í máli kæranda. Enn fremur taldi Útlendingastofnun brottvísun ekki vera ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda sem kæmi í veg fyrir brottvísun, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga. Vísaði Útlendingastofnun m.a. til þess að kærandi hefði ekki tengingu við íslenskt atvinnulíf auk þess sem engar upplýsingar lægju fyrir um tengsl kæranda við konu sína og barn. Fjölskylda kæranda gæti fylgt honum aftur til heimaríkis eða viðhaldið samskiptum við kæranda með fjarskiptabúnaði.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni vísar kærandi til þess að hann hafi átt erfitt með að fóta sig hér á landi þar sem hann tali hvorki íslensku né ensku auk þess sem hann eigi við minniháttar áfengis- og fíkniefnavandamál að stríða sem hafi afvegaleitt hann hér á landi. Kærandi hafi þó látið af umræddri háttsemi og sé kominn með fasta vinnu, enda þurfi hann að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Að mati kæranda hafi aðstæður hans því breyst frá því að lögregla hafi óskað eftir því að Útlendingastofnun myndi athuga hvort skilyrði brottvísunar væru uppfyllt í máli hans.

Kærandi byggir á því að sem launþegi hér á landi þá hafi hann og fjölskylda hans rétt til dvalar lengur en þrjá mánuði hér á landi, sbr. a-lið 1. mgr. 84. gr. laga um útlendinga, og njóti þau því aukinnar verndar samkvæmt 97. gr. laga um útlendinga, gagnvart 95. gr. sömu laga. Þá telji kærandi að skilyrði 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga séu ekki uppfyllt í máli hans. Við mat á ákvörðun Útlendingastofnunar verði að taka tillit til allra aðstæðna kæranda en ekki eingöngu ummæla lögreglu eða sakaskrár. Slíkt sé aðeins lýsandi fyrir fyrri hegðun kæranda en ekki núverandi hegðun. Þá hafi brot kæranda verið lítilsháttar og ekki falið í sér brot gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði. Ekki sé heimilt að líta til ætlaðra brota sem sitja á skrá lögreglu en ekki um fullrannsökuð mál að ræða.

Þá byggir kærandi á því að aðstæður hans falli undir 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi búið hér á landi í tæplega þrjú ár og búi nú með sambýliskonu sinni og barni sem fæddist hér á landi [...]. Brottvísun kæranda myndi hafa neikvæð áhrif á fjölskyldu hans en hann sé fyrirvinna fjölskyldunnar. Enn fremur búi stór hluti fjölskyldu þeirra hér á landi og sé þeirra stoðnet því hérlendis. Ákvörðun um brottvísun væri íþyngjandi ákvörðun sem fæli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda og hans fjölskyldu. Jafnframt fæli brottvísun í sér brot gegn 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Að lokum vísar kærandi til þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun feli í sér brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaganna, sbr. 11. gr. þeirra, þar sem Útlendingastofnun hafi hætt við brottvísun í sambærilegu máli sem kærandi vísar til. Í tilvísuðu máli hafi einstaklingur eignast barn hér á landi með maka sínum og hlotið dóma hér á landi sem að mati kæranda væru alvarlegri heldur en þeir dómar sem hann hafi hlotið hér á landi.

Að framangreindu virtu beri að ógilda hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, þar sem ekki liggi fyrir gild lagarök eða aðrar forsendur fyrir brottvísun og ákvörðun um endurkomubann.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Í 95. gr. laga um útlendinga er fjallað um brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis. Í 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga segir að brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. sé heimil ef framferði viðkomandi feli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Ákvörðun um brottvísun skuli ekki eingöngu byggjast á almennum forvarnaforsendum. Ef viðkomandi hafi verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar sé brottvísun af þessari ástæðu því aðeins heimil að um sé að ræða háttsemi sem geti gefið til kynna að viðkomandi muni fremja refsivert brot á ný. Fyrri refsilagabrot nægi ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt.

Með dómi Héraðsdóms Vesturlands frá [...] var kærandi dæmdur til greiðslu fésektar að upphæð 200.000 kr. vegna brots gegn 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] var kærandi dæmdur til 75 daga fangelsisvistar sem var skilorðsbundin til tveggja ára og sviptur ökuréttindum í 18 mánuði fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga og ákvæðum umferðarlaga og laga um ávana- og fíkniefni. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] var kærandi dæmdur til greiðslu fésektar að upphæð […]. auk þess sem hann var sviptur ökuréttindum í 5 ár frá 10. október 2022. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu þá hefur kærandi verið skráður sem sakborningur í 34 málum sem fólu í sér 54 brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Þegar lögregla sendi Útlendingastofnun beiðni um að rannsaka hvort skilyrði fyrir brottvísun og ákvörðun endurkomubanns væru uppfyllt í máli kæranda þá voru ólokin mál kæranda hjá lögreglu 15 talsins þar sem hann var m.a. grunaður um peningaþvætti, sölu og dreifingu fíkniefna, ítrekaðan akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, ölvunarakstur, akstur án tilskilinna ökuréttinda og líkamsárás.

Við mat á því hvort framferði kæranda sé með þeim hætti að skilyrðum 1. mgr. 95. gr. laga um útlendinga sé fullnægt horfir kærunefnd til endurtekinna og alvarlegra brota gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Þá lítur kærunefnd til endurtekinna og alvarlegra brota kæranda gegn umferðarlögum með akstri undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Þrátt fyrir að tjón hafi ekki hlotist af síðastnefndum brotum kæranda hlýst af háttseminni mikil hætta gegn lífi og heilsu fólks í umferðinni. Jafnframt lítur kærunefnd til þess að kærandi er með ólokin mál í refsvörslukerfinu sem veitir vísbendingar um að hann hafi ekki látið af háttsemi sinni auk þess sem þau mál sem eru til rannsóknar benda að mati kærunefndar til þess að kærandi hafi gerst sekur um alvarleg brot, s.s. líkamsárás. Samkvæmt sakaskrá kæranda braut hann gegn ákvæðum umferðarlaga eftir að hafa hlotið skilorðsbundinn 75 daga fangelsisdóm og verið sviptur ökuréttindum […]. Að mati kærunefndar getur framangreind háttsemi gefið til kynna að kærandi muni fremja refsivert brot á ný, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga. Þá lítur kærunefnd jafnframt til þess að afbrot kæranda hófust skömmu eftir að hann fluttist til landsins og virðist kærandi hafa haldið áfram að brjóta af sér með reglulegum hætti frá þeim tíma.

Með vísan til tíðni afbrota kæranda og alvarleika þeirra er það mat kærunefndar að skilyrðum fyrir brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga um útlendinga sé fullnægt. Þegar litið er til eðlis brota kæranda, sem varða innbrot, þjófnað og akstur undir áhrifum áfengis- og fíkniefna, er það mat kærunefndar að framferði kæranda feli í sér raunverulega og yfirvofandi ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins í skilningi 2. mgr. 95. gr. sömu laga. Er það einnig mat kærunefndar, með vísan til langs brotaferils kæranda, að frásögn hans af því að hafa snúið við blaðinu breyti ekki því mati. Auk þess er þessi málsástæða kæranda á skjön við gögn málsins sem bera þvert á móti með sér að kærandi hafi ekki látið af afbrotum sínum.

Í 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga koma jafnframt fram takmarkanir á heimild til brottvísunar samkvæmt 95. gr. laganna. Í ákvæðinu segir að brottvísun skuli ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu aðstandendum hans. Við matið skuli m.a. taka mið af lengd dvalar á landinu, aldri, heilsufari, félagslegri og menningarlegri aðlögun, fjölskyldu og fjárhagsaðstæðum og tengslum viðkomandi við heimaland sitt, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga.

Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda eða nánustu aðstandendum hans verður jafnframt að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við  það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans. Þau sjónarmið sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lagt til grundvallar í málum af þessum toga eru til að mynda eðli þess brots sem viðkomandi hefur gerst sekur um, lengd dvalar viðkomandi í því ríki sem tekur ákvörðun um brottvísun og félags-, menningar- og fjölskyldutengsl viðkomandi við dvalarríki og heimaríki, sbr. t.d. mál Üner gegn Hollandi (nr. 46410/99) og Balogun gegn Bretlandi (nr. 60286/09) frá 4. október 2013. Þá ber að hafa í huga að kærandi, sem ríkisborgar Rúmeníu, nýtur aukins réttar til dvalar á EES-svæðinu en þriðja ríkis borgarar.

Með dómi Landsréttar frá 29. maí 2020 í máli nr. 632/2019 voru ákvarðanir stjórnvalda um brottvísun útlendings og endurkomubann hans til landsins felldar úr gildi. Var það m.a. niðurstaða dómsins að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hefðu byggt ákvarðanir sínar á röngum upplýsingum um tengsl aðilans við börn sín, en sérstaklega brýnt hefði verið að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir um tengsl við börnin áður en hin íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun hefði verið tekin. Þá vísaði dómurinn til þess að af 10. gr. stjórnsýslulaga leiði að þegar niðurstaða stjórnvalds velti á mati á atriði sem krefst sérþekkingar beri stjórnvaldi að kalla eftir sérfræðilegri aðstoð, hafi það sjálft ekki yfir að ráða nauðsynlegri þekkingu á viðkomandi sviði.

Kærandi hefur eins og áður greinir verið með skráð lögheimili hér á landi frá 4. október 2019. Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann ætti konu og barn hér á landi. Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd lagði kærandi fram fæðingarvottorð barns síns, dags. 11. maí 2022, þar sem fram kemur að hann sé skráður faðir þess. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að ekkert liggi fyrir um tengsl umræddrar fjölskyldu kæranda við Ísland auk þess sem það hafi verið mat stofnunarinnar að þau geti flutt með kæranda til heimaríkis hans eða viðhaldið samskiptum við hann með fjarskiptabúnaði. Að öðru leyti liggja ekki fyrir frekari upplýsingar um tengsl kæranda við fjölskyldu sína eða tengsl þeirra við landið. Að mati kærunefndar veitir ákvörðun Útlendingastofnunar litlar sem engar upplýsingar um tengsl kæranda við barn sitt og um almenna hagi barnsins hér á landi. Telja verður þetta annmarka á rannsókn málsins.

Með vísan til forsendna áðurgreinds Landsréttardóms og því sem að framan greinir er það mat nefndarinnar að frekari gagnaöflun sé nauðsynleg, svo sem hvað varðar upplýsingar um tengsl kæranda við barn sitt og barnsmóður, hagi þeirra og stöðu hér á landi og fyrirliggjandi upplýsingar frá öðrum stjórnvöldum, svo unnt sé að leggja fullnægjandi mat á hvort brottvísun kæranda teljist ósanngjörn ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum í skilningi 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga.

Markmið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga er að tryggja að ákvarðanir stjórnvalda verði bæði löglegar og réttar. Kærunefnd telur að með framangreindum annmörkum á málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og er því óhjákvæmilegt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

V.         Samantekt og leiðbeiningar

Með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira